Bráðnauðsynlegt að vita um auglýsingatexta

 

  Þessa dagana eru Íslendingar að leggja drög að því hvað skuli gera og hvert skuli fara í sumarfríinu.  Samtímis eru dagblöð og tímarit full af auglýsingum um freistandi gististaði:  Hótel,  gistihús,  tjaldstæði,  húsbílaaðstöðu og þess háttar.  Nánast öllum þessum stöðum er lýst sem "notalegum" í fögru umhverfi og með mörgum gönguleiðum.  Þetta eru klisjur sem segja í raun ekki neitt.  Engin gistiþjónusta er svo illa staðsett að ekki megi rölta hingað og þangað umhverfis hana.  Hvarvetna á Íslandi má benda á eitthvað í umhverfi sem telst fagurt.

  Það eru aðrar lýsingar sem taka þarf með fyrirvara.  Ekki er allt sem sýnist.  Hér eru nokkur dæmi:

  "Kyrrð og ró."  Þetta þýðir:  "Hér er allt steindautt.  Ekkert um að vera."

  "Persónulegt viðmót."  Þetta þýðir:  "Við erum rosalega forvitin.  Við hellum yfir gesti okkar spurningaflóði.  Spyrjum hvaðan þeir komi,  hverra manna þeir séu,  við hvað þeir vinni.  Gestirnir fá ekki stundlegan frið fyrir forvitni okkar."

  "Heimabakað brauðmeti."  Þetta þýðir:  "Við erum svo hrikalega afskekkt að það er engin verslun og ekkert bakarí í akstursfjarlægð."

  "Byggingin hefur fengið að halda uppruna sínum."  Þýðir:  "Ekkert aðgengi fyrir fatlaða.  Engin lyfta.  Það marrar í öllum gólfum og stigum.  Húsakynni eru þröng og óþægileg,  herbergi lítil..."

  "Umhverfið geymir náttúruperlur sem bíða þess að vera uppgötvaðar."  Þýðir:  "Við vitum ekki um neitt merkilegt í grenndinni."

  "Spennandi matseðill."  Þýðir:  "Við vitum aldrei hvað verður í matinn.  Við notum bara það hráefni hverju sinni sem lengst er síðan fór fram yfir síðasta söludag." 

  "Veitingar á sanngjörnu verði."  Þýðir:  "Þið eigið nógan pening fyrst þið hafið efni á að ferðast um landið.  Það er sanngjarnt að þið borgið rausnarlega fyrir veitingarnar."

  "Fjölskyldurekið fyrirtæki."  Þýðir:  "Það helst aldrei neinn í vinnu hjá okkur.  Við verðum að sjá um þetta sjálf."

  "Gestir geta fengið sér hressingu þegar þeir vilja."  Þýðir:  "Það er kóksjálfsali í anddyrinu.  Lítil kókdós kostar 300 kall."

  "Aðgengi að hundum."  Þýðir:  "Það þýðir ekkert að kvarta þegar hundarnir bíta þig.  Þú vissir að það væru hundar á bænum."

.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gleymdir þessu:

Gott verð = Fyrir þá, ekki þig.

Tilboð á gistingu = Það gistir enginn þarna aftur sem hefur prófað.

Grefillinn sjálfur (IP-tala skráð) 30.5.2011 kl. 00:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband