Splundraði Yoko Bítlunum?

 
.
 Yoko Ono hefur verið sökuð um að hafa sundrað Bítlunum;  valdið endalokum mestu hljómsveitar rokksögunnar.  Fyrir það var hún hötuð í áratugi.  Jafnvel eimir eftir af því í dag,  meira en fjórum áratugum síðar.  Það má meta þátt Yoko(ar) í því að Bítlarnir liðuðust í sundur út frá mörgum sjónarhornum.
.
  Lennon var leiðtogi og hafði ríka þörf fyrir hirð.  Einhverja sem voru í hans liði,  fylgdu honum í gegnum þykkt og þunnt og litu upp til hans.  En hann hafði ekki minni þörf fyrir sterka persónu sér við hlið til aðhalds og trausts.  Framan af ferli Bítlanna var umboðsmaðurinn,  Brian Epstein,  "pabbinn".  Hann féll frá haustið 1967.  Þá helltist óstöðugleiki yfir John.  Hann fór að dópa sem aldrei fyrr.  Vinnualkinn Paul McCartney fór að einhverju leyti í skó Brians.  Var reyndar farinn að troða sér í þá áður því hlutverk Brians fjaraði dálítið út þegar Bítlarnir hættu að túra ´66.  Paul fór æ meiri hamförum.  Þrátt fyrir að vera "dipló" þá pirraði ráðríki hans hina Bítlana.  Það leiddi til þess að bæði George og Ringo hættu um tíma í Bítlunum.  Þeir litu á Lennon sem leiðtogann en hann var útúrdópaður.  Í þessu vandræða andrúmslofti birtist Yoko honum John sem frelsandi engill 1968.  Sterk persóna,  fræg og uppátækjasöm nýlistakona frá New York með frumlega hugsun.  
.
  John hafði numið myndlist og var áhugasamur um nýlist.  Þau Yoko smullu rækilega saman.  Urðu samlímd.  Svo samlímd að John bjó um hana í rúmi inni í hljóðveri Bítlanna.  Það var eitthvað sem hinir Bítlarnir áttu erfitt með að sætta sig við.  Fram að þeim tíma var óskrifuð regla að kærustur og eiginkonur Bítlanna væru ekki í hljóðverinu.  En nú voru John og Yoko límd saman allan sólarhringinn.  
.
  Ástandið leynir sér ekki í heimildarmyndinni um gerð plötunnar "Let it Be".  Þar kemur glöggt fram pirringur Georges vegna ráðríkis Pauls.  Sömuleiðis er lýsandi fyrir ástandið að þegar Bítlarnir æfa eitthvað lag þá er John ekki með öðru vísi en að hann dansar vals við Yoko.  John var orðinn afhuga þátttöku í Bítlunum og George og Ringo þreyttir á Paul.  Ósættið birtist einnig í því að þegar fjármál Bítlanna fóru í rugl þá dúkkaði Paul upp með sinn lögfræðing (tengdapabba) en hinir Bítlarnir voru með annan lögfræðing.  Allt fór í illindi og klessu.  Á þeim tímapunkti hefði samstarf Bítlanna sprungið í loft upp óháð innkomu Yoko(ar). 
.
  Eflaust auðveldaði Yoko honum John sínum að stíga það skref að tilkynna hinum Bítlunum að komið væri að endalokum hljómsveitarinnar.  Paul fékk taugaáfall.  Hann mótmælti og stakk upp á því að Bítlarnir færu í hljómleikaferð.  John svaraði eitthvað á þá leið að Paul væri geggjaður.  Hinir Bítlarnir vörpuðu öndinni fegnir.  Þeim dauðleiddist í hljómsveitinni og urðu frelsinu fegnir.  Það segir sína sögu að á næstu árum eftir endalok Bítlanna héldu Ringo og George áfram að spila inn á plötur með John.
.
  Annar flötur á málinu.  Bítlarnir voru í leiðtogahlutverki allan sinn feril.  Fyrst sem brautryðjendur "bresku innrásarinnar" á heimsmarkaði og síðan í framþróun rokksins yfir í hipparokk,  þungarokk,  progrokk,  sýru og það allt.  1969 kom síðasta alvöru plata Bítlanna,  Abbey Road,  út.  Frábær plata sem staðfesti í alla staði hversu stórkostleg þessi hljómsveit var.  En á þessum tímapunkti voru að koma fram hljómsveitir á borð við Led Zeppelin og Deep Purple með flinkari hljóðfæraleikurum og nýja nálgun í framsæknu rokki.  Ég er á því að Bítlarnir hafi hætt á besta tímapunkti sem nokkur hljómsveit hefur gert í sögu rokksins.  Hugsanlega hefðu Bítlarnir getað gert eina snilldar plötu til viðbótar.  Kannski.  En ekki fleiri.  Fyrstu alvöru sólóplötu Johns,  Plastic Ono Band (1970),  var slátrað af gagnrýnendum.  Hún þótti hljóma eins og "demo".  Strípuð,  hrá,  einföld og óunnin.  Í dag er þessi plata ætíð ofarlega á listum yfir bestu plötur rokksögunnar.  En það þurfti breyttan tíðaranda til (pönkbyltinguna ´76/´77 og nýbylgjuna).  Fyrsta sólóplata Georges Harrisonar,  All Things Must Past (1970),   var einnig meiriháttar flott.  Fyrsta sólóplata Pauls,  McCartney (1970),  var ekki alveg eins góð.  Sú næsta,  Ram (1971),  er betri.  Síðan hallaði undan fæti hjá öllum Bítlunum.
.
  Eftir stendur að goðsögnin Bítlarnir hefur stækkað eftir því sem frá líður.  Þökk sé því að hljómsveitin hætti á réttum tímapunkti.  Og þökk sé ötulli vinnu Yoko(ar) í að varðveita orðspor Bítlanna og Johns Lennons.  Paul hefur ekki alltaf verið sáttur við Yoko.  En hann hefur hælt henni fyrir þessa vinnu.  Hún hefur náð að upphefja ímynd hans sem friðarpostula og einn merkasta tónlistarmann rokksögunnar.  Í aldamótauppgjöri helstu fjölmiðla heims var John í þeim flestum útnefndur tónlistarmaður síðustu aldar. 
.
  Það er kannski ljótt að bæta því við að John var afar breyskur maður.  Ofbeldisfullur,  kjaftfor,  yfirlýsingaglaður,  dópisti,  drykkjubolti,  fullur af mótsögnum þvers og kruss,  vanrækti Julian eldri son sinn,  skapofsamaður,  ófyrirleitinn,  illkvittinn á stundum,  slagsmálahundur og sendi frá sér helling af draslmúsík.  Rebel.  Það er ástæðulaust að draga það fram.  John var ofurgreindur,  rosalega orðheppinn og fyndinn,  frábær söngvari,  frábær söngvahöfundur,  assgoti skemmtilegur gítarleikari á stundum og frábær tónlistarmaður þegar best lét.
.
 
.
  Því má bæta við að John samdi fjölda söngva um Yoko.  Bæði með Bítlunum og á sólóplötum.  Samanber myndböndin hér að ofan.  Paul samdi einnig lag um Yoko.  Hann hefur að vísu alltaf þrætt fyrir að "Get Back" sé um Yoko.  Textinn er,  jú,  óræður og ónákvæmur.  Í honum er margt sem passar engan veginn við lýsingu á Yoko.  En Paul er dipló.  Jo-Jo og Yoko eru nöfn sem hljóma líkt.  Þegar við bættist að Paul gjóaði iðulega augum að Yoko er hann söng:  "Farðu aftur til þíns heima" þá fær textinn merkingu.  
 
 .
  Hefði John valið sér annan vettvang en tónlistina voru honum ýmsir vegir færir.  Um svipað leyti og Bítlarnir komu fram sendi hann frá sér tvö smásagnasöfn.  Þau fengu mjög góða dóma.  Enda sögurnar frumlegar og fyndnar og skreyttar skemmtilegum teikningum Johns.  Þorsteinn Eggertsson þýddi nokkrar af þessum sögum snilldarlega og birti í Tímanum í gamla dag.  Og bætti um betur með flottum frumsömdum sögum í anda Johns Lennons.

mbl.is „Give Peace a Chance"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég ætla að hróza þér fyrir þezza færzlu, því að þú átt það virkilega zkilið.

Þarna kemur zaman uppzöfnuð verulega óumdeild góð þekkíng þín á viðfanginu & fázéðar 'innherjandizögur' í bland við þína ágætu perzónulegu zöguzkýríngu & þinn zérlega góði ritztíll nýtur zýn verulega vel.

Fagmaður að verki, atarna, ég naut þezz að fræðazt.

Takk fyrir mig Jenzi.

Steingrímur Helgason, 11.10.2010 kl. 01:42

2 Smámynd: Jens Guð

  Steingrímur,  takk fyrir þetta.  Ég var svo heppinn að upplifa Bítlaæðið á rauntíma.  Þar fyrir utan var og er ég svo heppinn að hafa ekki tekið trúarlegt ástfóstur við einn Bítil umfram aðra Bítla.  Né heldur meðtaka Bítlana gagnrýnislaust sem algjöra snilld frá A-Ö.  Það flaut með hjá þeim allskonar drasl bæði á meðan þeir störfuðu sem Bítlarnir og á sólóplötum.   

Jens Guð, 11.10.2010 kl. 01:52

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Takk fyrir þessa fróðlegu færslu, Jens. Ég má til með að vísa hérna á japanska stelpu sem hefur spilað flest af bestu lögum Bítlanna á hljómborð og sett á YouTube. Hún spilar þau nánast óaðfinnanlega.

Fyrir utan að hún er gullfalleg, ekkert ólík Yoko Ono eins og hún gæti hafa verið á sínum yngri árum.

Í tilefni af sjötugsafmæli Lennons (við eigum sama afmælisdag) verður Across The Universe fyrir valinu. Hvet alla til að kíkja á hinar krákurnar líka.

http://www.youtube.com/watch?v=3n50niE4YwY

Theódór Norðkvist, 11.10.2010 kl. 03:13

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Hér kemur það sem tengill.

Across The Universe - á hljómborð.

Theódór Norðkvist, 11.10.2010 kl. 03:18

5 identicon

Hverjum er ekki slétt sama

Drísill (IP-tala skráð) 11.10.2010 kl. 07:31

6 Smámynd: Sigurjón

Hafðu þökk fyrir þennan mjög svo uppfræðandi pistil Jens.

Kv. Sigurjón

Sigurjón, 11.10.2010 kl. 08:16

7 Smámynd: Jens Guð

  Theódór,  takk fyrir ábendinguna og hlekkinn.

Jens Guð, 11.10.2010 kl. 11:19

8 Smámynd: Jens Guð

  Drísill,  sagnfræðingum.  Og áhugafólki um Bítl.

Jens Guð, 11.10.2010 kl. 11:20

9 Smámynd: Jens Guð

  Sigurjón,  þakka þér fyrir innlitið og góð orð.

Jens Guð, 11.10.2010 kl. 11:21

10 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég hef alltaf haldið að hún hafi splittað þeim og svo reyndar hefur mér alltaf fundist hún afleitur söngvari, flestir með hennar rödd hefðu þagað

Ásdís Sigurðardóttir, 11.10.2010 kl. 11:38

11 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Er ekki mikilvægi Yoko við splittun Bítlana mýta?  Jú, eg held það.  Að langmestu leiti.  Í mesta lagi hægt að tala um Yoko sem einn dropa í splittunarmælirinn.    Þessi trú og sagan um á mikilvægi Yoko,  á orsakir sínar í að þegar splittunin varð, þá var ekki á almannavitorði að ósætti og þreyta væri innan hljómsveitar og hafði í rauninni verið í þó nokkurn tíma.  Nokkur ár.  Þá sáu menn bara:  Yoko og síðan splitt - og þá hlaut það að vera Yoko sem bar ábyrgðina.

Meðlimir Bítlana voru einfaldlega að þroskast hver í sína áttina og ekki síst Lennon.  Hann vildi verða sjálfstæður og vinna á sínum forsendum.

Þegar þeir hættu tónleikaferðum og hinum endalausa þvælingi og keyrslu - þá gafst visst svigrúm.  Menn náðu andanum og fljótlega uppúr því varð alveg fyrirsjánlegt hvert stefndi.  Þessu vissi fólk almennt ekkert af á þeim tíma.  Það var í raun Paul sem hélt hljómsveitinni saman svo lengi eða knúði fram plötur í restina - og það eru að mínu mati einhverjar bestu plötur Bítlana.  Þessar síðustu plötur.  Og já þeir hefðu sennilega getað gefið út amk. eina snilldarplötu í viðbót.  En uppúr því er vandi um að spá.   

Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.10.2010 kl. 12:39

12 identicon

Þeir eru bara og verða eða voru fólk, ekkert annað.

Drísill (IP-tala skráð) 11.10.2010 kl. 12:52

13 identicon

Viltu hafa samband við mig á netfangið dagsljos@dagsljos.is - finnbogi

Finnbogi Marinosson (IP-tala skráð) 11.10.2010 kl. 14:02

14 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ps. þaðer bara svo ótal ótal margt sem leiddi til upplausnar Bítlana og má segja að dauði Epsteins marki tímamót.  Minnir að Lennon hafi sagt að þá hafi Bítlarnir hrunið.   Það var náttúrulega Epstein sem hélt utan um þetta dæmi mikið frá byrjun.  Síðan virðist það gerast að Paul eins og taki hlutverk Epsteins eða reyni það.  Halda Bítlunum saman.  Vis misjafna hrifninu meðlimanna.  Auk þess kemur inn fjárhags og lagaleg vandamál.  Það var allt í vitleysu þarna.  Og einnig má alveg nefna að Harrison var vaxandi tónlistarmaður þarna.  Það var bara ótalmargt og átti langan aðdraganda.  En lengi vel voru menn uppteknir af Yoko eins og sést vel á þessu vitali við Harrison, að þar bara er eins og spyrillinn sé alveg með það á hreinu að Yoko hafi verið meginpunktur.  Harrison hlær náttúrulega bara og útskýrir í stuttu máli á almennan hátt ástæðurnar - sem passa við fyrirliggjandi heimildir sem komið hafa í ljós smá saman og fyrirliggjandi eru núna:

http://www.youtube.com/watch?v=0viX7pbzB0U

Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.10.2010 kl. 14:16

15 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ekkert að þakka Jens, hvernig fannst þér hún fara með Bítlalögin? Var annars einhver hér á tónleikunum, hvernig voru þeir?

Theódór Norðkvist, 11.10.2010 kl. 15:26

16 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Jens, þú segist svo heppinn að hafa ekki tekið trúanlegu ástfóstri við neinn Bítil umfram aðra Bítla, en það er greinilegt í þessum pistli þínum að það hallar mjög á annan veginn. Þú ert mjög gagnrýninn á Paul og orðaval þitt hvað hann snertir er næstumalltaf neikvætt.

Þú segir t.d. að Paul hafi byrjað að reyna að troða sér í skó Brians áður en Brian dó. Málið er að eftir að Bítlarnir voru komnir með fastan plötusamning var hlutverk Brians fyrst og fremst að bóka tónleika. Hann hafði aldrei áhrif á tónlistina sjálfa né hvað þeir gerðu í hljóðveri. Þegar Bítlarnir hættu að spila þá hvarf hlutverk hans að miklu leyti og á svipuðum tíma var John farinn að sýna bandinu minni áhuga og leiðtogahlutverk hans í hljóðveri minnkaði. Það segir í mörgum mörgum bókum að hann hafi orðið latur og helst ekkert viljað gera. Paul hafi drifið þá áfram og fengið hina í hljómsveitinni til að vinna. Ég er hrædd um að ef Paul hefði ekki verið sá vinnualki sem hann er hefðum við aldei heyrt Let it be, Abbey road, The White album og hugsanlega ekki einu sinni Sgt Peppers Lonely hearts club band (mér er sama um Yellow submarine plötuna).

Já, hinir urðu pirraðir á honum en það er að miklu leyti vegna þess að hann vildi halda áfram en þeir vildu hætta. Það er ekkert sem bendir til þess að hinir hafi viljað hætta í hljómsveitinni útaf Paul. Þeir vildu hætta því þeir voru komnir með önnur áhugamál og vildu halda aðrar leiðir. Paul hálfneyddi þá til þess að koma í hljóðver og spila. Var ekki meira að segja annað hvort Ringo eða George sóttur heim eftir að hann neitaði að koma? Þetta skapaði óvild innan hjómsveitarinnar ásamt auðvitað öðrum hlutum en ég held að það sé alveg ljóst að ef ekki hefði notaði við þráleika Pauls þá hefðu síðustu plötur Bítlanna aldrei orðið til. Og þá hefði okkur líka vantað það besta frá Bítlunum. 

Þú segir að Paul hafi fengið taugaáfall þegar John sagðist vera að hætta í hljómsveitinni? Hvaðan hefur þú það? Ég hef lesið einar tólf þrettán bækur um Bítlana og hef aldrei séð það. Hann varð reiður en hann fékk ekki taugaáfall. Nefndu í staðinn að þegar Paul tilkynnti heiminum að hann væri hættur í Bítlunum varð John brjálaður því honum fannst Paul stela tilkynningunni frá sér. Hann vildi vera sá sem tilkynnti þetta. Hefði hann ekki bara átt að vera ánægður fyrst hann var loksins frjáls?

Ég veit að þú bendir á galla Johns í lokin en það breytir því ekki að textinn sem þú skrifar hér er mjög anti-Paul og Paul fær lítið af þökkum fyrir snilli Bítlanna, nokkuð sem er mjög algengt hjá aðdáendum Johns. Ég er hins vegar sannfær um að án Pauls hefði John aldrei orðið frægur, og án Johns hefði Paul aldrei orðið frægur. Þau þurftu hvor á öðrum að halda. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.10.2010 kl. 18:16

17 identicon

Toppgrein að vanda frá þér um tónlist. Átt heiður skilið.

Leifur (IP-tala skráð) 11.10.2010 kl. 19:08

18 identicon

Spurningin hlýtur ad vera:  Var Paul med baul?

Samkvaemt thessu var Yoko Ono med garnagaul:

The Real John Lennon - Part 1 of 8

http://www.youtube.com/watch?v=X0uQlxCx89U&feature=related

Gjagg (IP-tala skráð) 11.10.2010 kl. 21:05

19 identicon

Hvada "Bítill" sagdi:  "The real me is the real you"?

Gjagg (IP-tala skráð) 11.10.2010 kl. 21:11

20 Smámynd: hilmar  jónsson

Takk fyrir frábæra samantekt Jens. Sennilega rétt hjá þér að bandið var að mestu búið að tæma sköpunarbrunninn er þeir hættu, enda ekki lítið sem þeir afrekuðu.

Mér fannst alltaf hálf aumkunarvert hvað Paul átti erfitt með að horfast í augu við og sætta sig við það óhjákvæmilega, þ.e. að Bítlarnir hvorki gátu né áttu að vera eilífir..

En þvílíkt band og þvílík byllting.

hilmar jónsson, 11.10.2010 kl. 21:13

21 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Þetta með Paul, að þá er það nú rétt að sumum hættir til að vanmeta hann  (Eg er ekki að segja að Jens gerið það)  Hann er náttúrulega stórmerkilegur listamaður og styrkleiki han kannski ekki síst hvað hann var fjölhæfur.  Hefðbundinn en jafnframt opinn fyrir frumlegum hugmyndum.  Það er líka rétt,  samkv. því sem eg hef lesið um Bítlana og sögu þeirra, að áhrif hans á síðasta stigi hljómsveitarinnar voru gífurleg - og þá erum við í raun að tala um bestu plötur Bítlna listrænt séð.  (að mínu mati)  Og alveg undarlegt að á meðan var allt í loft upp má segja og hljómsveitin við það að hætta.  Það kom mér allavega dáldið á óvart þegar eg fór að lesa um þessa sögu alla,  hve Paul var mikið miðpunkturinn undir það síðasta.  því manni fannst etv. síðustu plötur Bítlanna vera meira Lennon stæl, ef svo má segja.

En Lennon var samt merkilegri tónlistarmaður.  Hans smiðar eru betri og listrænni en Pauls.  En þá kemur smekksatriðið til sögunnar að vísu.  Sumir eru eigi sammála.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.10.2010 kl. 23:28

22 Smámynd: Jens Guð

  Ásdís,  hún hefði ekki komist áfram í Ædol.  Ekki fremur en Megas eða Bob Dylan.  Misgóðir söngvarar út frá stöðlum fagurfræðinnar geta kryddað dægurmúsíkflóruna.  Þetta er spurning um hvort fólki tekst að syngja á þann hátt að skemmti hlustendum - hvernig sem það fer að því.

Jens Guð, 12.10.2010 kl. 00:15

23 Smámynd: Jens Guð

  Ómar Bjarki (#11),  ég kvitta undir þessa greiningu þína.

Jens Guð, 12.10.2010 kl. 00:18

24 Smámynd: Jens Guð

  Drísill (#12),  þeir eiga það sameiginlegt með öðrum sem fjallað er um í fjölmiðlum,  bækur skrifaðar um,  kvikmyndir gerðar um og bloggað um:  Að vera fólk.  Umfjöllun um fólkið sem var í Bítlunum er dáldið öðruvísi en um annað fólk.  Meðal annars vegna þess að Bítlarnir hafa selt miklu fleiri plötur en annað fólk;  átt miklu fleiri lög samtímis í efstu sætum vinsældalista;  sömdu lög sem miklu fleiri hafa krákað en lög annars fólks... Þannig mætt lengi telja.

Jens Guð, 12.10.2010 kl. 18:41

25 Smámynd: Jens Guð

  Finnbogi,  ég var snöggur að því.

Jens Guð, 12.10.2010 kl. 18:42

26 Smámynd: Jens Guð

  Ómar Bjarki (#14,  takk fyrir hlekkinn yfir á þennan áhugaverða viðtalsbút við Harrison.  Það er góður punktur hjá þér að nefna að Harrison fór mjög vaxandi sem tónlistarmaður þarna á lokaárum Bítlanna.  Það voru að safnast upp hjá honum dúndur góð lög en hann fékk aldrei að koma fleiri lögum eftir sig að en 2 á hverja plötu.  Hann reyndi m.a. að koma "My Sweet Lord" að.  Án árangurs. 

  Það er alveg klárt að Harrison upplifði þetta þannig að hann fengi ekki að njóta sín.  Honum væri haldið niðri;  haldið aftur af honum.  Þetta olli honum vitaskuld gremju.  Aðeins einu sinni fékk lag eftir hann að prýða A-hlið smáskífu.  Það var "Something" af síðustu alvöru plötu Bítlanna,  "Abbey Road". 

Jens Guð, 12.10.2010 kl. 19:17

27 Smámynd: Jens Guð

  Theódór,  ég var ekki á hljómleikunum.  Ég var búinn að lesa jákvæða dóma um hljómleika Plastic Ono Band í Bandaríkjunum um daginn og eins fyrr á árinu.  Af þeim dómum mátti ráða að uppistaðan af lagavalinu væri af nýjustu plötu Yoko(ar).  Ég hef ekki heyrt þá plötu og er að óreyndu ekkert spenntur fyrir henni.  Það eru aldursfordómar.  Yoko er að verða áttræð.  Plötugagnrýnendur hafa verið að gefa plötunni 4 stjörnur (af 5) en ég er vantrúaður á að þetta sé plata sem höfðar til mín.

  Hvað um það.  Ég held að eftir fráfall Lennons hafi Plastic Ono Band aldrei spilað Bítlalag.  Ég held að eina lagið eftir Lennon sem Plastic Ono Band spili sé "Give Peace a Chance".   En ég var ekki á hljómleikunum svo ég er ekki alveg viss. 

Jens Guð, 12.10.2010 kl. 19:31

28 Smámynd: Jens Guð

  Krístín,  þú ert alltof viðkvæm fyrir hönd Pauls.  Bloggfærslan fjallar um þátt Yoko(ar) í endalokum Bítlanna.  Þáttur hennar snýr fyrst og fremst að John.  Til þess að átta sig á því þarf að greina persónuna John (en ekki hina Bítlana).  Engu að síður skiptir máli hvað var í gangi í samskiptum allra Bítlanna á sama tíma - alveg burt séð frá tónlistarhæfileikum þeirra hvers fyrir sig. 

  Ég geri næstum enga athugasemd við þína greiningu.  Þar er rétt með flest farið.  En margt sem þú nefnir kemur ekki inn á eiginlegan þátt Yoko(ar) í endalokum Bítlanna.  

  Það er alveg rétt að vinnusemi,  hugmyndir og ákafi Pauls áttu veigamikinn þátt í síðustu plötum Bítlanna:  Hann átti hugmyndina að "Sgt.  Peppers...",  "Magical Mistery Tour",  "Let it Be" dæminu og B-hlið "Abbey Road" (lagabútasafninu) og það allt.  En það hefur ekkert með að gera þátt Yoko(ar) í endalokum Bítlanna.

  Ég orðaði það þannig að Brian Epstein hafi verið í hlutverki "pabba" Lennons (og að einhverju leyti hinna Bítlanna).  Brian hélt utan um þeirra mál fram til dauðadags.  Þó Bítlarnir hættu að túra og væru komnir með plötusamning sá Brian um fjármál þeirra,  fjárfestingar,  samninga við plötufyrirtæki í löndum utan EMI útgáfu-svæðisins,  var í stjórn Northern Songs (höfundarréttarfyrirtækis Lennon/McCartney).  samninga um sýningarrétt á kvikmyndum Bítlanna um heiminn,  hélt utan um samskipti við fjölmiðla og svo framvegis.  Brian var einnig vakinn og sofinn yfir því sem Bítlarnir voru að gera í hljóðveri og var í hlutverki "pabbans".

  Það sést glöggt á fréttaviðtölum við Bítlana í kjölfar dauða Brians hvernig óöryggið helltist yfir þá.  Svörin sem fréttamenn fengu einkenndust af "Ég veit það ekki".  Og allt fór í klessu er snéri að fjármálum.  Því má bæta við að Brian var enginn fjármálasnillingur.  Langt í frá.  En Bítlarnir treystu á hann.  Þegar upp var staðið reyndust klúður hans léttvæg miðað við það sem tók við.

  Það liggur fyrir (ótal viðtöl við Bítlana) að Ringo og George hættu ekki í Bítlunum vegna þess að þeir væru komnir með önnur áhugamál og vildu þess vegna hætta í Bítlunum.  George hætti vegna ofríkis Pauls.  Ringo bankaði upp heima hjá John og sagðist upplifa sig sem utanvelta í Bítlunum.  Hann teldi sig vera óþarfan í hljómsveitinni.  Paul var farinn að afgreiða trommuleik í Bítlalögum þegar Ringo var ekki í hljóðverinu.  John svaraði eitthvað á þessa leið:  "Nú?  Ég hélt að það væri ég sem væri orðinn utanveltu í Bítlunum."

  Mig minnir að það hafi verið John sem dekstraði Ringo síðan aftur í Bítlana.  Að minnsta kosti var það John sem hlóð blómvöndum á trommusett Ringós sem blöstu við Ringo þegar hann mætti aftur til leiks.

  Þetta hafði ekkert með Yoko að gera.

  Þú hefur lesið 12 - 13 bækur um Bítlana.  Ég hef áreiðanlega lesið flestar þessara bóka og kannski 12 - 13 til viðbótar.  Að auki hef ég haft þann kæk að kaupa öll erlend tímarit sem ég rekst á og eru að gera Bítlunum skil.  Alveg síðan ég var krakki.  Eldri bróðir minn var áskrifandi að málgagni Bítlanna (The Beatles book minnir mig að þau heiti.  Eða kannski hétu þau bara The Beatles) og ég hélt áfram að kaupa þau blöð á meðan þau komu út (þar til fyrir örfáum árum).

  Miðað við hvað þú hefur fylgst vel með Bítlunum og umfjöllun um þá kemur mér á óvart að þú hafir ekki heyrt um taugaáfall Pauls þegar Lennon tilkynnti þeim að Bítlarnir væru hættir.  Mér finnst eins og ég hafi ótal oft lesið um þetta.  Hinsvegar hef ég ekki geymt bækur um Bítlana eða tímarit um Bítlana eftir að hafa lesið þau.  Fyrir mér er þetta einnota lesning og iðulega endurtekningar án þess að ég sé að leggja á mig að muna hvað stóð í hvaða bók eða tímariti.

  Taugaáfall er ekki í sálfræði eða geð-,  ja,  hvað kallar maður það?  Geðröskunarfræðum?,  skilgreint sem einn tiltekinn sjúkdómur þar sem taugakerfið ræður ekki við að vinna úr áfalli.  Fyrirbærið nær yfir einkenni á borð við kvíðakast,  grátköst,  magnleysi,  allsherjar uppgjöf og eitthvað svoleiðis.

  Viðbrögð Pauls við tíðindunum voru þau að hann lagðist í rúmið til margra vikna.  Lá þar í kvíðakasti,  grátköstum og allsherjar sinnuleysi.  Hann hætti að þrífa sig.  Lifði á viský-þambi og keðjureykingum   Vikum saman.  

