Jólafrí í Kaupmannahöfn

.

  Ég dvaldi í snjó og frosti í kóngsins Kaupmannahöfn yfir jól og áramót.  Fram til þessa hef ég gist á eða við göngugötuna Strikið þegar leið hefur legið á þessar slóðir.  Að þessu sinni ákvað ég að prófa að gista í jaðri Kastrup flugvallar.  Það var gott uppátæki.  Gistiheimilið heitir Copenhagen Airport Hostel.  Þetta er ódýrt, skemmtilegt og vel staðsett farfuglaheimili.  Nóttin kostar 15 evrur (x 155 íslenskar krónur =  2325).  Það er þægilegt að geta gengið út úr flugstöðinni og rölt að CAH gistiheimilinu án þess að blanda leigubíl í málið.
.
  Skáhalt gegn CAH er "súpermarkaður",  svipaður Hagkaupi eða Nóatúni.  Hann er opinn alla daga ársins.  Skáhalt á móti CAH er einnig ítalskur veitingastaður með fjölbreytt úrval af pizzum,  allskonar steikum,  hamborgurum og fleiru.  Fram til klukkan 4 eftir hádegi eru þar í boði ýmis hádegisverðartilboð á 49 DKR (x 22 íslenskar krónur = 1078) með aðalrétti + frönskum kartöflum og gosdrykk.  Fyrir þá sem vakna ekki svona svakalega snemma eru þessir réttir frá 65 DKR (1430 ísl. kr.).  Um það bil 50 metrum lengra er annar ítalskur veitingastaður með svipað verðlag.  Þessir staðir hafa bearnasie sósu (einnig þekkt sem hollensk sósa) með flestum réttum.  Það er einhver ofmetnasta og ómerkilegasta sósa sem til er.  Að uppistöðu til bara fita.  En allt annað sem þarna er á borð borið er ljómandi gott.
.
  Örfáum húsum frá CAH er barinn Graceland.  Þar er Elvis Presley og upphafsárum rokksins gert hátt undir höfði.  Nafn staðarins er tengt nafni eigandarins,  konu að nafni Grace.  Í Gracelandi er billjard-borð og fleira til skemmtunar.  Þetta er vel sóttur og "kósý" staður.  Örstutt þar frá er bensínstöð með ágætu úrvali af matvöru,  mjólkurvörum,  bjór,  brauðmeti og allskonar.  Einnig er þar boðið upp á heita rétti á borð við pylsur,  hamborgara og einhverskonar pizzu afbrigðum.
.
  Á þeim 10 dögum sem ég var Kaupmannahöfn gerði ég mér aðeins einu sinni ferð í miðbæinn.  Þar greip ég upp nokkra diska með norsku rokkurunum í Dimmu Borgum,  bresku rokkurunum Judas Priest,  danska djass-bassasnillingnum Niels Henning Örsted Pedersen og einhverjum slíkum en ekki öllum jafn flottum.  Til að mynda keypti ég samlokuplötu (2ja platna) með dönsku Tussu-drengjunum (Töse drengene).  Mig minnti að þeir hafi pönkað og spilað reggí í árdaga.  Sennilega misminnti mig með pönkið.  Á plötunum er bara leiðinda létt popp en slatti af þokkalegu reggíi.  Þeir drengir (og söngkona) fá plús fyrir að syngja einungis á dönsku. 
  Ég setti mér þá reglu að kaupa enga plötu sem kostaði meira en 50 DKR (1100 ísl. kr.).  Nýjar plötur eru yfirleitt á 3300 ísl. kr.  Plötusafnið mitt fitnaði aðeins um 10 diska.
.
  Almennt verðlag á Strikinu er hærra en í nágrenni Kastrup.  Það skipti mig ekki máli.  Ég er ekkert fyrir búðarölt.  Kaupi mér aldrei neitt á ferðalögum erlendis nema daglegar nauðsynjavörur og geisladiska.  Hægt er að taka strætisvagn númer 30 beint frá CAH til miðbæjar Kaupmannahafnar.  Ég veit ekki hvort nýlega hafi orðið breyting á strætisvagnaleiðum eða hvað olli því að ítrekað varð ég var við að fólk tók strætisvagn númer 35 og þurfti að skipta um vagn á miðri leið.  Sem er svo sem ekkert vandamál.  En mun einfaldara er að taka vagn númer 30.   
.
  Mér skilst að það gangi strætó beint frá CAH til fríríkisins Kristjaníu.  Mér þykir ekkert varið í hass-vímu svo ég lét ekki reyna á það.  Hinsvegar fóru sumir þangað og undruðust úrvalið í sölubásunum.  Fyrir tveimur árum eða svo bannaði danska ríkisstjórnin sölu á hassi í Kristjaníu.  Leikar fóru þannig að lögreglan gafst upp á að gera söluborðin upptæk.  Í hvert sinn sem löggan gerði rassíu spruttu upp ennþá fleiri söluborð en áður.  Óopinbera afstaðan er sú að hass-salan í Kristjaníu sé illskárri en hrekja hasssöluna í fangið á herskáum vopnuðum glæpagengjum mótorhjólabófa sem selja sterkara dóp og hika ekki við að beita morðum til að vernda sölusvæði sín.  Í Kristjaníu taka hipparnir engum vettlingatökum þá sem þar reyna að selja eitthvað annað en kannabis-afurðir.         
.
  Verð á helstu dönskum bjórtegundum,  Tuborg og Carlsberg,  í 330 ml flöskum er 2,83 DKR (62,3 ísl. kr.).  Að vísu þarf þá að kaupa 30 flösku kassa (84,95 DKR = 1869 ísl. kr.).  Sem er ekkert nema hið besta mál.  Þá þarf ekki að fara út í búð nema í hæsta lagi einu sinni á dag. 
  Ég sá í dagblöðum bjórkassann auglýstan á 79 DKR (1738 ísl. kr.).  Ég veit ekki hvar þær verslanir eru staðsettar og sá ekki ástæðu til að fjárfesta í leigubíl til að eltast við þau tilboð.
  Eigandi CAH á íslenska móður.  Svo skemmtilega vill til að afi hans er vinur minn,  Guðmundur "Papa Jazz" Steingrímsson trommuleikari.  Ég vissi ekki af þessu þegar ég bókaði gistingu á CAH.  Það var ekki fyrr en Dennis fór að spjalla á fésbók við móðurbróður sinn,  Steingrím trommara Milljónamæringanna,   sem þetta kom í ljós. Ég hannaði fyrir Steingrím umslag á plötu með þáverandi hljómsveit hans, Súld.  Dennis er hress og glaðvær eins og afi hans.  Glaðværð Dennis og starfsfólks hans á sinn þátt í því hvað andrúmsloftið á gistiheimilinu er vinalegt og þægilegt.  Ég mæli eindregið með þessu gistiheimili,  Cobenhagen Airport Hostel.
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

velkominn heim úr baunaveldi og eigðu yndislegt ár takk fyrir hin knús að norðan

sæunn (IP-tala skráð) 2.1.2011 kl. 23:14

2 Smámynd: Steingrímur Helgason

Dona á að hafa það um hátíðar.

Ár & friður til þín, félagi.

Z.

Steingrímur Helgason, 2.1.2011 kl. 23:38

3 Smámynd: Jens Guð

  Sæunn,  mín yndislega systir.  Knús norður til ykkar allra. 

Jens Guð, 2.1.2011 kl. 23:47

4 Smámynd: Jens Guð

  Steingrímur,  minn kæri.  Bestu jóla- og nýársóskir norður til þín. 

Jens Guð, 2.1.2011 kl. 23:48

5 Smámynd: Halla Rut

Sé að þú hefur haft það gott Jens.

Svona gistiheimili vantar einmitt á Íslandi en ógert er fyrir ungt fólk að ferðast hingað vegna verðlagsins. Hér ætti einhver hópur ungmenna að taka sig til og opna svona svefnpokapláss í Reykjavík með um 200 rúmmum. 

Halla Rut , 2.1.2011 kl. 23:52

6 Smámynd: Jens Guð

  Halla Rut,  ég veit ekki hvernig svona dæmi eru á Íslandi.  Þetta er mjög sniðugt eins og það er þarna í Kaupmannahöfn.  Dannis sagði mér að þetta væri frekar spurning um afstöðu til lífsstíls en græða pening á dæminu.  Þess vegna verðleggur hann gistinguna eins ódýrt og hann mögulega getur. 

Jens Guð, 3.1.2011 kl. 00:46

7 Smámynd: hilmar  jónsson

Gleðilegt ár Jens. Þetta hefur verið næs frí sé ég á öllu.

hilmar jónsson, 3.1.2011 kl. 00:53

8 Smámynd: Jens Guð

  Hilmar minn,  bestu þakkir fyrir góð samskipti á liðnum árum.  Ég óska þér alls hins besta á árinu 2011.

Jens Guð, 3.1.2011 kl. 01:02

9 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Gleðilegt nýtt ár gamli en fyrst og fremst góði vinur.

Sigurður Þórðarson, 3.1.2011 kl. 16:35

10 identicon

Halla, Reykjavík Backpackers er búid ad vera starfandi núna í 2-3 ár á Laugaveginum. Ódýrt og fínt (http://www.reykjavikbackpackers.com/RatesReservations/Prices/)

Jens, thetta kassaverd á bjór er mínus pant - sem sagt verdid sem kemur út eftir ad thú ert búinn ad skila tómu flöskunum inn aftur.

Næst mæli ég med ad thú skellir thér út ad borda á Spise Loppen í Kristjaníu. Mjög gódur veitingastadur í heldur hrörlegu húsi - og med skemmtilegum tónleikastad einni hæd ofar - Loppen.

Jóhann (IP-tala skráð) 3.1.2011 kl. 17:38

11 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður,  bestu óskir um gleðilegt ár hjá þér og þínum!

Jens Guð, 3.1.2011 kl. 22:49

12 Smámynd: Jens Guð

  Jóhann,  takk fyrir þessar upplýsingar.  Það er rétt hjá þér að þetta er verðið án glers.  Maður fer með kassann með tómu flöskunum þegar nýr kassi er keyptur.

Jens Guð, 3.1.2011 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband