Kallinn reddar

  Í samfélagi mannanna má jafnan finna kallinn sem græjar hlutina; lagar það sem úrskeiðis fer.  Hann er engin pjattrófa.  Hann grípur til þess sem hendi er næst og virkar.   Það eitt skiptir máli.  Útlitið er algjört aukaatriði.  Sama hvort um er að ræða stól,  handstýrða rúðuþurrku,  flöskuopnara,  farangursskott með læsingu,  klósettrúllustatíf eða hurð í risinu.  Það leikur allt í höndunum á honum.

kallinn sem reddar stæði fyrir stólinnkallinn reddar handstýrði rúðuþurrkukallinn reddar upptakarakallinn reddar farangursskotti með læsingukallinn kom klósettrúllunni snyrtilega fyrirkallinn græjar hurðina í risinu


Illvíg ófærð

  Í vikunni bar til tíðinda að í Færeyjum spólaði bíll í snjó.  Hann var fastur.  Undir stýri var ung kona á leið frá Vestmanna til höfuðborgarinnar,  Þórshafnar.  Henni var komið til hjálpar og fylgt til Þórshafnar.  Engan sakaði. 

  https://www.in.fo/news-detail/kvinna-koyrdi-seg-fasta-oman-fyri-kvivik

 


Bónusgreiðslur og Bónuskort

  Í kjölfar bankahrunsins 2008 uppgötvaðist að bankarnir gengu á bónuskerfi.  Starfsmenn smöluðu gömlu fólki eins og rollum í réttir.  Smöluðu því af öruggum bankabókum yfir í Sjóð 9 og hvað þeir hétu allir þessir sjóðir.

  Bónuskerfið virkaði svo vel að Samkeppniseftirlitið og Skatturinn hafa tekið það upp.  Fleiri mætti virkja með bónuskerfi.  Til að mynda bílastæðisverði.  Það yrði handagangur í öskjunni ef vörðurinn fengi 1000 kall og Bónuskort fyrir hvern bíl sem hann sektar.  Hann myndi sleppa matar- og kaffihléi til að ná bónusnum upp.

  Hvað með lögguna?  Hvað ef hún fengi 10.000 kall og Bónuskort fyrir hverja handtöku?  Ekki má gleyma dómurum.  Þeir mættu fá vænan bónus og Bónuskort fyrir hver óskilorðsbundinn dóm.

kort

 

   


Hvar er mesta atvinnuþátttaka og minnsta?

  Mikil atvinnuþátttaka bendir til velsældar.  Að sama skapi er dræm atvinnuþátttaka vísbending um vesaldóm.  Á meðfylgjandi skjali má sjá yfirgripsmikla samantekt á þessu.  Ef smellt er á skjalið þá stækkar það til muna og verður læsilegra.

  Listinn spannar aldursbilið 15 - 74ra ára.  Hvar sem borið er niður skara Færeyingar framúr.  Sama hvort einstakir aldurshópar eru skoðaðir eða aðrir tilteknir hópar.  Til að mynda atvinnuþátttaka kvenna.  Allt flottast í Færeyjum! 

vinnuþáttaka

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gleðilegan Þorra!

 


Vandræði við að rata

  Ég átti leið í Costco.  Flest þar er á svipuðu verði og í Bónus.  Fólk getur þess vegna sparað sér 5000 króna félagsgjald í Costco.  Þó má komast í ódýrara bensín og smakk á ýmsum matvælum.

  Samferða mér inn í Costco var ungur maður og öldruð kona.  Maðurinn gekk greitt.  Konan dróst afturúr.  Hún kallaði á eftir honum hvellri röddu:  "Erum við núna í Keflavík?"

  Maðurinn umlaði eitthvað sem ég náði ekki.  Rifjaðist þá upp fyrir mér þegar mæðgur á Akureyri þurftu að bregða sér til Reykjavíkur.  Þær rötuðu ekkert í höfuðborginni.  Þetta var fyrir daga tölvunnar.  Þær ákváðu að keyra vel inn í Reykjavík áður en spurt yrði til vegar.  Allt gekk vel.  Svo komu þær að sjoppu og spurðu afgreiðsludömuna:  "Hvert er best að fara í átt að Krummahólum?"

  Daman snéri sér að annarri afgreiðsludömu og spurði:  "Eru Krummahólar ekki einhversstaðar í Reykjavík?"

  Áður en hún náðu að svara spurðu mæðgurnar:  "Erum við ekki í Reykjavík?"

  - Nei,  svaraði daman.  Við erum í Hafnarfirði!

krummaholar


Áfall!

  Ég verð seint sakaður um að horfa of mikið og of lengi á sjónvarp.  Síst af öllu að horfa á línulaga dagskrá.  Þess í stað fletti ég upp á dagskrá Rúv á heimasíðu þess og hlera hvort þar hafi verið sýnt eitthvað áhugavert.  Ég er ekki með neina keypta áskrift.  

    Í gær fletti ég upp á endursýndri spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur.  Það er fróðlegt og skemmtilegt sjónvarp.  Í kjölfarið birtist óvænt Hemmi Gunn á skjánum.  Mér var illa brugðið.  Gleðipinninn féll frá fyrir 11 árum.  Þetta var áfall.  Mér skilst að Sjónvarpið hafi hvorki varað ættingja hans né vini við.  Þetta var svakalegt.

  Við nánari könnun kom í ljós að um var að ræða endursýningu á gömlum skemmtiþætti,  Á tali hjá Hemma Gunn. Sem betur fer var tali sjónvarpsstjörnunnar ekki breytt með gervigreind.  Það var lán í óláni.

  Ég vara viðkvæma við að "skrolla" lengra niður þessa bloggsíðu.  Fyrir neðan eru nefnilega myndir af Hemma.

Hemmi_Gunnhemmi_gunn..


Óvænt og ferskt stílbragð Rúv

  Löng hefð er fyrir því að viðurkenningarskjöl,  meistarabréf og fleira af því tagi séu virðuleg og vegleg.  Einkum er nafn handhafa plaggsins sem glæsilegast.  Oft skrautskrifað.  Tilefnið kallar á að reisn sé yfir verkinu.  Enda algengt að það sé innrammað og prýði veggi.  

  Í fésbókarhóp sem kallast Blekbyttur vekur Árni Sigurðsson athygli á nýstárlegri framsetningu Rúv á viðurkenningarskjali.  Þar eru fréttamenn ársins heiðraðir.  Skjalið sem staðfestir titilinn lætur lítið yfir sér - ef frá er talið nafn handhafans.  Það stingur í stúf við tilefnið;  er krotað með hrafnasparki líkt og eftir smábarn að krota með kúlupenna.

  Með uppátækinu fer Rúv inn á nýjar brautir.  Út af fyrir sig er metnaður í því.  Einhver kallaði þennan nýja stíl "pönk".  Munurinn er þó sá að pönk er "kúl".

viðurkenningarskjal

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Lán í óláni

  Kunningi minn er á áttræðisaldri.  Hann á orðið erfitt með gang.  Þess vegna fer hann sjaldan úr húsi.  Nema ef frá er talið rölt í matvörubúð.  Hann býr við hliðina.  Tilvera hans er fábrotin.  Sjón hefur dofnað.  Hann les ekki lengur.  Bækur voru honum áður besti félagsskapur.

  Fyrr í þessum mánuði ákvað hann að rjúfa einangrun sína.  Hann fékk sér sjónvarp og sjónvarpspakka,  internet,  ráder,  myndlykil,  prentara,  snjallsíma og allskonar.  Hann kunni ekkert á þetta.  Hann fékk ungan mann til að tengja allt og kenna sér á helstu aðgerðir.  

  Ekki gekk þjónustumaðurinn vel um.  Hann skildi eftir á gólfinu hrúgu af snúrum af ýmsu tagi.  Á dögunum vaknaði gamlinginn utan við sig.  Hann flæktist í snúrunum;  sveif á hausinn og rotaðist.  Það síðasta sem hann man var að horfa á eftir stóra flatskjánum skella á næsta vegg.

  Margar snúrur höfðu aftengst.  Með aðstoð 8007000 tókst honum að tengja þær upp á nýtt.  Honum til undrunar stóð flatskjárinn af sér höggið.  Hann virkar.  Ekki nóg með það;  myndin á skjánum er ennþá skýrri og litir skarpari en áður.  Jafnframt örlar núna á þrívídd.

  Allra best þykir honum að sjónvarpsdagskráin á skjánum er betri en fyrir óhappið.

innmúrað sjónvarp 

    

 

 

 


Jólatiktúrur afa - 3ji hluti

  Afi keypti ekki jólakort fyrr en á milli jóla og nýárs.  Þá fékk hann þau á góðum afslætti í Kaupfélaginu á Sauðárkróki.  Hann hældi sér af því hvað hann náði að kýla verðið niður.  Jafnframt sagði hann:  "Ég ætla ekki að spandera jólakorti á einhvern sem sendir mér ekki kort.  Það kemur ekki til greina!"  

  Eftir borðhald á heimilinu,  uppvask og frágang voru pakkar opnaðir.  Um það leyti fékk afi alltaf spennufall - eftir margra daga stanslausa tilhlökkun.  Hann hnussaði og hneykslaðist yfir öllum gjöfum.  Það var skemmtiefni fyrir okkur hin að fylgjast með fussinu í afa:  "Hvaða endemis rugl er þetta?  Hvað á ég að gera með bók?  Ég hélt að allir vissu að ég væri löngu hættur að lesa.  Ég á ekki einu sinni bókahillu.  Ég hef ekkert geymslupláss fyrir bækur!"  

  Ein jólin fékk afi pakka með sokkum og nærbuxum.  Hann ætlaði að springa úr vanþóknun:  "Hvaða fíflagangur er þetta?  Hvað á ég að gera við stuttar nærbuxur?  Ég hef aldrei á ævi minni farið í stuttar buxur.  Þetta eru unglingabuxur.  Þvílíkt og annað eins.  Er fólk að tapa sér?"

  Við gátum ekki varist hlátri er afi dró upp úr næsta pakka forláta síðar nærbuxur.  "Þú hefur verið bænheyrður," skríkti mamma í stríðni.  Afi hafði ekki húmor fyrir þessu:  "Hverjum dettur í hug að ég fari að ganga í útlendum bómullarbuxum?  Ég hef aldrei klæðst nema íslenskum prjónanærbuxum.  Ég breyti því ekki á grafarbakkanum.  Hvað eiga svona heimskupör að þýða?"  

  Ég man ekki hvort það var úr næsta eða þar næsta pakka sem afi fékk dýrindis prjónanærbuxur.  Mamma hrópaði:  "Þetta er þitt kvöld.  Þú ert stöðugt bænheyrður."

  Afi varð vandræðalegur.  Hann skoðaði buxurnar í bak og fyrir;  stóð upp og mátaði við sig stærðina og annað.  Allt virtist eins og best var á kosið.  Pabbi grínaðist með þetta:  "Þetta eru söguleg tíðindi.  Það er ekkert að buxunum."

  Afi hafði ekki sagt sitt síðasta:  "Hverjum dettur í hug að hafa svona frágang á buxnaklaufinni?  Hún er hneppt eins og skyrta.  Ég hélt að allir vissu að á prjónanærbuxum á að vera áfast stykki sem er hneppt þvert yfir til hægri.  Á þessum buxum er eins og hálfviti hafi verið að verki.  Þvílíkt klúður!  Það er eins gott að fólk sjái mig ekki í þessari hörmung.  Ég yrði að athægi!"


Jólatiktúrar afa - Annar hluti

  Aðferðir afa við að bjarga ótímabærum jólagjöfum báru ekki alltaf besta kost.  Eitt sinn fékk hann ílangan jólapakka.  Hann bankaði í kassann,  hristi og kreisti.  Hann taldi sig heyra undarleg hljóð úr pakkanum.  Því fastar sem hann bankaði í kassann þeim mun undarlegri voru hljóðin.  Á aðfangadag var afi að springa úr forvitni.  Er hann opnaði pakkann komu í ljós þrjár stórar og glæsilegar jólakúlur.  Þær voru mölbrotnar eftir barsmíðar afa. Afi kenndi Póstinum um.  

  Er ég var 10 - 11 ára fól afi mér það hlutverk að lesa upp úr jólakortum hans.  Sjón hans var ekki nógu góð.  Ég snéri út úr textanum.  Það var sama hvað ég "las" undarlegan texta;  afi trúði öllu.     

  Af einu korti þóttist ég lesa:  "Við óskum þér með hálfum huga farsæls komandi árs."

  Afa var hvergi brugðið.  Hann útskýrði:  "Þarna er Fríðu rétt lýst.  Hún er svo mislynd.  Skelfilega mislynd."

  Úr öðru korti las ég":  "Farsælt komandi ár en þökkum ekki fyrir liðið."  Afi útskýrði:  "Þetta er Jón sonur þeirra sem skrifar þetta.  Honum er strítt í skólanum.  Þess vegna lætur hann svona."  


Jólatiktúrur afa - Fyrsti hluti

  Afi var jólabarn.  Hann hlakkaði alltaf barnslega mikið til jólanna.  Var gífurlega spenntur.  Er jólapakkar tóku að berast í hús átti hann erfitt með að hemja sig.  Hann bar sína pakka inn til sín.  Þar þuklaði hann á þeim fram og til baka.  Aldrei leið á löngu uns við krakkarnir urðum varir við að afi hafði gægst í þá.  Reyndi hann þó að leyna því.  

  Þegar við sökuðum hann um þetta varð hann vandræðalegur og bar fyrir sig langsóttar ástæður.  Er hann gægðist í ferkantaða pakka sagðist hann hafa orðið að ganga úr skugga um að ekki væri um konfekt að ræða.  

  "Maður geymir ekki konfekt hvar sem er," útskýrði afi.  "Það gæti bráðnað ef pakkarnir eru nálægt ofninum." 

  Um rifu á mjúkum pökkum var afsökunin:  "Ég var að færa hann úr stað.  Tók í ógáti of fast á honum.  Bréfið brast.  Þegar ég skoðaði rifuna betur þá rifnaði hún meir.  Jólapappír er orðinn svo aumur nú til dags að það er hneisa!"

  Einstaka sinnum fékk afi konfekt í jólagjöf.  Hann hafði það út af fyrir sig.  Ég spurði af hverju hann biði ekki með sér.  Svarið var:  "Foreldrar þínir fengu líka konfekt í jólagjöf.  Við þurfum þess vegna ekkert að togast á um þessa fáu mola.  En ég skal gefa þér brjóstsykurmola."  Sem hann gerði.  


Örstutt glæpasaga um skelfilegt morð

  Rúnar er fyrir hæstarétti.  Í héraði var hann dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir að myrða Margréti,  meðleigjanda sinn.  Hann hefur fúslega játað að hafa þrifið upp blóð úr konunni.  Hinsvegar veit hann ekki hvers vegna blóð hennar var út um allt eldhúsgólfið.  Hann tilkynnti ekki hvarf hennar.  Líkið hefur aldrei fundist.  Móðir hennar tilkynnti hvarfið eftir að hafa án árangurs reynt að ná á henni vikum saman.

  Rúnar hefur ekki leynt því að þeim Margréti sinnaðist oft.  Stundum kom til handalögmála.  Einkum þegar vín var haft við hönd.  Vitni segja að hann hafi verið ástfanginn af henni.  Ástin var ekki endurgoldin.  Þvert á móti hafi konan hræðst skapofsaköst hans og hamslausa áfengisneyslu.     

  Rúnar man ekkert eftir kvöldinu sem Margrét hvarf.  Hann hafði verið á fylleríi í nokkra daga.  Allt í "blakkáti".  Rámaði samt í að hafa þrifið upp blóð.  Einnig hníf í sinni eigu.  Mjög óljóst kannaðist hans við hugsanleg áflog. 

  Öllum að óvörum mætir Margrét í hæstarétt.  Hún óskar eftir að fá að ávarpa réttinn.  Hún segist hafa reynt sjálfsvíg kvöldið sem hún hvarf.  Skar sig á púls.  Ástæðan var ósætti við nýjan kærasta.  Á síðustu stundu hætti hún við allt.  Batt fyrir púlsana og tók rútuna norður til gamallar skólasystur sinnar.  Þar hefur hún verið síðan.  Hún fylgdist með fréttum af morðmálinu.  Henni þótti gott að vita af Rúnari engjast fyrir dómstólum.  En hún getur ekki horft upp á hann sakfelldan fyrir hæstarétti. 

  Réttarhaldið er í uppnámi.  Dómarar eru reiðir.  En hún er ekki ákærð í málinu.  Bara Rúnar.  Fangelsisvist hans er lækkuð niður í fjögur ár.  Honum til refsiþyngingar er að hann var ósamvinnuþýður við rannsókn málsins.  Þverskallaðist við að vísa á líkið.  Var óstöðugur í yfirheyrslum og reyndi að fela sönnunargögn.  Meðal annars með því að þrífa blóð af hnífi og gólfi.  Yfirlýsing Margrétar um að hann sé saklaus af meintu morði á henni er metið honum til refsilækkunar. 

  Einn dómari skilar séráliti.  Hann telur sanngjarnt að stytta dóminn niður í tvö ár.  Ástæðan sé sú að dagblað birti á baksíðu ljósmynd af Rúnari.  Myndbirtingin hljóti að hafa valdið honum skelfingu og hugarangri.  Með því hafi hann tekið út refsingu sem jafngildi einu ári í fangelsi.   

fangi    


Frábær bók

 - Titill:  Born to Run - Sjálfsævisaga

 - Höfundur:  Bruce Springsteen

 - Þýðandi:  Magnús Þór Hafsteinsson

 - Útgefandi:  Ugla

 - Einkunn:  *****

  Bandaríski tónlistarmaðurinn Bruce Springsteen er einn af þeim stærstu í rokksögunni.  Hann hefur selt 150 milljónir platna;  margsinnis toppað vinsældalista um allan heim;  hlotið fjölda verðlauna.  Þar af 20 Grammy.  Um hann hafa verið skrifaðir tugir bóka.  Þessi sem hér um ræðir hefur þá sérstöðu að vera sjálfsævisaga hans.

  Bruce ólst upp við fátækt og basl í New Jersey.  Til að mynda var ekki heitt vatn á æskuheimili hans.  Pabbinn var alki sem hélst illa í vinnu.   

  Bruce er maður orðsins.  Söngtextar hans eru með þeim bestu í dægurlagaheimi.  Hann er pennafær.  Skrifar beinskeyttan auðlæsan texta og stutt í ljóðrænan blæ.  Yrkisefnið er jafnan örlög alþýðufólks.  Þar á meðal jafnaldrana sem hann ólst upp með.  

  Alþýðurokkarinn reynir hvergi að fegra sig.  Hann er hreinn og beinn.  Kann best við sig í gallabuxum og vinnuskyrtu.  En á það líka til að klæðast fínum fötum og aka um á dýrum bílum.  Hann hefur átt sína táradali jafnt sem hamingjustundir.  Vegna þess hvað hann geislar af gleði á hljómleikum vakti undrun er hann fór að tjá sig um þunglyndi fyrir nokkrum árum.  Þeim hremmingum gerir hann góð skil.   

  Lesandinn þarf ekki að þekkja tónlist Brúsa til að njóta bókarinnar.  Fyrir aðdáendur er hún gullnáma,   hnausþykk,  670 þéttskrifaðar blaðsíður með litlu letri.  Það tók mig nokkra daga að lesa hana.  Þeim var vel varið.  Jólagjöfin í ár!

  Þýðing Magnúsar Þórs Hafsteinssonar er vönduð og góð.

bruce


Klámmynd Önnu frænku á Hesteyri

  Anna frænka á Hesteyri var viðkvæm fyrir nekt.  Svo mjög að hún svaf kappklædd.   Hún var stór og mikil um sig.  Stundum fór hún í megrun.  Það breytti litlu.

  Einu sinni sem oftar hringdi hún í apótekið á Neskaupstað.  Að þessu sinni falaðist hún eftir megrunardufti,  Nupo-létt.  Henni var illa brugðið er duftið barst með póstinum.  Á umbúðunum blasti við mynd af frægu málverki af nakinni konu. 

  Anna hringdi í geðshræringu í apótekarann.  Hún krafðist þess að sölu á duftinu yrði þegar í stað hætt.  Ella neyddist hún til að kæra apótekið fyrir dreifingu á klámi.

  Apótekarinn tók erindinu vel.  Hann þekkti frúna.  Hann þakkaði kærlega fyrir ábendinguna.  Hann myndi sjá til þess að myndinni yrði umsvifalaust breytt. 

  Nokkrum vikum síðar hringdi Anna.  Hún spurði hvort búið væri að fjarlægja klámmyndina.  Apótekarinn játti því.  Anna pantaði meira duft.  Tússpenni var dreginn fram og svartur síðkjóll teiknaður á nöktu konuna. 

  Anna var hin ánægðasta með útkomuna.  Hún hældi sér af því að hafa forðað apótekinu á Neskaupstað frá dreifingu á klámmynd.  

anna frænka

 


Jólagjöfin í ár!

  Út er komin meiriháttar svakaleg bók,  Born to Run - Sjálfsævisaga.  Í henni segir rokkgoðsögnin Bruce Springsteen sögu sína og hljómsveitarinnar E Street Band.  Ég er kominn með bókina í hendur og byrjaður að lesa.  Það er ekkert áhlaupaverk.  Hún er hnausþykkur doðrantur,  hátt í 700 blaðsíður.  Þær eru þétt skrifaðar með frekar smáu letri.  Þýðandi er Magnús Þór Hafsteinsson,  þekktur fyrir góðar og vandaðar þýðingar.

  Ég sé í hendi mér að bókin er ekki lesin á einu kvöldi.  Þetta er margra daga lestur;  margra daga skemmtun.  Ég geri betur grein fyrir henni að lestri loknum. 

bruce

 


Slegist í Húnaveri

  Um og upp úr miðri síðustu öld var landlægur rígur á milli næstu byggðarlaga.  Hann birtist meðal annars í því að í lok dansleikja tókust menn á.  Ólsarar slógust við Grundfirðinga,  Reyðfirðingar slógust við Eskifirðinga,  Skagfirðingar slógust við Húnvetninga og svo framvegis.  Þetta voru ekki hrottaleg átök.  Lítið var um alvarleg beinbrot eða blóð.  Liggjandi maður fékk aldrei spark í höfuðið.  Þetta var meira tusk.  Í mesta lagi með smávægilegu hnjaski.  

  Skagfirðingur einn lét sig sjaldan vanta í tuskið.  Hann var jafnan drjúgur með sig.  Mundi framgöngu sína hetjulegri en aðrir.  Eitt sinn tuskaðist hann við Húnvetning fyrir aftan Húnaver.  Sá felldi hann í jörðina og hélt honum niðri.  Sama hvað okkar maður ólmaðist þá var hann í skrúfstykki.  Hann kallaði á félaga sína:  "Strákar, rífið mannhelvítið af mér áður en ég reiðist!" 

tusk

 

 


Viðbjóðsmatur

  Ég átti erindi í matvöruverslun.  Fyrir framan mig í langri röð við afgreiðslukassann var hávaxinn grannur eldri maður.  Hann hélt á litlu laxaflaki á frauðplastsbakka.  Um hann var vafin glær plastfilma.

  Maðurinn sló takt með bakkanum;  bankaði honum í læri sér.  Við ásláttinn losnaði um plastfilmuna.  Að því kom að laxaflakið hrökk út úr bakkanum og veltist um skítugt gólfið og endaði með roðið upp.  Úti var snjór og slabb.  Fólk bar óhreinan snjó inn með sér.  Á blautu gólfinu flaut blanda af ryki,  sandi og mold.  

  Til að tapa ekki stöðu sinni í röðinni stóð gamlinginn áfram á sínum stað en teygði fót að flakinu.  Honum tókst að krækja skítugu stígvéli fyrir flakið og draga eftir drullunni til sín.  Hann reyndi að strjúka óhreinindin af því.  Kjötið var laust í sér.  Óhreinindin ýttust ofan í það.

  Mér þótti þetta ólystugt og sagði:  "Ég skal passa fyrir þig plássið í röðinni á meðan þú sækir annað flak."

  Það hnussaði í honum:  "Maður hefur látið annað eins ofan í sig án þess að verða meint af.  Maginn á togarajaxlinum er eins og grjótmulningsvél.  Tekur við öllu án þess að slá feilpúst!"  

  Maðurinn náði að troða laxinum á bakkann, leggja plastfilmuna yfir og sagði hróðugur:  "Ég smjörsteiki kvikindið heima.  Bakteríurnar þola ekki hita og drepast!" 

lax 


Bílpróf Önnu frænku á Hesteyri

  Anna frænka á Hesteyri í Mjóafirði var komin yfir miðjan aldur er hún tók bílpróf.  Góður höfðinglegur frændi okkar gaf henni bíl og bílpróf í Reykjavík.  Ökuréttindin og bíllinn veittu einbúanum mikla gleði. 

  Anna hringdi til Akureyrar í mömmu og færði henni tíðindin.  Þær voru bræðradætur.  Mamma samgladdist og hvatti hana til að bruna norður í heimsókn.

  - Er hringtorg á Akureyri?  spurði Anna.

  Jú.  Mömmu taldist til að þau væru fimm.

  - Þá get ég ekki komið til Akureyrar,  svaraði Anna döpur í bragði.  Ástæðan var heiðursmannasamkomulag sem hún gerði við prófdómarann.  Í prófinu festist hún inni í innri hring á hringtorgi.  Hann tilkynnti henni að ökumaður sem kæmist ekki út úr hringtorgi fyrr en eftir sjö hringi væri óhæfur í umferðinni. 

  Anna upplýsti hann um að í Mjóafirði væri ekkert hringtorg.  Líkast til ekki á öllum Austfjörðum ef út í það væri farið.  Bauðst hún til að gera við hann heiðursmannasamkomulag um að aka aldrei til neinna staða með hringtorg.  Hún rétti honum hönd sína upp á það.  Hann tók boði hennar.  Hún stóð við sitt alla ævi. 

anna

    

         


Smásaga um einbúa

  Lengst vestur á Vestfjörðum býr Jósafat.  Hann er fjárbóndi og einbúi.  Hann er heimakær.  Fer ekki af bæ nema nauðsyn kalli á.  Einsetan hefur ágerst með árunum.  Á unglingsárum kunni hann að skemmta sér.  Hann eignaðist son eftir einnar nætur gaman.  Samband við barnsmóðurina er ekkert.  Samband feðgana er stopult.  Sonurinn er í Reykjavík og hringir einstaka sinnum í pabba sinn.  Eiginlega bara þegar eitthvað fréttnæmt,  svo sem eins og þegar hann trúlofaðist og gerði kallinn að afa.  

  Verra er að sjónin er farin að daprast.  Jósafat ber það undir héraðslækninn.  Sá pantar fyrir hann tíma hjá augnlæknastöð í Reykjavík.  Í þetta sinn hringir hann í soninn.  Beiðist gistingar í tvær nætur.  Það er velkomið.  Kominn tími til að hann hitti tengdadótturina og 5 ára afastrákinn.

  Yfir kvöldmat fær tengdadóttirin hugmynd:  Krakkinn verður búinn á leikskólanum klukkan fjögur daginn eftir.  Þá er kallinn laus.  Spurning hvort hann geti sótt strákinn.  Hann tekur vel í það.  Minnsta mál!

  Hann mætir í skólann á réttum tíma.  Gleðstur að sjá strákinn kominn í úlpuna sína og stígvél.   Hann þrífur í drenginn og arkar af stað.  Kauði berst um á hæl og hnakka.  Jósafat er vanur að draga ólm lömb og þetta er ekkert öðruvísi.  Greinilega er strokárátta í gutta.  Til að hindra strok skellir afinn honum flötum á gólfið og sest ofan á hann.

  Skömmu síðar koma foreldrarnir æstir og óðamála.  Spyrja hvað sé í gangi.  Leikskólastjórinn hafði hringt í þau.  Sagt að maður hafi komið og rænt einum pabba sem var að sækja barn sitt.  Barnið væri enn í skólanum ásamt barni hjónanna.  

  "Hvernig tókst þér að ruglast á skeggjuðum þrítugum manni og fimm ára barni?"  hrópar sonurinn.

  "Þetta skýrir margt,"  tautar afi skömmustulegur.  "Það var ekki einleikið hvað barnið var tregt í taumi"    

 

langdreginn


Fallegt fólk sem kýs að vera ljótt

  Fólki er ekki sjálfrátt.  Hjarðeðli er manneskjunni tamt.  Gott dæmi er "Bítlahárið" á sjöunda áratugnum.  Einn í hljómsveitinni Bítlunum tók upp á því að greiða hárið niður á enni.  Fljótlega tóku hinir Bítlarnir einnig upp á því.  Jafnframt leyfðu þeir hárinu að vaxa yfir eyrun.  Svo sló hljómsveitin í gegn.  Út um allan heim hermdu ungir menn eftir hárgreiðslu Bítlanna.

  Margir eiga erfitt með að vera fallegri en fólkið í kringum það.  Algengustu viðbrögð eru að leita á náðir lýtalækna.  Helst ófaglærðra.  Þá er fylliefninu botox sprautað í varir,  kinnar og víðar.  Sumir fylla í með steypu eða öðru sem hendi er næst.  Algengt er að farið sé varlega af stað.  Síðan verður þetta árátta,  einskonar kækur.

  Myndirnar sýna fyrir og eftir lýti.  

lýti alýti blýti clýti dlýti elýti kattakonanlýti mj


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband