Ekki missa af! Færeyskt góðgæti í boði í örfáa daga

færeyskur matardiskurfæreyskar brauðsneiðarkjötsúpa  

  Núna eru færeyskir dagar í Smurbrauðsstofu Sylvíu,  Laugavegi 170 (við gatnamótin fyrir ofan Nóatún í Nóatúni).  Þeir vara til klukkan fjögur á laugardaginn.  Þar er boðið upp á ræstkjötssúpu (rast kjöt).  Einnig bakka með fjórum girnilegum smurbrauðssneiðum.  Á einni er skerpukjöt (skerpikjöt).  Á annarri er færeysk rúllupylsa.  Á þeirri þriðju eru niðursneiddir knettir.  Á þeirri fjórðu eru niðursneiddar fríkadellur.

  Ræst kjöt og skerpukjöt eru hvorutveggja þurrkað lambakjöt.  Ræstkjötið er hryggur og frampartur og hangir skemur uppi.  Það er á stigi svipuðu því sem við köllum siginn fisk.  Skerpukjötið er læri og hangir lengur uppi en er ekki jafn þurrt og harðfiskur.  Það bragðast eitthvað í humátt að parmaskinku.  Bæði skerpukjötið og ræstkjötið eru bragðsterk og gefa endingargott eftirbragð.  

  Það er algengt að Íslendingum þyki þetta ekki góður matur þegar það er smakkað í fyrsta skipti.  Eftir að hafa smakkað það oftar vex sterk löngun í að komast sem allra fyrst í svona kjöt oftar.  Þetta er svipað og löngunin í kæstan hákarl,  kæsta skötu og hangikjöt.  Eitthvað sem maður verður að fá sér í það minnsta árlega.  Helst miklu oftar.

  Ræstkjötssúpunni svipar mjög til íslensku kjötsúpunnar.  Þetta er matmikil grænmetissúpa með rófum,  gulrótum,  lauk,  hrísgrjónum og þess háttar.  Hlutfall ræstkjötsins er heldur minna en kjötið í íslensku kjötsúpunni.  Enda gefur ræstkjötið mun skarpara bragð.  Í Færeyjum er algengt að ræstkjötið sé fjarlægt úr súpunni og borðað sér með soðnum kartöflum.  Í Smurbrauðsstofu Sylvíu er kjötið í súpunni.  500 krónur fyrir súpuna á Smurbrauðsstofu Sylvíu er gott verð og auðveldar óvönum að smakka.  Innifalið í verðinu er ábót ef einhver er rosalega svangur.  Ég hef aldrei þurft á því að halda.  Súpan er saðsöm og ein besta ræstkjötssúpa sem ég hef fengið.  Alveg súper.  5 stjörnu súpa.

  Smurðu heimilisbrauði er ekki ætlað að vera eiginlegur veislumatur sem keppir við alvöru "danskt smurbrauð".  Brauðbakkinn gefur góða hugmynd um hefðbundið smurt brauð á færeyskum heimilum.  Þó er skerpukjöt meira til spari í Færeyjum en snætt hvunndags. 

  Færeyska rúllupylsan er keimlík þeirri íslensku.  Sú færeyska er mildari og hlutfall kjöts meira á móti fitu.  Það er töluvert af lauk í henni og smávegis af púðursykri. 

  Knettir eru soðnar fiskbollur.  Uppistöðu hráefnið í knöttum er þorskur og kindamör.  Saman við það er blandað lauki, salti og pipar.  Sumir hafa örlítið af sykri með.  Færeysku knettirnir eru blessunarlega lausir við hveitibragð íslensku fiskbollanna.  Fyrir bragðið (í bókstaflegri merkingu) eru knettirnir eins og ferskari.  Að öðru leyti er bragðið líkt.

  Fríkadellur eru steiktar fiskbollur.  Að öðru leyti eru þær alveg eins og knettir.

  Þannig er frá brauðbökkunum í Smurbrauðsstofu Sylvíu gengið að hægt er að grípa þá með sér heim.  Það er upplagt að gera.  Meðal annars til að gefa öðrum að smakka með sér.  Og þess vegna að grípa með sér nokkra bakka til að eiga daginn eftir.  Jafnvel marga bakka til að eiga í marga daga.  Bakkinn kostar aðeins 1000 kall.

  Það er bráðskemmtilegt og bragðgott ævintýri að gera sér og sínum dagamun með því að smakka þessar færeysku kræsingar.   

færeyskt sjálftökuborð


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað segja Færeyingar þegar þú kynnir þig sem Jens Guð? Heitirðu kannski eitthvað annað í Færeyjum? Það vantar skinsakjöt á myndina, það gengur næst skerpunni að sælu himnaríkis.

caramba (IP-tala skráð) 13.9.2011 kl. 22:32

2 identicon

þetta þarf ég að smakka jens kjötsúpa er með því betra sem ég bragða

Ágúst Hróbjartur (IP-tala skráð) 13.9.2011 kl. 23:18

3 Smámynd: Jens Guð

  Caramba,  mér hefur alltaf verið vel tekið í Færeyjum.  Í þarlendum fjölmiðlum er Jens nafninu iðulega sleppt.  Til að mynda var forsíðuumfjöllun um mig í dagblaðinu Dimmalætting eitt sinn undir fyrirsögninni "Guð skrifar eins og engill".  Það var tilvísun í að ég sé skrautritari.  Þá var ég að kenna skrautskrift í Færeyjum.  Færeyska sjónvarpið gerði þátt um mig,  eða fréttaskýringu eða eitthvað svoleiðis,  þar sem yfirskriftin var eitthvað álíka.  Ég man ekki alveg hvernig hún var.  Hún var eitthvað eins og  "Færeyingavinurinn Guð í Færeyjum" eða álíka.  Einhversstaðar var sagt frá því að ég hafi verið plötusnúður á skemmtun.  Þar var ég kallaður DJ Guð.

  Ég hef alltaf haldið því á lofti í Færeyjum að ég sé ekki kristinn heldur í Ásatrúarfélaginu.  Það hefur aldrei truflað samskipti mín við Færeyinga.  Enda Færeyingar vanir því að umgangast gyðinga,  Baháía og aðra sem eru ekki ofurkristnir.  Ég hef meðal annars dvalið á heimili ofurkristinna í Færeyjum (hljómar eins og eitthvað öfga en ég tek svona til orða án þess að það eigi að vera neikvætt því að ég ber fulla virðingu fyrir viðhorfum þeirra).  Þar mætti ég gestrisni og velvild í hvívetna og átti vinsamlegar viðræður fólks sem var áhugasamt um norræna goðafræði.

  Til gamans má geta að áður en ég mætti á svæðið var mér ráðlagt að drekka ekki bjór inni á þeirra heimili.  Gestgjafarnir væru mjög andvígir bjór og öðru áfengi.  Það var reiðulaust af minni hálfu.  Þegar ég mætti á heimilið var tekið á móti mér með þessum orðum:  "Við drekkum ekki bjór á þessu heimili en við vitum að þú drekkur bjór.  Við erum búin að setja bjór fyrir þig í ískápinn og þér er velkomið að ganga í hann eins og þú vilt.  Hann er fyrir þig."  Því næst var mér réttur bjór og þess vandlega gætt að um leið og minnkaði í bjórglasinu mínu var annar bjór kominn á borð.  Ekki nóg með það heldur var einnig boðið upp á "skot" með reglulegu millibili.

  Færeyingar eru yndislegir.  

  Ég kannast við orðið skinsakjöt en hef aldrei vitað hvað það er.     

Jens Guð, 13.9.2011 kl. 23:22

4 Smámynd: Jens Guð

  Gústi,  þú verður að smakka. 

Jens Guð, 13.9.2011 kl. 23:22

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég held ég sleppi þessu en ætti að láta mágkonu mína og svila vita, þau elska þennan mat.

Ásdís Sigurðardóttir, 14.9.2011 kl. 12:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband