Gamli einbúinn - páskasaga

hús í snjó1

  Gamli einbúinn á afskekkta afdalabýlinu er einn.  Alltaf einn.  Það eru næstum fjórir áratugir síðan hann bauð eiginkonu sinni og börnum síðast í heimsókn.  Hann hefur ekkert heyrt frá þeim síðan.  Reyndar heyrði hann ekki í þeim þá.  Hann var uppi á fjöllum að eltast við ísbirni allan tímann sem þau voru í heimsókn.  Hann fann engan ísbjörn og engin merki þess að ísbjörn hafi verið uppi á fjöllum.

  Allir aðrir en gamli einbúinn eru fluttir burtu úr sveitinni fyrir löngu.  Það liggur ekki almennilegur vegur til afdalabýlisins.  Bara hlykkjóttur hestatroðningur.  Þess vegna kemur aldrei neinn lengur í heimsókn.  Einbúinn fer aldrei lengur af bæ.  Hann á ekkert erindi annað.  Á afdalabýlinu hefur hann allt til alls.  Hann er með kindur,  kýr,  hænur, hesta,  hund, kött og innrammaða ljósmynd af Davíð Oddssyni klippta út úr Morgunblaðinu.  Meira þarf hann ekki.
  Póstur hefur ekki verið borinn út í sveitinni eftir að sveitungarnir fluttu burtu.  Einbúinn saknar þess ekki.  Hann fékk aldrei annan póst en rukkanir.  Það er gott að vera laus við þær.
.
  Einbúinn lætur fara vel um sig í myrkrinu.  Hann liggur undir heyhrúgu og malar eins og köttur.  Úti gnauðar norðangarri.  Stórhríðin fyllir upp í hverja glufu.  Það er brunagaddur.  Lífið er yndislegt.  Gæti ekki verið betra.
  En hvað er þetta?  Það heyrist dauft vélarhljóð í fjarska.  Gamli einbúinn trúir ekki sínum eigin eyrum.  Hann slær þéttingsfast á eyrun til að eyða þessari ofheyrn.  Mótorhljóðið þagnar ekki.  Þvert á móti.  Það færist ört nær og verður háværra.  Þetta er undarlegt.  Brátt bregður fyrir birtu á hélaðar rúðurnar.  Einbúinn sprettur upp eins og stálfjöður og rýnir út um gluggann.  Í þann mund leggur stór snjóbíll á beltum fyrir utan.  Stórir ljóskastarar lýsa upp hlaðið.  Út úr bílnum snarast hópur einkennsiklæddra kappdúðaðra manna.  Einn er með járnkarl sem hann lemur kröftuglega ofan í frosna jörðina nokkrum sinnum.  Annar er með vel yddaðan tréstaur sem hann stingur ofan í holuna eftir járnkarlinn.  Sá þriðji lemur með sleggju ofan á staurinn uns staurinn er pikkfastur í jörðinni.  Fjórði maðurinn spennir með járnhring póstkassa á staurinn.  Fimmti maðurinn stingur stóru umslagi ofan í póstkassann.  Síðan stökkva mennirnir aftur upp í snjóbílinn.  Um leið og bílnum er ekið á brott í stórri sveigju á hlaðinu fer hann yfir hænsnakofann.  Kofinn brotnar í smátt undir bílnum.  
  Gamli einbúinn getur ekki varist hlátri.  Hann kallar á hundinn:  "Kisi,  nú eru hænurnar hissa.  Þær vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið þegar þær fjúka yfir holt og hæðir.  Best gæti ég trúað að þær snúist eins og vindhanar og séu ringlaðar.  Kisi minn,  svona ævintýri lenda hænurnar ekki í á hverjum degi."
  Gamli einbúinn fær hóstakast.  Það eru mörg ár síðan hann hefur hlegið.  Hann er ryðgaður í því hvernig á að hlæja.  Hann er vanari að hósta.  Hann hóstar eins og unglamb.
.
  Gamla einbúanum verður hugsað til póstkassans.  Hvað ætli sé í umslaginu?  Gamli einbúinn er harðákveðinn í að sækja umslagið einhvern daginn.  Jafnvel opna það.  Gamla einbúanum líður vel eftir að hafa tekið þessa ákvörðun.  Hann er sáttur við sjálfan sig.  Reyndar þykist hann vita hvað sé í umslaginu.  Það getur ekki verið annað en ástarbréf.  Það er enginn friður fyrir stelpunum,  hugsar gamli einbúinn og hristir hausinn hneykslaður.  Ekki hausinn á sér heldur hausinn á hundinum.
.
  Tíminn líður hratt á gervihnattaöld.  Vikur og mánuðir líða.  Ekkert ber til tíðinda.  Gamli einbúinn gjóar stundum augum til póstkassans.  Einkum þegar hann saknar þess sárast að geta ekki fengið sér hrátt egg í matinn síðan hænurnar fuku út í buskann.  
  Um haustið lætur Gamli einbúinn til skarar skríða.  Hann tekur umslagið úr póstkassanum.  Nafn hans og heimilsfang er prentað á framhlið umslagsins.  Á bakhliðinni stendur:  "Sendandi:  Jón Jónsson,  Hökuskarði 526,  Hólum í Hjaltadal,  Skagafirði."  Póststimpillinn er skýr og greinilegur.  Þar stendur dagsetningin 29. febrúar 2152.  Dagsetningin vekur undrun gamla einbúans.  Forvitni hellist yfir hann.  Hann strengir þess heit að skoða innihald umslagsins sem fyrst.  Ekki síðar en um áramótin.  Gamli einbúinn stingur umslaginu undir dautt lamb sem hann notar fyrir kodda og sefur á því næstu mánuði.       
  Áramótin líða.  Gamli einbúinn er búinn að gleyma umslaginu.  Um vorið ákveður hann að snúa dauða lambinu við því það er morkið og komið hausfar í það.  Þá rekst hann á umslagið.  Nú dugir ekkert hangs.  Gamli einbúinn kallar á hundinn sinn:  "Kisi,  komdu hérna og opnaðu umslagið."   Hundurinn svarar engu.  Hann þykist ekki heyra í gamla einbúanum.  Það er grundvallarregla hjá hundinum að hunsa hvern þann sem kallar hann Kisa.  Þetta er ekkert persónulegt gagnvart gamla einbúanum.  Reglan á við um alla.
  Fleira gerist ekki þennan dag.  Morguninn eftir sækir gamli einbúinn skóflu.  Fyrir aftan húsið grefur hann upp forláta sveðju.  Þar gróf hann sveðjuna fyrir nokkrum árum til að enginn myndi meiða sig á flugbeittri egg sveðjunnar.  Gamli einbúinn leggur umslagið á viðarbút.  Svo heggur hann með sveðjunni bláendann af því.  Því næst grefur hann sveðjuna niður aftur.  Stutt frá grefur hann niður uppáhaldsbein hundsins.  Það er hrekkur.  
  Eftir þetta leggur gamli einbúinn sig.  Hann er dauðþreyttur.  Hálftíma síðar vaknar hann upp við að hundurinn pissar framan í hann.  Kannski mýkir þetta húðina og varðveitir æskuljóma minn,  hugsar gamli einbúinn jákvæður og hress.  Hann er í svo góðu stuði að hann kíkir ofan í umslagið.  Þar blasir bréf við.  Gamli einbúinn fiskar það upp úr umslaginu eins og vanur veiðimaður.  Það stendur ekkert á bréfinu.  Það er skjannahvítt.  Enginn texti.  Engin mynd   Ekkert.  
  Þetta er kjánalegt,  hugsar gamli einbúinn.  Öll þessi fyrirhöfn út af óskrifaðri og óprentaðri pappírsörk.  Gamli einbúinn hendir pappírsörkinni frá sér.  Það hvarflar að honum að spretta á fætur og sparka í hundinn.  Til að gera eitthvað.  Í þann mund sér hann pappírsörkina snúast við áður en hún lendir á gólfinu.  Þá blasir prentaður texti við.  Gamli einbúinn áttar sig strax á því að hann hafði horft vitlausu megin á pappírsörkina áður en hann henti henni frá sér.  Hann teygir sig í bréfið og les það sem í því stendur:
.
  Hólum 29. febrúar 2152
  Kæri langalangalangalang-afi.
  Við vorum að fá nýjan tímaflakkara í skólann.  Mér datt í hug að það gæti verið gaman að skrifast á við þig.  Láttu mig vita hvort þú hefur fengið þetta bréf.  Það gerir þú með því að grafa snyrtilega X í einn fermetra á hlaðinu hjá þér.  Í X-ið raðar þú steinum.  Þetta X get ég séð í gegnum gervihnattarhnit.  Ef þú mokar yfir X-ið þannig að ekkert sjáist verður ekki hróflað við X-inu næstu aldir.  Þá skal ég póstsenda þér upplýsingar um ættingja þína.  Hvað á daga þeirra hefur drifið eftir að þú er allur. Ég sé í ættarskránni að þú varst bóndi.  Ég hlakka til að senda þér fleiri póstbréf.
  Jón Jónsson
.
  Gamli einbúinn horfir undrandi á bréfið.  Hann les það aftur.  Svo klippir hann bréfið í þrjá jafn stóra strimla.  Hann teygir sig í gamalt kökubox og dregur þaðan upp væna tuggu af hassi.  Hassinu skiptir hann á milli strimlanna.  Hann vefur strimlana vönum handtökum upp í vindlinga.  Hann kveikir í einum og sýgur þykkan reykinn ofan í lungun.  Gamli einbúinn kumrar af hamingju.  Mikið er ég alltaf heppinn,  hugsar hann.  Einmitt þegar mig vantaði bréf kom það í pósti.  Um leið og gamli einbúinn berst við að halda reyknum ofan í lungunum færist fyrirlitningarsvipur yfir andlitið.  Hann hugsar:  Jón Jónsson.  Þvílíkt rugl.  Það hefur aldrei verið neinn Jón í minni ætt.
                        
---------------------------------
 Fleiri smásögur og leikrit:
 - Saga af systrum
.
 - Jólasaga
.
- Á rjúpnaveiðum:
.
- Ólétta nunnan:
.
- Gullfiskur:
.
- Flugvélamódel:
.
- Miðaldra maður:
.
- Leyndarmál stráks:
.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hamarinn

Hamarinn, 31.3.2010 kl. 09:46

2 identicon

Á morgun er fyrsti apríl.  Ég býst vid miklu af thér á morgun. 

Vald thitt á tungumálinu er óumdeilanlegt...ég geri thó athugasemd vid thetta:

"Allir aðrir en gamli einbúinn eru fluttir burtu úr sveitinni fyrir löngu síðan."

Gjagg (IP-tala skráð) 31.3.2010 kl. 10:48

3 Smámynd: Hjóla-Hrönn

Ó, hvað ég skil þann gamla vel, tilhlökkunin var ekki ósvipuð hjá mér þegar ég fékk tilboð eftir hrun í Exista hlutabréfin mín.  Ég fékk stórt umslag fullt af brakandi fallegum glanspappír inn um lúguna.  Ég var óratíma að finna upphæðina og græðgin og eftirvæntingin var alveg að fara með mig.  Tilboðið hljóðaði upp á heilar 44 krónur í öll hlutabréfin.  Kostnaðurinn við glansprentaða tilboðið hefur hins vegar hlaupið á nokkrum hundruð króna.  Ég hefði betur stungið umslaginu óopnuðu undir koddann og látið mig dreyma í nokkra daga...

Hjóla-Hrönn, 31.3.2010 kl. 14:59

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 31.3.2010 kl. 21:34

5 identicon

Takk fyrir góða pistla

Karl J Ingólfsson (IP-tala skráð) 31.3.2010 kl. 22:43

6 identicon

þessi var yndisleg!!

sæunn (IP-tala skráð) 1.4.2010 kl. 01:47

7 Smámynd: Halla Rut

æj, þetta er eitthvað svo sorglegt.

Halla Rut , 1.4.2010 kl. 11:16

8 identicon

Þessar smásögur þínar eru gargandi snilld!

Tómas (IP-tala skráð) 1.4.2010 kl. 22:30

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þú ert engum líkur Jens.  Frábær saga og full af fínni stemmningu. Kommentið hennar Hrannar hér að ofan er líka snilldin ein.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.4.2010 kl. 14:44

10 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Hæ! MR. Jens,leit inn í kyrrðina.

                       Ein búin.


                
                      

Helga Kristjánsdóttir, 4.4.2010 kl. 02:45

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gleðilega páska, Jensinn minn!

Þorsteinn Briem, 4.4.2010 kl. 19:53

12 Smámynd: Jens Guð

  Hamarinn,  takk fyrir innlitið og viðbrögðin.

Jens Guð, 7.4.2010 kl. 23:52

13 Smámynd: Jens Guð

  Gjagg,  ég hef verið fjarri tölvu undanfarna daga.  1.  apríl fór eiginlega framhjá mér þar sem ég var staddur í Færeyjum.

  Bestu þakkir fyrir ábendinguna.  Ég brá við skjótt og lagfærði textann.  Ég er þakklátur fyrir svona leiðréttingar.  Einhverjar af þessum sögum mínum koma út í bók á næsta eða þó öllu líklegra þarnæsta ári.  Þá fer betur á að þær séu þokkalega orðaðar. 

Jens Guð, 7.4.2010 kl. 23:57

14 Smámynd: Jens Guð

  Hjóla-Hrönn,  takk fyrir skemmtilega sögu.

Jens Guð, 7.4.2010 kl. 23:57

15 Smámynd: Jens Guð

  Jóna Kolbrún,  takk fyrir innlitið og viðbrögðin.

Jens Guð, 7.4.2010 kl. 23:59

16 Smámynd: Jens Guð

  Karl J.,  takk fyrir "komlímentið".

Jens Guð, 8.4.2010 kl. 00:00

17 Smámynd: Jens Guð

  Sæunn,  lífið er yndislegt.  Sumar lygasögur líka.

Jens Guð, 8.4.2010 kl. 00:01

18 Smámynd: Jens Guð

  Hall Rut,  þetta er sorglegt.  Góðu fréttirnar eru að þetta er lygasaga.

Jens Guð, 8.4.2010 kl. 00:02

19 Smámynd: Jens Guð

  Tómas,  það er gaman að þú skulir hafa húmor fyrir þessu bulli.  Sjálfur er ég á mörkunum að fatta allt þetta bull.

Jens Guð, 8.4.2010 kl. 00:03

20 Smámynd: Jens Guð

  Jón Steinar,  bestu þakkir fyrir umsögn þína.  Það er gaman að fá svona dóm frá virtum rithöfundi og höfundi snilldar kvikmyndarinnar Innerguat (ef nafnið er rétt skrifað?).

Jens Guð, 8.4.2010 kl. 00:05

21 Smámynd: Jens Guð

  Helga,  vonandi raskaði þessi bullsaga ekki kyrrðina um of.

Jens Guð, 8.4.2010 kl. 00:06

22 Smámynd: Jens Guð

  Steini minn kæri,  vonandi áttir þú góða páskahelgi líka.  Mér hlotnuðust þau skemmtilegu örlög að verja vikunni í vinnuferð í Færeyjum með hinum frábæra Svarfdælingi Ingólfi Júlíussyni.  Ég veit að þú þekkir Árna Daníel bróður hans.  Sem líka er meiriháttar frábær. Eins og allir Svarfdælingar sem ég þekki.

Jens Guð, 8.4.2010 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband