Færsluflokkur: Spil og leikir
1.8.2020 | 20:51
Afi tískufrumkvöðull
Undir lok sexunnar (sjöunda áratugarins) datt afa í hug gott sparnaðarráð. Í stað þess að fara til hárskera á Sauðárkróki - með tilheyrandi kostnaði - gæti ég klippt hann. Ég var um það bil 12 - 13 ára. Uppskriftin var sú að renna greiðu um hársvörð hans og klippa hárin sem stóðu upp úr greiðunni.
Til að gera þetta skemmtilegra þá brá ég á leik. Ég fylgdi uppskriftinni að undanskildu því að ég lét afa safna skotti neðst í hnakkanum. Afi vissi aldrei af þessu. Lyftigeta handa hans náði ekki til hnakkans.
Klippingin vakti undrun og kátínu hvert sem afi fór. Foreldrar mínir stóðu í þeirri trú að afa þætti þetta flott. Sennilega laug ég því í þau. Einhverra hluta vegna nefndi enginn þetta við afa. Mér er minnisstætt er mágkona pabba tók mömmu afsíðis og spurði hvaða uppátæki þetta væri hjá afa að vera með skott. Þær voru sammála um að þetta væri furðulegt uppátæki hjá tengdapabba þeirra en svo sem ekkert furðulegra en margt annað í hans fari.
Svo skemmtilega vildi til að um og uppúr 1980 komst svona skott í tísku. Bæði hérlendis og erlendis. Afi var fyrstur. Hann var frumkvöðullinn.
Spil og leikir | Breytt 2.8.2020 kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
26.7.2020 | 23:42
Af hverju talar fólk um sig í þriðju persónu?
Ég var að horfa á sjónvarpsþátt með bandarískum réttarsálfræðingi, Dr. Phil. Hann talar ítrekað um sig í þriðju persónu. Þetta er ósjálfráð aðferð til að upphefja sig. Skrýtið að sálfræðingur átti sig ekki á þessu. Hann hefur þó upplýst hvað liggur að baki. Pabbi hans var sjálfhverfur alkahólisti. Phil þráði viðurkenningu frá honum. Þó ekki væri nema smá hrós. Það kom aldrei. Honum gekk vel í skóla. En pabbinn lét það sig engu skipta. Phil fékk aldrei neitt jákvætt frá honum.
Kunningi minn átti erfiða æsku. Ólst upp við ofbeldi. Hann talar oftast um sig í þriðju persónu. Og alltaf þegar hann hælir sér af einhverju. Hann segir: "Bjössi eldaði frábæran rétt í gær a la Björn" og "Bjössi veit nú margt um þetta!"
Annan þekki ég sem bætir nafni sínu alltaf við þegar hann vitnar í samtöl sín. Hann lætur viðmælandann hefja setningar á ávarpinu "Ólafur minn..." eða: "Ég get sagt þér, Ólafur minn..."
Spil og leikir | Breytt 27.7.2020 kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
16.7.2020 | 00:54
Undarlegur leigjandi
Nonni kunningi minn er á áttræðisaldri. Hann leigir út 3 herbergi í íbúð sinni. Sjálfur er hann í því 4ða.
Eitt sinn vantaði hann leigjanda. Í auglýsingu í Fréttablaðinu óskaði fertugur Þjóðverji eftir herbergi. Nonni lærði þýsku á unglingsárum. Honum þótti spennandi að rifja hana upp.
Honum til vonbrigða vildi sá þýski lítið með þýsku hafa. Sagðist þess í stað þurfa að æfa sig í ensku. Í Þýskalandi biði hans starf sem túlkur.
Fljótlega varð Nonni var við rýrnun í ísskáp sínum og brauðskúffu. Hann leit framhjá því. Þetta var ekki fjárhagstjón sem skipti máli. Verra þótti honum þegar lækkaði í áfengisflöskum hans og leifarnar voru með vatnsbragði. Fremur en gera veður út af þessu þá tók hann til bragðs að geyma áfengið úti í bíl.
Einn daginn var uppáhaldsjakki Nonna horfinn. Þá gerði hann nokkuð sem hann annars gerði aldrei. Hann notaði aukalykil til að kíkja inn í herbergi Þjóðverjans. Þar var jakkinn á stólbaki. Hann lét jakkann vera.
Seint um kvöldið skilaði leigjandinn sér í hús. Nonni spurði hvort hann hefði séð jakkann. Jú, Þjóðverjinn kvaðst hafa fengið hann lánaðan. Sagðist hafa þurft á áríðandi fund og ekki átt nógu fínan jakka sjálfur. Svo snaraðist hann inn í herbergi og kom aftur fram í jakkanum. Saman dáðust þeir Nonni að fegurð jakkans. Skyndilega sagðist kauði þurfa að skjótast út. Hann var enn í jakkanum og skilaði sér ekki fyrr en um miðja nótt.
Næsta dag var leigjandinn enn í jakkanum. Nonni bað hann um að skila flíkinni. Það var auðsótt.
Upp frá þessu tók Þjóðverjinn að ganga í fleiri fötum af Nonna. Þegar hann gerði athugasemd við þetta þá útskýrði kauði að sínar skyrtur væru óhreinar, einu almennilegu buxurnar hefðu rifnað og svo framvegis. Nonni þurfti ávalt að biðja hann um að skila fötunum. Annars gerði hann það ekki.
Svo gerðist það að Nonni brá sér á skemmtistað. Þar hitti hann konu. Er vangadansi og dansleik lauk fylgdi hún honum heim. Hann keypti nokkra bjóra í nesti. Þar sem þau sátu í stofunni, keluðu og sötruðu veigarnar vaknaði leigjandinn við tal þeirra. Hann kom fram og þáði bjór. Síðan rakti hann fyrir konunni dapurlega ævi sína. Foreldrar hans voru myrtir af nasistum. Hann ólst upp við illan kost á munaðarleysingjahæli. Minningarnar voru svo sárar að hann brast í grát. Loks henti hann sér hágrátandi í faðm konunnar. Hún reyndi hvað hún gat að róa hann og hugga.
Nonni brá sér á salerni. Er hann snéri til baka voru konan og leigjandinn horfin. Hann bankaði á dyr leiguherbergisins og kallaði. Þjóðverjinn kallaði til baka að þau væru farin að sofa. Bauð svo góða nótt.
Það fauk í Nonna. Hann rak leigjandann daginn eftir. Konan bauð honum að flytja til sín til bráðabirgða. Lauk þar með samneyti karlanna.
Ári síðar hittust þeir á gangi. Þjóðverjinn leiddi frænku hans. Hún upplýsti að þau væru trúlofuð. Nonni hringdi í foreldra hennar. Sagði þeim frá kynnum sínum af manninnum. Fékk hann þá að vita að tengdasonurinn væri ekki þýskur heldur Íslendingur í húð og hár. En ekki hafði farið framhjá þeim að hann væri ósannsögull.
Spil og leikir | Breytt 17.7.2020 kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.6.2020 | 23:12
Smásaga um mann
Bjössi gengur léttfættur niður Skólavörðustíg. Á miðri götunni mætir hann manni. Þeir heilsast ekki. Þeir þekkjast ekki. Engir aðrir eru á ferli. Ekki þarna. Samt er klukkan 5 að morgni.
Bjössi heldur áfram för. Kominn niður í Austurstræti rekst hann á vinnufélaga. Áreksturinn er svo harkalega að þeir falla í götuna og kútveltast þar í góða stund. Eftir að hafa rúllað fram og til baka bera þeir kennsl á hvorn annan. Þeir brölta á fætur, faðmast og knúsast.
Í þann mund sem ástandið er að verða erótískt spyr Bjössi: "Hvað er að frétta?" Vinnufélaginn lætur ekki koma að tómum kofa hjá sér. Hann romsar óðamála: "Húsasmiðjan er með afslátt á blómum. Allt upp í 50%. Verkfæralagerinn er með opið til klukkan 5 á sunnudögum. Í útlöndum var maður tekinn af lífi af því að allir voru orðnir leiðir á honum. Íslendingar þurfa að skapa 60 þúsund ný störf næstu 30 árin. Þjóðverjar eru farnir að kaupa hús í Færeyjum. Einn keypti 3 hús á einu bretti. Bítillinn og barnagælan Paul McCartney bregst hinn versti við ef einhver kallar Heather stjúpdóttur hans. Þá skipar hann höstuglega að hún sé kölluð dóttir hans. Hún sé jafn mikil dóttir hans og þær sem hann hefur eignast í hjónabandi. Hann ættleiddi hana er hann tók saman við mömmu hennar, Lindu. Atvinnuleysi á Íslandi fer lækkandi. Skiptar skoðanir eru á vindorkurafmagni. Hafrannsóknarstofa leggur til minni þorskafla. Minni þorskafli var upphaf kvótakerfisins á níunda ártugnum. Sælgætisgerðin Nói Síríus er ósátt við að yfirvöld mismuni samkeppnisstöðu erlendra og innlendra framleiðenda með ofurtollum á hráefni. EZ túpressan er þarfaþing á öllum heimilum. Hún fullnýtir allt innihald túpu, hvort sem er kaviar, tannkrem, olíulitir eða annað. Fyrirhugað er slitlag á Dettifossveg. Tónlistarmaðurinn Benni Hemm Hemm er frá Hólum í Hjaltadal. John Lennon var ekki ættrækinn. Enda ekki alinn upp af foreldrum sínum heldur kuldalegri frænku. Frænkunni gaf hann höll. Líka systrum sínum tveimur. Í höllinni bjuggu systurnar ásamt fjárhaldsmanni og fleirum. Þegar John Lennon var myrtur gerði ekkjan, Yoko Ono, sér lítið fyrir og sparkaði systrunum og liðinu í kringum þær út úr húsinu. Bensínsölu í Verslun Haraldar Júl hefur verið hætt á Sauðárkróki. Nasdaq vísitalan lækkaði um hálft prósent í gær."
Þegar hér er komið sögu bugast Bjössi undir tíðindunum. Hann brestur í grát með miklum hljóðum. Vinnufélaginn fattar strax að staðan er sorgleg. Hann brestur einnig í grát og grætur miklu hærra en Bjössi. Fær að auki blóðnasir. Þeir ganga svo í sitthvora áttina án þess að kveðjast. Hávær grátur þeirra bergmálar um næstu götur og vekur útlendinga í nálægum hótelum.
Spil og leikir | Breytt 20.6.2020 kl. 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
12.6.2020 | 23:32
Dæmalausir fordómar
Ég veit ekki hvort ég fari rétt með orð Andreu Jónsdóttur; hún sagði eitthvað á þá leið að fordómar væru í lagi en ekki miklir fordómar. Allir hafa fordóma. Ég hef fordóma gegn skallapoppi, harmónikkumúsík, kórsöng og ýmsu öðru músíktengdu. Ég hugsa til þess með hryllingi að fara á elliheimili eftir 3 ár og sitja þar undir sömu músík og vistmenn þess í dag. Ekkert Slayer. Ekkert Dead Kennedys. Ekkert Pantera. Ekki einu sinni Skálmöld né Sólstafir.
Á elliheimilinu get ég væntanlega flúið inn á mitt herbergi og blastað í heyrnartólum Sepultura, Mínusi og I Adapt. Málið er að hæg líkamsstarfsemi aldraðra harmónerar ekki við hart og hratt rokk.
Verri eru fordómar gegn hörundslit, menningarmun, hárlit og appelsínugulum sjálfbrúnkulit.
Alltaf er gott að við sljóir hvítir eldri karlar fái olnbogaörskot og séu vaktir upp af værukærum svefni. Ritskoðun á rasisma er hið besta mál. Sérstaklega þegar hún beinist gegn styttum. Þær eru út í hött. Kannski. Nú hefur gríni Fawlty Towers verið úthýst af netveitum ásamst Gone with the Wind (Á hvervandi hveli).
Spil og leikir | Breytt 13.6.2020 kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.5.2020 | 23:51
Svívirðilegur áróður gegn Íslandi
Á Norðurlöndunum er gríðarmikill áhugi fyrir því að sækja Ísland heim. Ástæðurnar eru margar. Þar á meðal að íslenska krónan er lágt skráð. Einnig að Íslendingar hafa staðið sig sérlega vel í baráttunni gegn kórónaveiruna. Þar að auki þykir íslensk tónlist ævintýraleg og flott, sem og íslenskar kvikmyndir og sjónvarpsþættir.
Ekki eru allir sáttir við þetta. Norska dagblaðið VG hvetur fólk til að heimsækja EKKI Ísland. Bent er á að Ísland þyki svalt og íbúarnir ennþá svalari. Vandamálið sé yfirþyrmandi ferðamannafjöldi: Sex ferðmenn á móti hverjum einum Íslendingi og það sé eins og allir ætli í Bláa lónið á sama tíma og þú.
VG segir að til sé vænni valkostur. Þar séu reyndar hvorki jöklar né eldfjöll. Hinsvegar öðlast fólk þar sálarró og frið í afskekktum óspilltum sjávarþorpum og fordómaleysi.
Staðurinn sé óuppgötvaður eyjaklasi sem svo heppilega vill til að er landfræðilega nær Noregi en Ísland. Hann heiti Færeyjar.
19.5.2020 | 05:55
Smásaga um mann
Hann er kallaður Graði brúnn. Það er kaldhæðni. Hann hefur aldrei verið við kvenmann kenndur. Því síður karlmann. Ástæðan umfram annað er rosaleg feimni. Ef kona ávarpar hann þá fer hann í baklás. Hikstar, stamar og eldroðnar. Hann forðar sér á hlaupum úr þannig aðstæðum. Gárungar segja hann eiga sigurmöguleika í 100 metra spretthlaupi. Svo hratt hleypur hann.
Nýverið varð breyting á. Kallinn keypti sér tölvu. Þó að hann kunni lítið í ensku gat hann skráð sig á útlendar stefnumótasíður. Með aðstoð translate.google gat hann ávarpað útlenskar konur. Feimnin þvælist ekki fyrir honum fyrir framan tölvuskjá. Að vísu setur hann upp kolsvört sólgleraugu til að finna öryggi.
Svo skemmtilega vildi til að finnsk kona sýndi honum óvæntan áhug. Hún var sérlega spennt fyrir því að Graði brúnn safnar servíettum, merktum pennum og tannstönglum notuðum af frægum Íslendingum.
Finnska fraukan lýsti fljótlega yfir löngun til að heimsækja okkar mann. Framan af varðist hann fimlega. Bar fyrir sig dauðsfalli móður. Þvínæst dauðsfalli föður. Svo annara helstu ættingja. Vörnin brast þegar hann var farinn að telja upp dauðsfall fjarskyldra ættingja og vini þeirra. Dauðsföllin slöguðu upp í fórnarlömb Víetnam-stríðsins.
Einn daginn tilkynnti sú finnska að hún væri á leið til Íslands. Búin að kaupa flugmiða og hann ætti að sækja hana upp á flugstöð. Hann fékk áfall. Fyrst leið yfir hann. Svo fékk hann kvíðakast. Því næst át hann kornflex-pakka í taugaveiklunarkasti. Sporðrenndi ekki aðeins kornflexinu heldur einnig sjálfum pappakassanum. Honum datt í hug að skrökva því að hann væri dáinn. Hefði verið myrtur af ofbeldismanni. Aðrir eru ekki að drepa fólk.
Að lokum komst Graði brúnn að þeirri niðurstöðu að nú væri að duga eða drepast. Helst að duga. Hann keyrði á réttum tíma til flugstöðvarinnar. Hann þekkti finnsku dömuna þegar í stað. Enda eina konan á svæðinu búin að raka af sér allt hárið nema fjólubláa fléttu fyrir ofan annað eyrað.
Strax við fyrstu kynni í raunheimum blossaði feimnin upp. Komin út í bíl sýndi hann dömunni með leikrænum tilþrifum að hann væri að hlusta á útvarpið. Hann stillti það hátt. Þulurinn á Rás 2 malaði: "Klukkan er 5 mínútur gengin í sex. Nóg framundan til klukkan sex. Metsölubókahöfundur er að koma sér fyrir hérna. Um hálf sex leytið mætir vinsælasta hljómsveit landsins og frumflytur nýtt lag... Klukkan sex taka fréttir við..."
Þegar hér var komið sögu sló sú finnska hann af alefli í andlitið. Hann varð hissa og spurði: "Ertu að lemja mig í andlitið?" Blóðnasirnar svöruðu spurningunni.
Kella hafði ekki sagt sitt síðasta orð. Hún gargaði á kauða: "Hvernig vogar þú þér að spila fyrir framan mig klámútvarp? Sex, sex, sex í annarri hverri setningu. Heldur að ég fatti ekki neitt, klámhundur!"
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.5.2020 | 01:00
Kallinn sem reddar
Er eitthvað bilað? Þarf að breyta einhverju? Þarf að bæta eitthvað? Þarf að laga eitthvað? Þá getur komið sér vel að vita af kallinum sem reddar ÖLLU. Sjón er sögu ríkari:
29.4.2020 | 00:01
Vinsælustu lögin
Á Fasbók hef ég til nokkurra ára haldið úti grúppu sem heitir "Færeyskir tónar - Faroese music". Þangað inn pósta ég færeyskri tónlist (myndböndum) - eins og titillinn bendir sterklega til. Fylgjendur síðunnar eru 831 og "lækarar" 824. Flestir Íslendingar. Líka nokkrir útlendingar.
Forvitnilegt og áhugavert er að fylgjast með því hvaða lög eru oftast spiluð. Ég veit að sama fólkið spilar iðulega aftur lög sem heilla.
Þetta eru vinsælustu lögin. Innan sviga er hvað þau hafa oft verið spiluð á síðunni:
1. "Dreymurin" með Alex heitnum Bærendsen (449 sinnum). Hann kom fram á hljómleikum í Laugardalshöll í byrjun þessarar aldar. Dóttir hans, Kristína Bærendsen, söng nokkrum sinnum hérlendis á hljómleikum. Tók meðal annars þátt í söngvakeppni sjónvarpsins, júrivisjon. Hún býr núna á Íslandi.
2. "Hon syndrast" með dómdagshljómsveitinni Hamferð (doom metal) (326 sinnum). Hamferð hefur túrað með Skálmöld bæði hérlendis og erlendis.
3. "Tú er min spegil" með Jórunni (219 sinnum). Sjaldgæft er að sjá í færeysku 2 n í röð.
4. "Brotin" með Eivöru (215 sinnum)
5. "Langt burt frá öðrum löndum" með Eivöru (209 sinnum)
6. "Færeyingur á Íslandi" með Árna Tryggvasyni (184 sinnum). Það er aðeins að finna á Fasbók (ekki youtube): https://www.facebook.com/plotuskapurinn.glymskrattinn/videos/140518442709494/
7. "Aldan" með Anniku Hoydal (175 sinnum)
8. "Dansaðu vindur" með Eivöru (172 sinnum)
9-10. "Ólavur Riddararós" með Harkaliðinu (168 sinnum)
9-10. "Vilt tú at Jesus skal koma tær nær" með Manskór úr Rituvík (168 sinnum). Lagið er ekki til á youtube. Bara á Fasbók. https://www.facebook.com/sjomansmissionin/videos/213463456262854/
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.4.2020 | 06:04
Óþægilega þröngar skorður
Mér áskotnaðist "Cashout Ticket" frá Gullnámunni. Gullnáman er spilavíti rekið af góðmennsku af Happdrætti Háskóla Íslands (HHÍ). Upphæð miðans er kr. 25,-. Það er metnaðarlítil upphæð. Þess vegna datt mér í hug að hressa upp á upphæðina, Bæta nokkrum núllum við. Ég gerði það oft - með góðum árangri - á dögum ávísana.
Þá kom reiðarslag. Ég kíkti á bakhlið miðans. Þar stendur skýrum stöfum: Miðar eru ógildir ef þeir eru falsaðir eða þeim hefur verið verið breytt.
Hver er munur á breyttum miða og fölsuðum?
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)