  Ef ég hefði haldið til haga tímaritaviðtölum um þetta gæti ég vísað í þau mörg.  En ég hef ekki geymt þau til að vísa til.  Þess í stað vísa ég á sjónvarpsþátt,  sem meðal annars hefur verið sýndur í íslenska sjónvarpinu.  Hann heitir Wingspan (minnir mig).  Eflaust er hægt að finna búta úr honum á youtube eða finna hann í heilu lagi á einhverri netsíðunni.  Þetta er frægur sjónvarpsþáttur.  Þar fjallar Paul opinskátt um stöðuna.  Ef ég man rétt notaði hann orðalagið að hann hafi verið á "the edge" á taugaáfalli.       

  Varðandi það þegar Paul tilkynnti opinberlega að Bítlarnir væru hættir:  Eftir að John tilkynnti Bítlunum að hann væri hættur í Bítlunum var gert samkomulag um að það yrði ekki gert opinbert fyrr en eftir að platan "Let it Be" væri komin út.  Þá myndu þeir senda frá sér sameiginlega yfirlýsingu.  Paul kom í bakið á þeim (óvild hafði farið vaxandi) þegar hann braut þetta samkomulag er hann kynnti sólóplötu sína.  Það þótti ekki aðeins John ómerkilegt heldur ekki síður hinum Bítlunum.

  Eins mikið dálæti og ég hef á Paul þykir mér einkennilegt að vera skilgreindur anti-Paul.  Ég á fleiri plötur með honum (eftir Bítla) en öðrum Bítlum.  Ef ég fletti upp lagalistum frá  Sunnudagshugvekjunni  minni á Nálinni hafa þau lög sem ég hef spilað með Bítlunum verið  "Helter Skelter" (mitt uppáhalds Bítlalag),  "I´m Down" (Pauls lag),  "Kansas City (Paul syngur),  svo og "Run Devil Run" af samnefndri flottir plötu Pauls.

  Reyndar hef ég aldrei hugsað sérstaklega út í Bítlalög sem Lennons,  McCartneys eða Harrisons.  Ég skal viðurkenna að lög Ringos á Bítlaplötum eru ekki mín bjórdós.  En önnur Bítlalög hlusta ég á mér til gamans án þess að beinlínis að pæla í hver er höfundurinn eða söngvarinn.  Vissulega veit ég alveg hver samdi hvað og hver syngur hvað.  En ég hlusta ekki á Bítlana eða met þeirra lög út frá öðru en að þetta eru Bítlarnir.  Mér þykir gaman að mörgu með Bítlunum og í mínum huga eru þeirra flottustu lög einfaldlega Bítlalög óháð höfundi lags eða forsöngvara.

  Að öðru leyti:  Bestu þakkir fyrir þínar vangaveltur.  Þær eru áhugaverðar og skemmtilegar.   Endilega leggðu áfram orð í belg.  Mér þykir rosalega gaman að pæla í Bítlunum.  Og líka væri gaman að heyra frá þeim sem telja á Harrison og Ringo hallað í bloggfærslu minni.  

Jens Guð, 12.10.2010 kl. 23:08

29 Smámynd: Jens Guð

  Klaufalegt að það vanti n í "hinna Bítlanna".  Einnig "samnefndri flottri plötu...".

Jens Guð, 12.10.2010 kl. 23:26

30 Smámynd: Jens Guð

  Gjagg (#18),  kærar þakkir fyrir hlekkinn.  Ég lagðist yfir alla bútana og hafði gaman af.

Jens Guð, 12.10.2010 kl. 23:28

31 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Blessaður Jens og takk fyrir svarið. Það er sjálfsagt rétt hjá þér að ég er óþarflega viðkvæm þegar kemur að Paul, en ég er svo þreytt á því að heyra fólk lofa John í hástert og tala illa um Paul. Ég er ekki að segja að þú hafir gert það, bara að það hefur gert mig viðkvæmari en ella.

Ég held að sumt af því sem okkur kemur ekki saman um sé orðanotkun. Ég sé t.d. að við skiljum taugaáfall ekki á sama hátt. Ég man eftir að hafa lesið um að Paul hafi farið mjög langt niður eftir lok Bítlanna, og ef ég man rétt lokaði hann sig af á sveitabæ sínum í Skotlandi, en ég hefði aldrei lýst því sem taugaáfalli. En kannski er það rétt hjá þér að það megi kalla það svo. 

Ég viðurkenni að ég hef lesið færri bækur um Ringo og George en um Paul og John, en mér fannst alltaf á þeim lestri að þótt George hafi verið pirraður á Paul þá hafi hann ekki viljað hætta hans vegna. Hann var kominn á kaf í austurlenska tónlist og vildi helga sig slíkri tónlist meir. En það er rétt að ég man eftir að Paul var eitthvað farinn að spila á trommur, en ég held það hafi ekki gerst á meðan Ringo var á staðnum. Held það hafi frekar verið að Paul vildi vinna og hinir vildu ekki, svo hann fór að gera allt sjálfur. Held hann hafi líka spilað á gítar en John og/eða George vantaði.

Ég sagði aldrei að þú værir anti-Paul. Ég sagði að þessi texti frá þér væri fremur anti-Paul. Það er svona tóninn í skrifunum. Kannski er það algjörlega óvart en kannski er það aðallega vegna þess að þú varst einmitt að einbeita þér að Yoko, og Paul sem frægur anstæðingur Yoko kom svolítið illa út. Annars verð ég að segja að þótt ég sé mjög pro-John þá hljóma ég stundum anti þegar ég heyri fólk (og þá meina ég ekki þig neitt sérlega) gera Paul rangt til. 

Á fyrstu árum internetsins las ég síðuna r.m.b daglega. Það var eins og guðsending fyrir Bítlaaðdáanda. Nema hvað síðan var full af tröllum og þá sérstaklega Lennon-tröllum. Einn náungi gat t.d. ekki fyrirgefið Paul fyrir að hafa sagt 'it's a drag' þegar spurður um dauða Johns. Það breytti engu að fjöldi manns hafði margbent honum á að þegar maður hefur misst einn af sínum bestu vinum (jafnvel þótt vináttan hafi orðið minni á síðari árum) og fær svo míkrafón í andlitið og er spurður um skoðun sína á málinu, þá bregst fólk misjafnlega við. Ég hef séð þessa úrklippu, og það er rétt að það lítur út fyrir að Paul sé ekkert sérlega dapur, en þannig tókst hann á við þetta. Þessi asni þarna á r.m.b var hins vegar sannfærður um að þetta þýddi að Paul væri djöfullinn, og John hefði verið Bítlarnir og hinir hafi bara svona hangið með.

En nú er ég komin langt út fyrir það sem ég byrjaði á að tala um. Og ekkert af þessu síðasta hefur með þín skrif að gera.

Það er annars athyglisvert þegar maður skoðað síður eins og r.mb. og leit á hvernig aðdáendur hvers Bítils fyrir sig, þá endurspegluðu þeir svolítið Bítlana sjálfa. Ringo aðdáendur eru t.d. fæstir en yfirleitt ákaflega glaðir og ánægðir og virðast aldrei segja neitt slæmt um aðra aðdáendur eða aðra Bítla. George aðdáendur eru aðeins fleiri og eiga það til að kasta skít í Paul en dáðst að John. Rétt eins og George. Paul og John aðdáendur eru eðlilega flestir og hvorum hóp finnst sinn Bítill bestur. En þeir hegða sér líka svolítið eins og John og Paul. Aðdáendur Johns eru árásargjarnastir og langlíkleastir til að ráðast á hina Bítlana (sérlega Paul) og aðdáendur Pauls. Paul aðdáendur kvarta hins vegar, finnst illa farið með sig og elskuna Paul (svona rétt eins og við höfum stundum séð frá Paul sjálfum), en reyna að sannfæra alla um dásemd Pauls án þess að kasta rýrð á John. Ég er líka svoleiðis og það er sennilega þess vegna sem ég var svona viðkvæmt fyrir umfjölluninni um Paul.

Og ég hef ekkert sagt um Yoko, en þetta er orðið allt of langt svo ég verð að geyma hana þar til síðar.

P.S. Talaði einu sinni við May Pang. Það var athyglisvert.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 13.10.2010 kl. 00:34

32 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Þetta eru búnar að vera skemmtilegar pælingar.  Ég er fæddur '54 og náði ágætlega í restina af þessarri bítlamaníu.  Fyrir mér er Abbey Road besta platan, en það er sennilega einfaldlega vegna þess að ég var einmitt búinn að ná vissum þroska þegar hún kom út.  Mér er það minnisstætt þegar ég heyrði fyrsta lagið spilað af henni í kjallara Melaskólans, en þar var ég í einhverju skátabrölti.  Ég varð algerlega frá mér numinn og hugsaði með mér, "Hvernig fara þeir að þessu? Verða alltaf betri og betri!." Fyrsta Bítlaplatan sem ég eignaðist, og fyrsta hljómplatan svona yfirleitt, var Rubber Soul.  Systir mín, sem er 8 árum eldri en ég gaf mér hana einn daginn, svona alveg upp úr þurru.

Mér hefur fundist John fá jákvæðari umfjöllun en hann á skilið, trúlega vegna þess hvernig ævi hans lauk.  Hann er dálítill píslarvottur.  Svo held ég að fólki finnist persónuleiki hans áhugaverðari en Pauls vegna þess hve tættur hann var.  Ég tek þó fram að ég er enginn sérfræðingur um Bítlana og hef ekki raðað í mig tugum bóka um þá.

Mér hefur fundist dálítið merkilegt að sjá hvernig ungt fólk, sem ekki lifði þessa tíma, upplifir Bítlana.  Af og til koma t.d. fram hljómsveitir sem verið er að líkja við Bítlana, en unga fólkið á engan möguleika á að skilja hverskonar fyrirbæri þeir voru og hve mikil áhrif þeir höfðu á okkur sem vorum komin sæmilega til vits þegar þeir voru og hétu.  Stundum er unga fólkið líka að láta aðdáun okkar á þessum gaurum fara í taugarnar á sér, sem er svosem ósköp skiljanlegt, s.b.r. Drísill hér fyrir ofan.  Ég veit auðvitað ekki á hvaða aldir hann er, en giska á að hann sé í yngri kantinum.  Ég held þó að flestir þekki vinsælustu bítlalögin ágætlega, nánast óháð aldri, en sumri hafa bara ekki hugmynd um að þeir kunna slatta af bítlalögum.  Þetta eru bara melódíur sem alltaf hljóma í bakgrunninum.

Theódór Gunnarsson, 13.10.2010 kl. 08:17

33 Smámynd: Jens Guð

  Gjagg (#19),  það veit ég ekki.  Þetta hljómar líkast John.  Gæti samt hafa hrokkað upp úr Ringo.

Jens Guð, 13.10.2010 kl. 20:03

34 Smámynd: Jens Guð

  Hilmar,  það voru fleiri en Paul sem áttu erfitt með að sætta sig við endalok Bítlanna.  Eiginlega má segja að heimsbyggðin hafi fengið áfall.  Og gríðarleg reiði beindist að Yoko sem var kennt um allt.  Henni var bölvað í sand og ösku og uppnefnd niðrandi nöfnum.

Jens Guð, 13.10.2010 kl. 20:09

35 Smámynd: Jens Guð

  Ómar Bjarki (#21),  það eru margir með skekkta mynd af Paul.  Það er að segja að margir halda að hann hafi verið og sé "bara" léttpoppari.  Ástæðan er sú að léttu popplögin hans eru þau sem almenningur þekkir best.  Enda lögin sem voru sett á smáskífur Bítlanna,  Wings og sólóferils. 

  Aðeins Bítlapælarar þekkja Paul fyrir tilraunakenndari og eða harðari rokk og blúslög.  Ég er eiginlega undrandi á hvað fáir þekkja dúett þeirra Pauls og Youths (Killing Joke),  The Fireman.  Þeir hafa gert The Fireman út í 8 ár og sent frá sér 3 merkar plötur.  Þar af er sú nýjasta,  Electric Arguments,  meiriháttar flott.  Hún inniheldur m.a. hart og hávært blúslag sem fær jafnvel harða McCartney aðdáendur til að hrökkva við.

Jens Guð, 13.10.2010 kl. 20:34

36 identicon

Hann sagdi reyndar:  "The real me is the same as the real you"

http://www.youtube.com/watch?v=yns5fPg3BCQ&feature=related

Gjagg (IP-tala skráð) 13.10.2010 kl. 21:16

37 Smámynd: Jens Guð

  Kristín (#31),  Harrison fullyrti alltaf að hann hafi hætt í Bítlunum vegna ofríkis Pauls.  Það var nákvæmlega eftir þetta þref sem Harrison yfirgaf svæðið og flaug til Bandaríkjanna:   http://www.youtube.com/watch?v=D7bd18sS7P8

  Harrison lagði mikið upp úr því að láta á engu bera þegar Paul pirraði hann.  Með aðstoð tækni sem hann lærði í indverska yoginu tókst það lengst af.  En þarna var mælirinn fullur.  Þetta hafði ekkert að gera með áhuga Harrisons á indverskri músík.  Þetta var í ársbyrjun 1969 og Harrison ekkert í rag-pælingum fremur en á fyrstu alvöru sólóplötu hans sem kom út ári seinna.  

  Paul trommaði í 5 lögum á  Hvíta albúminu.   Hvíta albúmið  var hljóðritað á hálfum fimmta mánuði.  Ringo var fjarverandi í 2 daga.  Paul gerði stöðugt athugasemdir við trommuleik Ringos eða gaf honum fyrirmæli um að gera eitthvað sem Ringo hafði ekki áhuga á,  svo sem að taka trommusóló.

  Ringo hætti í Bítlunum eftir að Paul gagnrýndi trommuleik hans í  Back in USSR  og Paul afgreiddi trommuleikinn sjálfur.  Ég er ekki klár á því hvort Ringo hætti fyrir eða eftir að Paul trommaði í laginu.

  Fyrir utan lögin sem Paul sá um trommuleik í þá fiktaði Paul einnig í trommuleik Ringos í öðrum lögum.  Bætti einhverju við, tók eitthvað út eða breytti á annan hátt.  Það er óvíst hvort Ringo eða aðrir Bítlar tóku eftir því.  Mér vitanlega hafa hvorki Ringo eða aðrir Bítlar tjáð sig um það.  Einungis starfsmenn hljóðversins hafa kjaftað frá þessu.

  Paul var í hljóðverinu nánast allan sólarhringinn nema yfir blánótt.  Þegar aðrir Bítlar mættu var Paul kannski búinn að vera að í 1 - 2 klukkutíma.  Og eftir að hinir fóru heim sat Paul eftir til að klára hluti.  

  Fyrir utan að spila á bassa og syngja spilaði Paul á gítar og hljómborð í mörgum lögum.  Það var einhvern veginn allt annað en með trommuleikinn.  John og George spiluðu á bassa og hljómborð í mörgum lögum auk þess að spila á gítara.  Í sumum lögum,  til að mynda  Helter Skelter,  spiluðu Paul,  John og George allir á gítar og taka sitthvert gítarsólóið.  

  Munurinn á ímynd Pauls og Johns í dag liggur töluvert í því að John var myrtur.  Og ekki bara að hann var myrtur heldur á hvaða tímapunkti.  John hafði verið í 5 ára sjálfskipaðri útlægð frá fjölmiðlum og tónlist (eftir aðeins 5 ára sólóferil).  Þá dúkkar hann skyndilega upp með nýja plötu,  geislandi af hamingju,  en er þá skotinn.

  Viðbrögð heimsbyggðarinnar hefðu orðið önnur ef hann hefði dáið úr krabbameini eða dáið á mestu dóp og drykkjuárum "týndu helgarinnar" ´74-´75.  Frá dauða Johns hefur áhersla í umfjöllun um hann beinst að því besta sem hann gerði í músík,  friðarhugsjónum og þess háttar.  Yoko hefur starfað ötullega sem kynningarfulltrúi hans og að mörgu leyti hinir Bítlarnir líka.  

  Paul hefur aftur á móti bara sjálfur verið í forsvari fyrir sig.  Þurft að svara fyrir allskonar leiðindi,  svo sem vinslit við Michael Jackson,  illvígan skilnað við einfætta konu (sem dró upp ófagra mynd af Paul),  málaferli við sekkjapípuleikarana sem spiluðu í  Mull of Kintyre  og svo framvegis.  

  Ég þarf að tékka á þessari r.m.b. síðu.

Jens Guð, 13.10.2010 kl. 23:08

38 Smámynd: Jens Guð

  Theódór (#32),  ég er þér sammála með að  Abbey Road  sé besta Bítlaplatan.  Það er sú Bítlaplata sem ég set oftast á fóninn. 

  Ég hef heldur betur orðið var við að mér yngra fólk - margt hvert - hefur ranghugmyndir um Bítlana.  þetta er fólkið sem þekkir Bítlana bara af þeim lögum sem oftast eru spiluðu í útvarpi.  Það heldur að Bítlarnir hafi verið léttpopparar og ekkert annað.

  Ég held að enginn,  sem upplifði ekki í rauntíma Bítlaæðið og þá framþróun er varð í dægurmúsík undir leiðsögn Bítlanna,  geti áttað sig á hvað Bítlarnir voru merkileg hljómsveit.  

  Þegar ég hitti fólk með ranghugmyndir um Bítlanna hefur mér þó reynst auðvelt að leiðrétta dæmið.  Á tímum gruggsins (grunge) var ungur maður að undrast að ég ætti plötur með Bítlunum.  Þessi maður var á kafi í grugginu.  Nokkru síðar smalaði ég á segulbandsspólu groddalegustu Bítlalögunum.  Byrjaði á   Helter Skelter.  Þegar umræðan um Bítlana var gleymd spilaði ég spóluna fyrir manninn.  Og bað hann um að geta hvaða hljómsveit þetta væri.

  Hann var alveg sannfærður um að þetta væri grugg-sveit frá Seattle.  Ég sagði að hann þekkti nafn hljómsveitarinnar.  Kappinn fór að telja upp allar grugg-sveitir sem hann þekkti nöfn á aðrar en þær sem hann þekkti best.  Honum þótti músíkin flott og varð forvitinn.  Að lokum upplýsti ég að þetta væru Bítlarnir.  Það leið ekki á löngu þar til hann var farinn að hlusta á Bítlana á fullu.

  Í annað sinn hitti ég mann,  mikinn blúsara og hrifinn af grófgerðu rokki.  Sá fussaði og sveiaði Bítlunum sem píkupoppurum.  Ég setti á disk öll blúslög Bítlanna og hörðust rokklögin.  Nokkru síðar þegar við hittumst á pöbba fékk ég að lauma disknum í græjur staðarins.  Ég þóttist ekki vita hvað var verið að spila og fór að spyrja kauða sem vissi ekkert hvaða hljómsveit þetta var.  Við spjölluðum um eitt og annað en inn á milli fékk ég hann til að velta með mér vöngum yfir hvaða hljómsveit þetta gæti verið.  Ég man ekki hvaða nöfn hann giskaði á.  En honum þótti þetta flott.  Fyrir rest upplýsti ég málið.  Hann bað um að fá að eiga diskinn.  Sem var auðsótt mál.  Næst þegar ég hitti hann var hann búinn að kaupa "Abbey Road" og "Hvíta albúmið".  

  Ég man eftir viðtali við Lars Ulrich trommara Metallica.  Metallica var í árdaga að túra þegar rútan þeirra bilaði.  Annarri rútu var reddað.  En þar voru engar hljómflutningsgræjur.  Bara útvarp.  Skyndilega heyrðu Metallica flott lag.  Svo flott að þeir báðu rótara um að finna út hvaða lag þetta væri og redda plötunni með því.  Rótarinn gróf upp að þetta var "She´s So Heavy"  af Abbey Road.  

  Lars sagði þá Metallica-menn hafa orðið verulega undrandi að uppgötva að Bítlarnir spiluðu svona flott lag.  Þeir héld að Bítlarnir spiluðu bara "Ob-La-Di" og "Yellow Submarine".  Síðan hafa Bítlarnir verið í hávegum hjá Metallica.

Jens Guð, 13.10.2010 kl. 23:41

39 Smámynd: Jens Guð

  Gjagg (#36),  þarna komstu mér á óvart.  Takk fyrir þetta ágæta viðtal.

Jens Guð, 13.10.2010 kl. 23:42

40 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Ég var að hlusta á tónlist, bara safn af vinsælum melódíum æsku minnar, og mér varð hugsað hve magnaðar laglínur þetta eru, og hve stórkostlega þær eru fluttar, bæði af hljóðfæraleikurum og  söngvurum.  Og það er búið að vera að renna upp fyrir mér, hve miklir tónlistarmenn það fólk er sem heldur okkur vakandi frá degi til dags.  Manni finnst hálfpartinn eins og það sé ekkert mál að láta sér detta í hug einver laglína, og hafa svona einhvernvegin lært á hljóðfæri í hjáverkum, og svo heyrist lagið bara í úrvarpinu og allir hafa grætt svo mikla peninga.  Þetta er bara ekki svona einfalt.

Fyrst þarf maður að hafa orðið alvöru tónlistarmaður.

Theódór Gunnarsson, 13.10.2010 kl. 23:51

41 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Ég tók  mig til í hárri elli og ákvað að gerast trommuleikari.  Það hefur kennt mér tvennt: Að ég muni aldrei verða góður trommuleikari annarsvegar, og að skilja tónlist dálítið betur hinsvegar.  Skyndilega opnuðust fyrir mér nýjir heimar.  Áður en ég varð fyrir þessarri opinberun fannst mér t.d. sígildur djass vera sambærilegur við það, að steinn  væri settur í niðursuðudollu og hún hrist við eyrað.  Jafnframt gerði ég mér grein fyrir því hve mikið djúp tónlistin er.  Þegar maður veit lítið, þá skilur maður líka lítið.  Þegar vit manns eyks, eykst skilningur manns.  Líka skilningur á því að skilningur manns sé takmarkaður.

Amen.

Theódór Gunnarsson, 14.10.2010 kl. 00:12

42 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Þú hlýtur að halda að ég sé eitthvað bilaður að halda bara áfram að bulla án þess að hafa verið svarað, og það er sennilega rétt hjá þér.  Hver getur verið með öllum mjalla í þessu samfélagi?

Mig langar bara að benda á að vinsælustu og ástsælustu laglínur Bítlanna eru engar venjulegar laglínur.  Þær eru vissulega auðlærðar og grípandi, en þær hafa samt flestar einhverja tign sem venjulegar grípandi laglínur hafa ekki.  Þær eru ekki venjulegar, heldur hafa þær einhverja dýpt sem setur Bíltlana á mjög sérstakan stað í tilveru þeirra sem urðu þeirra aðnjótandi.

O.K.  ef ég væri spurður: "Bítlarnir eða Stones" þá myndi ég svara: "Bítlarinir!".  Það er bara annað hvort eða.

Theódór Gunnarsson, 14.10.2010 kl. 00:30

43 Smámynd: Jens Guð

  Theódór,  fyrstu lög Bítlanna voru mörg hver ekki merkilegar lagasmíðar.  Þannig lagað.  En það var einhver galdur í flutningnum hjá þeim.  Maður skynjaði leiftrandi spilagleði,  rafmagnaða spennu,  orku og glaðværð.  Stemmningin var ólík öðru því sem var í gangi á þessum tíma.  

  Galdurinn var samt ekki alfarið í flutningnum.  Það var eitthvað við lögin sjálf.  Ég veit ekki hvað það var.  En Lennon-McCartney létu aðra flytjendur fá lög eftir sig.  Það skipti litlu hvort flytjandinn var óþekktur eða þegar frægur.  Söngvari eða söngkona.  Lögin slógu í gegn.  Það skipti heldur ekki máli þó höfundarnir væru skráðir með dulnefni.   

Jens Guð, 14.10.2010 kl. 00:34

44 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Ég er alaveg sammála.  Ég held alveg vatni yfir flestum flutningi Bítlanna fyrir 1965 eða svo.  Laglínurnar eru grípandi og maður getur alveg fengið vinsælustu löginn á heilann, en upp úr 1967 verður bara einhver grundvallar breyting.  Það kemur eitthvað inn í þessa sköpun sem breytir öllu. Maður fer að halla sér aftur í sófann og loka augunum.  Maður fer að hlusta.

Ég er á því að þessir gaurar hafi verið réttir menn á réttum stað.  Þeir voru snillingar.

Theódór Gunnarsson, 14.10.2010 kl. 00:43

45 Smámynd: Jens Guð

  Theódór,  ég ber ekki Bítlana og Stóns saman.  Ég hef gaman af þessum hljómsveitum á ólíkum forsendum.  Á sínum tíma var þetta markaðstrix hjá umboðsmanni Bítlanna að stilla þessum hljómsveitum upp sem keppinautum.  Þegar spurt var hvort fólk héldi með Bítlum eða Stóns voru aðrar hljómsveitir útilokaðar í svari við spurningu um uppáhaldshljómsveit.  Á sínum tíma var þetta hitamál.  Aðdáendur Bítla og aðdáendur Stóns slógust um allan heim.  Líka á Íslandi.

  Löngu síðar var upplýst um trixið.  Hljómsveitirnar voru ekki keppinautar heldur unnu þær náið og markvisst saman.  Til að mynda komu smáskífur og stórar plötur með þeim aldrei út á svipuðum tíma - til að þær trufluðu ekki plötur "keppinautarins" frá því að ná sem hæst á vinsældalista.  Þess í stað voru plötur þeirra látnar taka við hver af annarri.  Ef plata með Bítlunum var í 1. sæti var beðið með útgáfu á Stóns-plötu þangað til ljóst var að hún myndi falla úr toppsætinu næstu vikuna.  Þá var Stóns plata gefin út með látum og átti möguleika á að ná á toppinn.  Þanngi virtist sem Stóns væru að velta Bítlunum úr 1. sæti.  Þannig koll af kolli.  

  Eitt er að Bítlarnir lögðu undir sig heimsmarkaðinn ´63-´64.  Annað er hvernig þeim tókst að framþróa tónlist sína á næstu árum og fá herskara annarra tónlistarmanna til að elta sig í tilraunum og öðrum nýjungum alveg fram að opinberum endalokum Bítlanna 1970.  Það var í raun merkilegra afrek.

  Það hefur oft gerst í sögu rokksins að hljómsveit komi inn á markað með látum,  slái jafnvel út gömul met Bítlanna.  Svo reynist úthaldið ekki vera til staðar þegar til lengri tíma lætur né nægilega frjó sköpunargáfa til að viðkomandi nái að festa sig almennilega í sessi.     

Jens Guð, 14.10.2010 kl. 01:24

46 Smámynd: Jens Guð

  Og Theódór,  endilega ekki afsaka þig fyrir "kommentin".   Ég færi þér bestu þakkir fyrir þau.  Mér þykir rosalega gaman að þessum vangaveltum.

Jens Guð, 14.10.2010 kl. 01:27

47 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Ég var nú líka bara að fíflast með þessari athugasemd um Bítlana og Stones.  Samt man ég vel að það var alltaf í loftinu þessi metingur og fólk hafði gjarnan þannig tónlistarsmekk að annað hvort Bítlarnir eða Rolling Stones féllu því betur í geð.  Ég hef stundum verið að gera það mér til gamans að spyrja fólk sem komið er yfir fimmtugt eða svo þessarar spurningar, "Bítlarnir eða Stones?" og fæ undantekningalítið ákveðið svar.

Theódór Gunnarsson, 14.10.2010 kl. 07:53

48 Smámynd: Jens Guð

  Ég var í útjaðri Hóla í Hjaltadal í Skagafirði þegar Bítlarnir voru og hétu.  Þar skiptust menn ekki eins í lið og í þéttbýlinu.  Jafnaldrar mínir á höfuðborgarsvæðinu og eldri hafa sagt mér frá því hvernig átökin voru.  Að einhverju leyti var það svæðaskipt hverjir voru Stónsarar og hverjir voru Bítlar.  Þess voru dæmi að menn væru lagðir í einelti fyrir að halda með "vitlausri" hljómsveit.

Jens Guð, 14.10.2010 kl. 13:28

49 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Eg var aldrei mikill spámaður.  Ég fylgdi bara trendinu.  Ég man t.d. þegar ég var að vinna í unglingavinnunni og það bar að dálítið eldri gaur sem hafí LP plötu með Jimi Hendrix undir hendinni.  Talið barst að Hendrix og ég man að mér fannst þessi njörður vera dálítið úti á þekju að finnast eitthvað varið í þennan stórundarlega tónlistarhriðjuverkamann.  Ég hef það þó mér til afsökunar að ég var bara 14 ára.

Mér hefur lærst það á mínum efri árum að dást að þessu fólki sem verður fyrst til að átta sig á því hvað er líklegt til vinsælda seinna meir og kynna það fyrir hinum. 

Theódór Gunnarsson, 16.10.2010 kl. 01:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband