Færsluflokkur: Mannréttindi
18.2.2016 | 19:44
Einkennilegt háttalag strætóbílstjóra í myrkri, þoku og snjó
Sumt fólk á ekki að umgangast börn. Það skilur ekki börn. Þau fara í taugarnar á þeim. Það þekkir ekki eitt barn frá öðru. Í þeirra augum er þetta allt sami skríllinn. Alveg eins og hjá rasistum sem setja alla blökkumenn undir sama hatt; sjá engan mun á þeim.
Mér var illa brugðið við fréttir af 14 ára stjúpdóttur Guðmundar Brynjólfssonar, djákna og vinar míns á Eyrarbakka. Krakkinn tók í gærkvöldi strætó til Selfoss. Á leiðinni skipti stelpan um sæti. Við það missti bílstjórinn stjórn á sér. Það rann á hann æði. Hann sturlaðist, froðufelldi og spangólaði. Henti stelpunni umsvifalaust út á guð og gaddinn. Skipti engu þó að úti væri niðamyrkur, svartaþoka, snjór og hálka.
Hann hafði ekki hugmynd um það hvort að barnið væri með farsíma, myrkfælið eða þokkalega búið til útiveru.
Sem betur fer tókst stelpunni að ná símasambandi við foreldrana. Guðmundur ók í humátt að Selfossi. Hún hafði þá í fimm mínútur brölt í átt að Eyrarbakka í flughálku og myrkri. Köld, hrakin og niðurlægð.
Bílstjórinn réttlætir ójafnvægi sitt og uppákomu með því að kvöldið áður hafi stelpa fært sig á milli sæta. Hann taldi hugsanlegt að um sömu stelpu væri að ræða. Sem var þó ekki. Þá viti hann dæmi þess að krakki hafi sett fót upp á sæti. Að auki hafi krakki eitt sinn sýnt honum putta. Þarna var mælirinn fullur. Til viðbótar hafi Litla-Hraun verið í nágrenni. Hún hefði getað leitað þar skjóls síðar um kvöldið. Miðaði hann þá við gömul ytri landamæri Litla-Hrauns.
Nú er málið "í ferli" hjá Strætó.
![]() |
14 ára hent út úr strætó |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt 19.2.2016 kl. 03:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
17.2.2016 | 11:01
Hvað er þetta með Fellaskóla?
Þegar talað er um einelti í skólum berst umræðan ætíð fljótlega að Fellaskóla. Þannig hefur það verið til einhverra ára. Sögurnar þaðan eru margar og ljótar. Svör stjórnenda skólans eru eitthvað á þá leið að málin séu í ferli. Það virðist þýða að öllu sé stungið undir stól og ekkert gert.
Vegna skólaskyldu ber skólastjórnendum að tryggja velferð nemenda. Skólinn á að vera börnum öruggt skjól. Staður sem þeim líður vel á. Í góðum skóla hlakka krakkar til hvers skóladags. Geta varla beðið eftir því á morgnana að komast í skólann.
Þessu er öfugt farið með mörg börn í Fellaskóla.
Hvar er barnaverndarnefnd? Ofbeldi er glæpur. Ekki síður þegar fórnarlamb er barn heldur en fullorðið.
![]() |
Tólf ára ýtt út á Hverfisgötu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
8.2.2016 | 12:36
Smásaga um vinnustaðaglens
Þetta er fyrsti dagur Tóta í pylsuvagninum. Hann er búinn að hlakka til í marga daga. Þar áður átti hann sér langþráðan draum um að afgreiða pylsur - eins og algengt er með ungt fólk. Vinnufélagi hans er Ása, boldangshnáta á sjötugsaldri með sólgleraugu og fjölda húðflúra. Tóti hefur oft fylgst með henni úr fjarlægð afgreiða pylsur. Hann hefur stundum undrast hvað vinnufélagar hennar stoppa stutt við í vagninum.
Tóti heilsar og kynnir sig með handabandi. Ása kynnir sig ekki heldur svarar glettnislega: "Tóti, já. Ég ætla að kalla þig Tóta ljóta til aðgreiningar frá öðrum Tótum."
"Þekkir þú aðra Tóta?" spyr Tóti undrandi.
"Ekki ennþá," svarar Ása. "Kannski síðar."
Lengra er samtalið ekki í bili. Ása bendir Tóta þegjandi á að taka af sér jakkann. Um leið bendir hún á kaffikönnu með nýlöguðu kaffi. Hún bendir honum líka á að fá sér sæti. Hann lætur ekki benda sér á það tvisvar. Sjálf hellir hún sér kaffi í plastmál. Með vönum handbrögðum gusar hún eldsnöggt úr því ofan í hálsmálið á Tóta. Hann öskrar af sársauka undan brennandi heitu kaffinu, sprettur á fætur og rífur sig úr bolnum. Hann horfir undrandi og ásakandi á Ásu. Hún heldur um magann í hláturskrampa.
"Vinnustaðagrín," útskýrir hún skellihlæjandi og sækir handklæði. Hún vætir það í köldu vatni og leggur samanbrotið yfir brunasárið á öxlinni.
"Farðu í bolinn yfir," skipar hún og hjálpar honum að troðast í kaffiblautan bolinn.
Tóti reynir að taka gríninu vel. Hann brosir vandræðalega. Brosið verður einlægt þegar Ása bætir við: "Ég ætla að skjótast í ísbúðina við hliðina og kaupa handa okkur ís í brauðformi. Þá fyrirgefur þú mér grínið. Er það ekki?"
Hún býður ekki eftir svari heldur snarast út. Að vörmu spori kemur hún til baka með tvo barnaísa. Annar er súkkulaðiís. Hinn jarðarberja. Hún réttir súkkulaðiísinn að munni Tóta og segir: "Vittu hvorn þér þykir betri."
Tóti er við það að narta í ístoppinn þegar Ása þrykkir ísnum þéttingsfast framan í hann. Ísinn klessist upp á nef og út á kinnar. Hún fylgir því eftir nógu fast til að brauðformið maskast.
Tóti tekur andköf. Hann skefur með höndunum ísinn framan úr sér. Hann sullast niður bringuna og litar bolinn.
"Vinnustaðagrín!" hrópar Ása sigri hrósandi. Um leið og orðinu sleppir þrykkir hún jarðarberjaísnum á sama hátt í andlitið á Tóta.
"Æ, þetta fór úr böndunum," játar hún og horfir á Tóta þrífa á sér andlitið. "Fyrirgefðu. Ég sá þetta fyrir mér miklu fyndnara. Ég hélt að þú myndir líta út eins og Gosi spýtukall: Að brauðformið myndi standa út í loftið á nefinu á þér. Það hefði verið fyndið."
Tóta fyrirgefur Ásu í huganum. Hann vorkennir henni fyrir aulalegan húmor. Það geta ekki allir verið gordjöss. Hún vill vera skemmtileg.
"Ég skal vera almennileg," lofar Ása. "Ég er búin að biðjast fyrirgefningar. Ég skal hringja í konuna sem á pylsuvagninn og óska eftir því að þú verðir fastráðinn."
Orðum sínum til áréttingar hringir hún og segir í tólið: "Þú ættir að fastráða Tóta. Hann þarf bara að taka með sér hreinan aukafatnað. Núna er hann útataður í kaffisulli og ís. Bæði súkkulaðiís og jarðarberja. Þetta er ógeðslegt fyrir kúnna að horfa upp á. Ég er viss um að hann er ömurlegur faðir. Það kemur vinnunni ekkert við. Ég þarf bara að tala við Barnaverndarnefnd. Láta dæma af honum börnin. Viltu að ég komi eftir vinnu og nuddi á þér bakið? Ég get einnig gefið þér fótanudd. Ég hlakka til, yðar hátign."
Ása leggur símann frá sér og segir: "Þú heyrðir það sjálfur, Tóti ljóti, að ég mæli með þér. Ég ræð töluverðu um fastráðningar. Ég sef nefnilega stundum hjá hennar hátign."
Fleiri smásögur og leikrit HÉR.
Mannréttindi | Breytt 30.11.2016 kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.1.2016 | 08:51
Innflytjendur líkna og hjúkra
Fólk hefur allskonar viðhorf til innflytjenda. Það er eðlilegt. Innflytjendur eru allskonar. Eins og Íslendingar. Eins og fólk út um allan heim. Sem betur fer. Mannlífið væri litlaust og leiðigjarnt ef allt fólk í heiminum væri alveg nákvæmlega eins að öllu leyti.
Í nágrannalöndum okkar taka innflytjendur til hendinni á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum. Ekki síst við skúringar og önnur þrif. Líka sem hjúkrunarfræðingar. Ennfremur sem læknar. Í Lúxemborg eru fjórir af hverjum tíu starfandi læknum innflytjendur.
Í Bretlandi eru þeir rösklega þriðjungur (35,4%) allra lækna. Í Svíþjóð 30%. 25,4% í Belgíu og 19,5% í Frakklandi.
![]() |
Vita lítið um hatursglæpi á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.1.2016 | 10:24
Óskalögin
Einn kunningi minn er afskaplega bannglaður. Hann er stöðugt að nefna eitt og annað sem hann telur þörf á að banna. Engu að síður byrjar hann allar tillögur um það með formálanum: "Eins og ég er mikið á móti boðum og bönnum þá tel ég vera nauðsynlegt að banna..."
Bretar eru töluvert bannglaðir. Samt eru þeir ekki löghlýðnir. Til að mynda vanrækir annar hver hundeigandi að merkja kvikindið með míkróflögu. Sekt við vanrækslunni er 100 þúsund ísl. kr.
Samkvæmt skoðanakönnun vilja Bretar fá fjölda lagabreytinga nú þegar. Þessar njóta mest fylgis:
1. Bannað verði að spila músík í almenningssamgöngutækjum (41%)
2. Flugeldar verði bannaðir alla daga ársins nema 5. nóvember (37%)
3. Bannað verði að setja fætur upp á sæti í almenningssamgöngutækjum (36%)
4. Skilaréttur á vörum til verslana verði lengdur upp í 60 daga (35%)
5. Útskráning af hótelherbergjum verði síðdegis í stað morguns (35%)
6. Bannað verði að spila jólalög í almenningsrými fyrir 1. des (35%)
7. Jólaauglýsingar verði bannaðar fyrir 1. des (34%)
8. Veitingahús verði skylduð til að bjóða upp á barnlaus svæði (32%)
9. Fjögurra daga vinnuvika verði lögfest (31%)
10. Kennsla í dýravernd verði skyldufag í almennu skólanámi (31%)
Mannréttindi | Breytt 12.11.2016 kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.12.2015 | 20:37
Upptaka á verðmætum flóttamanna og hælisleitenda
10. desember var lagt fram á danska þinginu frumvarp. Það snýst um heimild til að skoða og skilgreina eignir flóttamanna og hælisleitenda. Jafnframat um að gera megi verðmæti þeirra upptæk. Rökin eru þau að verðmætin verði metin sem greiðsla upp í kostnað danska samfélagasins við að hýsa þetta fólk. Það er að segja þangað til það er farið að vinna fyrir sér í Danmörku og leggja skerf til samfélagsins. Rannsóknir unnar í nágrannalöndum sýna að á örfáum árum eru innflytjendur farnir að leggja meira til samfélagsins en þeir þiggja.
En eitthvað þarf til að brúa bilið þangað til. Um það snýst frumvarpið. Spurning er hvað langt á að ganga. Sumir túlka þetta sem upptöku á öllum verðmætum. Aðrir túlka það sem upptöku á skartgripum, demöntum og þess háttar. Ekki upptöku á peningaseðlum, fatnaði og bókum. Enn aðrir velta fyrir sér upptöku á gullfyllingum í tönnum. Sýnist þar sitt hverjum.
Eftirskrift þessu óviðkomandi: Vegna umræðu um vímuefnameyslu íslenskra alþingismanna - sem fer jafnan úr skorðum í desember: Í húsakynnum danska þingsins er bar. Þar er stöðug traffík. Þingmenn standa í halarófu. Þeir kaupa margfaldan skammt þegar röð kemur að þeim. Til að þurfa ekki aftur í röðina fyrr en eftir klukkutíma. Danskir þingmenn eru almennt "ligeglad". Íslendingur spurði hvort að þingmenn sem sniðgangi barinn séu litnir hornauga. Svarið: "Það hefur ekki reynt á það."
![]() |
Vilja leggja hald á verðmæti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt 19.12.2015 kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
28.11.2015 | 19:12
Baráttan um líf og dauða
Við kynmök karls og konu keppa sprelllifandi sæðisfrumur karlsins um að frjóvga egg konunnar. Sumar hafa verið staðnar að því að beita óheiðarlegum aðferðum til að bregða fæti fyrir keppinautana.
Hvernig sem að því er staðið þá nær aðeins ein sæðisfruma í mark. Hinar deyja drottnum sínum sorgmæddar á næstu dögum. Full ástæða er til að samhryggjast þeim. Eðlileg viðbrögð eru að kveðja þær á sama hátt og þegar aðrir ættingjar falla frá.
Fruman sem nær að skora elur af sér fóstur. Á næstu 9 mánuðum tekur það á sig mannsmynd og lítur loks dagsins ljós.
Því miður eru ekki öll börn velkomin í heiminn. Margar mæður láta eyða fóstri. Afstaða til þess er á ýmsa vegu. Sumum - einkum körlum fremur en konum - þykir það lítið meira mál en örlög sæðisfrumu sem nær aldrei í höfn. Öðrum þykir það ekkert meira mál en þegar konur missa fóstur af náttúrulegum ástæðum. Það er algengt.
Svo eru það þeir sem skilgreina kviknað líf öllu æðra. Ýmist alveg frá sæðisfrumu til frjóvgaðs eggs. Þeir sem lengst ganga hika ekki við að drepa lækna og hjúkrunarfólk sem framkvæma fóstureyðingu - í heilagri baráttu fyrir því að vernda líf. Iðulega er það sama fólk fylgjandi dauðarefsingu á óheiðarlegum. Svo ekki sé minnst á stuðning við hernað í útlöndum. Þá er hverju drápi á meintum óvinum fagnað með góli og ástríðufullri þakkarbæn til guðanna.
![]() |
Það er komið nóg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt 29.11.2015 kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.11.2015 | 20:34
Sterkar stelpur - graðir strákar
Mikið rosalega sem þær eru sterkar og flottar þessar stelpur er stigið hafa fram og sagt frá ofsóknum af hendi skólasystkina. Þær hafa verið úthrópaðar sem druslur, sjálfsalar og allskonar öðrum niðrandi orðum í þeim dúr. Meðal annars í skólablaði menntaskólanema.
Auðvitað eru það þeir er skrifa óhróður um skólasystkini sín í þannig blöð sem eru illa innréttuð dusilmenni. Þeirra er skömmin. Það er ekkert nema í góðu lagi að stelpur kyssi stráka, strákar kyssi stelpur og fólk af öllum kynjum kyssi hvert annað og stundi kynlíf þegar þannig stendur á.
Sá sem kallar manneskju druslu eða eitthvað í þá veru er fífl.
![]() |
Lét bólfélagana skrifa undir þagnareið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt 19.11.2015 kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.11.2015 | 21:38
Lífstíll skiptir öllu máli
Svissneskir karlar lifa lengur en aðrir karlar. Íslendingar eru í hópi langlífustu þjóða. Mataræði skiptir máli í mögulega langri ævi. Óhollur matur, sykur og hvítt hveiti skerða lífsgæði og ævilengd. Eiturlyfjaneysla og keðjureykingar líka. Einnig lífstíll að öðru leyti, svo sem hreyfingarleysi og flótti frá sólarljósi.
Þetta er mismunandi á milli þjóða. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku er lífshættulegt að verða á vegi lögreglu. Samskipti við hana kosta hátt á annað þúsund manns lífið á ári. Góður fjöldi til viðbótar á um sárt að binda eftir að hafa orðið á vegi lögreglunnar. Menn auka lífsgæði sín og lífslíkur með því að forðast lögregluna, hermenn og þess háttar.
![]() |
Þúsund látist af völdum lögreglu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt 17.11.2015 kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.11.2015 | 09:46
Friðsælustu og ófriðsömustu lönd heims
Forvitið fólk hjá stofnun sem heitir Institute for Economics and Peace hefur fundið upp reikningsaðferð til að komast að því hvaða lönd heims eru friðsælust og hvar ófriður er mestur. Niðurstaðan er áhugaverð. Ekki síst fyrir okkur hér á landinu kalda. Þannig líta efstu sætin út:
Svo eru það ófriðarseggirnir sem geta aldrei látið neinn í friði. Guðunum sé þökk fyrir að við erum ekki eins og þeir:
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 09:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)