Kvikmyndarumsögn

 - Titill:  Vertu þín eigin hetja  (Whip It)

 - Leikstjóri:  Drew Barrymore
.
 - Einkunn: *** (af 5)
.
  Þessa umsögn þarf að lesa með þeim fyrirvara að karl kominn hátt á sextugsaldur er ekki í markhópi myndarinnar.  Ástæðan fyrir því að ég kíkti á myndina var sú að ungur sonur grænlenskrar vinkonu minnar millilenti á Íslandi á leið frá Grænlandi til Danmerkur.  Hann bað mig um að fara með sér á myndina.  Það er ekkert kvikmyndahús á Austur-Grænlandi.
  Ég var afar neikvæður í garð myndarinnar til að byrja með.  Hugsaði með mér:  "Hverjir voru að gefa myndinni 4 stjörnurnar sem vitnað er til í auglýsingum?  Ég gef henni eina stjörnu og það bara fyrir fín lög með The Ramones og Radiohead."
.
  Í upphafi myndar eru kynntar til sögunnar mæðgur í smáþorpinu Bodeen í Texas.  Mamman er óþolandi smáborgari.  Hana dreymdi á sínum tíma um að ná árangri í fegurðarsamkeppni.  Komin á miðjan aldur reynir hún að láta drauminn rætast í gegnum 17 ára dóttir sína,  Bliss (Ellen Page), og aðra á barnsaldri. 
  Lítill villingur bærist í Bliss.  En hún vill þóknast mömmunni.  Bliss fær áhuga á rúlluskautakeppni.  Þar er engin elsku mamma.  Stelpurnar beita kjaftshöggum og fleiri óþokkabrögðum sem virðast vera leyfileg í keppninni. 
  Inn í líf Bliss blandast rómatík. Hún byrjar að vera með söngvara í rokkhljómsveit.  Það gengur á ýmsu í þeirra sambandi.  Það er töluvert drama. 
  Er líður á myndina dúkka upp ágætir brandarar í bland við gamalkunnar klisjur.  Bliss verður hjólaskautahetja án vitneskju foreldranna.  Bliss verður meiri töffari er fram í sækir.  Gerir loks uppreisn gegn mömmu sinni og hennar smáborgaralegu viðhorfum.  Það er gælt við vangaveltur um hvort hjólaskautakeppni snúist um það eitt að sigra eða hvort þetta sé léttur leikur sem fyrst og fremst eigi að hafa gaman af.  Ég vona að það eyðileggi ekki neitt fyrir þeim sem eiga eftir að horfa á þessa mynd þó uppljóstrað sé að í úrslitakeppninni tapar lið Bliss.  Þau úrslit eru ásættanleg í ljósi boðskapar myndarinnar:  Að mestu skiptir að vera sín eigin hetja,  standa með sjálfum sér fremur en vera í því hlutverki að þóknast öðrum eða níðast á öðrum.  Í fljótu bragði man ég ekki eftir annarri kvikmynd í þessum dúr þar sem lið söguhetjunnar tapar í úrslitaleik í lok myndar.  Og það eftir að spenna hefur verið byggð upp fyrir að sigurinn skipti öllu máli.
.
  Þrátt fyrir klisjurnar í myndinni er hún einnig - eins og Bliss - í uppreisn gegn klisjunum.  Þetta ristir ekki mjög djúpt en nóg til að vekja áhorfandann til umhugsunar um hvað gefi lífinu fyllingu. Hvað skiptir máli þegar upp er staðið.
  Það er hellingur af þekktum leikurum í myndinni.  Ég er klaufi í að muna nöfn leikara.  Aðalleikonan,  Ellen Page,  er skemmtilega lík Unni Birnu fegurðardrottningu og stundum Kolfinnu Baldvinsdóttur.  Hún býður af sér góðan þokka.  Það er auðvelt að hafa samúð með henni. 
  Ég get mælt með þessari mynd sem góðri skemmtun fyrir unglinga.  Grænlenski strákurinn var mjög hrifinn af henni.  Ekki síður vakti honum mikla og gleðilega undrun að gert var hlé á myndinni til að hann gæti farið út að reykja.  Þar sem hann stóð innan um tugi unglinga að reykja úti fyrir Kringlubíói blasti við skilti sem boðar bann við reykingum.  Það þótti stráksa undarlegt.  Hann gaf myndinni 4 stjórnur.  Ég gef henni 3 stjörnur.  Það er rausnarlegt af minni hálfu.  Stráksi er í markhóp myndarinnar.  Ekki ég. 
.
  Það er gaman að sjá íslenskan titil á myndinni.  Vertu þín eigin hetja  er góð þýðing á  Whip it.  Til fyrirmyndar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Still, I bet going to see that movie is better than what I am doing tonight. Sitting home trying to write something about historic sites in Iceland.

Lissy (IP-tala skráð) 16.1.2010 kl. 20:36

2 Smámynd: hilmar  jónsson

Jens, ertu búinn að sjá mynd sem heitir: Noise, með Tim Robbins og William Hurt ?

Einhvernvegin, þó án þess að þekkja þig, held ég að þú myndir fíla þá mynd í botn. kv.

hilmar jónsson, 16.1.2010 kl. 21:02

3 Smámynd: Jens Guð

  Lissy,  you are right.

Jens Guð, 16.1.2010 kl. 21:57

4 Smámynd: Jens Guð

  Hilmar,  ég hef ekki séð  Noise.  Þessir leikarar eru yfirleitt í áhugaverðum myndum.  Ég sló  Noise  upp í Wikipedia og lýst vel á.  Takk fyrir ábendinguna. 

Jens Guð, 16.1.2010 kl. 22:00

5 Smámynd: Ómar Ingi

Held að það sé að vaxa á þig Sköp Jens minn

Ómar Ingi, 16.1.2010 kl. 22:29

6 Smámynd: Jens Guð

  Ómar Ingi,  það væri eftir öðru.  Með aldrinum eru nefhár farin að vaxa niður í yfirvararskeggið,  bjórvömb farin að vaxa yfir beltisstrenginn,  hárskerinn minn er byrjaður að raka hár af eyrunum á mér,  augabrúnir eru teknar upp á því að vaxa í allar áttir,  ég er hættur að smella framhjá sumum rólegum lögum í geislaspilaranum og stóð mig að því á dögunum að skoða í búð stelpnadót sem mig langar til að gefa afadóttur minni þegar hún verður aðeins eldri...

Jens Guð, 16.1.2010 kl. 23:06

7 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 17.1.2010 kl. 14:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.