Rokk og ról maraþonið heldur innreið sína

rnr maraþon

  Lifandi rokkmúsík á sviði hreyfir við mörgum.  Jafnvel rólyndasta fólk getur lent í vandræðum með að hemja sig í þannig kringumstæðum.  Áður en það veit af er það farið að hoppa og skoppa,  kasta sér utan í ókunnugt fólk,  klifra upp á stóla og borð eða upp á svið og henda sér aftur á bak út í mannhafið.  Þess á milli snýr fólk höfðinu í hringi svo hratt og ákaft að flasan litar nærstadda hvíta eins og snjór.

  Fyrir 13 árum datt nokkrum bandarískum rokkunnendum og hlaupatíkum í hug að virkja hreyfikraft lifandi rokkmúsíkur.  Þeir skipulögðu 32 km hlaupaleið þar sem frægar rokkhljómsveitir spiluðu á útisviði með 1609 metra millibili.  Uppátækið sló í gegn.  Síðustu ár hefur yfir hálf milljón manna hlaupið rokkmaraþon í 26 bandarískum borgum.

  Nú er rokkmaraþonið að halda innreið sína í Evrópu.  22. apríl næsta vor verður rokkmaraþon í Madrid á Spáni.  Þar verður 42 km leið hlaupin.  Mánuði síðar verður 21. km leið hlaupin í Edenborg í Skotlandi og um haustið verður jafn löng leið hlaupin í Lissabon í Portúgal. 

  Þess verður ekki langt að bíða að rokkmaraþon verði hlaupið á Íslandi.  Þá væri gaman að Skálmöld,  Sólstafir,  Mínus,  Celestine,  Q4U,  Fræbbblarnir,  Ham,  Mugison og... já,  auðvitað Leoncie myndu sjá um fjörið.

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Skondin hugmynd. En er ekki 200m marathon nóg, og bjór á milli ?

hilmar jónsson, 11.10.2011 kl. 21:47

2 Smámynd: Jens Guð

  Hilmar,  ég er blessunarlega laus við þessa hreyfiþörf þegar ég hlusta á rokk.  Sem er kannski eins gott því að ég hlusta aðallega á rokkmúsík undir stýri.  Hinsvegar líst mér vel á 200 m bjórmaraþonið.  Ég hef oft tekið þátt í því.  Þá mætir maður snemma á pöbbinn og skokkar með reglulegu millibili léttfættur á barinn,  skokkar með bjórkönnu á borðið sitt,  skokkar einnig með reglulegu millibili að pissuskálinni og seint og síðar meir skokkar maður óreglulega út í leigubíl.

Jens Guð, 11.10.2011 kl. 22:12

3 Smámynd: hilmar  jónsson

Sé að við erum á svipaðri línu í þessu Jens....

hilmar jónsson, 11.10.2011 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.