Færsluflokkur: Spil og leikir
15.12.2019 | 23:07
Sýnishorn úr bráðfyndinni bók
Bókin heitir "Hann hefur engu gleymt ... nema textunum!" Gamansögur úr íslenska tónlistarheiminum. Guðjón Ingi Eiríksson safnaði sögunum saman úr ýmsum áttum og skráði. Þær eru eins fjölbreyttar og þær eru margar. Í formála segir meðal annars: "Farið er yfir holt og hæðir og beygjur teknar - sumar ansi krappar - með óteljandi hliðarsporum yfir drullupytti og aðrar vegleysur."
Hér eru dæmi:
Eftir að hljómsveitin Upplyfting hafði verið að spila á dansleik í Miðgarði fór Kristján Björn Snorrason, harmóníkuleikari hennar, út baka til og sá þar ungan sveitapilt, sem greinilega hafði skemmt sér fullvel þá um nóttina, liggja á grúfu úti undir vegg.
"Hvern andskotann ertu að gera þarna?" spurði Kristján Björn.
Eitthvað lífsmark var greinilega með pilti sem svaraði þvoglumæltur:
"Ég er að rannsaka íslenskan jarðveg."
*
Skúli Ágústsson, bóndi í Auðholti og Birtingaholti, en lengst af verslunarstjóri hjá Sláturfélagi Suðurlands í Reykjavík, var góður bassi og söng lengi með Karlakór Reykjavíkur.
Á efri árum Skúla fékk hann eitt sinn boð á árshátíð kórsins. Hann var þá hættur í kórnum og svaraði boðinu með eftirfarandi vísu:
Ég held ég láti hófið bíða,
mér hentar ekki þvílíkt rall.
Hættur að drekka, dansa og ríða.
Hvern djöfulinn á ég að gera á ball?
*
Magnús Þór Sigmundsson söng:
"Eru álfar kannski menn?"
Eitthvað var um að þetta tæki breytingum og yrði:
"Eru álfar danskir menn?"
*
Óskar Pétursson var gestur á hljómleikum Þuríðar Sigurðardóttur og fór að vanda á kostum. Þau spjölluðu og grínuðust heilmikið á milli laga og meðal annars kom Jesú Kristur til tals. Þá sagði Óskar:
"Ég skil ekkert í mönnum að kalla það kraftaverk þegar hann breytti vatni í vín, hérna á sínum tíma. Heima í Skagafirði kallast þetta nú bara að brugga landa!"
Spil og leikir | Breytt 16.12.2019 kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.12.2019 | 07:37
Elífðarunglingar
Flestir fagna því að eldast; að vaxa upp úr galgopalegu útliti ungrar manneskju. Öðlast þess í stað útlit virðulegs eldri borgara.
Gríðarlega gaman er að fylgjast með jafnöldrum eldast og þroskast. Fyrir mig - fæddan um miðjan sjötta áratuginn - hefur verið góð skemmtun að fylgjast með guttunum í The Rolling Stones komast til manns. Þeir voru vart af unglingsaldri er þeir fylgdu í fótspor Bítlanna við að leggja undir sig heiminn. Ég var 8 ára eða svo.
Rollingarnir þóttu ljótir, klæmnir og ruddalegir. Bítlarnir voru krútt. Paul þeirra sætastur. George heillandi dulrænn. Ringo fyndið ofurkrútt. Lennon bráðgáfaður og leiftrandi fyndinn.
Núna, 55 árum eftir að Bítlarnir og The Rolling Stones rúlluðu upp vinsældalistum heims, er forvitnilegt að skoða hvernig strákarnir hafa elst.
The Rolling Stones og Bítlarnir fylgdust að í gríðarlega mikilli eiturlyfjaneyslu og áfengisdrykkju. Liðsmenn The Rolling Stones náðu ásjónu virðulegra eldri manna á undan Bítlunum. Samt eru þeir yngri en Bítlarnir. Þar af er Ronnie Wood (sjá mynd efst til vinstri) 5 árum yngri en elstu Bítlar og 7 árum yngri en Harrison.
Myndin hér fyrir neðan af Harrison er gölluð. Hún er 18 ára gömul (hann dó 2001).
Ringo og Paul er ótrúlega unglegir. Myndin af Lennon er keyrð í gegnum forrit sem uppfærir hana til samræmis við aldur (hann var myrtur 1980).
Spil og leikir | Breytt 7.12.2019 kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
21.11.2019 | 00:01
Skammir
Ég var staddur í matvöruverslun. Þar var kona að skamma ungan dreng, á að giska fimm eða sex ára. Ég hlustaði ekki á skammirnar og veit ekki út á hvað þær gengu. Þó heyrði ég að konan lauk skömmunum með því að hreyta í drenginn: "Þú hlustar aldrei á mig!"
Hún gat ekki varist hlátri - fremur en viðstaddir - þegar strákurinn svaraði hátt, snjallt og reiðilega: "Stundum finnst mér nú eins og ég hlusti of mikið á þig!"
18.11.2019 | 00:01
Gangbraut, strætóskýli, kyrrstæðir bílar, sektir...
Margt er brogað hér í borg;
ég bévítans delana þekki.
Hagatorg er hringlaga torg
en hringtorg er það samt ekki!
Fyrir þá sem þekkja ekki til: Hagatorg er hringlaga torg fyrir framan Hótel Sögu. Bílar mega ekki stöðva þegar ekið er í kringum torgið. Sá sem stöðvar er umsvifalaust sektaður. Við torgið stendur veglegt strætóskýli. Vandamálið er að strætó má ekki stöðva við skýlið - að viðlagðri sekt. Sama á við um bíla sem þurfa að stöðva fyrir aftan ef strætó stoppar. Sjaldnast stoppar hann við skýlið. Þar híma viðskiptavinir bláir af kulda dögum saman og horfa upp á hvern strætóinn á fætur öðrum aka hjá án þess að stoppa.
Þvert yfir torgið liggur gangbraut. Bílstjórar mega ekki stöðva til að hleypa gangandi yfir. Stöðvun kostar fjársekt. Hinsvegar er refsilaust að keyra gangandi niður. Einhverjir embættismenn halda því þó fram að gangbrautin eigi réttinn. Hringtorgið sé nefnilega ekki hringtorg.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.9.2019 | 23:42
Bítlalögin sem unga fólkið hlustar á
Síðasta platan sem Bítlarnir hljóðrituðu var "Abbey Road". Hún kom út undir lok september 1969. Þess vegna er hún hálfrar aldar gömul. Meiriháttar plata. Hún hefur elst vel. Hún gæti hafa komið út í ár án þess að hljóma gamaldags.
Svo merkilegt sem það er þá hlustar ungt fólk í dag á Bítlana. Bæði börn og unglingar. Í minni fjölskyldu og í mínum vinahópi eru Bítlarnir í hávegum hjá fjölda barna og unglinga. Lokaritgerð frænku minnar í útskrift úr framhaldsskóla var um Bítlana. Mjög góð ritgerð. Fyrir nokkrum árum hitti ég 14 ára dóttur vinafólks mín. Hún var svo fróð um Bítlana að ég hafði ekki roð við henni um smáatriði tengd Bítlatónlist. Tel ég mig þó vera nokkuð fróðan um Bítlana.
Spilanir á músíkveitunni Spotify staðfesta að þetta sama má segja um börn og unglinga út um allan heim.
Þessi Bítlalög eru mest spiluð af börnum og unglingum upp að 18 ára aldri.
1. Here Comes The Sun
2. Let It Be
3. Hey Jude
4. Come together
5. Twist And Shout
Þessi lög eru mest spiluð af aldurshópnum 18 - 24 ára:
1. I Want To Hold Your Hand
2. Here Comes The Sun
3. Come Together
4. Penny Lane
5. You Never Give Me Your Money
Spil og leikir | Breytt 5.10.2019 kl. 01:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.9.2019 | 23:59
Ný James Bond mynd tekin í Færeyjum
2. apríl 2020 verður sýnd ný kvikmynd um breska leyniþjónustumanninn James Bond, 007. Hún hefur fengið heitið No Time to Die. Hún verður 25. myndin um njósnarann. Jafnframt er þetta 5. myndin með Daniel Craig í hlutverki 007.
Tökur eru hafnar. Tökuliðið er mætt til Færeyja ásamt áhættuleikurum. Líklega á að gera út á fagurt en sumstaðar hrikalegt landslag eyjanna. Enn ein staðfestingin á því að Færeyjar og Færeyingar hafa stimplað sig inn á heimskortið.
22.9.2019 | 23:05
Plötuumsögn
- Titill: Punch
- Flytjandi: GG blús
- Einkunn: ****1/2 (af 5)
GG blús er dúett skipaður Guðmundunum Jónssyni og Gunnlaugssyni. Sá fyrrnefndi spilar á gítar og er einn lunknasti smellasmiður landsins; þekktastur fyrir störf sín með Sálinni, Pelican, Vestanáttinni, Nykri og Kikki. Hinn síðarnefndi er best kunnur fyrir trommuleik með Kentári, X-izt og Sixties. Báðir voru í Jötunuxum. Báðir eru ágætir söngvarar og raddir þeirra liggja vel saman.
Töluverða færni og útsjónasemi þarf til að gítar/trommur dúó hljómi sannfærandi; að hlustandinn sakni ekki drynjandi bassalínu. Hljómsveitum eins og White Stripes, Black Keys og dauðapönksveitinni Gyllinæð hefur tekist þetta. Líka GG blús - og það með glæsibrag!
GG blús spilar kraftmikinn og harðan rokk-blús. Platan er bærilega fjölbreytt. Sum laganna eru mýkt með rólegum kafla. Hluti af söng í sumum lögum er keyrður í gegnum "effekt" sem lætur hann hljóma í humátt að gjallarhorni. Sjö af tíu lögum plötunnar eru frumsamin. Öll af Guðmundi Jónssyni. Þar af þrjú samin með nafna hans. Í hinu KK-lega "Lost and Found" er Mike Pollock meðhöfundur nafnanna og gestasöngvari. Aðkomulögin eru "Money" eftir Roger Waters, "Cradle" eftir Rory Gallagher og "Spoonful" eftir Willie Dixon, best þekkt í flutningi Howlin´ Wolf.
Flutningur GG blús á "Money" er ólíkur frumútgáfunni með Pink Floyd. Framan af er ekki auðheyrt hvaða lag um ræðir. Sigurður Sigurðsson - iðulega kenndur við Kentár - skreytir lagið listavel með munnhörpublæstri. Hið sama gerir Jens Hansson með saxófónspili í "Spoonful". Blessunarlega er platan laus við hefðbundin rokk- og blúsgítarsóló, ef frá er talið progað titillag. Í því er sitthvað sem kallar Audioslave upp í hugann. Rétt eins og í "Touching the Void".
Yrkisefnið er töluvert blúsað. Sungið er um allskonar krísur og deilt á misskiptingu auðs og fégræðgi. Allt á ensku. Sýna má því umburðarlyndi vegna útlendu laganna.
Hljómur á plötunni er sérdeilis hreinn og góður. Eiginlega er allt við plötuna afskaplega vel heppnað. Það á einnig við um umslagshönnun Ólafar Erlu Einarsdóttur.
Skemmtileg og flott plata!
Spil og leikir | Breytt 23.9.2019 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.9.2019 | 07:22
Bítlalögin sem John Lennon hataði
". .
Bítillinn John Lennon var óvenju opinskár og hreinskiptinn. Hann sagði undanbragðalaust skoðun sína á öllu og öllum. Hann var gagnrýninn á sjálfan sig ekki síður en aðra. Ekki síst lög sín. Hann hafði óbeit á mörgum lögum Bítlanna - þó hann hafi sætt sig við að þau væru gefin út á sínum tíma vegna þrýstings frá útgefandanum, EMI. Bítlarnir voru samningsbundnir honum til að senda frá sér tvær plötur á ári og einhverjar smáskífur. Til að uppfylla samninginn leyfðu Bítlarnir lögum að fljóta með sem voru uppfyllingarefni - að þeirra mati.
Að sögn gítarleikarans George Harrison litu þeir Ringo og Paul alltaf á John sem leiðtoga hljómsveitarinnar - þrátt fyrir að stjórnsami og ofvirki bassaleikari Paul McCartney hafi að mörgu leyti stýrt Bítlunum síðustu árin eftir að umboðsmaðurinn Brian Epstein dó.
Paul sýndi George og trommuleikaranum Ringo ofríki þegar þar var komið sögu. En bar lotningarfulla virðingu fyrir John. Stofnaði ekki til ágreings við hann. Þeir skiptust á tillögum og ábendingum um sitthvað sem mátti betur fara. Báðir tóku því vel og fagnandi. Þeir voru fóstbræður.
Þó komu upp nokkur dæmi þar sem Paul mótmælti John. Fyrst var það þegar John dúkkaði upp með lagið "She said, she said" á plötunni Revolver. Paul þótti það vera óboðleg djöflasýra. John fagnaði því viðhorfi vegna þess að hann ætlaði laginu einmitt að túlka sýrutripp. Í stað þess að rífast um lagið stormaði Paul úr hljóverinu og lét ekki ná á sér við hljóðritun þess. Lagið var hljóðritað án hans. George spilaði bassalínuna í hans stað. Síðar tók Paul lagið í sátt og sagði það vera flott.
Í annað sinn lagðist Paul - ásamt George og Ringo - gegn furðulagi Johns "Revolution #9". En John fékk sínu fram. Lagið kom út á "Hvíta albúminu". Hann var sá sem réði. Samt þannig að hann umbar öll þau lög Pauls sem honum þóttu léleg.
Eftirtalin Bítlalög hafði John óbeit á. Fyrir aftan eru rökin fyrir því og tilvitnanir í hann.
1 It´s Only Love (á plötunni Help) - "Einn af söngvum mínum sem ég hata. Glataður texti."
2 Yes it Is (smáskífa 1965) - "Þarna reyndi ég að endurtaka leikinn með lagið This Boy. En mistókst.
3 Run For Your Life (á Rubber Soul). - "Uppfyllingarlag. Enn eitt sem mér líkaði aldrei. George hefur hinsvegar alltaf haldið upp á þetta lag."
4 And Your Bird Can Sing (á Revolver). - "Enn ein hörmung. Enn eitt uppfyllingarlagið."
5 When I m Sixty-Four (á Sgt. Peppers...) - "Afalag Pauls. Ég gæti aldrei hugsað mér að semja svona lag."
6 Glass Onion (á Hvíta albúminu) - "Þetta er ég að semja uppfyllingarlag"
7 Lovely Rita (á Sgt. Peppers...) - "Ég kæri mig ekki um að semja lag um fólk á þennan hátt."
8 I ll Get You (á 4ra laga smáskífu 1963) - "Við Paul sömdum þetta saman en lagið var ekki að gera sig."
9 Hey Bulldog (á smáskífu 1967) - "Góð hljómgæði á merkingarlausu lagi."
10 Good Morning, Good Morning (á Sgt. Peppers...) - "Einskonar bull en samt falleg orð. Uppfyllingarlag."
11 Hello, Goodbye - John var mjög ósáttur þegar EMI gaf þetta lag út á smáskífu. Honum þótti það ekki þess virði.
12 Lady Madonna (á smáskífu 1968) - "Gott píanóspil sem nær þó aldrei flugi."
13 Ob-La-Di Ob-La-Da (á Hvíta albúminu) - Paul vildi ólmur að þetta lag yrði gefið út á smáskífu. John tók það ekki í mál.
14 Maxwells Silver Hammer (á Abbey Road) - John leiddist þetta lag svo mikið að hann harðneitaði að taka þátt í hljóðritn þess. Engu að síður sagði hann það vera ágætt fyrir hljómsveitina að hafa svona léttmeti með í bland. Þannig næðu plöturnar til fleiri.
15 Martha My Dear (á Hvíta albúminu) - John leiddist þetta lag. Samt ekki meira en svo að hann spilar á bassa í því.
16 Rocky Racoon (á Hvíta albúminu) - "Vandræðalegt!"
17 Birtday (á Hvíta albúminu) - "Drasl!"
18 Cry Baby Cry (á Hvíta albúminu) - "Rusl!"
19 Sun King (á Abbey Road) - "Sorp!"
20 Mean Mr. Mustard (á Abbey Road) - "Óþverri sem ég samdi í Indlandsdvölinni."
21 Dig a Pony (á Let it be) - "Enn ein vitleysan. Ég var í orðaleik og þetta er bókstaflega rugl."
22 Let It Be (á Let it be) - "Þetta lag hefur ekkert með Bítlana að gera. Ég skil ekki hvað Paul var að pæla með þessu lagi."
Rétt er að taka fram að John skipti oft um skoðun á flestum hlutum. Líka á Bítlalögum. Til að mynda er til upptaka þar sem hann hrósar Let It Be sem glæsilegu lagi. Þetta fór dálítið eftir dagsforminu; hvernig lá á honum hverju sinni.
Spil og leikir | Breytt 11.9.2019 kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.8.2019 | 09:04
Smásaga um gamlan mann
Jói Jóns er 97 ára. Hann er ern og sjálfbjarga. Býr einn í hrörlegu einbýlishúsi. Það er gamalt og kallar á stöðugt viðhald. Jói er meðvitaður um það. Honum þykir skemmtilegt að dytta að því. Hann hefur hvort sem er ekki margt annað fyrir stafni.
Að því kom að Jói þurfti að tjarga þakið til að verja það betur gegn vætu. Er langt var liðið á verk missti hann fótanna á bröttu þakinu. Sveif á hausinn. Við aðrar aðstæður hefði hann rúllað fram af þakinu og kvatt þennan heim á stéttinni fyrir neðan. Í þessu tilfelli límdist hann við blauta tjöruna. Svo rækilega að hann gat sig hvergi hrært. Hékk bara límdur á þakinu. Það var frekar tilbreytingalaust. Hann kallaði á hjálp. Röddin var veik og barst ekki langt utan hússins.
Kallinn kvartaði ekki undan veðrinu. Það var honum hagstætt. Nokkrum klukkutímum síðar áttu barnungir strákar leið framhjá húsinu. Þeim þótti einkennilegt að sjá mann límdan við húsþak. Komnir heim til sín sögðu þeir frá þessu sérkennilega þakskrauti. Mamma eins þeirra hringdi í lögguna. Löggan er þaulvön að bjarga köttum ofan úr trjám. Henni þótti ekki meira mál að bjarga ellilífeyrisþega ofan af húsþaki.
Kominn niður af þakinu tók Jói staðfasta ákvörðun um að fara aldrei aftur upp á þak. Hvorki á sínu húsi né öðrum.
Spil og leikir | Breytt 30.8.2019 kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.7.2019 | 23:44
Smásaga um kærustupar
Unga kærustuparið gat ekki verið ástfangnara og hamingjusamara. Það var nýflutt inn í litla leiguíbúð. Sambúðin var ævintýri upp á hvern dag. Í innkaupaferð í matvöruverslun rákust þau á gamla skólasystur konunnar. Þær þekktust samt aldrei mikið. Skólasystirin fagnaði þó samfundinum eins og þær hafi alla tíð verið æskuvinkonur. Knúsaði konuna í bak og fyrir. Spurði frétta og sagði frá sjálfri sér. Hún flutti til Frakklands en var þarna stödd á Íslandi í örfáa daga. Vandamálið var að hún hafði ekki áttað sig á hvað gistimarkaðurinn á Íslandi er verðbólginn. Kostnaðurinn var að slátra fjárhag hennar.
"Er smuga að ég fái að gista hjá ykkur í örfáa daga?" spurði hún. "Þess vegna í svefnpoka á eldhúsgólfinu eða eitthvað? Það myndi gjörsamlega bjarga fjárhagnum."
Unga parið var tvístígandi. Konan spurði kærastann hvort hann myndi sætta sig við að hún gisti í stofusófanum í nokkra daga. Hann sagði að það muni ekki "bögga" sig. Eflaust yrði gaman fyrir þær dömurnar að rifja upp gamla skóladaga.
Nokkrum dögum síðar fékk kærastan slæmt kvef. Hún hóstaði heilu og hálfu næturnar. Kallinn missti svefn og varð eins og uppvakningur í vinnunni. Á þriðja degi sagði hann við kærustuna: "Ég get ekki verið svefnlaus í marga daga til viðbótar. Ég neyðist til að biðja þig um að sofa í stofunni þangað til kvefið er gengið yfir."
Hún hafði fullan skilning á því. Vandamálið var hinsvegar að stofusófinn var eiginlega of lítill fyrir skólasysturnar að deila honum. Um morguninn tilkynnir skólasystirin að hóstinn hafi haldið fyrir henni vöku. "Ég verð að fá að sofa í svefnherberginu," sagði hún. "Hjónarúmið er alveg nógu breitt til að deila því með kærastanum þínum án vandræða."
Þetta var samþykkt. Hóstinn varð þrálátur. Um síðir hjaðnaði hann. Kærastan vildi eðlilega endurheimta sitt pláss í hjónarúminu. Skólasystirin hafnaði því. Sagðist vera ólétt. Barnið væri getið í þessu rúmi. Foreldrarnir væru sammála um að ala það upp í sameiningu sem par.
Kærustunni var brugðið við að vera óvænt x-kærasta (fyrrverandi). Hún lét þó ekki á neinu bera. Sagði: "Ég styð það."
Skólasystirin varð hægt og bítandi stjórnsöm. Hún fór að gefa x-inu fyrirmæli: Það þurfi að strjúka af gólfunum; nú þurfi að þurrka af. X-ið sá um eldamennsku eins og áður. Um helgar fékk hún fyrirmæli um bakstur: Pönnukökur, vöfflur, ástarpunga og svo framvegis.
Ef gest bar að garði fékk hún fyrirmæli: "Skottastu út í búð eftir gosi og kökum."
Þegar barnið fæddist fékk hún nóg að gera: Bleyjuskipti, böðun, út að ganga með barnavagninn. Allan tímann vann hún sem kassadama í matvöruverslun. Fjármál heimilisins voru sameiginleg. Heimilisfaðirinn var með ágætar tekjur sem starfsmaður í álverinu í Straumsvik. Skólasystirin vann aldrei úti. Eiginlega ekki inni heldur ef frá er talið að hún var dugleg við að vakta sjónvarpið. Hún fékk einn daginn hugmynd um að heimilið vantaði meiri innkomu. Þá skráði hún x-ið í útburð á dagblöðum á morgnana. Benti á að það væri holl og góð hreyfing sem bónus ofan á launin. Sem er alveg rétt.
Spil og leikir | Breytt 25.7.2019 kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)