Bráðskemmtileg matarveisla

veisluborð

  Nýverið tapaði kona á Suðurnesjum máli sem veisluþjónusta höfðaði gegn henni.  Samið hafði verið um kaup á veisluföngum fyrir tiltekna upphæð.  Að mig minnir á 4ða hundrað þúsund.  Konan borgaði 100 þúsund kall fyrirfram.  Hún var ósátt við veisluföngin og neitaði að borga það sem út af stóð.  Taldi sig hafa verið svikna. 

  Í svona tilfelli tapar kaupandinn alltaf málinu.  Þó að konan væri ósátt þá hafði hún fengið meira en 100 þúsund króna virði veisluföng.  Til að eiga möguleika á að vinna málið hefði konan þurft að fá óháðan matsmann til að meta raunvirði veislufanganna og borga þá upphæð.  Sem gat hugsanlega verið lægri upphæð en samið var um í upphafi.  Þetta þarf fólk að vita.  Ef það greiðir lægra verð fyrir vöru eða þjónustu en sanngjarnt þykir þá tapar það máli fyrir dómi.  Líka þó að fólkið hafi ekki fengið þau veisluföng og þá þjónustu sem um var samið.  Til að vinna svona mál þarf fólk að hafa borgað "sanngjarna" upphæð,  studda mati óháðs aðila.  Sá sem sækir málið tapar því. 

  Það er dýrt að tapa svona máli.  Miklu dýrara en að borga sanngjarnt verð.  Málskostnaður þess sem tapar máli telur nokkur hundruð þúsundkalla.

  Nú í kjölfar nýafstaðinna fermingarveislna og í upphafi ættarmóta er gaman að rifja upp eftirminnilega veislu.  Sú var haldin skömmu eftir bankahrun og veisluþjónustan klárlega í þröng.

  Samið var um þjóðlegan aðalrétt,  lambakjöt í karrý,  og súkkulaðitertu með rjóma sem desert.  Þegar til kom var á borðum ekki aðeins lambakjöt í karrý heldur einnig kjúklingapottréttur.  Eini gallinn var sá að karrýkjötið var af skornum skammti.  Góðu fréttirnar voru þær að nóg var til af kjúklingapottréttinum.

  Eins og venja er þegar hátt í hundrað manns koma saman til að snæða mat fór fólk að veisluborðinu í skipulagðri röð eftir því hvar borð þess voru staðsett.  Karrýrétturinn kláraðist fljótt.  Fólkið á síðustu borðunum hafði ekki um annað að velja en kjúklingapottréttinn.  Hann dugði öllum.  En sumir horfðu öfundaraugum á þá sem náðu karrýkjötinu.

  Skýringin sem var gefin var sú að kokkinn hefði misminnt hvað hann átti mikið af lambakjöti á lager.  En reddaði málinu með kjúklingapottréttinum.

  Næst var röðin komin að súkkulaðitertunni með rjóma.  Þá kom upp annað vandamál.  Það hafði gleymst að baka súkkulaðitertur og kaupa rjóma.  Þessu var reddað með því að bjóða upp á konfekt.  Einn mola á mann.  Stór skál með konfektmolum var látin ganga á milli borða.  Áður en röðin kom að síðustu borðum var konfektið á þrotum.  Gamansamur maður spurði þjóninn hvort hann gæti skorið síðasta konfektmolann í nokkra bita svo allir fengju smá konfekt.  Þjónninn kunni ekki að meta brandarann og sagði með þjósti að einhverjir hefðu greinilega tekið fleiri en einn konfektmola.  Molarnir hefðu verið taldir og áttu að vera jafn margir gestunum.  Þar með var það útrætt.

   Gosdrykki keyptu matargestir sérstaklega á barnum.  Einkum voru það krakkar sem sóttu í gosdrykkina.  Einn bað um sogrör.  Aðrir krakkar brugðu við skjótt og báðu einnig um sogrör.  Þjónninn brást vel við því.  Hann tók nokkur rör og klippti þau með skærum í tvennt.  Hvert barn fékk hálft rör sem var of stutt fyrir glösin.  Þjónninn upplýsti krakkana um að þeir yrðu að passa upp á rörin sín því þeir myndu ekki fá annað rör. 

  Eftir vel heppnaða matarveisluna sóttu gestir út í gott veðrið.  Utan við húsið,  til hliðar,  er stór trépallur.  Þar safnaðist fólkið saman,  spjallaði og söng nokkur lög.  Einhverjir sóttu sér bjórdós í bíla sína.  Aðrir keyptu bjór á barnum og báru út.  Inni á barnum voru spiluð fjörleg íslensk dægurlög.  Það er hægt að opna hurð á barnum út á trépallinn. 

  Þar sem allir voru komnir út bað ég þjóninn að opna út á trépallinn til að músíkin bærist þangað út.  Mér var svarað:  "Það er ekki mitt hlutverk að spila músík fyrir fólk sem kaupir ekki bjór á barnum heldur drekkur bjór úr dósum sem það kemur sjálft með."

  Ég benti honum á að margir væru að kaupa bjór á barnum.  Þjóninn svaraði:  "Þá getur það fólk verið hérna inni ef það vill heyra músík."

  Skömmu síðar var húsinu lokað með þeim orðum að staðurinn ætlaði ekki að halda opinni salernisaðstöðu fyrir fólk sem væri að drekka úr sínum eigin bjórdósum í stað þess að kaupa á barnum.

  Gleðskapurinn hélt þó áfram þarna fyrir utan.  Allir skemmtu sér vel og sýndu aðstæðum fullan skilning.  Þetta var,  jú,  í kjölfar bankahrunsins og veisluþjónustur urðu að horfa í hverja krónu.  Og gert var upp við veisluþjónustuna eins og tilboð hennar hljóðaði fyrir lambakjöt í karrý og súkkulaðitertu með rjóma.  Allir voru kátir og glaðir.  Nema kannski þjónninn sem vildi selja meira á barnum.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óli minn

Þegar halda skal veislu fyrir marga er alltaf langbest að kaupa eingöngu franskbrauðssnittur og láta setja extra mikið majónes á þær.

Óli minn, 3.6.2011 kl. 00:43

2 identicon

Þetta gleymist seint. Frábært í alla staði, mikið fjör og mikil gleði ;) Hefði samt verið gaman að fá smá karrírétt, hehehe...

Tómas (IP-tala skráð) 5.6.2011 kl. 01:52

3 Smámynd: Jens Guð

  Óli minn,  takk fyrir gott ráð.

Jens Guð, 5.6.2011 kl. 19:45

4 Smámynd: Jens Guð

  Tommi,  mér skilst að það verði nóg af karrýkjöti á Steinsstöðum.

Jens Guð, 5.6.2011 kl. 19:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.