Færsluflokkur: Spil og leikir
12.4.2020 | 09:30
Furðuleg sölubrella
Á föstudaginn bauð 10-11 landsmönnum í kaffi- og kakóveislu. Það gerði fyrirtækið með 2ja dálka x 40 cm auglýsingu í grænum lit í Fréttablaðinu (einkennislit fyrirtækisins). Hvað með það? Vel boðið. Nema hvað. Svo einkennilega vill til að fyrirtækið 10-11 er ekki til. Þetta var vinsæl matvöruverslun. Hún vann sér til frægðar að vera dýrasta búð landsins. Svo breyttist hún í Kvikk og Krambúðina. Þá lækkaði verðið um 25% með einu pennastriki. Svo einfalt og auðvelt var það.
Þetta var hrekkur. Langt frá 1. apríl. Kaffiþyrstur kunningi minn ók til Mosfellsbæjar og Voga á Vatnsleysuströnd. Honum fannst hann vera hafður að fífli. Hvergi var ókeypis kaffi að finna. Reyndar þurfti þetta ekki til að hann væri eins og hafður að fífli. Hann er fífl.
Annað: Rory and The Hurricanes voru stóra nafnið í Liverpool á undan Bítlunum. Miklu munaði að Bítlarnir sömdu sín eigin lög. Góð lög. Bestu lög rokksögunnar. Að auki tefldu Bítlarnir fram tveumur bestu rokksöngvurum dægurlagaheims. Ringo var trommari Hurrycanes. Já, og síðar Bítlanna. Þar veðjaði hann á réttan hest. Mestu skipti að honum þótti Bítlarnir vera miklu fyndnari og skemmtilegri en liðsmnenn Hurrycanes. Að vera í Bítlunumn var eins og að vera í skemmtiþætti Monty Python. Fyndnustu brandarar í heimi á færibandi.
Spil og leikir | Breytt 13.4.2020 kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
16.3.2020 | 00:04
Kvikmyndarumsögn
- Titill: Klovn the Final
- Höfundar og helstu leikarar: Frank Hwam og Casper Cristensen
- Einkunn: ***1/2
Dönsku sjónvarpsþættirnir Klovn eru snilld. Húmorinn er grófur, ferskur, ófyrirséður og bráðfyndinn. 2010 kom á markað kvikmyndin Klown. Hún var sprengja. Í henni var gengið lengra í groddadagangi og húmorinn tekinn fram á ystu nöf. Vinsældum hennar var fylgt eftir með myndinni Klown Forever 2015. Henni háði að væntingar áhorfandans voru miklar. Jafnframt var hann orðinn brynjaður fyrir senum sem annars hefðu gengið fram af honum. Engu að síður slagaði hún upp í fyrri myndina á öllum sviðum.
Nú er verið að sýna þriðju myndina, Klovn the Final. Hún er sögð vera lokamyndin í þríleiknum. Það er skynsamleg niðurstaða. Hún stendur fyrri myndunum örlítið að baki. Samt er hún bráðskemmtileg. Salurinn hló oft og mikið. Líka ég. Hún hefur sérstakt gildi fyrir Íslendinga. Söguþráðurinn snýst um ferðlag kumpánanna til Íslands. Ef ekki væri vegna kórona-vírusins væri myndin góð auglýsing fyrir Íslands. Það getur svo sem skilað sér síðar.
Einhverra hluta vegna hefur myndin verið illa auglýst hérlendis. Kannski gerir það ekki til vegna samkomubannsins. Þá er bara að ná henni í sjónvarpi eða einhverjum netveitum.
Vegna meðfylgjandi sýnishorna skal tekið fram að í íslenskum kvikmyndahúsum er myndin textuð á íslensku.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.3.2020 | 00:12
Bestu trommuleikarar sögunnar
Kanadíska tímaritið Drumeo hefur tekið saman áhugaverðan lista yfir bestu trommuleikara allra tíma. Þeim er raðað í sæti. Eflaust geta verið skiptar skoðanir um sætaröðina. En tæplega um þá sem eru á listanum.
Svona listi er ekki heilagur sannleikur. Til að mynda einblínir hann á engilsaxneska trommuleikara. Þetta er fyrst og fremst skemmtilegur samkvæmisleikur. Í leiðinni vekur hann athygli á trommuleikurum sem áhugasamir eiga mögulega eftir að kynna sér. Þessir raðast í efstu sætin:
1 Buddy Rich
Hann er þekktur fyrir kraft, orku, ótrúlegan hraða, fullkomna tækni og ýmsar brellur. Auk þess að vera hljómsveitarstjóri eigin hljómsveitar þá spilaði hann með bandarískum samlöndum sínum, svo sem Louis Armstrong, Ellu Fitzgerald, Charlie Parker, Frank Sinatra, Count Basie, Harry James og mörgum fleiri.
2 Neil Peart
Kanadískur trommari prog-hljómsveitarinnar Rush. Trommusóló hans voru jafnan hápunktur á hljómleikum tríósins.
3 John Bonham
Enskur trommuleikari Led Zeppelin. Besti rokktrommuleikarinn. Hann var þó undir miklum áhrifum frá djasstrommuleikurum á borð við Buddy Rich, Max Roach og Elvin Jones. Aðalsmerki hans var tilfinningahiti, "grúv" og hraður bassatrommusláttur með einu fótstigi.
4 Vinnie Colaiuta
Bandarískt kameljón. Hóf feril með Frank Zappa. Hefur síðan spilað með svo ólíkum tónlistarmönnum sem Noruh Jones, Megadeath, Sting, Steely Dan, Bill Evans, Ray Charles, Chick Corea, Joni Mitchelle og mörgum fleiri.
5 Tony Williams
Bandaríkjamaður sem vakti 17 ára gamall athygli í hljómsveit Miles Davis. Hann spilaði af tilraunagleði og var einn af frumkvöðlum í að bræða saman tónlistarstíla. Auk þess að halda úti eigin tríói þá spilaði hann með Sonny Rollins, Herbie Hancock, Ron Carter, Stanley Clarke, Chet Baker, Winton Marsalis og Eric Dolphy.
6 Steve Gadd
Bandarískur djassisti. Hefur spilað með Chick Corea, Jaco Pastorius, Steely Dan, Steve Khan, Paul Simon, Paul McCartney, Frank Sinatra og Weather Report.
7 Ringo Starr
Breskur Bítill. Hann spilaði ólíkt því sem áður þekktist. Hann hlóð einstaklega vel undir tónlistina og gerði hana þannig að sterku vörumerki.
8 Billy Cobham
Fæddur í Panama en flutti á barnsaldri til Bandaríkjanna. Á stóran þátt í mótun nútíma trommuleiks. Var frumkvöðull í að nota af árásargjörnum krafti tvær bassatrommur og spila bræðing (fusion).
9 Max Roach
Bandarískur djassisti. Spilaði meðal annars með Dizzy Gillespie. Miles Davis, Sonny Rollins, Duke Ellington, Chet Baker, Clifford Brown og Charlie Parker.
10 Stewart Copeland
Fæddur í Bandaríkjunum en fjölskyldan flutti til Mið-Austurlanda þegar hann var aðeins nokkurra mánaða. 12 ára hóf hann trommunám í Englandi. Hann er þekktur fyrir reggískotinn trommuleik með breska tríóinu The Police.
Af ofantöldum trommurum eru á lífi aðeins Vinnie Colaiuta, Steve Gadd, Ringo Starr, Billy Cobham og Stewart Copeland.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
27.1.2020 | 00:37
Hvaða Bítlar voru nánastir?
Svarið við spurningunni er ekki augljóst í fljótu bragði. Bítlarnir voru allir afar nánir lengst af. Þeir voru bestu vinir hvers annars. Hnífur gekk ekki á milli þeirra. Þeir heldu hópinn í frítímum; héngu saman öllum tímum. Á hljómleikaferðum - eftir að þeir slógu í gegn - fengu þeir sitthvert hótelherbergið en söfnuðust alltaf saman í eitthvert eitt herbergið. Þar var mikið grínast og mikið hlegið.
1957 hélt þáverandi hljómsveit Johns Lennons, The Quarrymen, hljómleika í Liverpool. Hann var 16 ára. Paul McCartney var nýorðinn 15 ára. Hann heilsaði upp á John og spilaði fyrir hann nokkur lög. John hreifst af og bauð honum í hljómsveitina.
Þeir smullu saman; urðu samloka. Hófu þegar að semja saman lög og texta. Þeir vörðu öllum tímum saman. Ýmist við að semja eða til að hlusta á plötur. Þeir voru mestu aðdáendur og fyrirmynd hvors annars. Áreiðanlega taldi Paul þá vera nánasta. Sennilega John líka.
Áður en Paul gekk í The Quarrymen var besti vinur hans George Harrison. Hann var ári yngri og í sama skóla. Paul suðaði í John um að fá George í hljómsveitina. Lengi vel án árangurs. George fékk þó að djamma af og til með. Þeir John kynntust, urðu miklir mátar og hann var fullráðinn í hljómsveitina vorið 1958.
Innkoma Pauls og George kallaði á mannabreytingar. 1962 gekk Ringo Starr í hljómsveitina. Þá hét hún The Beatles.
Ringo yfirgaf vinsælustu þáverandi hljómsveit Liverpool er hann gekk til liðs við Bítlana. Þetta var áður en þeir urðu þekktir og vinsælir. Ringó elskaði að umgangast þá og þeir elskuðu glaðværð hans, húmor og trommuleik.
Af Bítlunum áttu John og Paul mest saman að sælda. Þeir sömdu og sungu söngvana, útsettu tónlistina og réðu ferðinni. Paul er stjórnsamur, ofvirkur og óþolinmóður. Það pirraði George og Ringo er á leið og stjórnsemi Pauls óx. Hann vildi semja gítarsóló George og átti til að spila sjálfur á trommurnar. 1968 gekk Ringo á fund Johns og tilkynnti uppsögn. Hann upplifði sig utanveltu. Það tók John tvær vikur að dekstra hann aftur í bandið.
Vinátta getur birst í örfínum smáatriðum. Á myndum standa Bítlarnir jafnan þétt saman. Iðulega snertast þeir með höndunum. Þeir eru svo miklir og nánir vinir að þeir gefa hver öðrum ekki persónulegt rými. Persónulega rýmið nær aðeins yfir hljómsveitina í heild. Algengast er að John og George séu hlið við hlið. Svo sem undantekningar þar á. En við bætist að þegar Bítlarnir ferðuðust þá sátu John og George alltaf saman, hvort sem var í flugvél, lest eða bíl. Er Bítlarnir gistu í 2ja manna hótelherbergjum þá deildu John og George alltaf saman herbergi. Eftir að Bítlarnir hættu voru John og George í mestum samskiptum. Meðal annars spilaði George á plötu Lennons Imagine. Hann lýsti yfir löngun til að þeir John myndu stofna nýja hljómsveit og svo framvegis.
Spil og leikir | Breytt 10.10.2020 kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.1.2020 | 22:52
Dauðateygjur sekkjapípunnar
Hljóðfærið sekkjapípa á sér langa og flókna sögu. Hún nær aftur um aldir. Í dag er hún einskonar þjóðarhljóðfæri Skota. Skotar eru um hálf sjötta milljón. Aðeins sex þúsund þeirra kann að spila á sekkjapípu. Þeim fækkar hratt. Svo hratt að reiknað hefur verið út að eftir örfáa áratugi heyri sekkjapípan sögunni til. Til að viðhalda þekkingu á sekkjapípuspili þurfi 350 þúsund manns að kunna á hljóðfærið og kenna komandi kynslóðum á það.
Skotar geta tekið Grænlendinga sér til fyrirmyndar. Fyrir nokkrum áratugum kunni aðeins einn Grænlendingur grænlenska trommudansinn. Hann var sendur þvers og kruss um Grænland til að endurvekja trommudansinn. Með einstaklega góðum árangri. Áhugi grænlenskra barna var til staðar. Í dag blómstrar grænlenski trommudansinn.
Spil og leikir | Breytt 23.1.2020 kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
17.1.2020 | 22:50
EazyJet um Ísland og Íslendinga
Á dögunum fór ég á flandur með ensku flugfélagi, EazyJet. Skrapp til Edinborgar í Skotlandi. Skömmu síðar aftur til Íslands.
Í sætisvasa fyrir framan mig í flugvélinni fann ég bækling prentaðan í lit á pappír. Yfirskrift hans er EazyJet Traveller. Þar má finna fróðleik um þjónustu flugfélagsins. Líka auglýsingu um gott verð á skóm í tiltekinni verslun.
Skemmtilegasta lesefnið er tveggja blaðsíðna viðtal við íslenskan uppistandara. Ara Eldjárn. Af framsetningu þess má ráða að Ari sé vinsæll og virtur uppistandari í Bretlandi. Reyndar veit ég að svo er.
Í viðtalinu dregur hann upp spaugilega - en góðlátlega - mynd af Íslendingum. Hárfín og bráðfyndin kímnigáfan hittir glæsilega í mark. Stöngin inn með látum!
Gaman var að sjá hundruð flugfarþega frá öllum heimshornum lesa um Ara - og vita að mörgum sinnum fleiri eigi eftir að gera það.
Í sama bæklingi er grein sem ber (á ensku) yfirskriftina "3 topp húðflúrstofur í Reykjavík". Þar eru taldar upp nokkrar stofur og lýsing á þeim. Þessar stofur eru:
1. Black kross
2. Apollo ink
3. Reykjavik ink
Blaðamaður EasyJet hlýtur að hafa reynslu af þessum stofum. Einnig fleiri reykvískum stofum fyrst að hann getur raðað upp í toppsæti.
Íslenskir húðflúrarar eru þeir bestu í heimi. Ég skrifa af reynslu til margra ára. Minn frábæri húðflúrari er Svanur Guðrúnarson í Lifandi List tattoo studio. Hann er ekki á listanum yfir bestu reykvísku stofur vegna þess að stofan hans er í Hafnarfirði.
Spil og leikir | Breytt 19.1.2020 kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.1.2020 | 00:27
Breskar sígarettur
Í nýlegri dvöl minni í Skotlandi vakti athygli að allt þarlent reykingafólk virtist reykja sömu sígarettutegund. Og það tegund sem ég kannaðist ekki við. Eðlislæg forvitni var vakin. Ég gerðist svo djarfur að spyrja reykingamann út í málið. Þá var ég upplýstur um að í Bretlandi séu allir sígarettupakkar alveg eins. Það eru lög. Furðulög. Rökin eru þau að ef að fólk veit ekki hvort að það er að reykja Camel eða Salem þá hættir það að reykja og maular gulrætur í staðinn.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.1.2020 | 00:46
Frásögn bresks blaðs af íslenskum jólum
Hátíð ljóss og friðar, jólunum, varði ég í Skotlandi. Í góðu yfirlæti. Í Bretlandseyjum er gefið út götublað að nafni Daily Mirror. Það er frekar lélegt blað. En prentað á ágætan pappír. Þannig lagað.
Á aðfangadegi birti það grein undir fyrirsögninni "Jólasveinasnakk" (Santa´s snack). Þar segir:
"Jólin á Íslandi spanna 26 daga. Þar af telja 13 jólasveinar, svo og tröll sem ofan koma úr fjöllunum og gefa gjafir. Í þakklætisskini færa börnin þeim laufabrauð. Það smakkast eins og stökkar vöfflur."
Spil og leikir | Breytt 18.1.2020 kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.1.2020 | 00:39
Ósvífin börn gerðu hróp að gömlum manni
Ég fagnaði jólunum í Edinborg í Skotlandi. Tók hvorki með mér tölvu né síma. Var bara í algjörri hvíld. Þannig hleður maður batteríin. Verra var að illa uppalin börn gerðu hróp að mér með uppnefnum. Og það í tvígang. Í bæði skiptin var um að ræða á að giska fimm ára stelpur. Í fyrra tilfellinu var ég á gangi í tívolí-garði. Skimaði þar eftir indverskum mat. Þá vatt sér að mér frekjuleg stelpa sem togaði í ermina á mér og sagði á ensku:
"Jólasveinn, komdu í heimsókn til okkar!"
Það lá við að ég gæfi barninu "fuck you" merki. En stillti mig. Veifaði bara í staðinn.
Næst var ég staddur á matsölustað. Fékk mér djúpsteiktan þorsk. Á næsta borði sat karl ásamt börnum. Hann var með bendingar á eitt barnið og hló dátt. Ég vissi ekki hvað það átti að þýða. Svo yfirgaf hópurinn staðinn. Þá snéri sér að mér stelpa sem hrópaði upp í opið geð á mér hátt og snjallt á ensku: "Hóhóhó! Gleðileg jól, jólasveinn!"
Spil og leikir | Breytt 4.1.2020 kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
22.12.2019 | 14:27
Gleðilegar vetrarsólstöður, jól og áramót!
Kannski fæ ég kökusneið;
komin eru jólin!
Nú er allt á niðurleið
nema blessuð sólin.
Heims um ból höldumn við jól;
heiðingjar, kristnir og Tjallar.
Uppi á stól stendur í kjól
stuttklipptur prestur og trallar.
Spil og leikir | Breytt 31.12.2019 kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)