Færsluflokkur: Mannréttindi

Rekinn og bannaður til lífstíðar

  Um tíma leit út fyrir að heimurinn væri að skreppa saman.  Að landamæri væru að opnast eða jafnvel hverfa.  Að jarðarbúar væru að færast í átt að því að verða ein stór fjölskylda.  Járntjaldið hvarf.  Berlínarmúrinn hvarf.  Landamærastöðvar hurfu eins og dögg fyrir sólu.  Tollmúrar hurfu.  Líka vörugjöld.  Talað var um frjálst flæði fólks.  Frjálst flæði vinnuafls.  Frjálst fæði.  Frjálsan markað.

  Þetta gat ekki gengið svona til lengdar.  Allt að fara í rugl.  Tvö skref áfram og eitt afturábak.  Fasískir taktar njóta nú vinsælda víða um heim.  Til að mynda í Tyrklandi.  Þökk sé ljúfmenninu Erdogan.  

  Færeyskur prestur hefur búið og starfað í Tyrklandi í fjögur ár.  Kirkjan hans hefur vinsamleg samskipti við Kúrda og og sýrlenska flóttamenn.  Hugsanlega er það ástæðan fyrir því að tyrkneska lögreglan sótti hann til yfirheyrslu.  Hann var yfirheyrður í marga klukkutíma.  Forvitnir lögreglumenn vildu vita nöfn þeirra sem hann hefur hitt í Tyrklandi,  hverja hann þekkir og umgengst.  Eins og gengur.  Í spjallinu kom reyndar fram að þeir vissu þetta allt saman.  Þá langaði aðeins að heyra hann sjálfan segja frá því.  

  Að spjalli loknu var honum gerð grein fyrir því að hann væri rekinn.  Rekinn frá Tyrklandi.  Ekki nóg með það.  Hann er gerður brottrækur til lífstíðar.  Hann má aldrei aftur koma þangað.  Honum var umsvifalaust varpað upp í næstu flugvél.  Hún flaug með hann til Danmerkur.  Það var hálf kjánalegt.  Hann á ekki heima í Danmörku.  Hann þurfti sjálfur að koma sér á heimaslóðir í Færeyjum.  Nánar tiltekið í Hvannasund.       

sílas    


mbl.is Vísað úr landi eftir 22 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breyttar kröfur í lögreglunni

  Ekki veit ég hvaða hæfniskröfur eru gerðar til okkar ágætu íslenskra lögregluþjóna.  Ég ætla að óreyndu að þær séu töluverðar.  Gott ef flestir þeirra þurfi ekki að hafa farið í gegnum strangt nám í Lögregluskólanum;  ásamt því að vera í góðu líkamlegu formi.  Kannski líka góðu andlegu formi.

  Í Bretlandi hefur lengst af verið gerð sú krafa til lögregluþjóna að þeir kunni að lesa og skrifa.  Nú hefur þessari kröfu verið aflétt að hluta í London.  Í dag dugir að þeir þekki einhvern sem kann að lesa og skrifa.


Humarfrelsarinn

 

  Ég veit ekki margt um grænmetisætur (vegan/vegaterian).  Þó veit ég að sumar þeirra borða dýraafurðir eins og egg og mjólkurvörur.  Aðrar borða fisk.  Vita fátt betra en harðfisk með smjöri.  Svo eru það þær sem sniðganga vandlega allt sem tengist dýrum.  Í þeirra tilveru er ekkert leður,  ekkert silki,  engin ull.

  Ástæðan fyrir þessu getur verið margvísleg.  Ein er takmarkalaus samúð með öllum lifandi verum.  Öll dýr eigi rétt á að vera frjáls og ótrufluð af manna völdum.  Það er falleg og göfug hugsjón.

  Ung færeysk kona,  Sigrið Guðjónsson,  er í þessum hópi.  Eins og nafnið gefur til kynna þá á hún ættir að rekja til Íslands.  Að vísu dálítið langt aftur í ættir.  Mig minnir að langamma hennar hafi verið íslensk.

  Á dögunum átti Sigrið erindi í færeysku Kringluna,  SMS,  í Þórshöfn.  Í versluninni Miklagarði sá hún lifandi humra í fiskborðinu.  Hún fékk sting í hjartað,  vitandi að humar er matreiddur þannig að honum er stungið lifandi ofan í pott.  Hún gat ekki hugsað sér þessi kvalarfullu örlög humranna.  Þeir mændu á hana í örvæntingu.  

  Það var ekki um annað að ræða en draga upp seðlaveskið.  Hún keypti alla humrana,  á þriðja tug.  Þar með fauk sparipeningurinn.  Það skipti minna máli en örlög humranna.  Hún fékk aðstoð við að drösla þeim niður að höfn.  Það er töluverður spotti þangað frá SMS.  Þar sleppti hún þeim í sjóinn.  Horfði hamingjusöm á eftir þeim fagna frelsinu.  

humarfrelsarinn  


Vandræðaleg staða

  Gallinn við marga fanga er að þeir hafa ekki sómakennd.  Fyrir bragðið eru þeir kallaðir harðsvíraðir.  Það er enginn sómi að því.  Víða erlendis klæðast fangar sérstökum fangaklæðnaði.  Því fylgja margir kostir.  Það dregur úr stéttaskiptingu innan fangahópsins.  Banksterinn er í samskonar búningi og samlokuþjófur.  Fangabúningurinn dregur úr möguleikum fangans að flýja úr fangelsinu.  Jafnframt dregur það úr möguleikum strokufanga að leynast á meðal almennings.  Almenningur ber þegar í stað kennsl á að strokufangi sé á ferð og framkvæmir snöfurlega borgaralega handtöku.

  Hérlendis fá fangar að sperra sig í sínum fínustu fötum.  Það er óheppilegt.  Sést best í Fangavaktinni þar sem Georg Bjarnfreðarson er snöggur að koma sér upp samskonar klæðnaði og fangaverðir.

  Í Bretlandi eru fangar í samræmdum fangaklæðum.  Vandamálið er að þau eru í stöðluðum stærðum. Þær hafa ekkert breyst í áratuganna rás.  Öfugt við holdafar Breta.  Breskir glæpamenn hafa stækkað á þverveginn jafnt og þétt það sem af er þessari öld.  Sér þar hvergi fyrir enda á.  

  Óánægður fangi í góðri yfirvigt lýsir því sem refsiauka að þurfa að vera í of litlum fangafötum.  Einkum er lítill sómi að þegar fötin koma úr þvotti.  Þá eru þau þrengri en eftir nokkurra vikna notkun.  Buxur komast rétt upp á miðjar rasskinnar.  Þær eru svo þröngar að göngulag verður eins og hjá stirðbusalegasta spýtukalli.  

  Ennþá verra er að skyrtan nær ekki yfir útstandandi ístruna.  Hún nær með herkjum að hylja efri hluta búksins niður að maga.  Hann stendur nakinn eins og risabolti út í loftið.

  Að sögn fangans er þetta svo niðurlægjandi að menn í hans stöðu bjóða sér ekki upp á að taka á móti gestum í heimsóknartíma á meðan fötin eru þrengst. Nóg er að þurfa að þola háðsglósur annarra fanga.  Jafnvel siðblindustu glæpamenn hafa sómakennd þegar snýr að fatnaði.  Þeir vilja meina að þarna séu mannréttindi þeirra fótum troðin.  Það er ekki til sóma.    

  


mbl.is „Hvar var sómakennd ykkar?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að tala skýrt með tungum tveim

  Löngum hefur háð Íslendingum að tala óskýrt um hlutina.  Reglugerðir og lög eru loðin og óljós.  Fróðasta fólk er í vandræðum með að átta sig á þeim.  Fyrir bragðið einkennast samskipti af ágreiningi.   

  Nýjasta dæmið er bankabrask hæstaréttardómara.  Þeir dæmdu á færibandi bankanum í vil í hverju málinu á fætur öðru.  Bankanum sem þeir áttu sjálfir hlut í.  Sumir telja að þarna hafi verið um grófa hagsmunaárekstra að ræða.  Hæstaréttardómarar eru því ósammála.  Þvert á móti.  Þetta auðveldaði þeim í stöðunni.  Þeir sáu málið frá báðum hliðum á meðan þeir sátu beggja vegna borðsins.      

  Þessu er öfugt farið í sjávarútvegi á Austurland.  Þar tala menn skýrt.  Þegar útgerðarmaður segir við hafnarvörð:  "Drullaðu þér í burtu!" þá fer ekkert á milli mála hvað það þýðir.  Hann vill að hafnarvörðurinn fari eitthvað annað.  Þegar hann síðan fylgir málinu eftir með því að dúndra bumbunni í hafnarvörðinn er það ítrekun á fyrirmælunum. 

  Léttvægur ágreiningur vitna er um það hvort að upp úr útgerðarmanninum hrökk um leið:  "Ég drep þig, ég drep þig!"  Eða hvort að hann sagði aðeins einu sinni:  "Ég drep þig!" - ef hann sagði það á annað borð.  Hvort heldur sem er þá hefur hafnarvörðurinn sofið á bak við harðlæstar eftir þetta.  Til öryggis.  

  Það var auðvelt fyrir héraðsdómara að komast að niðurstöðu í málinu.  Þrátt fyrir að menn greini á um það hvort að hafnarverðinum hafi stafað ógn af framkomu útgerðarmannsins eða mikil ógn.  Til refslækkunnar var metið að hann bað hafnarvörðinn afsökunar síðar sama dag.  Hæfileg refsing er mánaðardvöl í fangelsi sem kemur ekki til fullnustu ef kauði heldur sig á mottunni í tvö ár.  Ef hann hefði ekki beðist afsökunar fyrr en daginn eftir er ljóst að dómur væri þyngri.

 

          


mbl.is Dæmdur fyrir að hóta hafnarverði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gróft dýraníð

  Mikið lifandi skelfingar ósköp sem var óhugnanlegt að fylgjast með aðförum Sea Shepherd-liða í Færeyjum í fyrrasumar og sumarið þar áður.  Steininn tók úr þegar þeir reyndu að kenna marsvínum að kafa undir báta Færeyinga er þeim var smalað upp í fjöru.  Til að koma dýrunum í skilning um að þau ættu að kafa þá sigldu SS-liðar ofan á þau.  Við það ristu bátskrúfurnar djúpa skurði í hold hvalanna.  Þeir öskruðu af gríðarmiklum sársauka.  Ekki tók betra við þegar saltaður sjórinn nuddaði salti í sárin.  Þeir skildu hvorki upp né niður í þessu sadíska dýraníði.  Ekki ég heldur.

særður hvalur   


mbl.is Sea Shepherd-liði dæmdur fyrir dýraníð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtilegur lýðræðishalli

  Á samfélagsmiðlum og víðar hefur mátt sjá og heyra Íslendinga á ýmsum aldri hneykslast á kosningakerfi Bandaríkja Norður-Ameríku þegar þarlendir velja sér forseta.  Æ ofan í æ fer sá frambjóðandi sem þjóðin velur, hann fer ekki með sigur af hólmi.  Þess í stað fær sá sem þjóðin hafnar, hann fær forsetaembættið á silfurfati.

 Ástæðan liggur í því að forsetinn er ekki kosinn af almenningi heldur nokkur hundruð kjörmönnum.  Sauðsvörtum almenningi er ekki treyst fyrir fjöreggi lýðræðisins.  Hann myndi klúðra því og kjósa eitthvað vanhugsað og heimskulegt.  Eitthvað rugl.  Þess vegna þarf sérkjörna ábyrgðarfulla embættismenn til að velja af skynsemi heppilegasta forsetaefnið.

  Í galgopahætti kalla sumir þetta að lýðræðið hafi á dögunum valið Hildiríði Clinton en (kosninga) kerfið valið ljúflinginn Dóna Trump.

  Það er ekkert rosalega langt síðan Evrópubúar tóku að þreifa sig áfram í átt að lýðræði. Gerð var tilraun með því að leyfa eignamönnum að kjósa.  Það gafst vel.  Þá var gerð tilraun til að leyfa fleiri karlmönnum að kjósa.  Það virkaði ásættanlega.  Að því kom að óhætt þótti að leyfa konum einnig að kjósa.  Til öryggis framan af var notast við kjörmannakerfi eins og þetta bandaríska.  

  Kosningaaldur hefur verið lækkaður hægt og bítandi.  Þetta er allt ennþá á tilraunastigi.

  Íslendingar hafa ekki úr háum söðli að detta þegar kemur að fullkomnu lýðræði.  Enda er það ekki til.  En 1 atkvæði á mann væri nær því.  Í dag er það ekki svo.  Vægi atkvæða er ekki jafnt um allt land.  Í sumum kjördæmum vegur 1 atkvæði allt að því á við 2 atkvæði greidd í öðrum kjördæmum.  Einn dag í óræðinni framtíð leyfa veðurguðirnir sólinni að skína á Ísland sem þá verður eitt kjördæmi.  Hvert og eitt atkvæði um allt land hafi sama vægi.    

  

    

         


mbl.is Forskot Clinton eykst enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smásaga um þorp

  Eftir gresjunni kemur maður.  Hann er á gönguskíðum.  Ferð sækist hægt á marauðri jörðinni.  Hann tekur stefnu að tveimur mönnum í útjaðri litla þorpsins.  Þeir bogra yfir opnu húddi á eldgömlu hjólalausu bílhræi,  beygluðu á öllum hliðum og illa farið af ryði.  Þeir heilsast með handabandi.

  - Sæll,  Jón bifvélavirki.

  - Sæll,  Páll öryrki.

  Þeir virða skíðamanninn ekki viðlits.  Hann þykist ekki sjá þá.  Gónir upp í himinn.  Þykist vera að skoða stöðu stjarnanna.  Það er ósannfærandi í glaða sólskini.  Að hálftíma liðnum áttar hann sig á því og spyr kæruleysislega:

  - Hvað er í gangi?  Stóra félagsheimilið þarna stendur í björtu báli.

  - Þetta er þriðja húsið sem brennuvargurinn brennir til kaldra kola í þessari viku,  útskýrir Jón.  Gamla metið var tvö hús á viku.  Fyrir misskilning var slökkviliðsbílnum hent á þrettándabrennuna í fyrra.            

  - Fær vargurinn að ganga laus?  Af hverju er hann ekki tekinn úr umferð?

  - Ertu eitthvað verri?  Mamma hans er varamaður í sóknarnefnd kirkjunnar og afi hans hitti einu sinni forsetann fyrir sunnan.  Talaði meira að segja við hann.  Eða heilsaði honum að minnsta kosti.  

  Skothvellur gellur við.  Jón fellur til jarðar alblóðugur í andliti.  Hann er þegar allur.  Páll dæsir og fussar:

  - Þvílík ósvífni.  Bölvaður aðkomumaður drepur Jón bifvélavirkja rétt áður en hann kom bílnum mínum í gang?  Það á ekki af þessum bíl að ganga.

  - Hvernig veistu að það sé aðkomumaður?

  - Það segir sig sjálft.  Lögregluþjónninn er í sumarfríi.  Áður en hann fór sendi hann miða í öll hús með ströngum fyrirmælum um að bíða með afbrot þangað til hann kæmi úr fríi.  Aðkomumaður veit ekki af þessu.     

  Hávær sprengignýr rýfur samræðuna.  Skólabygging í útjaðri þorpsins jafnast við jörðu eins og tvíburaturn.  Páll ræður sér ekki fyrir kæti.  Hann hoppar,  veifar höndum og hrópar:  

  - Ég er bænheyrður!  Þegar ég var sex ára þá bað ég heitt og innilega í kvöldbænum mínum um að skólahúsið yrði sprengt í loft upp.  Ég er ótrúlega bænheitur! 

  Skíðagarpurinn óskar þess í huganum að vera líka bænheitur.  Til að leyna þeim hugsunum segir hann:

  - Afskaplega er bleika íbúðarhúsið þarna með gulu gluggatjöldunum fallegt.  Sniðugt að hafa flugvélavængi út úr þakinu.

  - Þetta er stoltið okkar,  viðurkennir Páll.  Elliheimili fyrir hesta.  Núna eru þrjú hross í vist þarna.  Ég málaði hvítar rendur á Gamla-Rauð.  Þá halda hinir hestarnir að hann sé útlendur sebrahestur.

  Garnirnar í skíðamanninum gaula allt í einu svo hátt að sker í eyru.  

  - Talandi um hesta:  Ég var í þrjá sólahringa á leiðinni hingað.  Ég er glorsoltinn.  Veistu hvort að í bakaríinu sé afsláttur fyrir innskeifa?

  - Ekki lengur.  Það var komið út í vitleysu.  Menn voru orðnir svo innskeifir að einn var farinn að ganga afturábak.  Tímarnir breytast og mennirnir með.  Þorpsfíflið komst í jarðýtu fyrir viku.  Jafnaði bakaríið við jörðu.  Það verður ekki endurbyggt.  Bakarinn var innandyra.  Til allrar lukku sá ekki á ýtunni.  Hún er eins og ný.  Meira að segja ennþá hlífðarplast yfir sætinu.  Það eina sem er að er að ýtuhúsið er beyglað niður að sætinu.  Allar rúðurnar brotnar.  Líka þakljósin.  Púströrið er beyglað.  Samt ekki illa beyglað. Meira svona að það liggi út á hlið.  Pabbi stelpunnar sem á ýtuna velti henni.  Hann var að kanna hvað hún gæti verið í miklum halla án þess að velta.  Hann komst aldrei að því.  Rotaðist með það sama.  Hefur verið einkennilegur síðan,  eins og allt hans móðurfólk.  Talar ekki lengur.  Mjálmar bara og er sílepjandi mjólk.  Malar ef hann kemst í rjóma.

  Tröllsleg kona kemur kjagandi á ógnarhraða úr þorpinu.  Hún beinir spenntum lásaboga að komumanni og kallar frekjulega:  

  - Palli,  má ég skjóta hann?  

  - Nei,  við gætum lent í vandræðum.  Síðan þú drapst prestinn og organistann í gær veit ég ekki einu sinni hvernig við getum staðið að útför þeirra.

  Páll bendir á skíðakappann:

  - Hann er hvort sem er að fara.  Þarf að drífa sig suður.  Er það ekki?

  - Jú, ég ætlaði einmitt að hefjast handa við að kveðja ykkur.  Ég var sendur hingað af Vikublaðrinu.  Átti að skrifa um daglegt líf í dæmigerðu litlu sjávarþorpi.  Það er greinilega aldrei neitt um að vera á svona stað.  Ekkert til að skrifa um.                            

  Hann losar af sér skíðin og gengur að Páli.  Þeir kveðjast með þéttu faðmlagi og kossi á sitthvora kinn.  Hann kveður tröllslegu konuna á sama hátt.  Bætir nokkrum kossum á munninn við.  Svo er tekið á sprett eins hratt og fætur toga út sléttuna.  Það síðasta sem hann heyrir er hrópandi geðhræringslega höstug, skipandi og skræk rödd Páls:

  - Nei, ekki!  Það má aldrei skjóta í bakið!  Neiiiii!

   

-------------------------------------------------

  Fleiri smásögur ef þú smellir HÉR

 

       


Stórsigur kvenna

  Ég hef verið að skoða kosningaúrslit gærdagsins. Sú skoðun leiðir í ljós - þegar vel er að gáð - að staðan er glettilega góð og ánægjuleg fyrir konur.  Við getum talað um stórsigur kvenna.  Það er aldeilis jákvætt svo ekki sé fastar kveðið að orði.  Mér reiknast til að eftir sveitastjórnarkosningarnar í gær séu átta af þrettán borgarfulltrúum Þórshafnar,  höfuðborgar Færeyja, konur.  Þvílík bomba!  Ég segi og skrifa B-O-B-A!   

  Þær eru:  Annika Olsen (Fólkaflokkur),  Björghild Djurhuus, Helena Dam og Halla Samuelsen (Jafnaðarmannaflokkur),  Gunnvör Balle, Marin Katrina Frýdal og Túrid Horn (Þjóðveldi) og Bergun Kass (Framsókn).

  Mér segir svo hugur að Annika verði næsti borgarstjóri Þórshafnar. 

   


mbl.is Hverju breytir sigurinn á alþjóðavísu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar líða dýraníð

  Íslendingar eru dýraníðingar.  Svínabændum hefur þótt sjálfsagt að gelda gelti án deyfingar eða annarra aðferða til að milda sársaukann.  Sársaukahrínið í dýrunum hljómar eins og fögur sinfónía í eyrum svínabænda.  Kröfum um úrbætur var mætt af stjórnvöldum með áhugaleysi.  Það þurfti að gefa bændum góðan tíma til að reyna að venja sig af pyntingunum.

  Lengst af þótti hið besta mál að klippa rófuna af grísum.  Án deyfingar.

  Af og til komast í umferð myndbönd af fólki að misþyrma hestum.  Það hefur ekki þótt ástæða til aðgerða.  

  Í nýju búvörulögunum er dýraníð samþykkt.  Dýraníð breytir engu um styrkveitingar.

  Nýjasta dæmið er af misþyrmingu á lambi í Hörgárdal.  Það er dæmigert.  Fjöldi manns horfði upp á smalamann ganga í skrokk á lambi.  Lambið hafði örmagnast.  Í þannig aðstæðum er eðlilegast að taka það í fangið og reiða á hesti.  Eða setja upp í næsta bíl.  Í Hörgárdal var annar háttur hafður á.  Smalinn greip lambið, hóf það á loft og grýtti í jörðina.  Þessu næst sparkaði hann í það og stappaði á hálsi þess.  

  Viðstaddir létu gott heita.  Kipptu sér ekki upp við þetta.  Því síður var gripið í taumana.  Enn síður var ofbeldið tilkynnt eða kært til yfirvalda.  Í sveitinni ríkir þöggun um málið.

  Fólk sem misþyrmir dýrum er líklegt til að beita annað fólk ofbeldi.  Það skortir samkennd.  

 

 

     


mbl.is Grunur um dýraníð í Hörgársveit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband