Færsluflokkur: Spil og leikir
4.7.2021 | 05:32
Hver er uppáhalds Bítlaplatan?
Hér til vinstri á bloggsíðunni hef ég stillt upp nýrri skoðanakönnun. Hún mun standa þangað til 1000 atkvæði hafa skilað sér í hús. Reynslan hefur þó kennt að línur skýrast strax með fyrstu 100 - 200 atkvæðum. Samt. 1000 atkvæði eru trúverðugri.
Varast ber að taka svona skoðanakönnun of hátíðlega. Þetta er fyrst og fremst skemmtilegur samkvæmisleikur. Úrslitin mæla ekki smekk þverskurðar af þjóðfélaginu. Þau túlka einungis smekk lesenda bloggsíðunnar. Þeir eru að uppistöðu til karlmenn komnir af léttasta skeiði og nokkrar konur á sama aldri.
Takið endilega þátt í könnuninni. Spurt er um uppáhalds Bítlaplötu. Ekki bestu Bítlaplötu. Á þessu er munur. Pavarotti er betri söngvari en Megas. Megas er skemmtilegri.
16.6.2021 | 21:32
Afi hótar bónda
Afi var mikill flakkari. Alveg til dauðadags. Hann lét gönguerfiðleika ekki aftra sér. Vegna brjóskeyðingar í mjöðmum var hann skakkur og skældur; gat ekki rétt úr sér og staulaðist áfram með tvo stafi. Hann var seigur að snapa far, hvort heldur sem var til og frá Sauðárkróki, Svarfaðardal, Reykjavík eða eitthvert annað.
Þegar ég var 7 eða 8 ára var ég í fámennum barnaskóla í Hjaltadal. Skólastofan var rúmgóð stofa á bóndabæ. Það hentaði afa. Hann fékk far með mjólkurbílnum frá Sauðárkróki til skólans. Þaðan fékk hann far með skólabílnum heim í Hrafnhól. Þar bjuggum við.
Eitt sinn í lok skóladags stóðum við krakkarnir og afi úti á hlaði og biðum eftir bílnum. Skyndilega birtist bóndinn á bænum, gekk að eldri bróður mínum og sakaði hann um að hafa brotið rúðu. Strákur neitaði sök. Bóndinn greip um hálsmál hans, felldi hann á bakið, settist yfir honum með hnefa á lofti. Hótaði að berja úr honum játningu. Afi brá við skjótt; hóf annan staf sinn á loft og hrópaði: "Slepptu drengnum eða ég læt stafinn vaða af fullu afli í hausinn á þér!"
Bóndanum brá. Hann þaut eins og eldibrandur inn í hús. Lengi á eftir hældi afi sér af því við hvern sem heyra vildi hvað bóndinn varð hræddur við hann. Bætti svo við: "Verst hvað kvikindið var snöggt að flýja. Ég hefði vilja dúndra í hausinn á honum!"
Spil og leikir | Breytt 17.6.2021 kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
6.6.2021 | 11:54
Hártískan
Í dægurlagaheimi er algengt að poppstjörnur veki athygli á sér með sérstakri hárgreiðslu. Í sumum tilfellum smitast þetta út til almennings og verður almenn tíska. Stærsta dæmið er þegar Bítlarnir tóku upp á því að greiða hárið niður á enni. Einnig síðar þegar þeir leyfðu hárinu að vaxa niður á herðar og skiptu í miðju. Svo voru það pönkararnir sem skörtuðu móhíkanakambi. Ekki má gleyma "sítt að aftan" á 8-unni.
Í upphafi 20. aldar voru tískustraumar í hárgreiðslu. Að minnsta kosti í Bandaríkjunum. Sérlega virðist hafa verið vinsælt að koma sér upp töluverðri hárhrúgu hægra megin á kollinum. Eða til beggja hliða. Hér eru sýnishorn:
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.4.2021 | 01:24
Smásaga um fót
Bænastund er að hefjast. Bænahringurinn raðar sér í kringum stóra bænaborðið. Óvænt haltrar ókunnugur gestur inn á gólf. "Ég er með mislanga fætur," segir hann. "Getið þið beðið fyrir kraftaverki um að þeir verði jafn langir?"
"Ekki málið," svarar forstöðumaðurinn. "Leggstu á bakið hér ofan á borðið. Við græjum þetta."
Sá halti hlýðir. Forstöðumaðurinn leiðir bæn. Svo sprettur hann á fætur og grípur um fót gestsins, hristir hann kröftuglega og hrópar: "Í Jesú-nafni skipa ég þér fótur að lengjast!"
Þetta endurtekur hann nokkrum sinnum. Að lokum hrópar hann sigri hrósandi: "Ég fann fótinn lengjast! Þú ert heill, félagi."
Hann hjálpar gestinum að renna sér niður af borðinu. Þar fellur hann í gólfið en bröltir á fætur og fellur jafnharðan aftur í gólfið. Það fýkur í hann. Hann hrópar: "Helvítis fúskarar! Þið lengduð vitlausan fót!"
Forstöðumaðurinn reiðist líka. Hann hvæsir: "Það má ekki á milli sjá hvor fóturinn er vitlausari. Báðir snarvitlausir!"
Hann grípur um axlir gestsins og dregur hann að útidyrunum. Gesturinn er á fjórum fótum og spyrnir við. Hann minnir á kind í réttum sem þráast við að vera dregin í dilk.
Forstöðumaðurinn nær að henda honum út á hlað. Þar sparkar hann kröftulega í rassinn og hrópar: "Þakkirnar fyrir hjálp okkar eru ekkert nema vanþakklæti. Nú er munurinn á fótunum sá sami og þykkt gangstéttarhellu. Þú getur ólað hana á þig og gengið óhaltur."
Gesturinn fylgir ráðinu. Það reynist heillaráð.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
11.4.2021 | 10:17
Samherjasvindlið
Eftir að ég tók virkan þátt í starfsemi Frjálslynda flokksins skipti ég um hest í miðri á; kúplaði mig út úr pólitískri umræðu. Hinsvegar brá svo við í gær að vinur minn bað mig um að snara fyrir sig yfir á íslensku yfirlýsingu frá Anfin Olsen, nánum samstarfsmanni Samherja í Færeyjum. Þetta á erindi í umræðuna: Reyndar treysti ég ekki minni lélegu færeysku til að þýða allt rétt. Þú skalt ekki heldur treysta henni. Ég á líka eftir að umorða þetta almennilega. Ég hef fengið flogakast af minna tilefni.
Hefst þá málsvörn Anfinns:
Spil og leikir | Breytt 12.4.2021 kl. 08:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.4.2021 | 00:34
Furðuhlutir
Fólk er alltaf að fá hugmyndir. Sérstaklega fá margir hugmyndir um allskonar hluti og matvæli. Stundum mætti uppfinningarfólkið hafa taumhald á sér í stað þess að hefja framleiðslu á uppfinningunni. Til að mynda er stundum ástæða til að ráðast í markaðskönnun. Hún gæti bjargað mörgum frá því að missa aleiguna í stóru gjaldþroti. Hér má sjá nokkur dæmi sem markaðurinn hafnaði.
Blátt sýróp var ekki að gera gott mót. Né heldur augnhár fyrir bíla. Hvað með gosdrykki með bragði á borð við beikon, hnetusmjör og buffaló-vængi? Svo var það snilldin að sameina buxur og strigaskó. Hárgreiða með tönnum og lautarferðarbuxur? Hvað var þessi að pæla sem ætlaði að slá í gegn með barnapúða sem veldur martröð? Eða sykurfrauð með pizza-bragði?
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.3.2021 | 19:06
Reglur eru reglur
Stundum á ég erindi í pósthús. Oftast vegna þess að ég er að senda eitthvað áhugavert út á land. Landsbyggðin þarf á mörgu að halda. Ég styð þjónustu við hana. Enda er ég dreifbýlistútta úr Skagafirði. Margt þykir mér skrýtið, svo skilningssljór sem ég er. Ekki síst þegar eitthvað hefur með tölvur að gera.
Þegar pakki er sendur út á land þarf að fylla út í tölvu fylgibréf. Þar þarf í tvígang að skrá inn póstnúmer sendanda og póstnúmer viðtakanda. Þegar allt hefur verið skráð samviskusamlega þarf að prenta það út á pappír, klippa hann niður og líma yfir með þykku límbandi. Ódýrara og handhægara væri að prenta það út á límmiða.
Á dögunum var ég að senda vörur til verslunarkeðju út á landi. Ég kann kennitölu þess utanbókar. En í þetta sinn komu elliglöp í veg fyrir að ég myndi kennitöluna. Ég bað afgreiðslumann um að fletta kennitölunni upp fyrir mig. Hann neitaði. Sagði sér vera óheimilt að gefa upp kennitölur. Það væri brot á persónuvernd.
Við hlið hans var tölva sem ég hafði aðgang að til að fylla út fylgibréf. Sem ég og gerði. Þetta var spurning um hálfa mínútu eða svo. Ég spurði hver væri munurinn á því að ég fletti upp fyrir framan hann kennitölu eða hann gerði það. Svarið var: Þú ert í rétti til þess en ekki ég.
Já, reglur eru reglur.
Spil og leikir | Breytt 31.3.2021 kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.3.2021 | 23:08
Undarlegt samtal í banka
Ég var að bruðla með peninga í bankaútibúi. Það var tuttugu mínútna bið. Allt í góðu með það. Enginn var að flýta sér. Öldruð kona gekk hægum skrefum að gjaldkera. Hún tilkynnti gjaldkeranum undanbragðalaust hvert erindið var. "Ég ætla að kaupa peysu hjá þér," sagði hún. Gjaldkerinn svaraði: "Við seljum ekki peysur. Þetta er banki." Konan mælti áður en hún snérist á hæl og gekk burt: "Já, ég veit það. Ég hélt samt að þið selduð peysur."
Spil og leikir | Breytt 19.3.2021 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.3.2021 | 00:10
Söluhrun - tekjutap
Sala á geisladiskum hefur hrunið, bæði hérlendis og erlendis. Sala á geisladiskum hérlendis var 2019 aðeins 3,5% af sölunni tíu árum áður. Sala á tónlist hefur þó ekki dalað. Hún hefur að stærstum hluta færst yfir á netið.
98% af streymdri músík á Íslandi kemur frá sænska netfyrirtækinu Spotify. Alveg merkilegt hvað litla fámenna 10 milljón manna þorp, Svíþjóð, er stórtækt á heimsmarkaði í tónlist.
Tæpur þriðjungur Íslendinga er með áskrift að Spotify. Þar fyrir utan er hægt að spila músík ókeypis á Spotify. Þá er hún í lélegri hljómgæðum. Jafnframt trufluð með auglýsingum.
Annar stór vettvangur til að spila ókeypis tónlist á netinu er youtube.com. Þar eru hljómgæði allavega.
Höfundargreiðslur til rétthafa eru rýrar. Það er ókostur. Þetta þarf að laga.
Ókeypis músík hefur lengst af verið stórt dæmi. Ég var í barnaskóla á Hólum í Hjaltadal á sjöunda áratugnum (6-unni). Þar var líka Bændaskóli. Nemendur í honum áttu svokölluð real-to-real segulbandstæki. Einn keypti plötu og hinir kóperuðu hana yfir á segulbandið sitt.
Nokkru síðar komu á markað lítið kassettusegulbandstæki. Flest ungmenni eignuðust svoleiðis. Einn kosturinn við þau var að hægt var að hljóðrita ókeypis músík úr útvarpinu. Það gerðu ungmenni grimmt.
Með kassettunni varð til fyrirbærið "blandspólan". Ástríðufullir músíkunnendur skiptust á safnspólum. Þannig kynntu þeir fyrir hver öðrum nýja spennandi músík. Síðar tóku skrifaðir geisladiskar við því hlutverki.
Sumir rétthafar tónlistar skilgreina ókeypis tónlistarspilun sem tekjumissi. Það er rétt að sumu leyti. Ekki öllu. Þegar ég heyrði nemendur Bændaskólans á Hólum blasta Bítlaplötum þá blossaði upp löngun í Bítlaplötur. Sem ég síðar keypti. Allar. Fyrst á vinyl. Svo á geisla.
Ég veit ekki hvað litla kassettutækið sem hljóðritaði lög úr útvarpinu skilaði kaupum á mörgum plötum. Þær voru margar. Sem og blandspólurnar.
Stór hluti þeirra sem spilar músík á Spotify og youtube.com kynnist þar músík sem síðar leiðir til plötukaupa. Eða mætingu á hljómleika flytjenda. Á móti kemur að mörg lög sem menn spila á Spotify og youtube.com hefði hlustandinn aldrei keypt á plötu. Fólk tékkar á ótal lögum og flytjendum án þess að heillast af öllu. Þess vegna er rangt að reiknað tap á höfundargreiðslum sé alfarið vegna spilunar á öllum lögum.
Netveiturnar hafa ekki drepið tónlist í föstu formi. Vinyllinn er í stórsókn. Svo brattri að hérlendis hefur sala á honum átjánfaldast á níu árum. Sér þar hvergi lát á.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.2.2021 | 21:09
Hverjir selja ljótu húsin?
Um allt land eru ljót hús. Þau eru aldrei til sölu. Nema parhús í Kópavogi. Það var til sölu. Eftir fréttaflutning af því var togast á um það. Fyrstur kom. Fyrstur fékk. Í auglýsingum fasteignasala eru öll hús og allar íbúðir á söluskrá þeirra ýmist fallegar og rúmgóðar eða sérlega fallegar og glæsilegar. Sumar eru bjartar og virkilega glæsilegar og snyrtilegar. Allar eru vel staðsettar. Jafnvel tekið fram að stutt sé í allar áttir. Gott útsýni eða eða sérlega gott útsýni. Þá eru þær vel skipulagðar eða bjóða upp á ýmsa möguleika.
Sumt í fasteignaauglýsingum kemur eins og þruma úr heiðskýru lofti. Til að mynda þegar tekið er fram að þvottaaðstaða sé í íbúðinni. Kætast þá börnin smá yfir að þurfa ekki að fara með allan þvott í þvottahús langt út í bæ.
Einnig þegar tekið er fram að gólfefni fylgi með. Hvernig er íbúð án gólfefnis? Svo er það aðal sölutrikkið: Mynddyrasími fylgir. Húsið er til sölu á 120 milljónir en án mynddyrasíma. Nei, jú, hann fylgir með. Sala!
Spil og leikir | Breytt 7.2.2021 kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)