Færsluflokkur: Fjármál

Íslendingar gleðja

sigurður-einarssonSigurjón ÞgullbjörgúlfurBaugssnekkjabaugsþota 

  Útlendingar um allan heim hafa til nokkurra ára hlegið sig máttlausa yfir fíflagangi kolgeggjaðra Íslendinga,  sem héldu að þeir væru mestir og bestir í heimi,  snjallastir allra í fjármálabraski.  Þeir hældu sér og hver öðrum við hvert tækifæri fyrir einstaka snilli.  Þeir hömpuðu "íslensku leiðinni";  að láta kylfu ráða kasti í stað þess að hanga yfir smáatriðum.  Forsetinn,  seðlabankastjóri og aðrar toppfígúrur sáu um uppklapp og húrrahróp fyrir "íslensku útrásarvíkingana".  Það þarf svo sem ekkert að halda áfram með upptalninguna á "tærri snilldinni".  Mestu skiptir að sögur af brjáluðum kóksniffandi gullétandi íslensku vitleysingunum er útlendingum óendanleg uppspretta hláturs. 

  Það er öllum hollt að hlæja.  Gamansögurnar af Íslendingum gleðja.  Einu útlendingarnir sem hlæja ekki þegar tal berst að íslensku kóngunum eru þeir sem töpuðu peningum á kókflippi þeirra.

  Sjálf/ir getum við Íslendingar brosað yfir lýsingum útlendinga á Íslendingum.  Kíkið á fréttina hér fyrir neðan.  Þaðan er hægt að smella á sjónvarpsviðtalið sem um ræðir.  Spjallið um Ísland hefst á mínútu 31.30.


mbl.is Hlegið að Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömlu skónum breytt í nýja

  Allir kannast við það erfiða vandamál að fá leiða á gömlu skónum sínum.  Skórnir sem lengi vel voru uppáhalds skórnir eru skyndilega orðnir þreytulegir og glæsibragurinn sem geislaði af þeim er horfinn eins og dögg fyrir sólu.  Þá er til gott ráð.  Það er ódýrt og einfalt.  Það eina sem þarf að gera er að skipta um reimar á skónum.  Nýju reimarnar þurfa að vera rauðar eða appelsínugular eða í öðrum áberandi lit.  Nýju reimarnar stela allri athyglinni.  Það skiptir ekki máli hvort þetta eru svartir spariskór eða strigaskór.  Þetta eru orðnir nýir skór.  Allir dáðst að þeim. 

skór Askór B 


Óvenjuleg nýbreytni

  Allir kannast við að þegar greiðslukort af einhverjun tagi er notað þá er gjaldfærð önnur upphæð en sú sem úttekt nemur.  Það er gaman.  Það er fjölbreytni.  Það er skemmtilegur samkvæmisleikur að fá endanlegt uppgjör frá greiðslukortafyrirtækjum og reyna að fá það til að stemma nokkurn veginn við úttektir.

  Sú óvenjulega nýbreytni hefur verið tekin upp hjá bensínfyrirtæki sem ég skipti við að við sjálfsala þess hafa verið settir upp límmiðar með textanum "Einungis er gjaldfærð sú upphæð sem dælt er fyrir."   

bensín


Ekki henda gömlu hurðinni!

  Íslendingar eru alltaf að endurnýja hurðir.  Það má varla halda fermingarveislu í heimahúsi eða afmælisveislu öðru vísi en skipta um hurð í íbúðinni.  Sem er hið besta mál.  Verra er að iðulega er gömlu hurðinni hent á haugana.  Það er hið versta mál.  Gömlu hurðina á að nýta sem sófaborð eða stofuborð.  Það eina sem til þarf er að fjarlægja hurðarhún og setja löpp eða lappir undir gömlu hurðina.  Hér er vel heppnað dæmi:

hurð - borðhurð...

  Þessi hurð á myndinni fyrir ofan yrði glæsilegt stofuborð.  Hurðin á myndinni hér fyrir neðan er aftur á móti ekki heppileg til framhaldslífs sem stofuborð. 

hurð..

 


Hrópandi kynslóðabil

grænn hlunkur

  Ég skrapp í verslunarmiðstöðina við Krossmóa í Keflavík í dag.  Fyrir framan Nettó var sendibíll merktur grænum frostpinna,  svokölluðum Hlunki,  í bak og fyrir.  Bíllinn var mannlaus.  Hliðardyrnar voru upp á gátt.  Þar fyrir innan var frystikista með grænum frostpinnum.  Tveir drengir - á að giska 10 ára - tóku hvor um sig væna hrúgu af frostpinnunum.  Þeir fóru með frostpinnana út á bílaplanið.  Þar grýttu þeir pinnunum í allar áttir. 

  Ég veit ekki hver tilgangurinn var.  Drengirnir reyndu ekki að hitta neitt skotmark og köstuðu ekki af fullum krafti.  Svo fóru þeir á reiðhjólum í burtu. 

  Rétt í þann mund kom háöldruð kona gangandi.  Hún kom auga á nokkra frostpinna á bílaplaninu.  Hún tók þá upp og skoðaði í krók og kring.  Þeir voru í glæru plasti og virtust vera heillegir.  Eftir smá umhugsun stakk konan þeim í vasann og fór inn í búð.

  Háaldraður maður kom út úr búðinni og gekk yfir bílaplanið.  Hann rak augu í nokkra frostpinna.  Viðbrögð hans voru þau sömu og konunnar.  Svo fann hann bílinn sinn og ók burt með vasana úttroðna af grænum frostpinnum. 

  Í sama mund bar að aðra gamla konu.  Hún bar sig að alveg eins þau hin.  Þar með voru sennilega ekki lengur margir grænir frostpinnar á bílaplaninu. 

  Þarna kristallaðist kynslóðabil á krúttlegan hátt.  Krakkaskammirnar sáu ekki verðmæti í grænum frostpinnum.  En þeir náðu að gera sér skemmtun úr þeim.  Lítið er ungbarns gaman. 

  Gamalt fólk borðar ekki græna frostpinna.  En það getur ekki hugsað sér að láta þá liggja án hirðis á bílaplani.    


Illa gölluð verðkönnun ASÍ

  Síðasta verðlagskönnun ASÍ hefur vakið mikla athygli.  Einkum vegna þess að hún leiddi í ljós að Bónus er ekki lengur með ódýrustu (eða minnst dýru) matarkörfuna.  Matarkarfan í Krónunni reyndist vera ódýrust og Víðir á svipuðu róli og Bónus.  Talsmenn Bónus eru ekki par sáttir.  Vísa til þess að þar fáist bananar á 198 krónur í stað þess að í matarkörfu Bónus lentu bananar á 247 krónur (eða eitthvað svoleiðis).  Jafnframt að í matarkörfu Bónus var hreint kjöthakk lagt að jöfnu við kjöthakk drýgt með soyakjöti í öðrum verslunum.

  Þessi dæmi sýna að verðkönnun ASÍ er meingölluð.  Það er algjörlega ófært að bera saman verð á ósambærilegum vörum.  Til að svona verðkönnun gefi rétta mynd af verðmun á milli verslana verður að vera um samskonar vöru að ræða.  Annað er út í hött.  

  Heimfærum þetta upp á bíla.  Ein bílasala selur BMW.  Önnur selur Skoda.  Sú síðarnefnda selur ódýrari bíl.  En þetta eru ekki eins bílar.

  Bónus selur vissulega banana á 198 kr.  kílóið.  Það eru svartblettaðir linir bananar á síðasta snúningi.  Kannski nothæfir í bakstur með því að skera burtu svörtustu blettina.  En á engan hátt samanburðarhæfir við grænleita og stinna ferska banana.  

  Það getur ekki verið meira mál fyrir ASÍ að bera saman verð á samskonar vörum,  sömu vörumerkjum,  sömu gæði,  heldur en að bera saman verð á vörum í mismunandi gæðum frá mismunandi framleiðendum.  

  Á meðan þessi afleitu vinnubrögð ASÍ eru stunduð eru verðkannanir þess aðeins vísbending um raunverulegan verðmun á milli verslana en ekki marktækar að öðru leyti.  Engu að síður er athyglisvert að ekki sé lengur á vísan að róa með að Bónus sé ódýrasta matvöruverslunin.  Sú var tíð að Bónus var verulega ódýrari en aðrar verslanir.  Hvað veldur breytingunni?  

banani.jpgbananar.jpg


Eitt lítið epli í Bónus á 400 kall

  Í dag átti ég erindi í Bónus í Skeifunni.  Þar keypti ég 3 appelsínur,  þrjá banana og eitt epli sem ég varð skotinn í.  Ég tók ekkert eftir verðinu á þessum ávöxtum.  Var eins og uppvakningur (Zombie eða Jesú eftir krossfestingu).  Heim kominn fór ég að skoða kassakvittunina.  Þá sá ég að þetta litla epli sem ég keypti kostaði 400 kall.  Það var dýrara en appelsínurnar og bananrnir sem ég keypti.  Eplið virðist hafa vigtað töluvert umfram raunþyngd þess. 

  Ég sá í hendi mér að erfitt yrði að færa sönnur á að mitt litla epli hefði aðeins verið eitt og mun léttar en kassakvittun mældi.  Þannig að ég lét gott heita.  Snæddi litla eplið og þótti það næstum 400 króna virði.  En þessi afgreiðsla á eplinu gefur fulla ástæðu til þess að fólk gæti að kassakvittun strax við kassa í Bónus í Skeifunni. 

 


Meðmæli meindýraeyða?

  Það var viðtal við meindýraeyði á Bylgjunni.  Hann tiltók að viðskiptavinir sínir væru svo ánægðir með árangurinn af þjónustunni að þeir panti hann aftur og aftur.  Við þessi ummæli eða meðmæli vakna spurningar um árangurinn.  Þetta hljómar í fljótu bragði ekki sem góð meðmæli.  Eða hvað?

  Rifjast þá upp fyrir mér þegar þekktur pönkari vann nokkur sumur við að "úða skordýraeitri í garða".  Þetta set ég innan gæsalappa vegna þess að hann úðaði aðeins vatni á garðana.  En hafði fínar tekjur af.  Var með marga ánægða fasta viðskiptavini.

  Ástæða er til að hvetja fólk til að ganga eftir því að meindýraeyðar sýni tilskilin leyfi og vottorð.


Efnilegir

  Mig langaði í malt.  Þess vegna lagði ég leið mína í Nóatún.  Þar í anddyri stóðu tveir ungir drengir.  Líklega um tíu ára eða svo.  Kannski aðeins yngri.  Annar hélt á Fréttatímanum.  Hinn hélt á Finni,  fríblaði Morgunblaðsins.  Þegar ég gekk framhjá kölluðu drengirnir til mín.  Spurðu hvort ég vildi kaupa dagblað.  Ég benti þeim á að þetta séu fríblöð og fólk borgi ekki fyrir ókeypis blöð.

  Strákarnir svöruðu eitthvað á þá leið að fólk sem komi úr sveitinni til Reykjavíkur viti ekki að þetta séu fríblöð.

  Lengra varð samtalið ekki.  Ég settist inn í bíl og dreypti á maltinu.  Á meðan varð ég vitni að því er aldraður maður stoppaði hjá drengjunum og keypti af þeim eintak af Fréttatímanum.

  Ég hugsaði með mér:  Þessir guttar eiga eftir að verða formenn VR.

oryggisvor_ur_sefur_1096396.jpg


mbl.is Háar sektir fyrir fölsun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kalli bankans svarað

  Nú eru bankarnir farnir að moka út peningum til skuldugs fólks.  Það hljómar vel.  Landsbankinn reið á vaðið.  Fyrir bragðið er hann góði kallinn.  Í bili.  Eða þannig.  Til að sýna góðan lit brá ég mér í Landsbankann og borgaði þar reikning sem ég annars er vanur að borga í öðrum banka.  Þá sá ég í Landsbankanum auglýsingu með textanum:  "Vinsamlegast deildu skoðunum þínum með okkur.  Þitt álit skiptir okkur máli."

  Ég brást vel við og deildi skoðun með gjaldkeranum með því að segja:  "Mér þykir Abba ógeðslega leiðinleg hljómsveit."

  Gjaldkeradaman horfði rannsakandi á mig um leið og hún afgreiddi reikninginn og svaraði hægt:  "Ókey."  

  Þar með gekk ég út í sumarið og leið vel að vita að álit mitt skipti Landsbankann máli. 

peningar

 


mbl.is Arion banki endurreiknar lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband