Færsluflokkur: Spil og leikir
7.7.2019 | 21:23
Vinsælustu Bítlalögin í dag
Ég veit ekki hvað gerðist. Síðasta bloggfærsla mín hvarf. Ég var í miðju kafi að svara athugasemdum við hana og ýtti á "enter". Í stað þess að svar mitt birtist þá hvarf bloggfærslan. Hún var áfram inni á stjórnborði hjá mér. En þó að ég ýtti á "birta" þá birtist hún ekki. Samt kom upp texti um að hún væri birt.
Í færslunni var listi yfir mest spiluðu lög Bítlanna á Spotify. Hann er áhugaverður. Hann speglar að einhverju leyti hvaða Bítlalög höfða sterkast til yngra fólks í dag. Fólks sem meðtók ekki lög og plötur Bítlanna í rauntíma 1963 - 1969. Þess vegna endurbirti ég listann hér:
1. Here Comes the Sun
2. Hey Jude
3. Come Together
4. Let it Be
5. Twist and Shout
6. Help
7. Blackbird
8. While my Guitar Gentle Weeps
9. In My Life
10. Yesterday
Einhverra hluta vegna er Oh Darling ekki mikið spilað á Spotify. Samt flottur blús. Þessi úkraínska krúttbomba staðfestir hinsvegar að ungt fólk út um allan heim hlustar á Bítlalög. Það fylgir sögunni að hún hafi á þessum aldri ekki kunnað orð í ensku. Hún er 17 ára í dag og dútlar við að syngja leiðinleg júrivisjon-lög.
Spil og leikir | Breytt 9.7.2019 kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
23.6.2019 | 17:07
Gáfnafar Íslendinga slagar í asískar þjóðir
Flestir vita að Asíubúar eru gáfaðastir allra jarðarbúa. Þar af skora íbúar Hong Kong og Singapore hæst. Fast á hæla þeirra koma íbúar Suður-Kóreu, Japans, Kína og Tævans. Til að allrar sanngirni sé gætt skal tekið fram að ekki hefur tekist að mæla gáfnafar íbúa Norður-Kóreu. Að sögn þarlendra fjölmiðla búa stjórnendur ríkisins að yfirnáttúrulegu gáfnafari. Og yfirnáttúrulegum hæfileikum á flestum sviðum, ef út í það er farið. Hafa meira að segja sent mannað geimfar til sólarinnar.
Færri vita að Ítalir, Íslendingar og Svisslendingar koma þétt upp að Asíubúum í gáfnafari. Ótrúleg staðreynd ef hliðsjón er höfð af útsendingum frá Alþingi. Málið er að aðrar þjóðir eru vitlausari.
HÉR má sjá listann. Hann er ekki fullkominn, eins og að ofan greinir varðandi Norður-Kóreu. Líka vantar Færeyinga á listann. Þeir eru flokkaðir með Dönum. Eiga áreiðanlega sinn þátt í því að Danir ná 9. sætinu.
Spil og leikir | Breytt 24.6.2019 kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
10.6.2019 | 00:55
Ódýrasta bensínið?
Hvert olíufyrirtækið á eftir öðru auglýsir grimmt þessa dagana. Þar fullyrða þau hvert og eitt að þau bjóði upp á lægsta verð. Hvernig er það hægt? Lægsta verð þýðir að allir aðrir eru dýrari. Ef öll olíufélögin bjóða sama verð þá er ekkert þeirra ódýrast.
Er einhver að blekkja? Ekki nóg með það heldur er Jón Ásgeir kominn í stjórn Skeljungs. Í kjölfar var færeyski forstjórinn settur af. Fleiri fuku í leiðinni. Við lifum á spennandi tímum, sagði Þorgerður Katrín þegar bankarnir voru keyrðir í þrot (og kúlulán upp á heila og hálfa milljarða voru afskrifuð á færibandi).
29.5.2019 | 23:28
Leyndarmálin afhjúpuð
Hver hefur ekki velt því fyrir sér hvernig sólin liti út ef hún væri blá? Eða hvernig útsýnið væri ef Júpíter væri jafn nálægt jörðinni og tunglið? Mér er ljúft og skylt að svipta hulunni af leyndarmálunum. Ekki aðeins með orðum heldur öllu heldur með ljósmyndum.
Sólin er á vinstri myndinni.
27.4.2019 | 20:55
Tilviljun?
Listafræðikennarinn minn í Myndlista- og handíðaskóla Íslands á áttunda áratugnum var Björn Th. Björnsson. Hann var afskaplega skemmtilegur. Hann hafði sérstæðar kenningar um hitt og þetta og fylgdi þeim eftir af rökfestu. Ein var sú að ekki væri til neitt sem heiti tilviljun. Einhverjir mölduðu í móinn og tefldu fram sögur af meintum tilviljunum. Björn fór yfir dæmið lið fyrir lið. Ætíð tókst honum að greina fyrirbærið þannig að í raun hefði frekar verið tilviljun að þetta hefði ekki gerst.
Mér varð hugsað til Björns er ég var í Munchen um páskana. Þá sat ég á gistiheimilinu á spjalli við tvo aðra gesti; unga dömu frá Indlandi og ungan mann frá Afganistan. Hann er búsettur í Eistlandi. Þau höfðu aldrei áður hitts.
Fljótlega kom í ljós að bæði voru á leið til Írlands með haustinu. Norður-Írlands eða lýðveldisins? Dublin. Hvers vegna Dublin? Til að fara í skóla þar. Hvaða skóla? Þau reyndust vera á leið í sama skóla. Bæði göptu af undrun áður en þau ákváðu að verða Fésbókarvinir og halda hópinn. Til að byrja með myndu þau ekki þekkja neina aðra samnemendur skólans.
Tilviljun? Björn Th. hefði farið létt með að hrekja þá kenningu. Samt. Af 7,5 milljörðum jarðarbúa eru tveir unglingar - sem ekki þekktust - frá sitthvoru landinu á leið til Dublin í haust. Þeir voru samtímis á litlu gistiheimili í Munchen í Þýskalandi í örfáa daga. Þeir tóku tal saman. Ég giska á að hvorugur hafi lent á spjalli við fleiri en kannski 10 aðra gesti gistiheimilisins.
Spil og leikir | Breytt 28.4.2019 kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
26.4.2019 | 07:03
Furðuleg lög
Ég fagnaði frjósemishátíðinni - kenndri við frjósemisgyðjuna Easter (Oester) - úti í Munchen í Þýskalandi. Næstum aldarfjórðungur er síðan ég kom þangað síðast. Margt hefur breyst. Á þeim tíma var fátítt að hitta einhvern enskumælandi. Allt sjónvarpsefni var á þýsku. Hvergi var hægt að kaupa tímarit, dagblöð eða annað lesefni á ensku. Í dag tala allir ensku. Í fjölvarpinu nást enskar sjónvarpsstöðvar. Í blaðabúðum fást ensk og bandarísk tímarit og dagblöð.
Á meðan rigndi í Reykjavík var steikjandi sólskin í Munchen alla daga. Það var notalegt. Ég var vel staðsettur mitt í miðbænum, við hliðina á umferðamiðstöðinni (central station). Þar inni sem og fyrir utan er ekki þverfótað fyrir veitingastöðum og allrahanda verslunum. Ég átti ekki erindi inn í eina einustu verslun, ef frá eru taldir stórmarkaðir og blaðsölustaðir.
Fyrsta daginn rölti ég um nágrennið; reyndi að átta mig á því og kortleggja það. Að því kom að ég þreyttist á röltinu og hitanum. Hvergi var sæti að sjá nema við veitingastaði. Ég tyllti mér á tröppur fyrir utan DHL póstþjónustu. Lét sólina skína á andlit og handleggi. Hún býr til D-vítamín á húðinni. Það kemur af stað kalkupptöku sem þéttir bein og styrkir hár, húð og tennur.
Ég var varla fyrr sestur en að mér snaraðist lögreglumaður. Hann tilkynnti mér að stranglega væri bannað að sitja á gangstéttum. Ég benti honum á að ég sæti á tröppum en ekki gangstétt. Hann hélt því fram að tröppurnar væru skilgreindar sem hluti af gangstétt. Ég stóð upp og spurði hver væri ástæðan fyrir svona banni. "Af því að þetta eru lög," útskýrði laganna vörður ábúðafullur á svip.
Þetta olli mér vangaveltum. Helst dettur mér í hug að lögunum sé beint gegn betlurum, útigangsmönnum og rónum. Að minnsta kosti sáust engir slíkir þarna. Það er sérstakt í miðbæ stórborgar (hálf önnur milljón íbúa). Reyndar varð einn betlari á vegi mínum. Hann var fótalaus en á stöðugu vappi. Rölti um á höndunum.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.2.2019 | 21:47
Pallbíll til sölu
Nánast splunkunýr pallbíll - svo gott sem beint úr kassanum - er til sölu á tíu milljónir króna. Samkvæmt ökumæli hefur hann verið keyrður miklu minna en ekki neitt; mínus 150 þúsund kílómetra. Góð framtíðareign; fasteign á hjólum. Slegist verður um hann á bílasöluplani Procar. Fyrstur kemur, fyrstur fær. Ryðblettirnir eru meira til skrauts en til vandræða.
Spil og leikir | Breytt 19.2.2019 kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.2.2019 | 04:08
Samkvæmt teikningunni
Hver kannast ekki við að hafa sett saman skáp - eða annað húsgagn - samkvæmt teikningu frá Ikea og uppgötva síðar að hún snéri vitlaust? Að sú væri ástæðan fyrir því að hurðarhúnn er staðsettur of neðarlega og að hillur snúa á hvolf. Mörg dæmi eru til um abstrakt málverk sem hafa árum saman snúið á haus uppi á vegg. Ef fólk gætir sín ekki þeim mun betur er þetta alltaf að gerast: Að hlutirnir snúa á haus. Glæsilegt hús virðist líta einkennilega út. En teikningin er samþykkt og vottuð og "svona er þetta samkvæmt teikningunni." Í einhverjum tilfellum hefur þetta leitt til málaferla. Svoleiðis er aldrei gaman.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.12.2018 | 00:03
Stam
Í síðustu viku var ég í viðtali á Útvarpi Sögu, hjá Pétri Gunnlaugssyni. Nokkru síðar hringdi í mig kunningi. Hann var þá búinn að hlusta á spjallið í tvígang og hafði gaman af. Hinsvegar sagðist hann taka eftir því að stundum komi eins og hik á mig í miðri setningu, líkt og ég finni ekki rétta orðið.
Ég upplýsti hann um að ég stami. Af og til neita talfærin að koma strax frá sér tilteknum orðum. Á barnsaldri reyndi ég samt að koma orðinu frá mér. Þá hjakkaði ég á upphafi orðsins, eins og spólandi bíll. Með aldrinum lærðist mér að heppilegri viðbrögð væru að þagna uns ég skynja að orðið sé laust. Tekur aldrei lengri tíma en örfáar sekúndur.
Þetta hefur aldrei truflað mig. Ég hugsa aldrei um þetta og tek yfirleitt ekki eftir þessu.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 01:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)