Íslenskir fjölmiðlar og G!Festival

  Í ársbyrjun 2001 vissu Íslendingar fátt sem ekkert um færeyska tónlist.  Og vildu ekki af henni vita.  Svo sló  Ormurin langi  með Tý rækilega í gegn.  Þökk sé Guðna Má á rás 2.  Ormurin langi  varð vinsælasta lagið á Íslandi 2002.  Í kjölfar opnuð allar gáttir og Íslendingar uppgötvuðu að í Færeyjum var fjörlegt og blómlegt tónlistarlíf.  Íslendingar uppgötvuðu hverja hágæða færeysku poppstjörnuna á fætur annarri:  Eivör,  Makrel,  Clackhaze,  Hanus G.,  200,  Kára Sverrison,  Yggdrasil og svo framvegis.  Talað var um færeysku bylgjuna.  Færeyska barnastjarnan Brandur Enni varð ofurstjarna á Íslandi.  Næstu ár sá hvergi fyrir enda á vinsældum færeyskra tónlistarmanna á Íslandi:  Högni,  Teitur,  Lena Andersen,  Deja Vu,  Gestir,  Boys in a Band,  Orka og ég áreiðanlega að gleyma hellingi af nöfnum.

  2002 var fyrsta G!Festivalið haldið í Götu í Færeyjum.  Í ár var G!Festival haldið í 10. sinn.  Það hefur verið gaman að fylgjast með þróun G!Festivals,  áhuga Íslendinga á því og ekki síst afgreiðslu íslenskra fjölmiðla á þessari stærstu árlegu rokkhátíð í Færeyjum.

  Vel á annað hundrað Íslendinga sótti G!Festival í ár.  Þar á meðal voru íslenskir tónlistarmenn þátttakendur í dagskránni og íslenskir fjölmiðlar fylgdust náið með.  Þau íslensku nöfn sem mest kvað á í dagskránni voru Mugison og þungarokkssveitin Skálmöld.  Þeirra nöfn eru vel þekkt í Færeyjum.

  Rás 2,  X-ið,  Morgunblaðið,  DV og Fréttablaðið áttu sína "tíðindamenn" á G!Festivalinu.  Morgunblaðið trompaði með tíðum sjónvarpspistlum frá hátíðinni.  Arnar Eggert fór þar á kostum í virkilega vel unnum sjónvarpsþáttum á mbl.is (fólk),  svo og í blaðagreinum í prentmiðlinum.

  Atli Fannar gerði G!Festivali góð skil í helgarblaði Fréttablaðsins og laugardagsþætti sínum á X-inu.  X-ið var jafnframt með leik þar sem hlustendur unnu ferð á G!Festivalið.

  Andrea Jóns tók viðtöl við færeyska tónlistarmenn fyrir rás 2 og hefur verið að mjatla þeim út í kvölddagskrá rásar 2.  Andrea er snillingur eins og flestir eiga að vita.

  Sjálfur afgreiddi ég G!Festivali í opnufrásögn í DV síðasta miðvikudag.  Og einnig í nokkrum fréttum á netmiðli DV.

  Þetta er gaman.  Ekki síst vegna þess að flestir færeysku tónlistarmennirnir sem skemmtu á G!Festivali í ár hafa áður spilað á Íslandi:  Týr,  Hamferð,  Guðrið Hansen,  Högni,  Orka,  Búdam,  Benjamín,  Sic,  Spælimeninir,  Pétur Pólsen og enn og aftur er ég áreiðanlega að gleyma einhverjum. 

  Um verslunarmannahelgina verður Færeysk fjölskylduhátíð á Stokkseyri.  Það skemmta meðal annarra Kristian Blak,  Benjamín,  fiðlusnillingurinn Angelika Nielsen,  Guðrið og Jógvan.  Ég mun blogga um það ævintýri innan tíðar.

      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband