Metallica drengirnir eru ekki alltaf vondir

  Margir hafa borið liðsmönnum dönsk-bandarísku þungarokkssveitarinnar Metallicu illa söguna.  Einkum trommaranum Larsi Ulrich og söngvaranum James Hetfield.  Gamli bassaleikarinn þeirra,  Jason Newsted,  segir þá hafa lagt sig í einelti með barsmíðum og öðrum leiðinlegheitum.  Þeir þykja sjálfhverfir,  frekir,  ofbeldisfullir og hrokafullir.

  En fáir eru svo með öllu illir að ekki leynist í þeim eitthvað gott.  Um daginn fékk 11 ára gamall færeyskur drengur óvænta upphringingu frá Larsi Ulrich.  Ekki bara einu sinni heldur var nánast símaónæði vegna upphringinga frá Larsi.  Erindið sem hann átti við Færeyinginn var að bjóða honum ásamt foreldrum hans á hljómleika Metallicu í Svíþjóð.   

  Forsagan er sú að færeyski drengurinn,  Ási Hilbertsson,  er illa haldinn vegna krabbameins.  Hann þarf að styðjast við hækjur vegna þess að bein hans eru illa farin.  Sömuleiðis er hann orðinn sjóndapur.  Bara svo fátt eitt sé nefnt.

  Um heilsuleysi Ása hefur verið fjallað í færeyskum fjölmiðlum.  Líkast til hefur einnig verið sagt frá því í dönskum fjölmiðli.  Einhvern veginn að minnsta kosti frétti Lars hinn danski af drengnum.  Í frásögnum af Ása kom fram að hann linar þjáningar sínar með því að hlusta á Metallicu.  Það snart Lars.

  Í boði Metallicu flaug Ási ásamt foreldrum sínum til Svíþjóðar og hitti Lars í hljómleikahöll sem tekur næstum 60 þúsund áhorfendur.  Þrátt fyrir að danskir ættingjar Lars mættu einnig á svæðið til að heilsa upp á trommarann átti Ási athygli hans óskipta.  Hann kynnti Ása fyrir hinum í hljómsveitinni,  sýndi honum hin ýmsu tæki og tól hljómsveitarinnar og bauð Ása að velja hvaða lög Metallica spilaði í hljóðprufunni. 

  Á sjálfum hljómleikunum var Ása og foreldrum hans komið fyrir í sérstakri stúku á sviðinu skáhalt fyrir aftan Lars.  Hvenær sem minnsta hlé varð á trommuleiknum spratt Lars upp eins og stálfjöður til að ganga úr skugga um að Ási og foreldrarnir hefðu nóg að borða og drekka og allt væri eins og best væri á kosið.

  Ási hefur verið í skýjunum eftir þennan höfðinglega gjörning Lars Ulrichs.  Foreldrarnir ekki síður.  Þau hafa ekki séð drenginn jafn hamingjusaman síðan krabbameinið lét á sér kræla.  Það fer ekki af honum gleðisvipurinn og brosið allan hringinn.  Foreldrunum þykir sérlega vænt um hvað Lars stóð vel að heimsókninni og var virkilega hugulsamur um að Ási fengi sem mest út úr henni.  

ási

  Ási og Lars Ulrich


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vonandi voru bara foreldrarnir með "Whisky in the jar"! ;-)

Matthías (IP-tala skráð) 10.7.2011 kl. 18:56

2 identicon

Frábært hjá þeim. Ég á illa með að þola Lars en þarna hoppaði hann upp haturslitann minn

Gunnar (IP-tala skráð) 11.7.2011 kl. 21:52

3 Smámynd: Jens Guð

  Matthías,  mig minnir að þau hafi helst viljað ávaxtasafa.

Jens Guð, 12.7.2011 kl. 00:55

4 Smámynd: Jens Guð

  Gunnar,  ég var einmitt með andúð á Lars og félögum eftir að hafa lesið margar frásagnir af frekjustælum hans.  Þessi frásögn breytir heilmiklu.  Ég var búinn að fylgjast með sjúkrasögu færeyska drengsins.  Og þá komu þessi óvæntu tíðindi. 

Jens Guð, 12.7.2011 kl. 00:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.