Rokkstjörnudóp

  Á seinni hluta áttunda áratugarins starfaði ég sem blaðamaður.  Ég skrifaði aðallega um poppmúsík fyrir dagblöð og tímarit.  Eitt sinn komu í heimsókn til mín þrír liðsmenn þá vinsællar hljómsveitar.  Erindið var að framundan var hljómleikaferð hjá hljómsveitinni.  Ég bjó í lítilli kjallaraíbúð.  Í kjallaranum var einnig kyndiklefi.  Til að eyða kyndiklefalyktinni hafði frúin sett matarsóta í litla desertukál sem komið var fyrir ofan á heitum ofni.  Það virkaði eins og besta loftræstikerfi.

  Strákarnir í hljómsveitinni voru í annarlegu ástandi.  Þeir voru varla fyrr mættir á svæðið en einhver þeirra kom auga á matarsótann.  Hann hrópaði fagnandi:  "Vá,  hvað þú átt mikið!  Megum við fá smá?"  Ég áttaði mig varla á við hvað var átt og svaraði í hálfkæringi:  "Endilega!"  Það skipti engum togum að strákarnir rúlluðu eldsnöggt peningaseðlum upp í einskonar sogrör.  Síðan lögðust þeir á desertuskálina og sugu upp í nefið góða slurka af matarsótanum.

  Heimsóknin var stutt enda erindið fyrirliggjandi í fréttatilkynningu.  Er þeir kvöddu hnippti einn þeirra í mig og sagði hálf hvíslandi í trúnaði:  "Þetta er ekki gott efni.  Alltof mikið "köttað"."

  Lagið hér fyrir neðan hefur ekkert að gera með frásögnina.  Þetta er bara ljúf dönsk ballaða með hljómsveitinni The Arcane Order.  Ég vissi ekki fyrr en bara í gær að Danir gætu rokkað.  Jú,  jú,  auðvitað leiðindaskarfurinn Lars Ulrich.  En þar fyrir utan hafði ég lengi leitað að dönsku rokki.  Án árangurs.  DAD er ekki talin með (nema vegna skemmtilega viðtalsins í Litlu hafmeyjunni siðasta laugardag).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sjóveikur

þú kanski hefðir gaman að "Lost Kids" frá Århus ? Gamalt en nokkuð áhugaverð hljómsveit sem er nostalgía hjá Baununum  þeir eru til og með spilaðir í Svíþjóð í "betri" músíkþáttum !

Kveðjur frá Sverige

Sjóveikur, 11.6.2010 kl. 02:55

2 Smámynd: Dingli

Hvernig hvarflaði það að þessum nashyrningum að þú hefðir þína einka-eðalblöndu á glámbekk þegar þeir komu.  Væri líkast því að setja sitt besta cognac á borðið þegar útskúfaði frændinn Kalli Kardó bankar.

Dingli, 11.6.2010 kl. 08:04

3 identicon

Það er til dönsk rokkabillí hljómsveit sem að heitir Nekromantix. Þeir eru búnir að starfa lengi svo að þeir eru æði misjafnir en áköflum taka þeir ansi góða spretti

Gss (IP-tala skráð) 11.6.2010 kl. 10:30

4 Smámynd: Hannes

Skemmtilegt þetta með Matarsódann. Ég var einu sinni í samkvæmi þegar einn fór í vasann og náði í hvít duft og lét alla halda að þetta væri dóp.

Hannes, 11.6.2010 kl. 19:38

5 Smámynd: Jens Guð

  Sjóveikur,  bestu þakkir fyrir ábendinguna.  Ég er búinn að skemmta mér vel við að fletta upp á Lost Kids á þútúpunni.

Jens Guð, 12.6.2010 kl. 00:48

6 Smámynd: Jens Guð

  Dingli,  ég hafði ekki rænu á að matasótinn væri svona girnilegur.

Jens Guð, 12.6.2010 kl. 00:49

7 Smámynd: Jens Guð

  Gss,  takk fyrir ábendinguna um Nekromantix. Ég fletti upp á þeim á þútúpunni.   Þetta er áhugaverð hljómsveit.  Ég mundi allt í einu eftir því að ég á 2 plötur með grínhljómsveitinni Red Warszawa:  http://www.youtube.com/watch?v=-K18J-TrNGg&feature=related

Jens Guð, 12.6.2010 kl. 01:23

8 Smámynd: Jens Guð

  Hannes,  hvað var hvíta duftið?

Jens Guð, 12.6.2010 kl. 01:24

9 Smámynd: Hannes

Hveiti.

Hannes, 12.6.2010 kl. 01:24

10 Smámynd: Jens Guð

  Hvað var gaurinn að gera með hveiti í vasanum?

Jens Guð, 12.6.2010 kl. 02:14

11 Smámynd: Hannes

Jens hann kom með það til að djóka aðeins í þeim sem voru viðstaddir.

Hannes, 12.6.2010 kl. 02:18

12 Smámynd: Jens Guð

  Góður húmor.  Rifjar upp þegar einn kunningi minn var á sjónum.  Nýliða á bátnum var talin trú um að áhöfnin væri að reykja hass.  Þeir voru bara með venjulegt píputóbak en settu það í 2ja lítra kókflöskudæmi og þóttust allir fara í vímu.  Nýliðinn fór í vímu og dansaði um dekkið kallandi:  "Ég svíf,  ég svíf!".  Hann baðaði út höndum og lék fugl.  Þetta endurtók sig daglega allan túrinn,  áhöfninni til mikillar skemmtunar.  Viðkomandi var hinsvegar svo slakur sjómaður að hann fór ekki fleiri túra með þeim.  Við þetta má bæta að einn sjóarinn reykti alvöru hass og varð síðar þingmaður.  Ekki orð um það meir.   

Jens Guð, 12.6.2010 kl. 02:27

13 identicon

Black city:
http://www.youtube.com/watch?v=fwZIoGm9QB8

svo má ekki gleyma hinni ágætu gruggsveit Dizzy Mizz Lizzy
http://www.youtube.com/watch?v=UveZhj6qlqY

Auðjón (IP-tala skráð) 12.6.2010 kl. 10:01

14 Smámynd: Jens Guð

  Auðjón,  Danir eru sem sagt rokkarar þegar vel er að gáð?  Ég er svo aldeilis hissa.

Jens Guð, 12.6.2010 kl. 13:32

15 Smámynd: Sigurbjörg Sigurðardóttir

Haaa,ha skemti mér vel við þennan lestur.

Sigurbjörg Sigurðardóttir, 12.6.2010 kl. 17:02

16 identicon

Seint myndi ég kalla þá rokkara en innan um alla drulluna má finna einn og einn gullmola.

Auðjón (IP-tala skráð) 12.6.2010 kl. 22:36

17 Smámynd: Jens Guð

  Sigurbjörg,  gaman að heyra.

Jens Guð, 12.6.2010 kl. 23:27

18 Smámynd: Jens Guð

  Auðjón,  það má sennilega allsstaðar finna rokkara.  Líka í Íran og Kína.

Jens Guð, 12.6.2010 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband