Færsluflokkur: Spil og leikir
17.12.2020 | 22:31
Smásaga um búð
Það er rólegt í litlu hverfisbúðinni á horninu. Aðeins einn viðskiptavinur er þar innandyra. Það er öldruð kona. Hún kaupir eldspýtustokk. Hún stendur fyrir framan afgreiðsluborðið og telur peninga upp úr snjáðri peningabuddu. Það gengur brösuglega. Hún á erfitt með að greina á milli krónupenings, fimmkalls og tíkalls.
Afgreiðslumaðurinn leyfir henni að taka sér þann tíma sem þarf. Ekkert liggur á. Þau eru á svipuðum aldri og hafa átt í viðskiptum til áratuga.
Seint og síðarmeira tekst konunni að smala saman réttri upphæð. Er hún gengur út um dyrnar mætir hún ókunnugum manni. Hann er illa áttaður. Það er eins og hann viti ekki hvort hann er að koma eða fara. Hann gónir hikandi í allar áttir. Konan slær hann af öllu afli í andlitið með töskunni sinni. Svo heldur hún heim á leið. Það er eins og brái af karlinum. Hann þurfti á högginu að halda til að ná áttum. Samt er hann hikandi er hann læðist inn í búðina. Þar gengur hann ringlaður um og veit varla hvað hann er að gera.
Afgreiðslumaðurinn þreifar eftir hornaboltakylfu undir afgreiðsluborðinu. Hann gælir við þá hugmynd að lúberja komumann og ræna hann - ef svo vel vildi til að hann væri með verðmæti á sér. Með herkjum nær hann að stoppa sig og bryddar þess í stað upp á samræðum.
- Góðan dag. Get ég aðstoðað þig?
- Nei, ég veit það ekki.
- Hver veit það þá? Jólasveinninn kannski?
- Mér finnst eins og ég eigi ekki að vera hér.
- Það finnst mér líka. En af hverju ertu þá hérna?
- Ég var á leið í aðra smásögu en þessa og villtist af leið. Svo var ég allt í einu kominn í þessa sögu.
- Ég get reddað þér út úr þessari sögu ef þú vilt. Ég er höfundur hennar og ræð hvernig hún er.
- Ég vil gjarnan komast út úr þessari sögu. En hvernig kemst ég í réttu söguna?
- Það er þitt vandamál en ekki mitt. Hinsvegar skal ég gefa þér mandarínu í nesti. Um leið óska ég þér gleðilegra jóla, gott og farsælt komandi ár, þökkum liðið, fjölskyldan í Litla-Koti. Þar með ert þú úr sögunni.
Spil og leikir | Breytt 20.12.2020 kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
27.11.2020 | 20:30
Augnlæknir Johns Lennons
Nú logar friðarsúla Johns Lennons skært í Viðey. Sendir góða strauma og jákvæðar kveðjur út um allan heim. Boðskapurinn er: "Gefum friðnum tækifæri!" og "Allt sem þarf er kærleikur!"
Unglingurinn John Lennon fylgdi ekki boðskap eldri Lennons. Unglingurinn var árásargjarn og ofbeldishneigður. Það rjátlaðist af honum.
Á áttunda áratugnum flutti John frá æskustöðvum sínum á Englandi til Bandaríkjanna - nokkru eftir að hann leysti upp frægustu hljómsveit allra tíma, Bítlana.
Ég hef lesið ótal bækur um John Lennon. Lengst af hefur vantað bók eftir augnlækni hans. Sá rak gleraugnaverslun í New York, steinsnar frá heimili Lennons.
Einn góðan veðurdag 1975 límdust tvö andlit við búðargluggann án þess að hann veitti því eftirtekt. Blómasali í næsta húsi upplýsti undanbragðalaust að þar hafi John og Yoko verið á ferð. Það var svo gott sem staðfest næsta dag. Um það bil sem versluninni var lokað laumuðust John og Yoko inn í hana.
Afgreiðsludaman var frá Gana. Hún vissi ekkert hvaða fólk þetta var. Hún vissi heldur ekki í hvaða heimsálfu hún var stödd. Hún vissi ekki einu sinni að til væru heimsálfur. Hún gaf þeim tíma. Hann - sjónfræðingurinn - fór hinsvegar á taugum. Óttaðist að klúðra öllu og lenda í fyrirsögnum slúðurblaða um augnlækni sem greindi blindan Bítil ranglega.
Allt gekk vel og John valdi nokkrar keimlíkar umgjarðir. Allar í "ömmugleraugnastíl". Er sjónglerjafræðingurinn bað um símanúmer til að láta vita þegar gleraugun væru tilbúin fór John í baklás. En tók gleði sína á ný er hann bauð John að skrifa númerið í kóða við pöntunina.
Næstu ár kom John af og til í verslunina. Ýmist til að uppfæra gleraugun eða láta laga umgjörð þeirra. Þegar Yoko var með í för var kappinn slakur. Hún hafði róandi áhrif á hann. Margir fleiri hafa vottað það. Hún stóð alltaf í bakgrunni, hljóðlát og kurteis. Það var sláttur á kauða er hann var einn á ferð.
Dag einn kom John með Julian son sinn í búðina. Hann vildi að strákurinn fengi ömmugleraugu. Sá var ekki til í það. Hann valdi hermannagleraugu.
Öðru sinni kom John með Sean son sinn í bakpoka.
Augnlæknirinn spurði John aldrei út í Bítlana. Honum lærðist snemma að John væri af verkalýðsstétt og kynni því vel við stéttlausa New York. Sem að vísu var rangt. John var af millistétt en, jú, skilgreindi sig alltaf til verkalýðsstéttar. Fósturmamma hans hamraði á því við hann alla ævi að hann væri af millistétt. Hann var hinsvegar svo svo harður á því að vera í verkalýðsstétt að hann samdi um það lagið "Working Class Hero". Í Bretlandi skiptir stéttskipting risamiklu áli. Það eiginlega gerist ekki að einhver felli sig niður um stétt. Þess í stað rembast margir við að hækka sig um stétt þegar munur er lítill á efri verkalýðsstétt eða neðri miðstétt.
Eitt sinn lét sjónfræðingurinn liggja frammi bókina "A Spanian in Work" eftir John, vonandi að hann myndi bjóðast til að árita hana. John brást glaður við en bauðst aldrei til að árita hana. Í annað sinn var John í heimsókn og spurði upprifinn: "Er þetta Paul?" Sjónfræðingurinn hafði ekki veitt því athygli að í útvarpinu hljómaði lag með Paul. Í annað sinn gaf Lennon viðskiptavini ráð við val á gleraugum. Þóttist vera augnlæknir.
Svo var hann myrtur 1980, nánast í hlaðvarpa gleraugnabúðarinnar.
Spil og leikir | Breytt 4.12.2020 kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
21.11.2020 | 07:22
Afi og Trúbrot
Á æskuheimili mínu, Hrafnhóli í Hjaltadal, var hefð fyrir jólaboðum. Skipst var á jólaboðum við næstu bæi. Það var gaman. Veislukaffi og veislumatur. Fullorðna fólkið spilaði bridge fram á nótt. Yngri börn léku sér saman. Þau sem voru nær unglingsaldri eða komin á unglingsaldur glugguðu í bækur eða hlustuðu á músík.
Í einu slíku jólaboði 1969 bar svo við að í hús var komin splunkuný plata með hljómsveitinni Trúbroti. Þetta var fyrsta plata hljómsveitarinnar. Dúndur góð og spennandi plata. Lokalagið á henni heitir Afgangar (nafnið hljómar ekki vel á færeysku. Eða þannig. Á færeysku þýðir orðið brundur). Þar er bróðir minn ávarpaður með nafni - ásamt öllum hans nöfnum. "Þarna ertu Stebbi minn / sanni og góði drengurinn. / Þú ert eins og afi þinn / vænsti kall, já, og besta skinn."
Við bræður - ég 13 ára - lugum í afa að lagið væri um Stebba bróður og afa. Afi - alltaf hrekklaus - trúði því. Hann fékk mikið dálæti á laginu og allri plötunni. Þó að hann þyrfti að staulast kengboginn með erfiðismunum á milli hæða þá lét hann sig ekki muna um það til að hlusta enn einu sinni á "lagið um okkur".
Í jólaboðinu safnaðist unga fólkið saman til að hlýða á Trúbrot. Græjurnar voru þandar í botn. Bóndinn af næsta bæ hrópaði: "Þvílíkur andskotans hávaði. Í guðanna bænum lækkið í þessu gargi!"
Afi kallaði á móti: "Nei, þetta er sko aldeilis ljómandi fínt. Þetta er Trúbrot!"
Spil og leikir | Breytt 23.11.2020 kl. 08:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.11.2020 | 15:07
Skemmtilegt námsefni
Þetta eru skrýtnir tímar. Við erum flestöll í sjálfskipaðri sóttkví. Eða forðumst að minnsta kosti margmenni og óþarfa heimsóknir og ráp. Þetta er einkar erfitt ástand fyrir börn. Þá er gott að vita af kennslubókunum Lærum saman. Þær eru fjórar saman í handhægri öskju ásamt spennandi verkefnabók, fjórum spilastokkum og lykilorði að hljóðbókum með öllum sögunum og níu myndböndum.
Verkefnabókin inniheldur æfingar og fylgigögn; föndur, leiki og spil.
Pakkinn er miðaður við aldurshópinn 5 - 8 ára. Sögubækurnar segja frá systkinum sem eru einmitt 5 - 8 ára. Þau fást við ýmislegt áhugavert sem býr þau undir skólagönguna sem framundir er. Uppskriftin er þannig að hún veki löngun og áhuga barna á að læra meira.
Bækurnar eru ríkulega myndskreyttar af Brimrúnu Birtu Friðþjófsdóttur. Höfundur efnisins er Kristín Arnardóttir.
Nánar um þetta á www.laerumsaman.is
21.10.2020 | 00:00
Skelfileg upplifun í bíl
Bíllinn minn er 14 ára. Reyndar eiginlega 13 ára. Hann á 14 ára afmæli eftir nokkra daga. Hann ber aldurinn frekar illa. Hann hefur áráttu til að bila. Það er eins og þráhyggja hjá honum að komast sem oftast á verkstæði. Iðulega ljómar mælaborðið eins og jólasería. Ljósin eru rauð og gul og appelsínugul. Aðallega rauð. Það er flott yfir jól og áramót.
Í dag átti ég erindi í bílinn. Um leið og ég startaði honum hentist hann til og frá. Ég sannfærðist þegar í stað um að nú væri sá gamli að gefa upp öndina. Mér var mjög brugðið. Maður sem hefur atvinnu af því að selja sólkrem er ekki vel staðsettur í Covid-19 launamálum.
Mér fannst hamagangurinn standa yfir í hálfa mínútu. Kannski varði hann skemur. Síðar kom í ljós að um jarðskjálfta var að ræða. Þá tókum við bíllinn gleði á ný.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
30.9.2020 | 22:21
Smásaga um stefnumót
Ný vinnuvika er að hefjast. Tvær vinkonur og vinnufélagar ræða um helstu tíðindi helgarinnar.
- Ég fór á dásamlegt stefnumót í gær, upplýsir önnur.
- Nú? Segðu frá, svarar hin forvitin.
- Ég fór inn á stefnumótasíðu á netinu. Hitti þar myndarlegan mann. Eftir heilmikið spjall bauð hann mér á stefnumót.
- Hvernig gekk það fyrir sig?
- Hann sótti mig á slaginu klukkan sex. Það veit á gott þegar karlmaður er stundvís. Ekki síst af því að ég beið eftir honum úti á gangstétt og frekar kalt.
- Bölvað ógeðið. Ég veit allt um svona perra. Þeir nota öll fantabrögð til að komast að heimilisfangi konunnar. Tilgangurinn er að geta njósnað um hana. Jafnvel brjótast inn til hennar þegar hún er ekki heima og planta allskonar njósnabúnaði.
- Róleg. Þetta var allt mjög rómantískt. Um leið og hann renndi í hlað þá stökk hann út úr bílnum, rétti mér eina rós með orðunum "viltu þiggja þessa rós?"
- Þvílíkur nirfill! Ein ómerkileg rós! Maðurinn er algjör aurapúki.
- Þetta var tilvísun í bachelor-sjónvarpsþættina. Svo sætt og rómantískt. Við fórum á glæsilegt steikhús. Hann stakk upp á því að við færum hægt yfir sögu. Myndum verja góðum tíma í forrétti, aðalrétti, eftirrétti og spjall.
- Karlhelvítið. Þetta er aðferðin sem þeir nota; sitja yfir konunum klukkutímum saman og endurtaka frasa. Þetta er heilaþvottur.
- Þetta var mjög notaleg stund. Maturinn var algjör veisla og hann valdi handa mér besta rauðvín sem ég hef bragðað. Sjálfur drekkur hann ekki áfenga drykki.
- Dæmigerður óþverri; hellir dömuna ofurölvi til að gera hana meðfærilegri. Klárlega laumaði hann að auki nauðgunarlyfi í drykkinn.
- Nei, það voru engin vandræði. Þvert á móti. Stefnumótið var ljúft í alla staði. Í miðju kafi stökk hann að píanói á sviðinu og söng og spilaði nokkra ljúfa íslenska ástarsöngva.
- Helvítis ruddi. Skildi þig eina eftir úti í sal eins og ódýra vændiskonu. Neyddi þig samtímis til að sitja undir sóðalegum klámvísum. Maðurinn er snargeggjaður og hættulegur. Þú verður að kæra kvikindið til að forða öðrum konum frá því að lenda í klónum á skepnunni.
- Allt stefnumótið var ævintýri. Að vísu kom upp ágreiningur þegar ég krafðist þess að borga helminginn af matarreikningnum. Hann tók það ekki í mál.
- Karlrembudjöfull. Niðurlægir þig með skilaboðum um að þú sért honum óæðri. Hann sé merkilegri en þú. Hann sé með hærri tekjur og þú ekki borgunarmanneskja til jafns við hann. Ef þú hittir hann aftur verður þú að hafa með þér piparsprey. Ef hann reynir eitthvað þá spreyjar þú piparnum í augun á honum.
- Ég gerði það í gær. Þegar við gengum að bílnum hans þá spreyjaði ég piparnum í augun á honum. Hann missti jafnvægi og skall í jörðina. Ég sparkaði af alefli í hausinn á honum. Rotaði hann. Svo stal ég veskinu hans og bílnum. Ég sel bílinn á eftir í partasölu.
- En hann veit nafn þitt og heimilisfang.
- Nei, ég var með falskt nafn á stefnumótasíðunni. Ég er búin að eyða prófíl mínum þar. Ég gaf honum aldrei upp heimilisfang mitt heldur heimilisfang næsta húss við hliðina.
Spil og leikir | Breytt 1.10.2020 kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.9.2020 | 06:16
Breskir strompar
Á dögunum þurfti ég að vera heimavið í nokkra daga. Til að stytta mér stundir tók ég upp á því að horfa á sjónvarp úr hófi fram. Meðal þess sem fyrir augu bar var breskur raunveruleikaþáttur, Love island. Hópi glæsilegra ungmenna á þrítugsaldri er komið fyrir i reisulegri villu á eyju. Þar er dekrað við hópinn í mat og drykk. Dömurnar spranga um á bikiní og drengirnir á sundskýlu. Enda nýta þau sér sundlaugina.
Leikurinn gengur út á að fólkið pari sig. Þeim sem mistekst er sparkað af eyjunni. Aðrir koma í staðinn. Þeir þurfa að sprengja upp parasamband til að mynda nýtt par. Nóg er að horfa á einn þátt. Þeir eru allir eins. Fátt ber til tíðinda.
Eitt vekur athygli umfram annað. Það er hvað hátt hlutfall þátttakenda keðjureykir. Ég kannaði málið. Í ljós kom að fjórðungur Breta reykir. Til samanburðar eru Íslendingar ekki að standa sig. Aðeins sjöundi hver reykir.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.8.2020 | 00:06
Tjónaskýrslur
Starfsfólk tryggingafélaga heyrir stundum einkennilegar skýringar á tjónum. Sumar sprenghlægilegar - þó að tjón séu dapurleg fyrirbæri að öllu jafna. Hér eru dæmi:
"Ég var með kalkún í ofninum. Ég ætlaði að pensla hann. Þegar ég opnaði ofninn var kalkúninn þyngri en ég hélt. Hann flaug út á gólf. Sem betur fer var ég búin að ryksuga. Ég setti hann aftur í ofninn og kláraði matreiðsluna. Þetta var góð máltíð en teppið er ónýtt."
"Ég var búinn að keyra bílinn minn í 40 ár þegar ég sofnaði fram á stýrið."
"Ég gaf syni mínum 75 þúsund kall í jólagjöf sem ég henti í ógáti í ruslatunnuna."
"Ósýnilegur bíll kom út úr buskanum, skall á minn bíl og hvarf."
"Kærastan kyssti mig, ég missti stjórn á bílnum og vaknaði á sjúkrahúsi."
"Ég hélt að bílrúðan væri niðri en komst að öðru þegar ég rak hnefann út um rúðuna."
"Þegar ég kom heim þá keyrði ég inn í vitlaust hús og lenti í árekstri við tré sem ég á ekki."
13.8.2020 | 03:28
Kenning Gudda
Guddi keðjureykti. Sennilega áttu reykingarnar einhvern þátt í miklum hóstaköstum sem hann fékk í tíma og ótíma. Oftar í ótíma.
Guddi slóst í hóp með systkinum mínum er þau skelltu sér á dansleik í Varmahlíð. Er dansleik lauk sýndu gestir á sér fararsnið. Þar á meðal Guddi og systkinin. Líka piltur sem sýndi systir minni áhuga. Gudda þótti hann full ágengur. Hann snöggreiddist, greip þéttingsfast um hálsmálið á kauða og reiddi hnefann til höggs. Í sama mund fékk hann langt og heiftarlegt hóstakast. Hnefinn lak niður. En Guddi sleppti ekki takinu á hálsmálinu. Né heldur rauf hann augnsambandið. Hann starði heiftúðlegum augum á drenginn á meðan hann hann hóstaði og hóstaði. Gaurinn sýndi engin viðbrögð. Starði bara í forundran á Gudda. Hann var töluvert stærri og kraftalegri en Guddi.
Er hóstakastinu linnti var Guddi búinn á því. Hann sleppti takinu og bað systkinin um eitthvað að drekka. Hann yrði að væta kverkarnar eftir svona hóstakast.
Guddi var alltaf eldfljótur til svars. Hann, ég og pabbi vorum að stinga út úr fjárhúsum. Guddi lét reykingar sinar ekki trufla vinnuna. Hann hélt sígarettum á milli vara og hafði hendur lausar til athafna.
Bróðir minn, 4ra eða 5 ára, spurði Gudda: "Af hverju reykir þú svona mikið?"
Guddi svaraði þegar í stað: "Þeir sem vinna mikið þurfa að reykja mikið!"
7.8.2020 | 22:30
Guddi í áflogum við mannýg naut
Guddi hét maður. Hann varð heimilisvinur foreldra minna á Hrafnhóli í Hjaltadal. Kom og dvaldi þar dögum saman. Ég var fluttur að heiman. Hitti hann aðeins einu sinni er ég heimsótti foreldrana.
Þegar ég hitti hann þá sagði hann mér margar grobbsögur af sér. Þær líktust sögum Munchausens. Ein var af því þegar nautahjörð réðist á hann. Nautin komu hlaupandi í halarófu að honum með hausinn undir sig. Hátt í tuttugu skepnur. Hraðinn á þeim var svo mikill að Guddi sá að vonlaust væri að flýja. Eina ráðið var að standa gleiður og takast á við nautin. Hann greip um hornin á þeim og snéri svo hratt upp á þau að kvikindin urðu afvelta. Hann snéri þeim til skiptis til vinstri og hægri. Þegar atinu lauk var hjörðin í tveimur hrúgum. Svo dösuð var hún að Guddi gat gengið í rólegheitum á braut. En nokkuð móður.
Hann sagðist hafa sagt fólki í - eða frá - Keflavík frá þessu. Það hefði ekki trúað sér. Ég svaraði því til að það væri afar dónalegt að rengja frásagnir fólks. Guddi sagði: "Þú ert góður maður. Ég ætla að gefa þér skyrtuna mína." Svo reif hann síg úr skyrtunni og rétti að mér. Ég sagðist eiga alltof margar skyrtur og bað hann um að fara aftur í skyrtuna sína. Enda dálítið kjánalegt að sjá hann sitja beran að ofan við eldhúsborðið.
Spil og leikir | Breytt 8.8.2020 kl. 18:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)