Færsluflokkur: Fjármál
Í fyrradag sýndi ég hér ljósmyndir af heimili breska þungarokkssöngvarans Ozzys Osbournes, hlaðið rándýrum ljótum húsgögnum og kristalljósakrónum. Ozzy er auðmaður og hefur efni á því að kaupa ljótar ljósakrónur fyrir háar fjárupphæðir. Þú getur hinsvegar útbúið glæsilega ljósakrónu fyrir nánast engan pening.
Það eina sem þú þarft að gera er að geyma krukkurnar undan sýrðu gúrkunum, marmelaðinu og jarðaberjasultunni. Þegar þú átt 15 tómar krukkur þarf aðeins að gera gat á lokið til að koma rafmagnssnúru þar í gegn. Endinn sem verður í krukkunni þarf að vera með perustæði. Snúra með perustæði fæst í Húsasmiðjunni fyrir lítinn pening. Nota skal smáar perur og frekar daufar. Sterkar perur hita krukkuna og sprengja hana. Það viljum við ekki.
Fjármál | Breytt 11.6.2011 kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.6.2011 | 23:59
Bráðskemmtileg matarveisla
Nýverið tapaði kona á Suðurnesjum máli sem veisluþjónusta höfðaði gegn henni. Samið hafði verið um kaup á veisluföngum fyrir tiltekna upphæð. Að mig minnir á 4ða hundrað þúsund. Konan borgaði 100 þúsund kall fyrirfram. Hún var ósátt við veisluföngin og neitaði að borga það sem út af stóð. Taldi sig hafa verið svikna.
Í svona tilfelli tapar kaupandinn alltaf málinu. Þó að konan væri ósátt þá hafði hún fengið meira en 100 þúsund króna virði veisluföng. Til að eiga möguleika á að vinna málið hefði konan þurft að fá óháðan matsmann til að meta raunvirði veislufanganna og borga þá upphæð. Sem gat hugsanlega verið lægri upphæð en samið var um í upphafi. Þetta þarf fólk að vita. Ef það greiðir lægra verð fyrir vöru eða þjónustu en sanngjarnt þykir þá tapar það máli fyrir dómi. Líka þó að fólkið hafi ekki fengið þau veisluföng og þá þjónustu sem um var samið. Til að vinna svona mál þarf fólk að hafa borgað "sanngjarna" upphæð, studda mati óháðs aðila. Sá sem sækir málið tapar því.
Það er dýrt að tapa svona máli. Miklu dýrara en að borga sanngjarnt verð. Málskostnaður þess sem tapar máli telur nokkur hundruð þúsundkalla.
Nú í kjölfar nýafstaðinna fermingarveislna og í upphafi ættarmóta er gaman að rifja upp eftirminnilega veislu. Sú var haldin skömmu eftir bankahrun og veisluþjónustan klárlega í þröng.
Samið var um þjóðlegan aðalrétt, lambakjöt í karrý, og súkkulaðitertu með rjóma sem desert. Þegar til kom var á borðum ekki aðeins lambakjöt í karrý heldur einnig kjúklingapottréttur. Eini gallinn var sá að karrýkjötið var af skornum skammti. Góðu fréttirnar voru þær að nóg var til af kjúklingapottréttinum.
Eins og venja er þegar hátt í hundrað manns koma saman til að snæða mat fór fólk að veisluborðinu í skipulagðri röð eftir því hvar borð þess voru staðsett. Karrýrétturinn kláraðist fljótt. Fólkið á síðustu borðunum hafði ekki um annað að velja en kjúklingapottréttinn. Hann dugði öllum. En sumir horfðu öfundaraugum á þá sem náðu karrýkjötinu.
Skýringin sem var gefin var sú að kokkinn hefði misminnt hvað hann átti mikið af lambakjöti á lager. En reddaði málinu með kjúklingapottréttinum.
Næst var röðin komin að súkkulaðitertunni með rjóma. Þá kom upp annað vandamál. Það hafði gleymst að baka súkkulaðitertur og kaupa rjóma. Þessu var reddað með því að bjóða upp á konfekt. Einn mola á mann. Stór skál með konfektmolum var látin ganga á milli borða. Áður en röðin kom að síðustu borðum var konfektið á þrotum. Gamansamur maður spurði þjóninn hvort hann gæti skorið síðasta konfektmolann í nokkra bita svo allir fengju smá konfekt. Þjónninn kunni ekki að meta brandarann og sagði með þjósti að einhverjir hefðu greinilega tekið fleiri en einn konfektmola. Molarnir hefðu verið taldir og áttu að vera jafn margir gestunum. Þar með var það útrætt.
Gosdrykki keyptu matargestir sérstaklega á barnum. Einkum voru það krakkar sem sóttu í gosdrykkina. Einn bað um sogrör. Aðrir krakkar brugðu við skjótt og báðu einnig um sogrör. Þjónninn brást vel við því. Hann tók nokkur rör og klippti þau með skærum í tvennt. Hvert barn fékk hálft rör sem var of stutt fyrir glösin. Þjónninn upplýsti krakkana um að þeir yrðu að passa upp á rörin sín því þeir myndu ekki fá annað rör.
Eftir vel heppnaða matarveisluna sóttu gestir út í gott veðrið. Utan við húsið, til hliðar, er stór trépallur. Þar safnaðist fólkið saman, spjallaði og söng nokkur lög. Einhverjir sóttu sér bjórdós í bíla sína. Aðrir keyptu bjór á barnum og báru út. Inni á barnum voru spiluð fjörleg íslensk dægurlög. Það er hægt að opna hurð á barnum út á trépallinn.
Þar sem allir voru komnir út bað ég þjóninn að opna út á trépallinn til að músíkin bærist þangað út. Mér var svarað: "Það er ekki mitt hlutverk að spila músík fyrir fólk sem kaupir ekki bjór á barnum heldur drekkur bjór úr dósum sem það kemur sjálft með."
Ég benti honum á að margir væru að kaupa bjór á barnum. Þjóninn svaraði: "Þá getur það fólk verið hérna inni ef það vill heyra músík."
Skömmu síðar var húsinu lokað með þeim orðum að staðurinn ætlaði ekki að halda opinni salernisaðstöðu fyrir fólk sem væri að drekka úr sínum eigin bjórdósum í stað þess að kaupa á barnum.
Gleðskapurinn hélt þó áfram þarna fyrir utan. Allir skemmtu sér vel og sýndu aðstæðum fullan skilning. Þetta var, jú, í kjölfar bankahrunsins og veisluþjónustur urðu að horfa í hverja krónu. Og gert var upp við veisluþjónustuna eins og tilboð hennar hljóðaði fyrir lambakjöt í karrý og súkkulaðitertu með rjóma. Allir voru kátir og glaðir. Nema kannski þjónninn sem vildi selja meira á barnum.
Fjármál | Breytt 3.6.2011 kl. 01:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.5.2011 | 20:45
Jóhannes í Bónus á miklu flugi í Færeyjum
Þegar skilanefnd tók yfir rekstur Bónus, 10-11, Hagkaups, Haga og þess alls gerði hún myndarlegan starfslokasamning við Jóhannes, kenndan við Bónus. Jóhannes fékk að halda eftir húseignum og verslunum SMS og Bónus í Færeyjum. Til viðbótar fékk Jóhannes í nesti fullan poka af peningum. Ég man ekki hvoru megin við 100 milljónir þeir töldu.
Rökin fyrir því að skilja Jóhannes ekki eftir slyppan, snauðan og gjaldþrota voru þau að þá væri hætta á að hann myndi stofna nýja matvöruverslanakeðju. Ef honum tækist það myndi hann fara í samkeppni við Bónus, 10-11 og Hagkaup. Þar með myndi hann veikja rekstrargrundvöll þeirra verslana, þær yrðu verðlausar og færu jafnvel á hausinn. Ef Jóhannes myndi ekki stofna nýja matvöruverslanakeðju væri ólíklegt að nokkur annar tæki upp á því.
Af sömu kænsku þótti ástæða til að gefa Jóhannesi eftir verslanirnar í Færeyjum. Á meðan hann væri að sinna þeim myndi hann ekki hafa rænu á að stofna nýja matvöruverslanakeðju á Íslandi.
Verslanir Bónus og SMS eru margar og áberandi í Færeyjum. Þar fyrir utan er SMS samnefndur verslanaklasi í höfuðborg Færeyja, Þórshöfn. Einskonar færeyska Kringlan. Nema SMS er miklu flottari.
Jóhannes heldur ekki að sér höndum í Færeyjum. Enda stórlax í færeysku viðskiptalífi. Í þessum skrifuðu orðum var hann að kaupa verslunarmiðstöðina Miðlon í Þórshöfn. Eftir því er ég kemst næst gerði hann eigendum Miðlon svo gott kauptilboð að útilokað var fyrir þá að hafna því. Færeyingar nota orðið lon yfir raðhús og aðrar húsalengjur. Nafnið Miðlon getur því útlagst Miðlengja.
Miðlon er ekki vel staðsett. Hún er ofarlega í Þórshöfn og utan göngufæris flestra höfuðborgarbúa. Hinsvegar hýsir hún ýmsar nauðsynjavöruverslanir. Þar á meðal einu vínbúðina í Þórshöfn. Einnig hýsir Miðlon banka, raftækjaverslunina Elding (einskonar færeysk Elkó), gleraugnaverslun, barnafatabúð og ýmsar aðrar verslanir. Sennilega hátt í 10 alls.
Illar tungur fullyrða í mín eyru að tilgangurinn með kaupunum á Miðlon sé sá að flytja vínbúðina úr Miðlon yfir í SMS. Ég veit ekki hvort að það sé rétt. Vissulega yrði vínbúð í SMS öflug lyftistöng fyrir þann verslanaklasa. Að sama skapi myndi brottför vínbúðarinnar úr Miðlon veikja þá verslunarmiðstöð verulega. Hvað sem verður þá er assgoti góð markaðshlutdeild í Þórshöfn að hafa undir höndum bæði SMS og Miðlon.
Miðlon keypti Jóhannes í nafni SMS ásamt 3-arin og Skousen. SMS er með 50% hlut en 3-arin og Skousen með 25% hvor. Ég veit ekki alveg hvernig fyrirtæki 3-arin er í dag. Nafnið 3-arin þýðir 3-í-einu. Nafnið var dregið af því að 3-arin var plötufyrirtæki, ljósmynda- og framköllunarfyrirtæki og og man ekki hvert 3ja fyrirtækið var. Í dag heitir plötudeildin Expert. Ég veit ekki hvað varð um hin fyrirtækin. Ég held að ljósmynda- og framköllunarfyrirtækið starfi ekki lengur. Að minnsta kosti ekki á sama stað og það var í SMS.
Skousen er - að mig minnir - heimilistækjaverslun (ísskápar, þvottavélar...).
Fjármál | Breytt 21.5.2011 kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
1.5.2011 | 15:19
Níðingslegt athæfi
Fjármál | Breytt 8.5.2012 kl. 02:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.4.2011 | 04:10
Gott og einfalt ráð til að kýla niður rafmagnsreikninginn
Á flestum íslenskum bæjum fer drjúgur hluti orkunotkunar heimilisins í að sjóða kartöflur. Kartöflur eru soðnar fyrir hádegisverð og annar skammtur fyrir kvöldmat flesta daga. Á sumum bæjum eru kartöflur reyndar aðeins soðnar einu sinni á dag. Þessi stöðuga suða á kartöflum telur sig saman í háa upphæð fyrir rafmagn á ársgrundvelli. Hefðin er sú að sjóða kartöflurnar í 43 mínútur.
Þessum kostnaði má auðveldlega ná verulega niður á eftirfarandi hátt: Helltu fyrst sjóðandi heitu vatni úr rafmagnskatlinum yfir kartöflurnar í pottinum. Kveiktu síðan á hellunni undir pottinum. Suðan kemur fljótlega upp. Leyfðu henni að halda sér í 16 mínútur. Þá slekkur þú á hellunni en lætur pottinn standa þar óhreyfðan með loki á í 32 mínútur. Þá eru kartöflurnar snyrtilega soðnar, ferskar og góðar. Það sem mestu máli skiptir er að hýðið er ósprungið.
Eitt það vitlausasta sem nokkur manneskja gerir er að salta kartöflur fyrir suðu. Saltið nær ekkert að smjúga inn í kartöflurnar nema saltmagnið sé nánast til jafns við kartöflurnar og hýðið springi.
Til gamans má geta að á færeysku heita kartöflur epli. Það sem Íslendingar kalla epli heitir á færeysku súr epli. Fólk reynir að ruglast ekki á þessu.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 04:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)
13.4.2011 | 22:10
Ósvífið svindl
Ég átti erindi til Hafnarfjarðar í dag. Í nágrenni við Fjarðarkaup rak ég augu í skilti með merkingunni "Ódýrt bensín". Bensínið sem ég hef keypt undanfarin ár hefur verið okurdýrt. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar. Ég hef ekki rekist á ódýrt bensín í áraraðir. En nú var lag. Þannig að ég brá við skjótt og fyllti á bílinn þetta sem var auglýst ódýrt bensín. Þegar á reyndi kom í ljós að hið svokallaða "ódýrt bensín" kostaði um 230 kall lítrinn.
Er það ódýrt bensín? Í minni brengluðu verðvitund er það dýrt bensín. Rándýrt. Er þetta Hafnarfjarðarbrandari?
![]() |
Álagið hið lægsta frá hruni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt 14.4.2011 kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
13.4.2011 | 01:51
Einn léttur
Ljóskan vann 600 milljónir í lottói. Á mánudeginum mætti hún á skrifstofu lottósins til að sækja vinninginn. Henni var tjáð að áður en hún fengi vinning greiddan út yrði hún að sækja sérstakt námskeið fyrir vinningshafa svo stórrar upphæðar. Þar myndu fjármálaráðgjafar, sálfræðingar og aðrir slíkir fara yfir málin með henni. Jafnframt væri þetta hár vinningur ekki greiddur út á einu bretti heldur myndi hún fá 100 milljónir afhentar 1. maí næstu sex ár.
Viðbrögð hennar urðu þau að segja: "Þetta er svindl. Ef ég fæ ekki mínar 600 milljónir afhentar strax þá mun ég slíta hér og nú öllum viðskiptum við fyrirtækið, skipta aldrei við það framar, og stefna ykkur til að endurgreiða mér lottómiðann undir eins!"
Fjármál | Breytt s.d. kl. 07:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
6.4.2011 | 04:57
Gott ráð fyrir fólk í dreifbýlinu
Fjármál | Breytt s.d. kl. 05:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
31.3.2011 | 07:36
Nauðsynlegt að vita um Happaþrennur
Ég rölti framhjá sjálfsala sem glennti framan í mig Happaþrennur. Á einni þeirra stóð eitthvað er mátti skiljast sem hægt væri að fá 13 milljónir króna út á hana. Mig langaði í þessar 13 millur. Ég þarf nefnilega að kaupa mér nýjan bíl eftir að sá gamli var klessukeyrður af ókunnugum manni að flýta sér. Kennara sem var orðinn aðeins of seinn í kennslustundina.
Happaþrennan kostaði 200 kall. Ég hugsaði með mér: "Það er góð fjárfesting að fá 13 milljón krónur fyrir 200 kall. Það er óábyrg meðferð á 200 krónum að sleppa þessu tækifæri."
Eitthvað fór úrskeiðis. Er ég hafði skafið af Happaþrennunni kom í ljós að það vantaði eina tölu sem á stóð "13". Á miðanum stendur: "Ef talan 13 kemur þrisvar sinnum upp fást 13.000.000 í vinning." Hvernig sem ég leitaði fann ég töluna 13 aðeins á tveimur stöðum á skaffleti miðans.
Ég sá í hendi mér að ég þyrfti að breyta miðanum. Koma þessu eintaki af "13" sem vantaði inn á skafflötinn svo þar væri tríó af henni. Á meðan ég velti því fyrir mér hvernig best væri að breyta miðanum varð mér litið á bakhlið hans. Þar segir svo um leikreglur:
"Miði er ógildur ef honum hefur verið breytt."
Mér er ljúft og skylt að koma þessu á framfæri. Ég er ekki viss um að fólk viti þetta.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
24.3.2011 | 23:50
Brúðkaup aldarinnar - klúður!
Það er ekki sjálfgefið að allt gangi fyrir sig eins og vel smurð vél þegar fólk setur stefnu á að ganga í hjónaband. Einkum er eins og hlutir vilji fara úr skorðum þegar markið er sett hátt varðandi brúðkaupsveisluna og allt sem henni fylgir. Þannig fór fyrir pari sem hér verður sagt frá. Leikar fóru þannig að parið skiptist á málsóknum í stað þess að skiptast á giftingarhringum þegar stóra stundin var við það að renna upp. Brúðguminn væntanlegi hafði frumkvæði af því að aflýsa brúðkaupinu er hann uppgötvaði að tilvonandi eiginkonan hafði stofnað til útgjalda upp á 100.000 dollara (næstu 12 milljóna íslenskra kr.) við undirbúning brúðkaupsins í Illinois í Bandaríkjum Norður-Ameríku.
. Honum var svo brugðið við þessa uppgötvun að hann harðneitar að vera ábyrgur fyrir útgjöldunum. Þess í stað hefur hann farið í mál við konuna og krefst endurgreiðslu frá henni fyrir giftingarhringum þeirra. Þeir kostuðu 45.000 dollara (röskar 5 milljónir íslenskra kr.). Sennilega er kostnaðurinn við hringana inni í 100.000 dollara tölunni (þó það komi ekki fram í fréttum af málinu). Konan hefur á móti stefnt manninum til að standa skil á þessum 100.000 dollara útgjöldum sem þegar eru að hluta fallin í gjalddaga. Enda kannast hún ekki við að maðurinn hafi sett nein skilyrði fyrir að skorið væri við nögl við undirbúning brúðkaupsins.
Fjármál | Breytt 25.3.2011 kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)