Færsluflokkur: Spil og leikir
15.5.2024 | 09:44
Hver mælti svo?
Eftirfarandi gullmolar hrukku upp úr einum og sama manninum fyrir nokkrum árum þegar hann var áberandi í umræðunni. Hver er það?
- Ég veit að manneskja og fiskur geta átt friðsamleg samskipti!
- Sífellt meira af innflutningi okkar kemur frá útlöndum!
- Eitt það frábæra við bækur er að stundum innihalda þær flottar myndir!
- Ég held að við getum verið sammála um að fortíðin er liðin!
- Hvað hef ég heilsað mörgum með handabandi?
- Ég vona að við komumst til botns í svarinu. Ég hef áhuga á að vita það.
- Ef þú hefur engan málstað að verja þá hefur þú engan málstað að verja!
- Washington DC er staðurinn þar sem fólk stekkur út úr tófugreninu áður en fyrsta skotinu er hleypt af!
- Þegar ég tala um mig og þegar hann talar um mig þá erum við báðir að tala um mig!
8.5.2024 | 08:42
Gullmolar
Sagan segir að lagið Good Vibration hafi verið samið í sýrutrippi. Hið rétta er að ég samdi það í hassvímu! (Brian Wilson, Beach Boys)
Ég var eina manneskjan á Woodstock sem var ekki á sýrutrippi (Joe Cocker. Hann var "bara" blindfullur).
Ég dópaði aldrei. Djússaði bara. Mér gast ekki að hugmyndinni að vera stöðugt í slagtogi með lögreglunni! (Robert Wyatt)
Það skemmtilega við elliglöp er að maður rekst stöðugt á nýtt áhugavert fólk! (Paul McCartney)
Einhver líkti því við kynmök við górillu að prófa dóp. Þú sleppur ekki fyrr en górillan ákveður það! (Peter Tork, Monkees)
Ef þú ert svalur þá veistu ekki af því! (Keith Richards)
Keith gerir út á vorkunn. Hann reddar sér oft fyrir horn með því að segjast vera heilaskaddaður! (Ronnie Wood, Rolling Stones)
Led Zeppelin keppti ekki við neina. Við vorum besta hljómsveitin. Enginn gat keppt við okkur! (Robert Plant).
Lagasmíðar verða að vera mitt lifibrauð. Ég kann ekkert annað! (Ray Davis, Kinks)
Ég verð að vera bjartsýnn. Annars yrði ég að semja píkupopp og græða sand af seðlum! (Steve Earle).
Ef þú verður að setja mig í bás þá er uppáhaldsbásinn minn ásatrú. (Neil Young)
Í 4000 ár hafa skipulögð trúarbrögð reynt að fela þá staðreynd að tunglmánuðirnir eru 13. Þau reyna að fela töluna 13 af því þau vilja ekki að náttúran sé samkvæm sjálfri sér. (Björk)
30.4.2024 | 07:06
Gapandi hissa
Ég veit ekkert um boltaleiki. Fylgist ekki með neinum slíkum. Engu að síður fer ekki framhjá mér hvað boltafólk gapir mikið. Það er eins og stöðug undrun mæti því. Það gapir af undrun. Að mér læðist grunsemd um að einhverskonar súrefnisþörf spili inn í. Fólkið berjist við - í örvæntingu - að gleypa súrefni. Þetta er eins og bráðasturlun.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
16.4.2024 | 08:01
Bítlasynir taka höndum saman
Það hefur ýmsa kosti að eiga fræga og dáða foreldra. Því miður hefur það einnig ókosti. Meðal kosta er að börnin eiga greiðan aðgang að fjölmiðum. Kastljósið er á þeim. Af ókostum má nefna að barnið er alltaf borið saman við það allra besta sem eftir foreldra liggur. Þetta hafa synir Bítlanna sannreynt.
Til samans hafa synirnir spilað og sungið inn á um tvo tugi platna. Þær standast ekki samanburð við Bítlana. Og þó. Sonur Ringos, Zak, er virkilega góður trommari. Hann hefur meðal annars cerið trommari Oasis og Who.
Nú feta Sean Lennon og James McCartney nýja leið. James hefur sent frá sér lag, "Primrose Hill", sem hann samdi og flytur með Sean. Lagið er Bítla-Lennon-legt. Það hefði varla verið boðlegt sem B-hlið á Bítlasmáskífu og aldrei ratað inn á stóra Bítlaplötu. Því síður toppað vinsældalista. Sterk laglína og flottur texti hefðu hjálpað.
Spil og leikir | Breytt 6.8.2024 kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
10.4.2024 | 08:04
Örstutt og snaggaralegt leikrit um handrið
Persónur og leikendur:
Miðaldra kvenforstjóri
Álappalegur unglingspiltur
----------------------------------------------------------------------------------
Forstjórinn (horfir í forundran á piltinn baslast við að koma stóru handriði inn á gólf). Hvað er í gangi?
Piltur: Ég fann gott handrið!
Forstjórinn: Til hvers?
Piltur: Þú sagðir á föstudaginn að okkur vanti gott handrið. Ég leitaði að svoleiðis alla helgina og fann þetta í næstu götu.
Forstjórinn: Ég hef aldrei talað um handrið.
Piltur: Jú. þú sagðir að okkur vanti gott handrið til að taka þátt í jólabókaflóðinu í haust.
Forstjórinn: Ég sagði handrit; að okkur vanti gott handrit!
Tjaldið fellur.
Spil og leikir | Breytt 9.5.2024 kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
3.4.2024 | 08:41
Metnaðarleysi
Einhver allsherjar doði liggur yfir Íslendingum þessa dagana. Meðal annars birtist það í áhugaleysi fyrir komandi forsetakosningum. Innan við sjötíu manns eru byrjaðir að safna meðmælendum. Það er lágt hlutfall hjá þjóð sem telur nálægt fjögur hundruð þúsund manns. Að vísu þrengir stöðuna að frambjóðandi verður að vera 35 ára eða eldri. Einnig þurfa kjósendur að vera 18 ára eða eldri. Samt.
![]() |
Steinunn Ólína byrjuð að safna undirskriftum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
27.3.2024 | 08:43
Eftirminnilegur jólapakki frá Önnu frænku á Hesteyri
Móðir mín og Anna Marta á Hesteyri í Mjóafirði voru bræðradætur. Kannski var það þess vegna sem þær skiptust á jólagjöfum. Ein jólin fékk mamma frá Önnu langan og mjóan konfektkassa. Hann var samanbrotinn í miðjunni. Endarnir voru kyrfilega bundnir saman með límbandi. Með fylgdi heimagert jólakort. Anna var ágætur teiknari. Hún skreytti kortið með teikningum af jólatrjágreinum og fleiru jólaskrauti. Í kortið voru meðal annars þessi skilaboð:
"Láttu þér ekki bregða við að konfektkassinn sé samanbrotinn. Það er með vilja gert til að konfektmolarnir verði ekki fyrir hnjaski í ótryggum póstflutningum."
Þegar mamma opnaði kassann blasti við ein allsherjar klessa. Einmitt vegna þess að hann var samanbrotinn. Molarnir voru mölbrotnir. Mjúkar fyllingarnar límdu klessuna saman við pappírinn.
Áfast pakkanum hékk límbandsrúlla. Anna hafði gleymt að klippa hana frá.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
28.2.2024 | 09:36
Maður með nef
Margir kannast við ævintýrið um Gosa spýtukall. Hann er lygalaupur. Hann kemur jafnóðum upp um sig. Þannig er að í hvert sinn sem hann lýgur þá lengist nef hans. Þetta er ekki einsdæmi. Fyrir áratug fór að bera á svona hjá breskum hermanni á eftirlaunum, Jóa lygara, Þegar hann laug bólgnaði nef hans. Að því kom að nefið formaðist í stóran hnúður. Þetta hefur eitthvað að gera með taugaboð og örari hjartslátt þegar hann fer með fleipur.
Þetta lagðist þungt á 64 ára mann. Hann einangraði sig. Læddist með Covid-grímu út í matvörubúð að nóttu til þegar fáir eru á ferli. Fyrir tveimur árum leitaði hann til lýtalæknis. Sá fjarlægði hnúðinn, lagaði nefið í upprunalegt horf og gaf Jóa ströng fyrirmæli um að láta af ósannindum..
Spil og leikir | Breytt 29.2.2024 kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.2.2024 | 10:13
Kallinn reddar
Í samfélagi mannanna má jafnan finna kallinn sem græjar hlutina; lagar það sem úrskeiðis fer. Hann er engin pjattrófa. Hann grípur til þess sem hendi er næst og virkar. Það eitt skiptir máli. Útlitið er algjört aukaatriði. Sama hvort um er að ræða stól, handstýrða rúðuþurrku, flöskuopnara, farangursskott með læsingu, klósettrúllustatíf eða hurð í risinu. Það leikur allt í höndunum á honum.
19.1.2024 | 10:53
Vandræði við að rata
Ég átti leið í Costco. Flest þar er á svipuðu verði og í Bónus. Fólk getur þess vegna sparað sér 5000 króna félagsgjald í Costco. Þó má komast í ódýrara bensín og smakk á ýmsum matvælum.
Samferða mér inn í Costco var ungur maður og öldruð kona. Maðurinn gekk greitt. Konan dróst afturúr. Hún kallaði á eftir honum hvellri röddu: "Erum við núna í Keflavík?"
Maðurinn umlaði eitthvað sem ég náði ekki. Rifjaðist þá upp fyrir mér þegar mæðgur á Akureyri þurftu að bregða sér til Reykjavíkur. Þær rötuðu ekkert í höfuðborginni. Þetta var fyrir daga tölvunnar. Þær ákváðu að keyra vel inn í Reykjavík áður en spurt yrði til vegar. Allt gekk vel. Svo komu þær að sjoppu og spurðu afgreiðsludömuna: "Hvert er best að fara í átt að Krummahólum?"
Daman snéri sér að annarri afgreiðsludömu og spurði: "Eru Krummahólar ekki einhversstaðar í Reykjavík?"
Áður en hún náðu að svara spurðu mæðgurnar: "Erum við ekki í Reykjavík?"
- Nei, svaraði daman. Við erum í Hafnarfirði!
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)