Færsluflokkur: Spil og leikir

Breskir strompar

  Á dögunum þurfti ég að vera heimavið í nokkra daga.  Til að stytta mér stundir tók ég upp á því að horfa á sjónvarp úr hófi fram.  Meðal þess sem fyrir augu bar var breskur raunveruleikaþáttur,  Love island.  Hópi glæsilegra ungmenna á þrítugsaldri er komið fyrir i reisulegri villu á eyju.  Þar er dekrað við hópinn í mat og drykk.  Dömurnar spranga um á bikiní og drengirnir á sundskýlu.  Enda nýta þau sér sundlaugina.

  Leikurinn gengur út á að fólkið pari sig.  Þeim sem mistekst er sparkað af eyjunni.  Aðrir koma í staðinn.  Þeir þurfa að sprengja upp parasamband til að mynda nýtt par.  Nóg er að horfa á einn þátt.  Þeir eru allir eins.  Fátt ber til tíðinda.

  Eitt vekur athygli umfram annað.  Það er hvað hátt hlutfall þátttakenda keðjureykir.  Ég kannaði málið.  Í ljós kom að fjórðungur Breta reykir.  Til samanburðar eru Íslendingar ekki að standa sig.  Aðeins sjöundi hver reykir. 

lennonmccartneyharrisonringo starr

   


Tjónaskýrslur

 Starfsfólk tryggingafélaga heyrir stundum einkennilegar skýringar á tjónum.  Sumar sprenghlægilegar - þó að tjón séu dapurleg fyrirbæri að öllu jafna.  Hér eru dæmi:

  "Ég var með kalkún í ofninum.  Ég ætlaði að pensla hann.  Þegar ég opnaði ofninn var kalkúninn þyngri en ég hélt.  Hann flaug út á gólf.  Sem betur fer var ég búin að ryksuga.  Ég setti hann aftur í ofninn og kláraði matreiðsluna.  Þetta var góð máltíð en teppið er ónýtt."

  "Ég var búinn að keyra bílinn minn í 40 ár þegar ég sofnaði fram á stýrið."

  "Ég gaf syni mínum 75 þúsund kall í jólagjöf sem ég henti í ógáti í ruslatunnuna."

  "Ósýnilegur bíll kom út úr buskanum,  skall á minn bíl og hvarf."

  "Kærastan kyssti mig,  ég missti stjórn á bílnum og vaknaði á sjúkrahúsi."

  "Ég hélt að bílrúðan væri niðri en komst að öðru þegar ég rak hnefann út um rúðuna."

  "Þegar ég kom heim þá keyrði ég inn í vitlaust hús og lenti í árekstri við tré sem ég á ekki."

 


Kenning Gudda

  Guddi keðjureykti.  Sennilega áttu reykingarnar einhvern þátt í miklum hóstaköstum sem hann fékk í tíma og ótíma.  Oftar í ótíma.

  Guddi slóst í hóp með systkinum mínum er þau skelltu sér á dansleik í Varmahlíð.  Er dansleik lauk sýndu gestir á sér fararsnið.  Þar á meðal Guddi og systkinin.  Líka piltur sem sýndi systir minni áhuga.  Gudda þótti hann full ágengur.  Hann snöggreiddist,  greip þéttingsfast um hálsmálið á kauða og reiddi hnefann til höggs.  Í sama mund fékk hann langt og heiftarlegt hóstakast.  Hnefinn lak niður.  En Guddi sleppti ekki takinu á hálsmálinu.  Né heldur rauf hann augnsambandið.  Hann starði heiftúðlegum augum á drenginn á meðan hann hann hóstaði og hóstaði.  Gaurinn sýndi engin viðbrögð.  Starði bara í forundran á Gudda.  Hann var töluvert stærri og kraftalegri en Guddi.  

  Er hóstakastinu linnti var Guddi búinn á því.  Hann sleppti takinu og bað systkinin um eitthvað að drekka.  Hann yrði að væta kverkarnar eftir svona hóstakast.

  Guddi var alltaf eldfljótur til svars.  Hann, ég og pabbi vorum að stinga út úr fjárhúsum.  Guddi lét reykingar sinar ekki trufla vinnuna.  Hann hélt sígarettum á milli vara og hafði hendur lausar til athafna. 

  Bróðir minn,  4ra eða 5 ára,  spurði Gudda:  "Af hverju reykir þú svona mikið?"

  Guddi svaraði þegar í stað:  "Þeir sem vinna mikið þurfa að reykja mikið!"

   


Guddi í áflogum við mannýg naut

  Guddi hét maður.  Hann varð heimilisvinur foreldra minna á Hrafnhóli í Hjaltadal.  Kom og dvaldi þar dögum saman.  Ég var fluttur að heiman.  Hitti hann aðeins einu sinni er ég heimsótti foreldrana.

  Þegar ég hitti hann þá sagði hann mér margar grobbsögur af sér.  Þær líktust sögum Munchausens.  Ein var af því þegar nautahjörð réðist á hann.  Nautin komu hlaupandi í halarófu að honum með hausinn undir sig.  Hátt í tuttugu skepnur.  Hraðinn á þeim var svo mikill að Guddi sá að vonlaust væri að flýja.  Eina ráðið var að standa gleiður og takast á við nautin.  Hann greip um hornin á þeim og snéri svo hratt upp á þau að kvikindin urðu afvelta.  Hann snéri þeim til skiptis til vinstri og hægri.  Þegar atinu lauk var hjörðin í tveimur hrúgum.  Svo dösuð var hún að Guddi gat gengið í rólegheitum á braut.  En nokkuð móður.

  Hann sagðist hafa sagt fólki í - eða frá - Keflavík frá þessu.  Það hefði ekki trúað sér.  Ég svaraði því til að það væri afar dónalegt að rengja frásagnir fólks.  Guddi sagði:  "Þú ert góður maður.  Ég ætla að gefa þér skyrtuna mína."  Svo reif hann síg úr skyrtunni og rétti að mér.  Ég sagðist eiga alltof margar skyrtur og bað hann um að fara aftur í skyrtuna sína.  Enda dálítið kjánalegt að sjá hann sitja beran að ofan við eldhúsborðið.  

 

naut      

 


Afi tískufrumkvöðull

  Undir lok sexunnar (sjöunda áratugarins) datt afa í hug gott sparnaðarráð.  Í stað þess að fara til hárskera á Sauðárkróki - með tilheyrandi kostnaði - gæti ég klippt hann.  Ég var um það bil 12 - 13 ára.  Uppskriftin var sú að renna greiðu um hársvörð hans og klippa hárin sem stóðu upp úr greiðunni.  

  Til að gera þetta skemmtilegra þá brá ég á leik.  Ég fylgdi uppskriftinni að undanskildu því að ég lét afa safna skotti neðst í hnakkanum.  Afi vissi aldrei af þessu.  Lyftigeta handa hans náði ekki til hnakkans.  

  Klippingin vakti undrun og kátínu hvert sem afi fór.  Foreldrar mínir stóðu í þeirri trú að afa þætti þetta flott.  Sennilega laug ég því í þau.  Einhverra hluta vegna nefndi enginn þetta við afa.  Mér er minnisstætt er mágkona pabba tók mömmu afsíðis og spurði hvaða uppátæki þetta væri hjá afa að vera með skott.  Þær voru sammála um að þetta væri furðulegt uppátæki hjá tengdapabba þeirra en svo sem ekkert furðulegra en margt annað í hans fari.  

  Svo skemmtilega vildi til að um og uppúr 1980 komst svona skott í tísku.  Bæði hérlendis og erlendis.  Afi var fyrstur.  Hann var frumkvöðullinn.

skott í hnakka askott í hnakka bskott í hnakka  


Af hverju talar fólk um sig í þriðju persónu?

  Ég var að horfa á sjónvarpsþátt með bandarískum réttarsálfræðingi, Dr. Phil.  Hann talar ítrekað um sig í þriðju persónu.  Þetta er ósjálfráð aðferð til að upphefja sig.  Skrýtið að sálfræðingur átti sig ekki á þessu.  Hann hefur þó upplýst hvað liggur að baki.  Pabbi hans var sjálfhverfur alkahólisti.  Phil þráði viðurkenningu frá honum.  Þó ekki væri nema smá hrós.  Það kom aldrei.  Honum gekk vel í skóla.  En pabbinn lét það sig engu skipta.  Phil fékk aldrei neitt jákvætt frá honum.

  Kunningi minn átti erfiða æsku.  Ólst upp við ofbeldi.  Hann talar oftast um sig í þriðju persónu.  Og alltaf þegar hann hælir sér af einhverju.  Hann segir:  "Bjössi eldaði frábæran rétt í gær a la Björn"  og "Bjössi veit nú margt um þetta!

  Annan þekki ég sem bætir nafni sínu alltaf við þegar hann vitnar í samtöl sín.  Hann lætur viðmælandann hefja setningar á ávarpinu "Ólafur minn..." eða:  "Ég get sagt þér,  Ólafur minn..."

     


Undarlegur leigjandi

  Nonni kunningi minn er á áttræðisaldri.  Hann leigir út 3 herbergi í íbúð sinni.  Sjálfur er hann í því 4ða. 

  Eitt sinn vantaði hann leigjanda.  Í auglýsingu í Fréttablaðinu óskaði fertugur Þjóðverji eftir herbergi.  Nonni lærði þýsku á unglingsárum.  Honum þótti spennandi að rifja hana upp.

  Honum til vonbrigða vildi sá þýski lítið með þýsku hafa.  Sagðist þess í stað þurfa að æfa sig í ensku.  Í Þýskalandi biði hans starf sem túlkur. 

  Fljótlega varð Nonni var við rýrnun í ísskáp sínum og brauðskúffu.  Hann leit framhjá því.  Þetta var ekki fjárhagstjón sem skipti máli.  Verra þótti honum þegar lækkaði í áfengisflöskum hans og leifarnar voru með vatnsbragði.  Fremur en gera veður út af þessu þá tók hann til bragðs að geyma áfengið úti í bíl.  

  Einn daginn var uppáhaldsjakki Nonna horfinn.  Þá gerði hann nokkuð sem hann annars gerði aldrei.  Hann notaði aukalykil til að kíkja inn í herbergi Þjóðverjans.  Þar var jakkinn á stólbaki.  Hann lét jakkann vera.  

  Seint um kvöldið skilaði leigjandinn sér í hús.  Nonni spurði hvort hann hefði séð jakkann.  Jú,  Þjóðverjinn kvaðst hafa fengið hann lánaðan.  Sagðist hafa þurft á áríðandi fund og ekki átt nógu fínan jakka sjálfur.  Svo snaraðist hann inn í herbergi og kom aftur fram í jakkanum.  Saman dáðust þeir Nonni að fegurð jakkans.  Skyndilega sagðist kauði þurfa að skjótast út.  Hann var enn í jakkanum og skilaði sér ekki fyrr en um miðja nótt.  

  Næsta dag var leigjandinn enn í jakkanum.  Nonni bað hann um að skila flíkinni.  Það var auðsótt. 

  Upp frá þessu tók Þjóðverjinn að ganga í fleiri fötum af Nonna.  Þegar hann gerði athugasemd við þetta þá útskýrði kauði að sínar skyrtur væru óhreinar,  einu almennilegu buxurnar hefðu rifnað og svo framvegis.  Nonni þurfti ávalt að biðja hann um að skila fötunum.  Annars gerði hann það ekki.

   Svo gerðist það að Nonni brá sér á skemmtistað.  Þar hitti hann konu.  Er vangadansi og dansleik lauk fylgdi hún honum heim.  Hann keypti nokkra bjóra í nesti.  Þar sem þau sátu í stofunni, keluðu og sötruðu veigarnar vaknaði leigjandinn við tal þeirra.  Hann kom fram og þáði bjór.  Síðan rakti hann fyrir konunni dapurlega ævi sína.  Foreldrar hans voru myrtir af nasistum.  Hann ólst upp við illan kost á munaðarleysingjahæli.  Minningarnar voru svo sárar að hann brast í grát.  Loks henti hann sér hágrátandi í faðm konunnar.  Hún reyndi hvað hún gat að róa hann og hugga.  

  Nonni brá sér á salerni.  Er hann snéri til baka voru konan og leigjandinn horfin.  Hann bankaði á dyr leiguherbergisins og kallaði.  Þjóðverjinn kallaði til baka að þau væru farin að sofa.  Bauð svo góða nótt.

  Það fauk í Nonna.  Hann rak leigjandann daginn eftir.  Konan bauð honum að flytja til sín til bráðabirgða.  Lauk þar með samneyti karlanna.

  Ári síðar hittust þeir á gangi.  Þjóðverjinn leiddi frænku hans.  Hún upplýsti að þau væru trúlofuð.  Nonni hringdi í foreldra hennar.  Sagði þeim frá kynnum sínum af manninnum.  Fékk hann þá að vita að tengdasonurinn væri ekki þýskur heldur Íslendingur í húð og hár.  En ekki hafði farið framhjá þeim að hann væri ósannsögull. 

 


Smásaga um mann

  Bjössi gengur léttfættur niður Skólavörðustíg.  Á miðri götunni mætir hann manni.  Þeir heilsast ekki.  Þeir þekkjast ekki.  Engir aðrir eru á ferli.  Ekki þarna.  Samt er klukkan 5 að morgni.  

  Bjössi heldur áfram för.  Kominn niður í Austurstræti rekst hann á vinnufélaga.  Áreksturinn er svo harkalega að þeir falla í götuna og kútveltast þar í góða stund.  Eftir að hafa rúllað fram og til baka bera þeir kennsl á hvorn annan.  Þeir brölta á fætur, faðmast og knúsast.

  Í þann mund sem ástandið er að verða erótískt spyr Bjössi:  "Hvað er að frétta?"   Vinnufélaginn lætur ekki koma að tómum kofa hjá sér.  Hann romsar óðamála: "Húsasmiðjan er með afslátt á blómum.  Allt upp í 50%.  Verkfæralagerinn er með opið til klukkan 5 á sunnudögum.  Í útlöndum var maður tekinn af lífi af því að allir voru orðnir leiðir á honum.  Íslendingar þurfa að skapa 60 þúsund ný störf næstu 30 árin.  Þjóðverjar eru farnir að kaupa hús í Færeyjum.  Einn keypti 3 hús á einu bretti.  Bítillinn og barnagælan Paul McCartney bregst hinn versti við ef einhver kallar Heather stjúpdóttur hans.  Þá skipar hann höstuglega að hún sé kölluð dóttir hans.  Hún sé jafn mikil dóttir hans og þær sem hann hefur eignast í hjónabandi.  Hann ættleiddi hana er hann tók saman við mömmu hennar,  Lindu.  Atvinnuleysi á Íslandi fer lækkandi.  Skiptar skoðanir eru á vindorkurafmagni.  Hafrannsóknarstofa leggur til minni þorskafla.  Minni þorskafli var upphaf kvótakerfisins á níunda ártugnum.  Sælgætisgerðin Nói Síríus er ósátt við að yfirvöld mismuni samkeppnisstöðu erlendra og innlendra framleiðenda með ofurtollum á hráefni.   EZ túpressan er þarfaþing á öllum heimilum.  Hún fullnýtir allt innihald túpu,  hvort sem er kaviar,  tannkrem, olíulitir eða annað. Fyrirhugað er slitlag á Dettifossveg.  Tónlistarmaðurinn Benni Hemm Hemm er frá Hólum í Hjaltadal.  John Lennon var ekki ættrækinn.  Enda ekki alinn upp af foreldrum sínum heldur kuldalegri frænku.  Frænkunni gaf hann höll.  Líka systrum sínum tveimur.  Í höllinni bjuggu systurnar ásamt fjárhaldsmanni og fleirum.  Þegar John Lennon var myrtur gerði ekkjan,  Yoko Ono,   sér lítið fyrir og sparkaði systrunum og liðinu í kringum þær út úr húsinu.  Bensínsölu í Verslun Haraldar Júl hefur verið hætt á Sauðárkróki.  Nasdaq vísitalan lækkaði um hálft prósent í gær."  

  Þegar hér er komið sögu bugast Bjössi undir tíðindunum.  Hann brestur í grát með miklum hljóðum.  Vinnufélaginn fattar strax að staðan er sorgleg.  Hann brestur einnig í grát og grætur miklu hærra en Bjössi.  Fær að auki blóðnasir.  Þeir ganga svo í sitthvora áttina án þess að kveðjast.  Hávær grátur þeirra bergmálar um næstu götur og vekur útlendinga í nálægum hótelum.     

grátkall              


Dæmalausir fordómar

  Ég veit ekki hvort ég fari rétt með orð Andreu Jónsdóttur;  hún sagði eitthvað á þá leið að fordómar væru í lagi en ekki miklir fordómar.  Allir hafa fordóma.  Ég hef fordóma gegn skallapoppi,  harmónikkumúsík,  kórsöng og ýmsu öðru músíktengdu.  Ég hugsa til þess með hryllingi að fara á elliheimili eftir 3 ár og sitja þar undir sömu músík og vistmenn þess í dag.  Ekkert Slayer.  Ekkert Dead Kennedys.  Ekkert Pantera.  Ekki einu sinni Skálmöld né Sólstafir. 

  Á elliheimilinu get ég væntanlega flúið inn á mitt herbergi og blastað í heyrnartólum Sepultura,  Mínusi og I Adapt.  Málið er að hæg líkamsstarfsemi aldraðra harmónerar ekki við hart og hratt rokk.      

  Verri eru fordómar gegn hörundslit, menningarmun, hárlit og appelsínugulum sjálfbrúnkulit.  

  Alltaf er gott að við sljóir hvítir eldri karlar fái olnbogaörskot og séu vaktir upp af værukærum svefni.  Ritskoðun á rasisma er hið besta mál.  Sérstaklega þegar hún beinist gegn styttum.  Þær eru út í hött.  Kannski.  Nú hefur gríni Fawlty Towers verið úthýst af netveitum ásamst Gone with the Wind (Á hvervandi hveli). 

 


Svívirðilegur áróður gegn Íslandi

  Á Norðurlöndunum er gríðarmikill áhugi fyrir því að sækja Ísland heim.  Ástæðurnar eru margar.  Þar á meðal að íslenska krónan er lágt skráð.  Einnig að Íslendingar hafa staðið sig sérlega vel í baráttunni gegn kórónaveiruna.  Þar að auki þykir íslensk tónlist ævintýraleg og flott,  sem og íslenskar kvikmyndir og sjónvarpsþættir.

  Ekki eru allir sáttir við þetta.  Norska dagblaðið VG hvetur fólk til að heimsækja EKKI Ísland.  Bent er á að Ísland þyki svalt og íbúarnir ennþá svalari.  Vandamálið sé yfirþyrmandi ferðamannafjöldi:  Sex ferðmenn á móti hverjum einum Íslendingi og það sé eins og allir ætli í Bláa lónið á sama tíma og þú.

  VG segir að til sé vænni valkostur.  Þar séu reyndar hvorki jöklar né eldfjöll.  Hinsvegar öðlast fólk þar sálarró og frið í afskekktum óspilltum sjávarþorpum og fordómaleysi. 

  Staðurinn sé óuppgötvaður eyjaklasi sem svo heppilega vill til að er landfræðilega nær Noregi en Ísland.  Hann heiti Færeyjar.  

Færeysk eggjatýnsla 

 

 

  

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.