Færsluflokkur: Matur og drykkur

Hvað er í gangi?

  Ég átti leið um Garðabæ áðan.  Mér datt í hug að koma við í Ikea og kaupa sænska gosdrykki.  Þegar á reyndi missti ég alla lyst á drykkjarföngum.  Hvert sem litið var blasti við undarleg sjón.  Það var eins og æði hafi runnið á mannskapinn.

i_ikea_a.jpgi_ikea_b.jpgi_ikea_c.jpgi_ikea_d.jpgi_ikea_e.jpgi_ikea_f.jpgi_ikea_h.jpgi_ikea_i.jpgí ikea - köttur


mbl.is Saltkjötið ekki lengur á túkall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sparnaðarráð: Ódýr heimsreisa

  Fátt er skemmtilegra en að leggja land undir fót.  Skreppa til útlanda og viðra sig yfir framandi morgunverði.  Það er það skemmtilegasta þegar ferðast er frá einu landi til annars.  Hefðbundinn þjóðlegur morgunverður lýsir svo vel persónusérkennum hverrar þjóðar og sögu.  Eini gallinn við utanlandsferðir,  sérstaklega heimsreisur,  er að þær eru dýrar.  Ég veit um ráð gegn þeim útgjaldalið.  Mér er ljúft að deila því með ykkur.  

  Byrjum á því að fara til Skotlands.  Það þarf ekkert að kaupa flugmiða eða neitt.  Ekkert fara út á flugvöll.  Aðeins bara að skjótast út í matvöruverslun.  Kaupa þar egg, gróft brauð, smjör, bakaðar baunir, beikon,  litlar grófar pylsur (sausage), ósúrt slátur, tómat og English Breakfast te.  Komin heim í eldhús eru brauðsneiðar ristaðar.  Allt hitt er steikt á pönnu nema bökuðu baunirnar.  Te er lagað.  Áður en morgunverðurinn er snæddur er upplagt að skella sekkjapíputónlist undir nálina.  Svo er bara að anda vel að sér lyktinni af skoska morgunverðinum.  Þá ertu komin til Skotlands.   

morgunver_ur_-_skoskur.jpg

   Frá Skotlandi er haldið til Portúgals.  Sami háttur er hafður á.  Nema að einungis þarf að kaupa croissant brauð,  flúrsykur,  venjulegt kaffi og mjólk.  Heima í eldhúsi er hellt upp á kaffi og flúrsykri stráð yfir brauðið.  Kaffið er drukkið með mjólk.  Dansmúsík frá Madeira smellpassar í bakgrunni. 

morgunver_ur_-_portugal.jpg

  Frá Portúgal er haldið til Ítalíu.  Þar er einnig croissant brauð með flúrsykri málið.  Nema að nú þarf að sprauta smávegis af súkkulaði yfir.  Bara smá.  Kaffið verður að vera cappuccino.  Pavarotti skal hljóma undir.

morgunver_ur_-_italia.jpg

  Sérðu hvað það er einfalt og auðvelt að fara í heimsreisu með þessari aðferð?  Í Frakklandi er einnig croissant brauð.  Það er í fjölbreyttri útfærslu.  Eitt brauðið er með rúsínum.  Annað með súkkulaðibitum.  Það þriðja með möndlukurli.  Mestu munar um að músíkin er frábrugðin.

   Þegar til Þýskalands er komið er gróft brauð komið á diskinn í stað croissant.  Með því eru borðaðar þykkar sneiðar af osti og fjölbreyttum pylsum.  Þessu er skolað niður með sterku kaffi.  

morgunver_ur_-_thyskur.jpg 

   Áður en rokið er til annarra heimsálfa lýk ég fyrsta hluta heimsreisunnar í Tyrklandi.  Morgunverðurinn samanstendur af ólívum,  ýmsum gerðum af ostum (bæði hörðum og smurosti),  þurrkuðum tómötum eða tómat-paste,  grófu brauði og smjöri,  ferskum tómötum,  gúrkum,  bananabitum,  ferskjubitum,  berjasultu og hunangi með rjómaslettu.  Með þessu er sötrað te.  

  morgunver_ur_-_tyrkneskur.jpg 

 

 

  Meira á morgun. 

-------------------

Þjóðaratkvæðagreiðsla

thjo_aratkvae_agrei_sla.jpg


Sífellt bætist í hóp þeirra sem ætla að vera drukknir á páskunum

  Það er langt síðan ég tók staðfasta ákvörðun um að reyna að stefna á að verða drukkinn á páskunum.  Það hentar svo vel á þessari skemmtilegu alþjóðlegu frjósemishátíð.  Frjósemistáknin;  súkkulaðikanínur,  litlir gulir hænuungar og Nóaegg smellpassa við páskabjórinn.  Mér er kunnugt um að fleiri en ég ætli að verða drukknir á páskunum.  Þar á meðal Jesús. 


mbl.is Jesús drukkinn á páskunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjúklingur er grænmeti

kjuklingaborgari.jpg

  Sú var tíð að börn og unglingar ólust við það að sjá grunnhráefnið í mat verða til fyrir framan sig.  Lamb fæddist að vori,  óx úr grasi og var slátrað að hausti.  Skrokkurinn var sagaður í lærissneiðar,  sviðakjamma,  síðubita o.s.frv.  Blóð og lifur urðu sláturkeppir.  Kálfur fæddist og breyttist skömmu síðar í kálfasteik og kálfabjúgu.  Þannig mætti áfram telja.  Svona er hringrás lífsins og matarkeðjunnar.

  Í dag kemst margt fólk á fullorðinsár án þess að hafa hugmynd um það hvernig maturinn verður til.  Dýravinir hvetja fólk til að hætta að drepa dýr og kaupa frekar kjöt í kjötborði stórverslana. 

  Aðrir gera sér ekki grein fyrir því hvað er dýraafurð og hvað er kjöt.  Það færist í vöxt að fólk haldi að ekkert sé kjöt nema rautt kjöt.  Öfgafullar grænmetisætur lifa á kjúklingasalati um leið og þær sniðganga egg á þeirri forsendu að egg sé dýraafurð. 

  Í dag var áróðursriti kvótakónganna dreift í öll hús í boði hamborgarasjoppu.  Þar gat - í bland - að líta matseðil sjoppunnar.  Í innrömmuðum texta voru taldir upp nokkrir valmöguleikar,  vik frá uppskriftinni.  Meðal annars að hægt væri að fá kjúklingabringu í staðinn fyrir kjöt.  

  Þennan útbreidda misskilning; að kjúklingur sé grænmeti, má rekja til lýsinga á illri meðferð á verksmiðjukjúklingum.  Aðbúnaður er svo vondur og meðferðin á þeim svo vond að þeir eru viti sínu fjær,  skelfingu lostnir,  sljóir og ein taugahrúga.  Skilja hvorki upp né niður.  Uppfullir af fúkkalyfjum og með dritbrunna fætur,  reittir og tættir.  Þeir ná ekki heilli hugsun.  Að því leyti eru þeir grænmeti í merkingunni að hausinn sé ónýtur.         


Hvað eru Bjarni Ben og Sigmundur Davíð?

  Spurningin sem margir spyrja sig - og nokkra aðra - er:  Hvað eru Bjarni Ben og Sigmundur Davíð?  Svar við spurningunni áleitnu brennur á íslenskum almenningi (og í bland nokkrum útlendingum með bakpoka).  Mér er ljúft og skylt að upplýsa málið - fyrst að ég á annað borð veit svarið.  Í stuttu máli er Bjarni Ben djúpsteiktur fiskur (nánar tiltekið fiskborgari).  Sigmundur Davíð er hakkað naut (í formi nautaborgara). 

  Bjarni Ben og Sigmundur Davíð eru nýjustu réttirnir á veitingastaðnum Texasborgurum við Grandagarð.  

  Fram til þessa hafa hamborgararnir á Texasborgurum verið 140 gr.  Bjarni Ben og Sigmundur Davíð eru hinsvegar 90 gr.  Þeir eru afgreiddir í hamborgarabrauði og með frönskum kartöflum,  sósu og salati.  Verðið er sniðið að kaupgetu fólks í skuldaánauð;  690 kall.

  Hlutverk nafngiftar þessara málsverða er að minna ráðamenn landsins á að skuldugir landsmenn eru langþreyttir á bið eftir skuldaleiðréttingu.  Þeir bíða og bíða og bíða og bíða eftir skuldaleiðréttingu sem boðuð var á vormánuðum og átti að ganga í gegn einn, tveir og þrír.  Svo gleymdist hún.  Að mér skilst.  Í atinu þurfti að einbeita kröftum að kvótagreifum sem toguðust á um að borga sér 800 milljónir í arð (í stað 700 milljóna).  Eða eitthvað svoleiðis. 

  Ég þekki ekkert til þessara mála og skipti mér ekkert af þeim.  En ég held að framtak Texasborgara sé skemmtilegur flötur á skuldaánauðinni.      

  Tekið skal fram að ég hef engin tengsl við Texasborgara.  Aftur á móti snæði ég oft á Sjávarbarnum.  Hann er við hliðina á Texasborgurum og - að ég held - sami eigandi.  Á Sjávarbarnum er boðið upp á glæsilegt sjávarréttahlaðborð í bland við kjúklingarétti.  Það er í miklu uppáhaldi hjá mér.  

  Hér er eigandinn,  Magnús Ingi Magnússon,  með Bjarna Ben og Sigmund Davíð í fanginu.  

magnus_ingi_me_bb_og_sd.jpg 

 

 

 

 

 

 

 

 

bjarniben_spilar_a_imynda_a_blokkflautu.jpg 

 

 

 

 

 

 

 Bjarni Ben spilar ekki á loftgítar.  Þess í stað er hann liðtækur á loftklarinettu og loftfuglaflautu.  


Dauði tónlistariðnaðarins

  Með reglulegu millibili koma fram á sjónarsvið fyrirbæri sem slátra tónlistariðnaðinum - ef mark er takandi á þeim sem hæst grætur hverju sinni yfir örlögum sínum á dánarbeði tónlistariðnaðarins.  Nýjasti morðingi tónlistariðnaðarins er niðurhalið á netinu og mp3.  Í lok síðustu aldar var það skrifanlegi geisladiskurinn.  Þar áður náði bandaríski tónlistariðnaðurinn að banna DAT-snælduna.  Japanskur snælduframleiðandi,  Sony,  gerði sér þá lítið fyrir, keypti bandaríska plöturisann CBS og aflétti banninu í krafti þess.  Um svipað leyti úreltis DAT-snældan vegna innkomu geisladisksins.

  Músíksjónvarpsstöðin MTV og tónlistarmyndbönd voru um tíma sökuð um að ganga af tónlistariðnaðinum dauðum.  "Myndbönd drápu útvarpsstjörnuna" (Video Killed the Radio Star),  sungu The Buggles og þóttu spámannslega vaxnir.  

  Á áttunda áratugnum urðu svokölluð kassettutæki þokkalega góð, ódýr og almenningseign.  Tónlistariðnaðurinn fylltist örvæntingu.  Hann sameinaðist í rosalega öflugri herferð gegn kassettunni.  Höfðað var til samvisku kassettutækjaeigenda.  Á plötuumslög og í plötuauglýsingum var birt teikning af kassettu yfir x-laga nöglum.  Uppstillingin var stæling á einkennistákni sjóræningja.  Með fylgdi texti þar sem fullyrt var að tónlist afrituð yfir á kassettu í heimahúsi væri að slátra tónlistariðnaðinum.   

  Orðheppnu pönkararnir í Dead Kennedys tóku skemmtilegan snúning á þessu.  Þegar þeir sendu frá sér plötuna "In God We Trust, Inc." var hún einnig gefin út á kassettu.  Kassettan var merkt þessum boðskap um að upptaka á kassettu í heimahúsi væri að slátra tónlistariðnaðinum.  Fyrir neðan þann texta bættu Dead Kennedys-liðar við:  "Við höfum þessa hlið kassettunnar óátekna svo þú getir lagt hönd á plóg" (við að slátra tónlistariðnaðinum).

  Á annarri plötu sungu Dead Kennedys gegn MTV í laginu "MTV Get Off the Air".  Til samræmis við það að MTV skiptir litlu máli í dag hafa núverandi liðsmenn Dead Kennedys breytt textanum í "Mp3 Get Off the Air".  

dead-kennedys-tape.jpg    

  Heildarsaga Dead Kenndys er jafn geggjuð og grátköst tónlistariðnaðarins og skallapoppara yfir stöðugri slátrun á sér.  Framan af var hljómsveitin mjög kjaftfor í bland við hárbeittan húmor.  Söngvarinn,  Jello Biafra,  var og er mjög fyndinn og beitir kaldhæðni af list.  Lagaheitin segja sitt:  "Too Drunk to Fuck",  "Stealing People´s Mail",  "Kill the Poor",  "Anarchy for Sale",  "California Uber Alles"...    

  Þegar fréttatímar voru uppfullir af sögum af Pol Pot og félögum í Kambódíu að þrælka og strádrepa íbúa landsins söng Jello um "Holiday in Cambodia".  Nafnið Dead Kennedys er baneitrað.  Íslenskur frændi minn skrapp til New York (eða hvort það var Boston?) á upphafsárum Dead Kennedys.  Þá var hljómsveitin þekkt í Evrópu en tilheyrði neðanjarðarpönksenu í Bandaríkjunum.  Í plötubúð spurði frændi eftir plötum með Dead Kennedys.  Það snöggfauk í afgreiðslumanninn.  Hann reiddi hnefa til höggs og spurði hvað þetta grín um dauða Kennedya ætti að þýða.  Það tók afgreiðslumanninn góðan tíma að ná andlegu jafnvægi á ný á meðan frændi upplýsti hann um þessa hljómsveit.

  Eins og algengt er áttuðu þöngulhausar sig ekki á kaldhæðni Jellos.  Nasistar og aðrir rasistar hylltu Dead Kennedys og fjölmenntu á alla þeirra hljómleika.  Á síðustu plötunni heitir eitt lagið "Nazi Punks Fuck Off".  Það breytti engu.  Ku Klux Klanarnir tóku því sem virðingarvotti í sinn garð.  Jello var nóg boðið og leysti hljómsveitina upp.  Hann snéri sér að uppistandi og nýtur mikilla vinsælda sem slíkur.  Hann hefur sent frá sér fjölda uppistandsplatna.  Hann var með vel heppnað uppistand á Íslandi fyrir nokkrum árum.

  Jafnframt hefur Jello sungið inn á plötur með ýmsum hljómsveitum (þar á meðal Lard og No Means No) og gert kántrý-plötu með Mojo Nixon.  Eftir að Jello leysti DK upp óx viðskiptavild hljómsveitarinnar bratt.  Allskonar hljómsveitir fóru að kráka (cover song) lög DK.  Auglýsendur,  kvikmyndaframleiðendur,  sjónvarpsþáttaframleiðendur og ýmsir aðrir vildu fá að nota lög DK.  Jello stóð fastur gegn því.  Hann vildi varðveita ímynd DK sem hljómsveitar í uppreisn,  með málstað pönksins að leiðarljósi. Jello stóð einnig gegn því að lög DK væru gefin út á safnplötum.  

  Hljóðfæraleikararnir í DK fóru í mál við Jello.  Þeir sökuðu hann um að hafa af þeim háar fjárupphæðir með því að taka ekki fagnandi allri notkun á DK-lögum á öllum vígstöðvum.  Þeir unnu málið.  Síðan hafa þeir selt lög DK út og suður.  Sömuleiðis endurreistur þeir hljómsveitina með öðrum söngvara og túra þvers og kruss.  

    


Lulla frænka og jólin - 2. hluti

hangikjöt og uppstúf 

  Lulla frænka var góður kokkur.  Það var gaman þegar hún bauð í mat.  Þá var alvöru veisla.  Ein jólin bauð hún mér og minni frú,  svo og systir minni og hennar manni, í hangikjöt á annan í jólum.  Á miðju stofugólfi stóð reisulegt jólatré,  glæsilega skreytt í bak og fyrir.  Lulla hóf þegar að leggja á borð í stofunni.  Systir mín settist í stakan stól með háu baki.  Skömmu síðar steyptist hún út í kláða á bakinu og kvartaði undan því.  Lulla útskýrði það eins og ekkert væri sjálfsagðra:  

  "Það er út af englahárinu.  Ég slétti það út á stólbakinu áður en ég setti það á jólatréð.  Það er svo voðalega mikið af glerflísum í englahárinu.  Þess vegna glitrar það svona fallega á jólatrénu."

  Vissulega var rétt hjá Lullu að englahár var samsett úr bómull og glerflísum.  Þess vegna gætti fólk þess að láta englahárið ekki snerta neitt nema jólatré.  Ég held að englahár sé ekki lengur selt.  En kláðinn hélt áfram að angra systir mína þó að hún skipti þegar í stað um sæti.  Kláðinn eyðilagði dálítið fyrir henni kvöldi. 

  Lulla frænka var ekki nísk þegar hún bauð í mat.  Alls ekki.  En hún var barnslega opin og hreinskilin.  Þegar hún bar á borð fat með nýsoðnu hangikjöti kallaði hún til okkar:

  "Sjáið þessa örfáu hangikjötsbita.  Hvað haldið þið að þeir hafi kostað?  Ég veit að þið getið ekki giskað á það.  Þeir eru miklu dýrari en þið haldið.  Mér alveg krossbrá þegar ég sá verðið.  Það lá við að ég hætti við að kaupa þá.  Ég hefði hætt við það ef ég hefði ekki verið búin að bjóða ykkur í hangikjöt."

  Lulla frænka upplýsti okkur um verðið á hangikjötsbitunum.  Það var hátt.  Þetta var 1977.  Ég man ekki upphæðina.  Við gestirnir fengum nett samviskubit yfir að að setjast við veisluborðið upplýst um þessi útgjöld fátæks öryrkja.  Það var ekki ætlun Lullu.  Hún var ætíð höfðingi heim að sækja og í engu til sparað.  Fimm manna veisluborðið hefði mettað fjölmennari hóp og samt verið nóg eftir.

  Í annað sinn bauð Lulla frænka sama hópi í glæsilega kjötbolluveislu.  Kjötbollurnar hennar voru hnossgæti.  Þegar allir höfðu borðað sig pakksadda og lagt frá sér hnífapör hvatti Lulla til frekara áts:

  "Fáið ykkur endilega meira.  Nóg er til.  Þetta eru góðar kjötbollur,  þó að ég segi sjálf frá."

  Mágur minn,  stór og mikill,  ýtti frá sér disknum og sagði:  "Þetta eru bestu kjötbollur sem ég hef smakkað.  Ég er áreiðanlega búinn að torga 10 eða 12 og er gjörsamlega sprunginn."

  Lulla leiðrétti hann:  "Nei,  þú ert búinn að borða sjö."   

----------------------------

  Fyrri hluti af jólum Lullu frænku: 

---------------------------
Hjarðhegðun:
hjar_heg_un.jpg

 

   

  


Bannfært kjöt

  Öldum saman var Íslendingum bannað að borða hrossakjöt.  Það var ekki að ástæðulausu.  Í ævafornum þjóðsögum gyðinga í Mið-Austurlöndum eru skýr fyrirmæli frá drottni himintunglanna um að harðbannað sé að borða kjöt af öðrum dýrum en þeim sem bæði hafa klaufir og jórtra af ákefð hvenær sem því er við komið.  Hesturinn hefur aldrei komist upp á lag með að jórtra.  Að auki hefur hann hófa en ekki klaufir.

  Við kristnitöku á Íslandi var eðlilega rík áhersla lögð á að hér norður í ballarhafi væri farið í hvívetna eftir boðum og bönnum þjóðsaganna frá Arabíu.  Þorgeir Ljósvetningagoði náði með lagni að semja um undanþágu fyrir ásatrúarmenn (sem allflestir Íslendingar voru og eru).  Ásatrúarmönnum var heimilt að blóta á laun.  Þar á meðal að laumast í hrossakjöt svo lítið bar á.  Og það gerðu þeir með góðri lyst.  Enda hrossakjöt flestu öðru kjöti hollara og bragðbetra.  

  Bann kirkjunnar við hrossakjötsáti var málað dökkum litum.  Hrossakjötsát var skilgreint sem jafn mikill glæpur og að myrða nýfædd börn með útburði.  Í aldanna rás magnaðist upp viðbjóður á hrossakjöti.  Bara það að fara höndum um hrossakjöt framkallaði hroll.  Verstu martraðir sem guðhræddan prest dreymdi var að hann snerti í ógáti á hrossakjöti.  Þá vaknaði hann upp með andfælum,  sleginn köldum svita og náðu ekki svefni á ný fyrr en eftir að hafa farið með faðirvorið og maríubæn.

  Á 18. öld léku harðindi Íslendinga grátt.  Til að seðja sárasta hungur átu Íslendingar bækur,  skó og,  já,  þeir allra kærulausustu björguðu lífi sínu og barna sinna með því að laumast í hrossakjöt.  Um og upp úr 1800 neyddist kirkjan til að koma til móts við sársvangan almenning.  Yfirmenn kirkjunnar í Danmörku léttu hörðum refsingum af Íslendingum sem nörtuðu í hrossakjöt - ef forsendan var sár neyð.  

  Sýslumaður í Dalasýslu gaf út yfirlýsingu um að refsilaust væri í hans umdæmi að nota hrossafitu sem ljósmeti (í kertagerð eða í lampa).  Það þótti kúvending,  róttæk og byltingarkennd afstaða til hins forboðna hrossakjöts.

  Á 19. öld léku harðindi Íslendinga enn grátt.  Dómsstjóri í Reykjavík heimilaði að fóðra mætti aumingja á hrossakjöti.  Nánar tiltekið tukthúslimi og sveitaómaga.  Allt varð brjálað.  Almenningur hneykslaðist.  Margir náðu sér aldrei eftir það.  Urðu vitleysingar.  Dómsstjórinn varð að athlægi um land allt.  Hvar sem tveir menn eða fleiri komu saman sögðu þeir af honum frumsamda "Hafnarfjarðarbrandara".   

  Fram eftir síðustu öld slaknaði hægt og bítandi á andúð á hrossakjöti.  Þó var lífseig sú skoðun að vond hrossataðslykt loddi dögum og vikum saman við þann sem lagði sér hrossakjöt til munns.  Alveg fram á þessa öld var hrossakjöt ódýrt.  Eftirspurn var lítil og hrossakjötið var aðallega notað til að drýgja - undir borði - nautakjöt og kjöthakk.  Það er ekki fyrr en á síðustu 2 - 3 árum sem kílóverð á hrossakjöti hefur nálgast verð á nauta- og lambakjöti.  

  Í dag er hrossakjöt hluti af þorramat.  Það er við hæfi.  Þorri er kenndur við vetrarvætt ásatrúarmanna.  Kirkjan bannaði á sínum tíma þorrablót.  Núna leika þorrablót stórt hlutverk í árlegu skemmtanahaldi Íslendinga.  Ekki aðeins okkar í Ásatrúarfélaginu heldur alls almennings.  Það er gaman.  Verra er að þrátt fyrir ört vaxandi framboð á hrossakjöti þá hefur kílóverðið einnig rokið upp.           

    

Í Lögregluskólanum er nemendum kennt að styðja snyrtilega og virðulega - svo lítið beri á - við húfuna til að hún fjúki ekki.

logreglumenn_sty_ja_vi_hufur.jpg


mbl.is Hrossakjötsframleiðsla rýkur upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lulla frænka á jólunum

  Jól og áramót voru Lullu frænku oft erfið andlega.  Stundum fór hún svo langt niður á milli jóla og nýárs að hún var vistuð inni á Klepp eða geðdeild Borgarspítalans.  Læknar sögðu hana upplifa einsemd sterkar á þessum árstíma en oftast annars.  Jólin eru svo mikil barna- og fjölskylduhátíð.  Engu að síður voru ættingjar og vinir Lullu duglegir að senda henni jólakort, jólagjafir og hringja í hana.  Henni var líka boðið í jólakaffi og jólamat.  Hún fékk einnig heimsóknir.  

  Ég veit ekki hvort eða hvernig það spilaði saman við annað að Lulla var mjög óánægð með nánast allar jólagjafir sem henni bárust.  Það átti hún sameiginlegt með föður sínum,  afa mínum.  

  Þegar ég heimsótti hana um jól þá sýndi hún mér jólagjafirnar með útskýringum:

  "Foreldrar þínir gáfu mér þennan náttlampa.  Ég skil ekki hvernig þeim datt það í hug.  Ég er ekki með neitt náttborð.  Ég les aldrei uppi í rúmi.  Ég get hvergi haft lampann nema á eldhúsborðinu.  Þar er hægt að stinga honum í samband.  En það hefur enginn náttlampa á eldhúsborðinu.  Ég verð að athlægi.  Náttlampinn er bara til vandræða.  Ekkert nema vandræða."

  Og:  "Frænka þín gaf mér þessa bók.  Ég er ekki með neina bókahillu.  Ég hef enga aðstöðu fyrir bækur.  Alveg dæmalaust að einhverjum detti í hug að gefa mér bók."

  Ég:  "Það eru allir að tala um að þessi bók sé mjög skemmtileg."

  Lulla:  "Já,  það má hafa gaman af henni.  Ég hef gluggað í hana.  En ég er í algjörum vandræðum með að leggja hana frá mér.  Eini staðurinn sem ég get lagt hana frá mér er svefnherbergisgólfið.  Það geymir enginn bækur á gólfinu.  Bókin er alveg fyrir mér á gólfinu þegar ég skúra."

  Fljótlega eftir að ég flutti til Reykjavíkur reyndi ég að gleðja Lullu frænku með jólagjöfum.  Mér tekst ekki að rifja upp hvað varð fyrir valinu.  Aftur á móti man ég að Lulla setti út á valið.  Ég kippti mér ekkert upp við það.  Þekkti viðbrögðin,  bæði hjá henni og afa.  Þau áttu það jafnframt sameiginlegt að taka sumar gjafirnar síðar í sátt.  Og jafnvel verða ánægð með þær.  

  Í tilfelli afa voru upprunalegu óánægjuviðbrögð hans útskýrð af foreldrum mínum sem spennufall.  Hann hlakkaði alltaf svo rosalega mikið til jólanna að þegar hann pakksaddur eftir aðfangakvöldsveisluna fór að taka upp pakka þá réði taugakerfið ekki lengur við spennuna.  Hann hafði allt á hornum sér gegn öllum jólapökkum sem hann fékk.  Ég tel að foreldrar mínir hafi haft rétt fyrir sér með spennufallið.

  Ég veit ekki hvort að sama skýring nær yfir viðbrögð Lullu.  Ég varð ekki var við sama spenning hjá henni fyrir jólunum og hjá afa.  Kannski er það ekkert að marka.  Lulla var á allskonar lyfjum og synti áfram í rólegheitum í vímu þeirra meðala sem hún tók inn.  

  Þegar ég kvæntist áttaði konan sig fljótlega á því hvaða jólagjöf gæti glatt Lullu.  Konan vann í sjoppu.  Hún smalaði saman í stóran pakka þverskurð af sælgætinu í sjoppunni.  Þetta hitti í mark.  Lulla hringdi í mig á jóladag og lék við hvurn sinn fingur.  Hún skammtaði sér hóflegan skammt fyrir hvern dag.  Naut hvers bita og náði að láta nammið endast yfir marga daga.  

  Á annan í jólum hringdi Lulla aftur í mig.  Hún hafði fundið súkkulaðistykkjum á borð við Bounti og Snickers nýtt hlutverk.  Hún skáskar stykkin þannig að hver sneið leit út eins og tertusneið:  Þykk í annan endann og örþunn í hinn endann.  Lulla sagði:

  "Ég raða sneiðunum á lítinn disk.  Örfáum í einu.  Fjórum sneiðum eða fimm.  Svo geymi ég diskinn inni í ísskáp.  Í kaffitíma helli ég mér í kaffibolla og næ í diskinn.  Þá þykist ég vera með alvöru tertusneiðar.  Fæ mér bita af þeim með litlum gaffli.  Litla bita.  Þetta er svo gaman.  Sneiðarnar líta út alveg eins og alvöru tertusneiðar með kremi og öllu."  

------------------------------------

Meira af Lullu frænku:   http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1335376/


Berrassaður á hverfisbar

  Fyrir nokkrum árum var rekinn hverfispöbb á efri hæð í Ármúla 5 (fyrir ofan Vitaborgarann,  við hliðina á Broadway).  Pöbbinn var kenndur við rússneska kafbátaskýlið,  Pentagon.  Nafnið Pentagon þýðir fimmhyrnd bygging.  Mörgum þótti nafngiftin á pöbbanum sérkennileg vegna þess að hann var í ferhyrndri byggingu.  Núna heitir staðurinn Crystal. 

  Svo bar til eitt kvöldið að fjölmenni var inni á staðnum.  Virðulegur eldri maður klæddur í vandaðan jakka og með hálsbindi sat sem fastast úti í horni.  Þegar hann vantaði nýtt bjórglas kallaði hann á þjón og lét færa sér á borðið.  Að nokkrum bjórglösum liðnum þurfti maðurinn að bregða sér á klósettið.  Þá blasti við að hann var berlæraður.  Aðeins í hvítum nærbuxum með rauðum doppum.  En í sokkum og stífbónuðum spariskóm.  

  Þetta vakti kátínu annarra gesta, undrun og forvitni.  Siggi Lee reið á vaðið og spurði manninn hverju klæðaleysið sætti.  Sá berlæraði andvarpaði,  stundi þungt og svaraði hægt,  dapur á svip:

  "Æ,  ég lenti í vandræðum með leigubílinn sem skutlaði mér hingað.  Ég var orðinn peningalaus.  Leigubílstjórinn varð snælduvitlaus og tók buxurnar mínar í pant."     

buxnalaus.jpg


mbl.is Berrassaður maður í Hafnarstræti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband