New York, New York

 

  Ég hef lagt í vana minn að heimsækja New York af og til.  Síðasta föstudag gerði ég mér erindi þangað.  Sem var eiginlega dálítið kæruleysi.  Ég var nýkominn frá Danmörku og er að fara til Færeyja um mánaðarmótin.  Ég þarf einhvernvegin að reyna að venja mig af þessu flakki.  Það kemur niður á vinnunni og seðlaveskinu.  Þar fyrir utan eru ekki nema 34 ár frá því ég kastaði síðast kveðju á NY búa.  Í millitíðinni er ég reyndar búinn að fara nokkrum sinnum til Suðurríkja BNA,  sem eru eins og önnur heimsálfa miðað við Norðurríkin.  Að vísu laumaðist ég til Boston fyrir 2 árum.  Boston er örlítið fyrir norðan NY og um margt lík NY.  Bara mun smærri í sniðum.

  NY er sennilega mesta / blandaðasta fjölmenningarsamfélag heims.  Um þriðjungur NY búa er fæddur utan BNA.  Ég man ekki hlutfallið en minnir að meirihluti NY búa eigi foreldra fædda utan BNA.  Þarna eru alvöru Kínahverfi,  ítalskt hverfi,  svertingjahverfi o.s.frv.  Þegar gengið er um aðalgötuna,  Broadway,  er ekki þverfótað fyrir asískum veitingastöðum,  grískum,  ítölskum,  frönskum og svo framvegis.  Maður er umlukinn skýjakljúfum og risastórum ljósaskiltum með hreyfimyndum í skærum litum sem æpa á mann úr öllum áttum.  Áreitið frá þeim er yfirþyrmandi.  Ég gæti trúað að þetta slagi í LSD vímu. 
  "Borgin sem aldrei sefur" getur átt við um þetta.  Hinsvegar hljóðnar verulega á götum úti upp úr klukkan 7 á kvöldin.  Þá loka flestar flestar verslanir og dregur úr umferð og gangandi vegfarendum.  Þegar nálgast miðnætti er komin ró á.  En það er auðvelt að rekast á matvöruverslanir sem eru opnar allan sólarhringinn,  apótek og veitingastaði.  Svo ekki sé talað um næturklúbba.
.
  Glæpatíðni á hverja 100.000 íbúa í NY er lág í samanburði við aðrar stórborgir í Bandaríkjunum.  En há í samanburði við aðrar vestrænar borgir.  Ef ég man rétt eru íbúar NY yfir 8 milljónir.  Svíar eru tæpar 10 milljónir (til að setja hluti í samhengi).  Íbúar BNA eru um 4,6% af jarðarbúum.  Þar sitja í fangelsum um fjórðungur allra fanga heimsins.  Algengt hlutfall glæpamanna á vesturlöndum er 60 - 70 á hverja 100.000 íbúa.  Mig minnir að hlutfallið á Íslandi sé 40 - 50 á hverja 100.000 íbúa.  Í BNA er hlutfallið 700 á hverja 100.000 íbúa.  Enda gekk töluvert á í NY á meðan ég dvaldi þar:  Morð,  morðtilraunir og allskonar.  Samt upplifði ég mig alveg öruggan þarna á mínu rölti um Broadway.  Gaf mig á tal við fólk af ýmsum kynþáttum og skemmti mér vel.  Mikill meirihluti NY búa eru demókratar,  eins og í Boston.  Þegar ég var í Boston fyrir tveimur árum var öllum sem ég átti orðastað við illa við Brúsk þáverandi forseta.  Og nefndu það iðulega að fyrra bragði.  Í NY voru menn meira tvístígandi í afstöðu til Husseins Obama en létu þess getið að þeir væru demokratar.   

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

 Mig hefur lengi langað til New York, en fyrst er það San Fransisco, en þangað fer ég í mars n.k. og verð í viku. Hlakka gríðarlega til. Í Frisco er móðir allra Kínahverfa, "Chinatown"

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.1.2011 kl. 01:23

2 Smámynd: Jens Guð

    Gunnar Th.,  ég veit ekkert um San Fransisco.   Hinsvegar er það þannig í Kínahverfi Boston og NY að fólikið talar ekki ensku.  Það er skrýtið að sjá allt merkt á kínversku.  Hvort sem er McDonalds eða annað.  Í Kínahverfinu í Boston lét ég klippa mig fyrir innan við 1000 kall en enginn þar talaði ensku.  Það var bara fingramál.  Skemmtileg upplifun.

Jens Guð, 13.1.2011 kl. 02:05

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Takk Jens! New york lag og útsetning hreyfir við hverri taug. Svei mér ef Raggi Bjarna fer ekki jafnvel með þetta. Fór á tónleika hans 70tugs,gaurinn gerði stormandi lukku.

Helga Kristjánsdóttir, 13.1.2011 kl. 06:30

4 Smámynd: Guðmundur Jónsson

 Í reynd er það aðallega tíðni fangelsisdóma sem hækkar hlutfall fanga í BNA miðað við önnur vestræn samfélög. Glæpir eru með öðrum orðum ekki endilega tíðari heldur annaðhvort alvarlegri eða dómar þyngri. þetta sést vel á mismuniandi meðferð bankaræningja á íslandi og í BNA. 

Svona var NY þegar ég kom þar fyrst.

Guðmundur Jónsson, 13.1.2011 kl. 09:52

5 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Ferðalag á ferðalag ofan. Vantar þér ekki starfsmann?

Sigurður I B Guðmundsson, 13.1.2011 kl. 12:05

6 Smámynd: Jens Guð

  Helga,  það afgreiðir "New York,  New York" enginn flottar en Raggi Bjarna.  Hann er flottastur.

Jens Guð, 13.1.2011 kl. 12:12

7 Smámynd: Jens Guð

  Guðmundur,  það hafa verið skrifaðar bækur og ótal greinar um ástæður þessa háa hlutfalls glæpa í BNA í samanburði við önnur vestræn ríki.  Rannsóknir hafa ekki leitt í ljós að dómharka sé meiri í BNA þannig að afgerandi sé.  Þar fyrir utan hafa dómsstólar í BNA verið fremstir í flokki að afgreiða refsingar án fangelsunar:  Vísa málum í samfélagsþjónustu og festa staðsetningatæki á fólk   En það er reyndar endalaust deilt um alla fleti á þessu.  Og margt skrýtið.  Til að mynda var í Metro-blaði NY núna í vikunni grein sem fjallaði um að samkvæmt könnunum er hassneysla mest í NY hjá hvítum millistéttarmönnum.  Engu að síður eru þeir aðeins 10% þeirra NY búa sem eru "böstaðir" með hass.  Svo virðist vera sem lögreglan beini starfskröftum sínum að öðrum en hvitum miðstéttarmönnum hvað þetta varðar. 

Jens Guð, 13.1.2011 kl. 12:22

8 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður I.B.,  mig vantar starfsmann til að flakka um heiminn fyrir mig svo ég geti einbeitt mér að vinnunni hér heima á meðan.

Jens Guð, 13.1.2011 kl. 12:22

9 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Mátti reyna.

Sigurður I B Guðmundsson, 13.1.2011 kl. 12:30

10 identicon

Kínahverfið í NY fer sístækkandi á hlut þess ítalska.

Spekingarnir vilja meina að ný stétt láglaunastarfskrafta sé að koma inn og Ítalirnir hafi á seinni árum flutt í millistéttarhverfin í útjöðrunum.

karl (IP-tala skráð) 13.1.2011 kl. 21:36

11 Smámynd: Elís Már Kjartansson

Þetta hlutfall fanga á íslandi miðað við BNA gæti stafað af því að þeir fangelsa hvítflipa glæpamenn meðan við gerum ekki neitt!.

Elís Már Kjartansson, 13.1.2011 kl. 22:00

12 Smámynd: Ómar Ingi

Það er lítið sameiginlegt með Boston og New York , enda ekki hægt að bera saman litið sveitaþorp með þorran allan af írskum bændum og Stórborg með allra þjóða kvikindum og þar sem allt er að gerast.

Ef það er ekki til í New York þá er það ekki til PUNKTUR.

Í Boston er ekki mikið hægt að gera nema labba og skoða annars ágætis þorp sem gæti verið á Írlandi.

Ómar Ingi, 14.1.2011 kl. 00:40

13 Smámynd: hilmar  jónsson

Djöfuls lúxus á þér maður. Þú hlýtur að fá mun hærri laun en ég fyrir bloggið..

hilmar jónsson, 14.1.2011 kl. 00:46

14 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður I.B.,  um að gera.

Jens Guð, 14.1.2011 kl. 01:26

15 Smámynd: Jens Guð

  Karl,  takk fyrir þessa fróðleiksmola.

Jens Guð, 14.1.2011 kl. 01:26

16 Smámynd: Jens Guð

  Elís Már,  það er rétt hjá þér:  Ísland er eins og spillt bananalýðveldi.  Stjórnmálastéttin er svo samofin helstu glæpamönnum landsins að það er ekki hróflað við þeim.  Enda sitja á alþingi hlið við hlið dæmdur stórþjófur og stórtækur skattsvikari og kúlulánadrottning og mútuþegar og lygarar og svo framvegis. 

  Kaninn tekur þetta fastari tökum.  Í vikunni fékk þingmaður Republikanaflokksins dóm fyrir peningaþvætti.  Fjárglæframenn Enron og fleiri glæpafyrirtækja voru meðhöndlaðir snöfurlegra en íslensku bankaræningjarnir.  Þar fyrir utan er löggan í BNA dugleg að handtaka þetta lið sem er stöðugt að skjóta hvert annað og vinnufélagana. 

Jens Guð, 14.1.2011 kl. 01:41

17 Smámynd: Jens Guð

  Ómar Ingi,  það sem ég á við með þeim orðum að Boston sé um margt lík NY er mannlífið,  hugsunarháttur íbúanna,  framkoma og fas íbúanna,  arkítektúrinn,  matur og þess háttar.  Hvað þetta varðar er allt gjörólíkt til að mynda í Texas og Florida svo dæmi sé tekið.

Jens Guð, 14.1.2011 kl. 01:56

18 Smámynd: Jens Guð

  Hilmar,  ég hef ódýran lífstíl.  Kaupi aldrei neitt og á næstum ekkert.  Sjónvarpið er gamalt túputæki.  Tölvan er gömul og úrelt.  Skjárinn er 12 ára hlunkur.  Ég endurnýja ekkert svona á meðan gamla tækið skröltir.  Ég kaupi ekki ný föt nema í neyð og þau kaupi ég í Rúmfatalegernum eða Europrice.  Ég vil frekar hafa svigrúm til ferðalaga en eltast við dýr föt eða nýjustu tækin á markaðnum.  Enda er ég blindur á mun á ódýrum og dýrum fötum og afar tornæmur að læra á ný tæki.  En mér þykir afskaplega gaman að ferðast,  bæði innanlands og utan.  Fyrir bankahrun fór ég aldrei sjaldnar en 2 - 3 á ári til Færeyja og fór síðan til annarra landa um jól,  páska og hvítasunnu.  

  Þetta hef ég skorið verulega niður eftir bankahrun.  Í fyrra fór ég aðeins einu sinni til Færeyja og svo til Póllands og Danmerkur.         

Jens Guð, 14.1.2011 kl. 02:22

19 Smámynd: hilmar  jónsson

Gott viðhorf Jens.

hilmar jónsson, 14.1.2011 kl. 02:37

20 Smámynd: Jens Guð

   Hilmar, þetta er hægt eftir að börnin eru flutt að heiman og maður þarf ekki fyrir öðrum að sjá en sjálfum sér.

Jens Guð, 14.1.2011 kl. 18:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband