Færsluflokkur: Spil og leikir

Dónalega fólkið

  Örlög beggja voru ráðin þegar prúði unglingurinn í Liverpool á Englandi,  Paul McCartney, kynnti sig fyrir bæjarvillingnum,  John Lennon.  Eftir það heimsóttu þeir hvorn annan á hverjum degi.  Ýmist til að syngja og spila saman uppáhaldslög eða semja sína eigin söngva eða hlusta á nýjar rokkplötur. 

  Þegar John gekk til og frá heimili Pauls fór hann framhjá hópi fólks sem stóð úti í garði.  Í hvert einasta skipti í öllum veðrum.  Hann kastaði ætíð á það kveðju.  Fólkið var svo dónalegt að endurgjalda hana aldrei.

  John sagði Paul frá þessu dónalega fólki.  Hann varð forvitinn.  Stormaði með John að fólkinu.  Kom þá í ljós að þetta var garðskreyting sem sýndi fæðingu Jesúbarnsins.  Fólkið var Jósef smiður,  María mey og vitfirringarnir þrír frá Austurlöndum. 

  Misskilningurinn lá í því að John var afar sjóndapur.  Mun sjóndaprari en hann gerði sér sjálfur grein fyrir.  Hann var í afneitun.  Hélt að allir aðrir hefðu samskonar sjón. Hann sá allt í þoku en hafði engan áhuga á gleraugum.  Ekki fyrr en mörgum árum síðar. 

 


Illa farið með börn

  Sumt fólk kemur illa fram við börn.  Stundum svo undrum sætir.  Það fengu sjö tólf ára stelpur að sannreyna er þær brugðu sér af bæ og hugðust horfa saman á kvikmynd,  Hungurgeimana, í þar til gerðum bíósal. 

  Stelpurnar voru ekki búnar að sitja lengi undir myndinni er hávært sírenuvæl frá nokkrum lögreglubílum truflaði skemmtunina.  Þetta var í Austur-Sussex í Englandi.  Laganna verðir stormuðu inn gráir fyrir járnum.  Þeir smöluðu stelpunum út á hlað og sökuðu þær um að brjóta höfundarrétt.  Þær væru að taka myndina upp á síma og iPoda.  Skoðun á tækjum stelpnanna sannaði sakleysi þeirra.  Þar var ekkert höfundarvarið efni að finna.  Þrjár stelpnanna voru ekki einu sinni með síma eða aðrar græjur til að taka neitt upp.

  Fyrir utan hímdu stelpurnar í grenjandi rigningu og skulfu úr kulda baðaðar í bláum blikkljósum.  Fjórar þeirra fengu taugaáfall hágrátandi og þurftu að kalla á foreldra til að ferja sig heim.  Lögreglan meinaði stelpunum að halda hópinn.  Þeim var haldið aðgreindum.  Ein stúlkan sagði móður sinni síðar að hún hafi verið svo hrædd að henni hafi verið ómögulegt að gráta.  Hún var bara í losti.  Þær höfðu enga reynslu af samskiptum við lögregluna. 

  Eigendur kvikmyndahússins hafna sök.  Vísa alfarið á lögregluna.  Segja að í kjölfar símtals við hana hafi hún borið alla ábyrgð á framvindunni. Endurgreiðslu á miðum er hafnað.  Nýjum miðum er hafnað.  Stelpurnar eyddu um 20 þúsund kalli í kaup á miðum,  poppkorni, gosdrykkjum og fleiru.  En þær hafa ekki ennþá séð myndina.  Hvorki í kvikmyndahúsi né á netinu.  Lögreglan hefur beðist afsökunar.

  Góðu fréttirnar eru að svona gerist ekki á Íslandi. 

 

      


Hver er uppáhalds Bítlaplatan?

  Hér til vinstri á bloggsíðunni hef ég stillt upp nýrri skoðanakönnun.  Hún mun standa þangað til 1000 atkvæði hafa skilað sér í hús.  Reynslan hefur þó kennt að línur skýrast strax með fyrstu 100 - 200 atkvæðum.  Samt.  1000 atkvæði eru trúverðugri.

  Varast ber að taka svona skoðanakönnun of hátíðlega.  Þetta er fyrst og fremst skemmtilegur samkvæmisleikur.  Úrslitin  mæla ekki smekk þverskurðar af þjóðfélaginu.  Þau túlka einungis smekk lesenda bloggsíðunnar.  Þeir eru að uppistöðu til karlmenn komnir af léttasta skeiði og nokkrar konur á sama aldri.  

  Takið endilega þátt í könnuninni.  Spurt er um uppáhalds Bítlaplötu.  Ekki bestu Bítlaplötu.  Á þessu er munur.  Pavarotti er betri söngvari en Megas.  Megas er skemmtilegri.   

 

 

 


Afi hótar bónda

  Afi var mikill flakkari.  Alveg til dauðadags. Hann lét gönguerfiðleika ekki aftra sér.  Vegna brjóskeyðingar í mjöðmum var hann skakkur og skældur;  gat ekki rétt úr sér og staulaðist áfram með tvo stafi.  Hann var seigur að snapa far,  hvort heldur sem var til og frá Sauðárkróki,  Svarfaðardal,  Reykjavík eða eitthvert annað.   

  Þegar ég var 7 eða 8 ára var ég í fámennum barnaskóla í Hjaltadal.  Skólastofan var rúmgóð stofa á bóndabæ.  Það hentaði afa.  Hann fékk far með mjólkurbílnum frá Sauðárkróki til skólans.  Þaðan fékk hann far með skólabílnum heim í Hrafnhól.  Þar bjuggum við.

  Eitt sinn í lok skóladags stóðum við krakkarnir og afi úti á hlaði og biðum eftir bílnum. Skyndilega birtist bóndinn á bænum,  gekk að eldri bróður mínum og sakaði hann um að hafa brotið rúðu.  Strákur neitaði sök.  Bóndinn greip um hálsmál hans,  felldi hann á bakið,  settist yfir honum með hnefa á lofti.  Hótaði að berja úr honum játningu.  Afi brá við skjótt;  hóf annan staf sinn á loft og hrópaði:  "Slepptu drengnum eða ég læt stafinn vaða af fullu afli í hausinn á þér!"

  Bóndanum brá.  Hann þaut eins og eldibrandur inn í hús.  Lengi á eftir hældi afi sér af því við hvern sem heyra vildi hvað bóndinn varð hræddur við hann.  Bætti svo við:  "Verst hvað kvikindið var snöggt að flýja.  Ég hefði vilja dúndra í hausinn á honum!

 


Hártískan

  Í dægurlagaheimi er algengt að poppstjörnur veki athygli á sér með sérstakri hárgreiðslu.  Í sumum tilfellum smitast þetta út til almennings og verður almenn tíska.  Stærsta dæmið er þegar Bítlarnir tóku upp á því að greiða hárið niður á enni.  Einnig síðar þegar þeir leyfðu hárinu að vaxa niður á herðar og skiptu í miðju.  Svo voru það pönkararnir sem skörtuðu móhíkanakambi.  Ekki má gleyma "sítt að aftan" á 8-unni. 

  Í upphafi 20. aldar voru tískustraumar í hárgreiðslu.  Að minnsta kosti í Bandaríkjunum.  Sérlega virðist hafa verið vinsælt að koma sér upp töluverðri hárhrúgu hægra megin á kollinum. Eða til beggja hliða. Hér eru sýnishorn:

hár bhár chár dhár ehár fhár ghár hhár i 


Smásaga um fót

  Bænastund er að hefjast.  Bænahringurinn raðar sér í kringum stóra bænaborðið.  Óvænt haltrar ókunnugur gestur inn á gólf.  "Ég er með mislanga fætur," segir hann.  "Getið þið beðið fyrir kraftaverki um að þeir verði jafn langir?"

  "Ekki málið," svarar forstöðumaðurinn. "Leggstu á bakið hér ofan á borðið.  Við græjum þetta."

Sá halti hlýðir.  Forstöðumaðurinn leiðir bæn. Svo sprettur hann á fætur og grípur um fót gestsins,  hristir hann kröftuglega og hrópar:  "Í Jesú-nafni skipa ég þér fótur að lengjast!"

  Þetta endurtekur hann nokkrum sinnum.  Að lokum hrópar hann sigri hrósandi:  "Ég fann fótinn lengjast!  Þú ert heill, félagi."

  Hann hjálpar gestinum að renna sér niður af borðinu.  Þar fellur hann í gólfið en bröltir á fætur og fellur jafnharðan aftur í gólfið.  Það fýkur í hann.  Hann hrópar:  "Helvítis fúskarar!  Þið lengduð vitlausan fót!"

  Forstöðumaðurinn reiðist líka.  Hann hvæsir:  "Það má ekki á milli sjá hvor fóturinn er vitlausari.  Báðir snarvitlausir!"

  Hann grípur um axlir gestsins og dregur hann að útidyrunum.  Gesturinn er á fjórum fótum og spyrnir við.  Hann minnir á kind í réttum sem þráast við að vera dregin í dilk. 

  Forstöðumaðurinn nær að henda honum út á hlað.  Þar sparkar hann kröftulega í rassinn og hrópar:  "Þakkirnar fyrir hjálp okkar eru ekkert nema vanþakklæti.  Nú er munurinn á fótunum sá sami og þykkt gangstéttarhellu.  Þú getur ólað hana á þig og gengið óhaltur."

  Gesturinn fylgir ráðinu.  Það reynist heillaráð. 

 


Samherjasvindlið

Eftir að ég tók virkan þátt í starfsemi Frjálslynda flokksins skipti ég um hest í miðri á;  kúplaði mig út úr pólitískri umræðu.  Hinsvegar brá svo við í gær að vinur minn bað mig um að snara fyrir sig yfir á íslensku yfirlýsingu frá Anfin Olsen,  nánum samstarfsmanni Samherja í Færeyjum.  Þetta á erindi í umræðuna:  Reyndar treysti ég ekki minni lélegu færeysku til að þýða allt rétt. Þú skalt ekki heldur treysta henni.  Ég á líka eftir að umorða þetta almennilega. Ég hef fengið flogakast af minna tilefni.

Hefst þá málsvörn Anfinns:

Ég hef ítrekað sagt frá eignarviðskiptum í félaginu Framherja en útlitið verður stöðugt svartara um þessi viðskipti. Ég og konan eigum 67% hlut í Sp/f Framherja sem er móðurfélag félagsins. Hin 33% eiga Sp/f Framinvest. Í þessu félagi á Samherji 73% og ég og konan 27%. Samanlagður eignarhlutur Samherja í félaginu Framherja er 24%. Ég er forstjórinn og hef fullan ákvörðunarrétt ásamt nefndum í móðurfélaginu og dótturfélögunum sem eru P/F Akraberg, P/F Eysturoy og P/F Regn.

Í sjónvarpsþættinum var vísað til skjala um 16 peningaflutninga til og frá Framherja og Framinvest frá 2010. Allir flutningarnir voru vegna kaupa og sölu á skipum. 2011 var færeyski makrílkvótinn hækkaður úr 85000 tonnum í 150000 tonn. Aðeins eitt uppsjávarfyrirtæki var þá í Færeyjum sem gat tekið á móti makríl til matvinnslu. Vegna makrílstríðsins gátum við ekki landað erlendis. Okkur var nauðugur einn kostur að útvega frystiskip sem gat veitt og verkað eins og móðurskip, svo mest verðmæti fengjust úr þessum stóra makrílkvóta.

Høgaberg

2011 og 2012 Í samstarfi við Samherja gátum við útvegað eitt slíkt skip með hraði. 2011 keyptum við trollarann Geysir frá Katla Seafood sem hafði bækistöðvar í Las Palmas í Kanaríeyjum. Það er dótturfyrirtæki Samherja. Við settum skilyrði fyrir því að Katla Seafood myndi kaupa skipið aftur á sömu upphæð að vertíð lokinni. Þetta var endurtekið 2012. Þá var það systurskipið Alina. Skipin voru formlega kaypt, því þau þurfti að skrásetja í Færeyjum til að geta farið á veiðar. Hluti af áhöfninni var útlendingar. Samið var um að laun þeirra væru gerð upp samkvæmt montøravtaluni (ég held að þetta orð standi fyrir að umreikna) í dönskum krónum. Þrír fjárflutningar voru gerðir samtals upp á 4,9 milljónir króna. Katla Seafót fór frammá að annar kostnaður við skipin báðar vertíðirnar yrði greiddur í dollurum og evrum, til að losna við kostnað vegna gjaldeyrisskipta. Flutningarnir voru gerðir upp í gegnum Framinvest vegna þess að það félag hafði gjaldeyrisreikning til að gjalda Katla Seafood. Framherji gerði svo upp við Framinvest sömu upphæð í dönskum krónum. Gerðir voru upp fjórir fjárflutningar upp á til samans 6,1 milljón dollara og 38,047 evrur.

Fríðborg

2010 samdi Samherji við útgerðarfyrirtækið sem átti rækjuskipið Friðborg um kaup á skipinu. Samherji fór með kaupin í gegnum Framinvest sem er dótturfélag í Færeyjum. Kaupandinn var Katla Seafood á Akureyri, dótturfyrirtæki Samherja. Kaupverðið var millifært í gegnum Framinvest. Þegar allt var upp gert reyndist kaupverðið vera lægra og var mismunurinn endurgreiddur til Katla Seafood á Akureyri.

Akraberg

Sex fjárflutningar voru vegna kaupa P/F Akraberg á trollara frá þýska félaginu DFFU - Deutsche Fischfang Union, dótturfyrirtækis Samherja. Skipinu var breytt til að geta heilfryst slægðan og afhausaðan fisk, uppsjávarfisk og rækjur. Breytingin varð dýrari en reiknað var með. Bankarnir sem höfðu samþykkt að fjármagna kaupin, Realurin og Arion banki, vildu sjá skipið áður en endanlegt lán yrði veitt. Þá þurfti að fá millifjármögnun frá Esja Seafood, dótturfyrirtæki Samherja á Kýpur. Það lán var afgreitt í febrúar 2014, uppá 2,6 milljón evrur. Það var endurgreitt í fernu lagi síðar 2014. Sjötti fjárflutningurinn vegna milligreiðslunnar var í maí 2015. Hann var vegna vaxta og endanlegs uppgjörs vegna lánsins. Þetta var í evrum og var afgreitt í gegnum Framherja sem nú hafði fengið gjaldeyrisreikning. Síðar var gert upp við P/F Akraberg.

  KVF (færeyska sjónvarpið) telur grunsamlegt að ég hafi í útvarpi sagt að kostnaðurinn væri 140-150 milljónir er Akraberg kom til Færeyja þegar hið rétta var að kostnaðurinn varð 160 milljónir. Kaupverðið á Akraberg var 111,8 milljónir. Breytingin kostaði 51,2 milljónir. Lögfræðikostnaður, skráning og fleira var 2,0 milljónir. Það komu upp vandamál með skipið, og útgreiðslur fóru til færeyskrar þjónustu vegna breytinga og umbóta. Þetta skýrir muninn á upphæðinni sem ég gaf upp og endanlegum kostnaði.

Faroe Origin

16. og síðasti fjárflutningurinn sem KVF vísar til er vegna Faroe Origin. Þegar hlutafélagið Faroe Origin var stofnað með því fororði að kaupa hlut af aktivunum frá búnum (ég,veit ekki hvað þetta þýðir. Kannski eitthvasð um þá sem verða virkir í búinu?) frá Faroe Sedafood þá kom Samherji með 25% hlutafjársins. Starfsemin gekk illa. 2015 var hlutafé fært niður í 0. Síðan var nýtt hlutafjárútboð og hlutur Samherja varð 3,5 milljónir. Þá upphæð lagði Framherji til. Það var endurgreitt með einni millifærslu frá Esja Seafood á Kýpur í desember 2015.

Það eru forréttindi að vera í samstarfi við sterkt útlent fyrirtæki. Við höfum starfað með Samherja síðan 1994. Innanhúss viðskipti Samherja eru okkur óviðkomandi. Það er þungt fyrir mig, fjölskyldu mína og okkur öll í Framherja að vera sakaður um þátttöku í ólöglegum og óvanalegum viðskiptum sem ég á enga aðild að.

 


Furðuhlutir

  Fólk er alltaf að fá hugmyndir.  Sérstaklega fá margir hugmyndir um allskonar hluti og matvæli.  Stundum mætti uppfinningarfólkið hafa taumhald á sér í stað þess að hefja framleiðslu á uppfinningunni.  Til að mynda er stundum ástæða til að ráðast í markaðskönnun.  Hún gæti bjargað mörgum frá því að missa aleiguna í stóru gjaldþroti.  Hér má sjá nokkur dæmi sem markaðurinn hafnaði.

  Blátt sýróp var ekki að gera gott mót.  Né heldur augnhár fyrir bíla.  Hvað með gosdrykki með bragði á borð við beikon, hnetusmjör og buffaló-vængi?  Svo var það snilldin að sameina buxur og strigaskó.  Hárgreiða með tönnum og lautarferðarbuxur?  Hvað var þessi að pæla sem ætlaði að slá í gegn með barnapúða sem veldur martröð?  Eða sykurfrauð með pizza-bragði?

blátt syrópaugnhár á aðalljósumgosdrykkir með skrýtnu bragðisameinaðar buxur og skóhárgreiður með tennurbuxur fyrir lautarferðmartraðafígúra fyrir börncandy-flos með pizza-bragði  


Reglur eru reglur

  Stundum á ég erindi í pósthús.  Oftast vegna þess að ég er að senda eitthvað áhugavert út á land.  Landsbyggðin þarf á mörgu að halda.  Ég styð þjónustu við hana.  Enda er ég dreifbýlistútta úr Skagafirði.  Margt þykir mér skrýtið,  svo skilningssljór sem ég er.  Ekki síst þegar eitthvað hefur með tölvur að gera. 

  Þegar pakki er sendur út á land þarf að fylla út í tölvu fylgibréf.  Þar þarf í tvígang að skrá inn póstnúmer sendanda og póstnúmer viðtakanda.  Þegar allt hefur verið skráð samviskusamlega þarf að prenta það út á pappír,  klippa hann niður og líma yfir með þykku límbandi.  Ódýrara og handhægara væri að prenta það út á límmiða.  

  Á dögunum var ég að senda vörur til verslunarkeðju út á landi.  Ég kann kennitölu þess utanbókar.  En í þetta sinn komu elliglöp í veg fyrir að ég myndi kennitöluna.  Ég bað afgreiðslumann um að fletta kennitölunni upp fyrir mig.  Hann neitaði.  Sagði sér vera óheimilt að gefa upp kennitölur.  Það væri brot á persónuvernd. 

  Við hlið hans var tölva sem ég hafði aðgang að til að fylla út fylgibréf.  Sem ég og gerði.  Þetta var spurning um hálfa mínútu eða svo.  Ég spurði hver væri munurinn á því að ég fletti upp fyrir framan hann kennitölu eða hann gerði það.  Svarið var:  Þú ert í rétti til þess en ekki ég. 

  Já,  reglur eru reglur. 


Undarlegt samtal í banka

  Ég var að bruðla með peninga í bankaútibúi.  Það var tuttugu mínútna bið.  Allt í góðu með það.  Enginn var að flýta sér.  Öldruð kona gekk hægum skrefum að gjaldkera.  Hún tilkynnti gjaldkeranum undanbragðalaust hvert erindið var.  "Ég ætla að kaupa peysu hjá þér,"  sagði hún.  Gjaldkerinn svaraði:  "Við seljum ekki peysur.  Þetta er banki."  Konan mælti áður en hún snérist á hæl og gekk burt:  "Já,  ég veit það.  Ég hélt samt að þið selduð peysur." 

peysa


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband