Rétt skal vera rétt. Já, því ekki?

 

  Það er fjör.  Allt út af skemmtilegri stórfrétt í Fréttablaðinu af söluhæstu plötum Bubba Morthens.  Þar kom eftirfarandi fram:  "Þrjár mest seldu plöturnar,  Dögun,  frá 1987,  Frelsi til sölu,  frá 1986 og Kona,  frá 1985 (...) eiga sameiginlegt að Jens Guð sá um markaðssetningu þeirra allra ásamt því að hanna umslögin að mestu eða öllu leyti."

  Bubbi gerir alvarlega athugasemd við þetta á fésbókinni.  Hann fullyrðir að Ámundi Sigurðsson hafi hannað frá a til ö umslag plötunnar  Sögur af landi  og hafi ásamt Bubba Morthens hannað umslag plötunnar  Lífið er ljúft.  Jafnframt fullyrðir Bubbi að Bubbi Morthens hafi gert mynd sem er á umslagi sömu plötu.  Valdís Óskarsdóttir hafi hannað umslag  Dögunar  og Inga Sólveig Friðjónsdóttir gert umslag  Konu.

  Eftir þessa upptalningu segir Bubbi ekki vera mikið eftir handa Jens Guð og hnykkir á með orðatiltækinu góða:  Rétt skal vera rétt.  Undir það skal tekið.  Rétt skal vera rétt.  Þess vegna er ástæða til að fara yfir dæmið lið fyrir lið.

  - Sögur af landi

  Ég hef hvergi rekist á eða orðið var við orðróm um að einhver annar en Ámundi sé hönnuður þessa umslags.  Það er ekki ágreiningur um þetta.  Það var ekki stafkrókur um þessa plötu í frétt Fréttablaðsins né á bloggsíðu minni.  Það má telja upp umslög miklu fleiri platna sem ég hef hvergi komið nálægt.  Bæði plötur með Bubba og hverjum sem er.  Jafnvel Bítlunum og Rolling Stóns.  Ég mun ekki gera ágreining um þau dæmi.  Og tæplega nokkur annar.

  - Lífið er ljúft

   Ég hef hvergi rekist á eða orðið var við orðróm um að einhverjir aðrir en Ámundi og Bubbi hafi hannað þetta umslag.  Það er ekki ágreiningur um þetta.  Né heldur að Bubbi Morthens hafi gert myndina á umslaginu.  Það var ekki stafkrókur um þessa plötu í frétt Fréttablaðsins né á bloggsíðu minni.

  - Dögun

  Umslagið varð þannig til:  Ég hitti Valdísi Óskarsdóttur sem hafði tekið ljósmyndir af Bubba og einnig uppstilltar og stíleseraðar myndir.  Alveg bráðskemmtilegar og flottar myndir.  Ási í Gramminu var líka á þessum fundi.  Það var ákveðið hvaða myndir yrðu notaðar á umslagið. 

  Næsta skref var að ég skoðaði nokkrar leiðir til að markaðssetja plötuna og skissaði upp 3 mjög ólíkar framhliðar á umslagi út frá því hvaða leiðir yrðu farnar.  Ási og Bubbi tóku ákvörðun um það hvað varð fyrir valinu.  Kannski var þetta borið undir Valdísi.  Ég hitti hana þó aldrei eftir þennan eina áðurnefnda fund með henni þegar við skoðuðum ljósmyndirnar.  Mér bárust aldrei neinar athugasemdir eða óskir frá henni um hönnun umslagsins.  Ég fullvann þá skissu sem varð fyrir valinu.  Og gríðarmikil ánægja var með þetta umslag.

  Til gamans má geta fyrir þá sem aðeins þekkja umslagið af geisladisksútgáfunni að upphaflega var umslagið hannað fyrir Lp vinylplötu.  Þar var gyllt upphleypt letur sem skilaði tilteknum hughrifum og vísaði til útfærslu á hágæða konfekti í gjafaumbúðum.  Það var reisn yfir því.

  Ég vil ekki gera lítið úr þætti Valdísar á umslaginu.  Alls ekki.  Myndirnar hennar eru frábærar og eiga sinn stóra þátt í því hvað þetta umslag er flott.  Og þar með hversu söluvænleg platan var.  Hinsvegar kemur skýrt fram á umslaginu og í bókinni  100 bestu plötur rokksögunnar  hver hannaði umslagið.  Ásamt því hver á ljósmyndirnar á því.  Þetta er óumdeilanlega söluhæsta plata Bubba.  26 þúsund seld eintök.

  - Frelsi til sölu

  Sömu vinnubrögð voru höfð og við  Dögun.  Nema að þar var valið úr myndum eftir Bjarna Friðriksson.  Til gamans má geta að á nærhaldi (innra umslagi) vildi ég gera út á tölvupoppsútfærslu og "space rokk".  Hugmyndafræðin var sú að búa til tilfinningu fyrir "future" stemmningu.  Enda ferskur tónn ráðandi á plötunni.  Á síðustu stundu kom upp ágreiningur varðandi þá leið.  Mig minnir að það hafi jafnvel verið byrjað að prenta þá útfærslu þegar - að mig minnir Bubbi -  strækaði á það dæmi.  Í fljótheitum hannaði ég þá nýtt nærhald sem fékk afskaplega lofsamlega dóma hjá plötugagnrýnendum (sem að öðru jöfnu nefna sjaldnast umslagshönnun).  Enda var það flott.  Eftir stóð þó á bakhlið umslagsins tilvísun í upphaflega nærhaldið.  Sú tilvísun er dálítið út í hött í endanlegri útfærslu.

  Þegar umslagið var endurprentað vantaði á það grænan teygðan þríhyrning á bak við nafn Bubba.  Sá þríhyrningur þjónaði hlutverki dýptar á uppstillingunni.  Umslagið er hálf kjánalegt án þess.

  Frelsi til sölu er næst söluhæsta plata Bubba.  22 þúsund seld eintök.

  - Kona

  Vinnubrögðin voru lík og við  Dögun  og  Frelsi til sölu.  Munurinn var þó sá að Inga Sólveig var búin að skissa upp gróft uppkast að framhlið umslagsins.  Hún var búsett í Bandaríkjunum.  Þess vegna var ekki hægt að hafa neitt samráð við hana um hönnun bakhliðar,  textabæklings,  plötumiða,  letur eða uppsetningu og frágang á pakkanum.  Þetta var fyrir daga tölvu og internets.

  Mér er fjarri lagi að gera lítið úr framlagi Ingu Sólveigar í hönnun umslagsins.  Ég hef ætíð tekið fram að hún átti grunnhugmyndina að umslagsinu.  Ljósmynd hennar á framhlið þess setur svo sannarlega sterkan svip á umslagið.  Það breytir ekki því að allt annað en framhlið umslagsins var hannað af mér og ég handskrifaði titil plötunnar og nafn Bubba á framhlið þess.  Þar fyrir utan stillti ég upp markaðssetningu á  Konu  eins og  Dögun  og  Frelsi til sölu.

  Kona  er 3ja söluhæsta plata Bubba.  20 þúsund seld eintök.

  Á meðan ég var í auglýsingabransanum kynntist ég einungis rosa mikilli gleði,  gargandi fagnaðarlátum og þakklæti fyrir góðan söluárangur,  hvort sem um var að ræða á bókum,  bílum,  sælgæti eða öðru.  Það er alveg nýtt að viðbrögð við glæsilegum söluarangri séu ólund og reynt að gera lítið úr minni vönduðu og árangursríku vinnu. 

  Hér fyrir neðan má sjá skemmtilega unna frétt Pressunnar um þetta hitamál.  Það er fjör.  Stanslaust fjör.  Og rétt skal vera rétt.  Ég átta mig ekki á því hvers vegna ég er þarna titlaður "fyrrverandi poppspekúlant":

------------------------------------------

11. ágú. 2011 - 14:28 Kaffistofan

Uhhh...hvað gerði Jens þá?

Bubbi Morthens

Hún var flennistór fréttin í Fréttablaðinu um þátt fyrrverandi poppspekúlantsins Jens Guð í velgengni Bubba Morthens.

Þar sagði um vinsælustu plötur Bubba að allar ættu þær sameiginlegt að Jens Guð hafi ekki aðeins markaðssett þær, heldur séð um að hanna umslögin að mestu eða öllu leyti. Svo segir Jens:

Ég þarf að passa mig á því að hljóma ekki rogginn. En ég var búinn að fara í gegnum nám í grafískri hönnun í Myndlista- og handíðaskólanum. Á þeim tíma var markaðsfræði töluverður hluti af náminu

Á kaffistofunni tóku menn undir orð Jens Guð um að hann yrði að passa sig...enda segir Bubbi á Facebook-inni hjá sér um málið:

Valdís Óskardóttir kvikmyndagerðarkona og klippari hannið umslagið á Dögun - Inga Sólveig Friðjónsdóttir gerði umslagið á Konu. Bubbi Morthens gerðir mynd og hannði umslagið á Lífið er Ljúft ásamt Ámunda Sigurðssyni vini sínum. Sögur af landi gerði og hannaði Ámundi frá a til ö. Þá er ekki mikið eftir handa Jens Guð af þessum fimm söluhæstu plötum. Rétt skal vera rétt

Er nema von að spurt sé hvað Jens hafi þá gert?  Einn lesandi Bubba svarar því kannski á Facebookinu þegar hann segir:

Hann hefur örugglega hlustað á plöturnar, eins og við hin ;)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ásdís Sigurðardóttir, 12.8.2011 kl. 12:37

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Frekar leiðinlegt fyrir þig að fá svona yfir þig, trúlega að óþörfu.En þú lætur ekki deigan síga.

Ásdís Sigurðardóttir, 12.8.2011 kl. 12:39

3 identicon

Mér fannst einmitt mjög áhugavert að þeir skyldu titla þig fyrrverandi spekúlant :)

Siggeir F. Ævarsson (IP-tala skráð) 12.8.2011 kl. 14:40

4 Smámynd: Már Elíson

Jens...Það er möguleiki á því, að Bubbi muni ekki allt...Hann var í sukkinu, svipað og Keith greyið Richards...hann týndi árum, og það mörgum !

Það er ekki hægt að áfellast Bubba þótt hann muni ekki gærdaginn, hann man ekki einu sinni hvort hann hafi samið lögin eða "fengið þau að láni"...! (Stúlkan við hafið / Derrick theme) - Eyjan mín (Set on you / Travelling Wilbury's) - "Listen to the rythm of the falling rain"...og nokkur önnur.... 

Már Elíson, 12.8.2011 kl. 16:07

5 Smámynd: Jens Guð

  Ásdís,  það er bara gaman að þessu.

Jens Guð, 12.8.2011 kl. 19:01

6 Smámynd: Jens Guð

  Siggeir,  mér finnst það einnig mjög áhugavert.  Ég hef sjaldan spekúlerað meira í poppmúsík en núna.

Jens Guð, 12.8.2011 kl. 19:02

7 Smámynd: Jens Guð

  Már,  það er ekki víst að Bubbi sé sekur um rangt skráðan höfund.  Þegar ég var að setja upp umslagið á  Konu  fékk ég í hendur vélritaða texta plötunnar og fleiri upplýsingar.  Það var dálíð flausturslegur frágangur á þessu vegna þess að Bubbi fór í meðferð 

  Við lagið  Söngurinn hennar Siggu hafði Bubbi skrifað eitthvað á þá leið að lagið sé stolið eða stælt. Ég og fleiri undum okkur í það verkefni að reyna að finna út hvaða lag þetta væri. Góður vinur Bubba kvað upp úr með að þessi athugasemd ætti ekki við þetta lag heldur annað lag á plötunni sem væri eftir Leonard Cohen.  Söngurinn hennar Siggu  var þess vegna skráður á Bubba á umslaginu en lagið er eftir JJ Cale.  Ég held að þetta hafi verið leiðrétt þegar platan var síðar gefin út á geisladisksformi.

Jens Guð, 12.8.2011 kl. 19:15

8 Smámynd: Guðmundur Júlíusson

Jens, þetta er allt með ólíkindum og hverju  á maður að  trúa, ég  fylltist  mikilli ánægju og hreykni þegar að ég las þetta í Fréttablaðinu og fannst gaman að, þar sem að ég hef skipst á skoðunum við þig á blogginu og er hreykinn af enda meistarabloggari þú, á ferð! tek þig trúanlegan, enda finnst mér þú þannig maður!!

Guðmundur Júlíusson, 12.8.2011 kl. 20:24

9 Smámynd: Jens Guð

  Guðmundur,  takk fyrir það.  Ég svo sem veit að Bubbi er ekki að skrökva neinu viljandi.  Hann hefur sent frá sér svo margar plötur að það er eðlilegt að hann rugli hlutum saman í einhverjum tilfellum.  Til að mynda þegar hann heldur að Valdís hafi hannað umslagið á  Dögun.  Honum hefði verið í lófa lagið að kíkja á bakhlið umslagsins og lesa þar hvítt á svörtu hver er skráður hönnuður umslagsins.  En hann er of hvatvís fyrir þannig vinnubrögð.  Treystir um of á þokukennt minnið.

  Reyndar er ótrúlega algengt að tónlistarmenn sem hafa vasast í mörgu og oft í vímu séu með skekkta mynd í minninu.  Þetta rak ég mig rækilega á er ég skráði Poppbókina fyrir aldarfjórðungi.  Það var fyrir daga tölvu og internets.  Ég hafði samband við fjölda gamalreyndra poppara til að fá upplýsingar um eitt og annað.  Eftir því sem ég talaði við fleiri þeim mun fleiri heimildir stönguðust á.  Að því kom að ófært var að treysta á þessar frásagnir.  Ég varð að fara á bókasöfn og fletta öllum staðreyndum upp.  Menn mundu svo vitlaust hverjir spiluðu með þeim í þessari eða hinni hljómsveitinni og með þeim inn á hinar ýmsu plötur;  rugluðust á útgáfuröð platna;  ártöl í í rugli o.s.frv.

  Ég er líka að rekast á svona núna í vinnunni við að skrifa bókina um Eivöru.

  En það er gaman að þessu öllu saman.  Ekki síst því þegar Bubbi fer að telja upp plötur sem ég hef svo sannarlega hvergi komið nálægt.  Og hvorki ég né aðrir haldið fram að ég hafi komið nálægt.  Það er dálítið einkennilegt.  Og sprenghlægilegt.  Eins og reyndar þetta upphlaup hans allt ef út í það er farið. 

Jens Guð, 12.8.2011 kl. 21:14

10 identicon

Ég held að það spili líka inn í að - samkvæmt honum sjálfum - þá er hann alveg heyrnalaus. Svoleiðis fötlun getur brenglað skynjun manns á umhverfinu

Gunnar (IP-tala skráð) 13.8.2011 kl. 00:16

11 identicon

Bubbi er útbrunninn froðusnakkur.

Fá svona yfir þig Jens eftir að hafa hannað og séð um mest seldu plötur mannsins.

Þetta er til skammar!

Einar (IP-tala skráð) 13.8.2011 kl. 00:18

12 Smámynd: Jens Guð

  Gunnar,  hehehe!

Jens Guð, 13.8.2011 kl. 00:24

13 Smámynd: Jens Guð

  Einar,  þetta er ekki illa meint.  En kom á óvart.

Jens Guð, 13.8.2011 kl. 00:25

14 identicon

Þú ert nú meiri spekingurinn Jens. Það er ótrúlegt að muna þetta allt svona og segja frá. Þú minnist á að Bubbi hafi verið í meðferð þarna og verið utan við sig. Ja hérna! Af hverju vill Bubbi ekki viðurkenna þig?

oddaverji (IP-tala skráð) 13.8.2011 kl. 00:27

15 Smámynd: Óli minn

Staðreynd málsins er sú að ég hef hannað öll umslög fyrir Bubba og séð um markaðssetninguna á öllum plötum hans nema þeim fimm sem verst hafa selst. Það var einhver Jón sem sá um þær. Ég get staðfest þetta sjálfur ef einhver spyr.

Óli minn, 13.8.2011 kl. 00:54

16 Smámynd: Jens Guð

  Oddverji,  ég er ekki að uppljóstra neinu sem Bubbi hefur ekki sjálfur sagt opinberlega frá oft og mörgum sinnum.

Jens Guð, 13.8.2011 kl. 01:00

17 Smámynd: Jens Guð

  Óli minn,  alltaf góður!

Jens Guð, 13.8.2011 kl. 01:01

18 Smámynd: Gunnar Waage

Ég hlustaði á töluvert á Fingraför og finnst hún algjör klassík, MX21 bandið er síðan besta bandið sem hann hefur verið með enda Steini og Dóri vinur minn þar, besti trommarinn sem hann hefur verið með. Þetta band hafði mikinn galdur. Þetta er nú það síðasta sem ég hef hlustað fyrir utan að heyra í honum í útvarpi hingað og þangað. Ég held nú að Bubbi karlinn þyrfti að gera greinarmun á 'hönnun' eða 'myndatöku'. Hönnunin er alveg jafn mikilvæg ef ekki stærra mál.

Það hefur reyndar alltaf tíðkast viss einföldun í þessum bransa þegar kemur að credit-lista og mörg dæmi þess að heilu hljómsveitirnar hafi í raun ekki spilað á plötum þrátt fyrir upplýsingarnar á umslaginu.

Gott dæmi er 'Rebel Yell' með Billy Idol, John Goodsall sagði mér að hann og nokkrir aðrir LA session menn hefðu spilað alla plötuna, síðan er Steve Stevens og aðrir meðlimir BI bandsins settir á umslagið.

Gestur sagði mér eitt sinn að Steini hefði verið undrandi að vera ekki skráður fyrir útsetningum, veit ekki en ég trúi þér allavega alveg og finnst bara að Bubbi megi koma hreint fram við þig.

Gunnar Waage, 14.8.2011 kl. 00:09

19 Smámynd: Jens Guð

  Gunnar Waage,  af því að þú ert trommari (og ég lauma því hér að að þú ert skratti flottur trommari sjálfur.  Ég hef hlustað á slatta af lögum með þér á bloggsíðu þinni):  Dóri er einn sá allra flottasti.  Dæmi:  http://www.youtube.com/watch?v=KzCOtKdQ9-g

   Steini er alltaf mega. En alltof oft fárveikur. Yndislegur drengur þegar þannig stendur á hjá honum.   Það er samt ekki alltaf sem þannig stendur á.

  Hönnun á umslagi er i sjálfu sér lítið dæmi í heildar pakka markaðssetngar.  Umslag fyrstu plötu hljómsveitar/sóló skiptir mjög miklu máli.  Eftir því sem viðkomandi er þekktari skiptir umslagið minna máli en aðrir þættir markaðssetningar meira máli.

  Hvernig útsetningar og höfundarréttur eru skrásett skiptir miklu máli.  Ég þekki mörg ljót dæmi um hvernig misfarið hefur verið með svoleiðis.  

  Ég þekki Bubba ekki að öðru en að hann komi hreint fram.  Hinsvegar er hann ekki með rétta sýn á alla hluti.  Ég kann alveg að meta hans opinskáu afstöðu til hluta en mér mislíkar jafnframt hans ranghugmyndir.  Þetta er ekkert vandamál út af fyrir sig.  Bubbi er svona.

Jens Guð, 14.8.2011 kl. 00:59

20 Smámynd: Gunnar Waage

Gaman að sjá þetta, Dóri alveg æðislegur þarna, hann er einn af okkar bestu finnst mér. Takk fyrir að hlusta Jens, það er gaman að fá svona jákvætt komment frá þér. Ég stend nú reyndar svo til utan við þennan bransa sökum þreytu og tja, áhugaleysis líklega. Það styttist þó í eitthvert spil, læt þig kannski vita bara ef þú vilt.

Gunnar Waage, 14.8.2011 kl. 02:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband