Færsluflokkur: Spil og leikir

Ást í háloftunum

  Ég brá mér á pöbb.  Þar var ung kona.  Við erum málkunnug.  Við tókum spjall saman.  Hún var í flugnámi og ætlaði að taka próf daginn eftir.  Hún var með bullandi prófskrekk.  Sú var ástæðan fyrir pöbbarölti hennar.  Hún var að slá á skrekkinn.  

  Við höfðum ekki spjallað lengi er ungur maður settist við borðið hjá okkur.  Hann þekkti okkur ekki en var hress og kátur.  Hann sagðist vera nýskilinn að Vestan og það væri eitthvað eirðaleysi eða einmannleiki í sér. Tal beindist fljótlega að prófskrekknum.  Maðurinn sagði að prófið væri ekkert mál.  Hann væri flugmaður og gæti leiðbeint konunni daginn eftir.  Tók hún þá gleði sína og skrekkurinn fjaraði út.  Vel fór á með þeim og að lokum leiddust þau út í leigubíl.

  Nokkru síðar sagði bardaman mér að snurða hafi hlaupið á hjá skötuhjúunum.  Konan hafði komið grátandi á barinn og sagt farir sínar ekki sléttar.  Þau höfðu að vísu átt góða nótt.  En að lokinni heimaleikfimi um morguninn flýtti maðurinn að klæða sig.  Hann sagðist vera of seinn út á flugvöll.  Hann þyrfti að sækja konuna sína þangað.

  Bólvinkonan benti honum á að hann hefði sagst vera fráskilinn að Vestan.  "Ég var bara að vitna í dægurlag með Önnu Vilhjálms," svaraði hann hlæjandi.  "En hvað með flugprófið?"  spurði hún.  "Það var spaug,"  svaraði hann.  "Ég veit ekkert um flugvélar.  Ég er strætóbílstjóri!"    

flugvél


Sjaldan launar kálfur ofeldi.

  Ég þekki konu eina.  Við erum málkunnug.  Þegar ég rekst á hana tökum við spjall saman.  Hún er fátæk einstæð móðir 23ja ára manns.  Þrátt fyrir aldurinn býr hann enn heima hjá henni.  Hann er dekurbarn.  Konan er í vandræðum með að ná endum saman um hver mánaðarmót.  Eini lúxus hennar er að reka gamla bíldruslu.  Það er eiginlega í neyð.  Hún á erfitt með gang vegna astma og fótfúa.  Hún kemst ekki í búð án bílsins. 

  Núna um helgina varð hún á vegi mínum.  Hún sagði farir sínar ekki sléttar.  Kvöldið áður bað sonurinn um að fá bílinn lánaðan.  Honum var boðið í partý.  Konan tók vel í það.  Sjálf þurfti hún að fara einhverra erinda út í bæ.  Það passaði að sonurinn skutlaði henni þangað í leiðinni.  

  Er hún var komin á leiðarenda tilkynnti hún syninum að hann þyrfti að sækja sig um klukkan 11.  

  - Ekki séns,  svaraði kauði.

  - Hvað átt þú við?  Ég þarf að komast heim,  útskýrði konan.

  - Ég er að fara í partý.  Það verður nóg að drekka.  En það verður enginn ölvunarakstur.

  - Ég er að lána þér bílinn minn.  Þú skalt gjöra svo vel og sjá mér fyrir fari heim.

  - Þú verður að redda þér sjálf.  

  - Hvernig á ég að redda mér fari?  Ég get hvorki tekið strætó né gengið heim.

  - Hefur þú aldrei heyrt talað um taxa?  hrópaði sonurinn um leið og hann reykspólaði burt.  

taxi 


Rökföst

    Í gær ræddi ég við unga stúlku um jólin. 

  - Hvað verður í matinn hjá ykkur á aðfangadag?  spurði ég.

  - Það er alltaf tvíréttað;  lamb og svín,  svaraði hún.

  - En á jóladag?

  - Ég veit það ekki.  Enda er það ekkert merkilegur dagur!

  - Jú, jóladagurinn er eiginlega skilgreindur sem aðal jóladagurinn.

  - Í útlöndum,  já.  Á Íslandi er aðfangadagur aðal jóladagurinn.  Þá bjóðum við hvert öðru gleðileg jól; þá er mesta veislan og við opnum jólapakkana,  lesum á jólakort og leikum okkur.

  - Það er rétt hjá þér að þetta er misvísandi.  En orðið aðfangadagur þýðir að þetta sé dagurinn fyrir jóladag; aðdragandi jóla.

  - Hvers vegna heldur þú að í súkkulaðijóladagatalinu sé síðasti dagurinn 24. des?  25. des er ekki einu sinni í dagatalinu.

  Ég var mát!


mbl.is „Jólunum er aflýst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snúður og kjulli

  Börn, unglingar og fullorðnir hafa verulega ólík viðhorf til veislumatar.  Þegar ég fermdist - nálægt miðri síðustu öld - bauð mamma mér að velja hvaða veislubrauð yrði á boðstólum í fermingarveislunni.  Ég nefndi snúða með súkkulaðiglassúr.  Mamma mótmælti.  Eða svona.  Það var kurr í henni.  Hún sagði snúða ekki vera veislubrauð.  Svo taldi hún upp einhverja aðra kosti;  tertur af ýmsu tagi og einhverjar kökur.  Ég bakkaði ekki.  Sagði að snúður væri mitt uppáhald.  Mig langaði ekki í neitt annað.

  Leikar fóru þannig að mamma bakaði eitthvað að eigin vali.  Fyrir framan mig lagði hún hrúgu af snúðum úr bakaríi.  Ég gerði þeim góð skil og var alsæll.  Í dag þykir mér snúðar ómerkilegir og ólystugir.  Ég hef ekki bragðað þá í áratugi.

  Þetta rifjaðist upp þegar ég spjallaði í dag í síma við unglingsstelpu.  Hún á afmæli. Hún sagði mér frá afmælisgjöfum og hvernig dagskrá væri á afmælisdeginum.  Nefndi að um kvöldið yrði farið út að borða veislumat.  "Hvar?" spurði ég,  Svarið:  "KFC".  

snúðurkjuklingur 

 

 


Stysta heimsreisa sögunnar

  Miðaldra maður í Ammanford á Englandi átti sér draum um að fara í heimsreisu.  Í mörg ár undirbjó hann ferðalagið af kostgæfni.  Sparaði hvern aur og kom sér upp þokkalegum fjársjóði.  Er nær dró farardegi seldi hann hús sitt,  allt innbú og fleira og sagði upp í vinnunni.  Hann undirbjó nákvæma ferðaáætlun.  Endastöðin átt að vera New York.  Þar ætlaði hann að setjast á helgan stein í kjölfar 32.000 kílómetra vel skipulagðrar heimsreisu. 

  Síðustu daga fyrir brottför varði hann í að kveðja sína nánustu og vini.  Á lokakvöldinu sló hann upp kveðjuhófi.  Hann datt rækilega í það.  Skálaði ítrekað við gesti og gangandi.  Hver á fætur öðrum bað um orðið,  flutti honum mergjaðar kveðjuræður og óskuðu góðrar ferðar.  Sjálfur steig hann ítrekað í pontu og kastaði kveðju á viðstadda.  Samkoman stóð fram á nótt og menn voru farnir að bresta í söng.    

  Morguninn eftir lagði hann af stað í nýjum húsbíl.  Tveimur mínútum síðar - eftir að hafa ekið 1 og hálfan km - stöðvaði lögreglan hann.  Áfengi í blóði var þrefalt yfir leyfilegum mörkum.  Húsbíllinn var kyrrsettur.  Ferðalangurinn var sviptur ökuleyfi til hálfs þriðja árs.

 


Bestu hljómplötur allra tíma

  Bandaríski netmiðillinn Consequence hefur tekið saman og birt lista yfir bestu hljómplötur allra tíma.  Listinn ber þess að nokkru merki að vera tekinn saman af Bandaríkjamönnum.  Ég er alveg sáttur við valið á plötunum.  Aftur á móti er ég ekki eins sammála röðinni á þeim.  Til að mynda set ég "Abbey Road" í toppsætið. "London Calling" með The Clash set ég ofar "Rumours". Gaman væri að heyra álit ykkar.

  Svona er listinn:

1  Prince - Purple Rain 

2  Fleetwood Mac - Rumours

3  Bítlarnir - Abbey Road

4  The Clash - London Calling

5  Joni Mitchell - Blue

6  The Beach Boys - Pet Sounds

7  Kendrick Lamar - To Pimp a Butterfly

8  Radiohead - OK Computer

9  Marvin Gaye - What´s Going On

10 Nirvana - Nevermind

11 Lauryn Hill - The Miseducation of Lauryn Hill

12 Bob Dylan - Blonde on Blonde

13 The Velvet Underground - The Velvet Underground & Nico

14 Bítlarnir - Sgt, Pepper´s Lonely Hearts Club Band

15 David Bowie - The Rise and Fall of Ziggy Stardust

16 Bruce Springsteen - Born to Run

17 Patti Smith - Horses

18 Beyoncé - Lemonade

19 Talking Heads - Remain in Light

20 Kate Bush - Hounds of Love

21 Led Zeppelin - IV

22 Stevie Wonder - Songs in the Key of Life

23 Rolling Stones - Let it Bleed

24 Black Sabbath - Paranoid

25 Public Enemy - It takes a Nation of Millions to Hold Us Back


Hvenær hlæja hundar?

  Hundar hafa brenglað tímaskyn.  Þeir kunna ekki á klukku.  Þeir eiga ekki einu sinni klukku.  Þegar hundur er skilinn eftir einn heima þá gerir hann sér ekki grein fyrir því hvað tímanum líður.  Hann áttar sig ekkert á því hvort heimilisfólkið er fjarverandi í fimm mínútur eða fimm klukkutíma.  Oft dottar hann þegar hann er einn.

  Hundar hafa kímnigáfu.  Þegar þeim þykir eitthvað verulega fyndið þá anda þeir eldsnöggt frá sér.  Það hljómar eins og þeir séu að snýta sér.  Húmor hunda er ekki upp á marga fiska.  Hundur hlær að ýmsu sem er ekki sérlega fyndið.  Sömuleiðis er hægt að segja hundi bráðfyndinn brandara án þess að hann sýni viðbrögð.  Setur bara upp hundshaus og horfir sljór á mann.  "Pönslínan" fer fyrir ofan garð og neðan.  Engu að síður er góð skemmtun að vita þetta og kannast við þegar hundur hlær.  Eitt sinn missteig ég mig heima fyrir framan símborð og féll við.  Þá hló heimilishundurinn tvisvar. 

  Þegar hundur horfir neikvæður á mann þá leitar skott hans til vinstri.  Þegar hann er jákvæður leitar það til hægri.


Aðeins í Japan

  Í Japan er margt öðruvísi en við eigum að venjast.  Til að mynda hvetja þarlend yfirvöld ungt fólk til að neyta meira áfengis.  Það er til að örva hagkerfið.  Fá meiri veltuhraða.  Ástæðan fyrir því að vöruflokkurinn áfengi er notaður í þetta er sú að ölvaðir unglingar eyða meiri peningum í skemmtanir,  leigubíla,  snyrtivörur,  fín föt og allskonar óþarfa.  Líka á þetta að hækka fæðingartíðni. 

  Í Japan fæst áfengi í allskonar umbúðum.  Þar á meðal litlum fernum sem líta út eins og ávaxtasafafernur með sogröri og allt.

  Japanir eru einnig í hollustu.  Eða þannig.  Kóladrykkir eru ekki hollir út af fyrir sig.  En ef þeir innihalda hvítlauk og eru með hvítlauksbragði?

  Annað dæmi um hollustu í Japan eru rafmagnsprjónar.  Matprjónar.  Þeir gefa frá sér vægt rafstuð af og til.  Það er sársaukalaust en framkallar salt bragð af matnum.  Salt er óhollt.

  Mörg japönsk hótel, mótel og gistiheimili bjóða upp á ódýra svefnaðstöðu.  Ekki er um eiginlegt herbergi að ræða.  Þetta er meira eins og þröngur skápur sem skriðið er inn í án þess að geta staðið upp.

  Japanir elska karaókí.  Það er eiginlega þjóðarsport.  Vinnufélagar fara iðulega á skemmtistaði til að syngja í karaókí.  Þá er reglan að hver og einn taki lag óháð sönghæfileikum.  Mörgum þykir líka gaman að syngja heima eða út af fyrir sig á vinnustað.  Til að það trufli engan brúka söngfuglarnir hljóðhelda hljóðnema.  Með heyrnartæki í eyra heyra þeir þó í sjálfum sér. 

  Eitt af því sem víðast þykir lýti en í Japan þykir flott eru skakkar tennur.  Sérstaklega ef um er að ræða tvöfaldar tennur.  Þar sem ein tönn stendur fyrir framan aðra.  Þetta þykir svo flott að efnað fólk fær sér aukatennur hjá tajapan hvítlaukurnnlæknum.

 

japan fernurjapan hóteljapan aukatennurjapan karaokijapan prjónar

japan hvítlaukur


Furðufluga

  Ég var að stússa í borðtölvunni minni.  Skyndilega flaug pínulítil fluga á milli mín og skjásins.  Ég hélt að hún færi strax.  Það gerðist ekki.  Hún flögraði fyrir framan mig í augnhæð.  Það var eins og hún væri að kanna hvort hún hefði séð mig áður.  Þetta truflaði mig.  Ég sló hana utanundir.  Hún hentist eitthvað í burtu.

  Nokkrum sekúndum síðar var hún aftur komin á milli mín og skjásins.  Ég endurtók leikinn með sama árangri.  Hún lét sér ekki segjast.  Í þriðja skipti var hún komin fyrir framan mig. Ég gómaði hana með því að smella saman lófum og henti henni vankaðri út á stétt.

  Háttalag hennar veldur mér umhugsun.  Helst grunar mig að henni hafi þótt þetta skemmtilegt.  Í hennar huga hafi við,  ég og hún,  verið að leika okkur.

 


Magnaðar myndir

  Fátt er skemmtilegra að skoða en sláandi flottar ljósmyndir.  Einkum ljósmyndir sem hafa orðið til þegar óvart er smellt af á réttu augnabliki og útkoman verður spaugileg.  Tekið skal fram að ekkert hefur verið átt við meðfylgjandi ljósmyndir.  Ekkert "fótóshopp" eða neitt slíkt. 

  Myndirnar stækka og verða áhrifameiri ef smellt er á þær.

magnaðar myndir 1magnaðar myndir 2magnaðar myndir 3magnaðar myndir 4magnaðar myndir 5magnaðar myndir 6magnaðar myndir 7magnaðar myndir 8magnaðar myndir 9magnaðar myndir 10magnaðar myndir 11


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband