Veitingahússumsögn: Skötuveisla

skatasjávarbarinn-2sjávarbarinn-A

- Veitingastaður:  Sjávarbarinn
- Staðsetning:  Grandagarði 9
- Réttur:  Skötuveisla
- Verð:  2490
- Einkunn: ***** (af 5)
.
  Í gær (fimmtudag) þjófstartaði Magnús Ingi Magnússon,  matreiðslumeistari,  skötuveislu á Sjávarbarnum:  degi fyrir auglýsta dagsetningu.  Kæsingin á skötunni er milli sterk.  Óvanir þurfa samt ekki að hræðast kæsta bragðið.  Kúnstin er að stinga upp í sig hlutfallslega stórum bita af rófu,  kartöflu,  rófustöppu eða öðru af margvíslegu meðlæti ásamt litlum skötubita.  Ferskt og bragðgott rúgbrauð,  bakað á staðnum,  mildar sömuleiðis bragðið.  
  Þeir sem kjósa að láta skötuna rífa í bragðlaukana fá sér hlutfallslega stærri bita af skötunni og skerpa á með hnoðmör. 
  Það er einnig hægt að velja um tvær tegundir af skötustöppu.  Það er hvítlaukskeimur af annarri þeirra. 
  Skötuveislan er hluti af veglegu og fjölbreyttu hlaðborði.  Þar er á boðstólum meðal annars saltfiskur,  plokkfiskur,  graflax,  grafinn karfi,  síldarréttir,  allra handa salöt,  sósur,  hamsar og margt margt fleira. Útilokað er að komast yfir að bragða á öllu úrvalinu í einni heimsókn.  Þetta er alvöru veisluhlaðborð.  Innifalið í hóflegu verði er afskaplega ljúffeng sjávarréttasúpa.  Bragðið er snarpt og frábrugðið öðrum sjávarréttasúpum.  Það er að segja þekktum og algengum sjávarréttasúpum.  Í þessari eru hnetur og fleira sem gerir hana framandi og spennandi. 
  Skötuhlaðborðið er á borðum í hádegi og á kvöldin (lokað á sunnudaginn).  Það er dásamleg tilbreyting frá jólahlaðborðunum að komast þetta tímanlega í skötuveislu. 
  Sjávarbarinn er í millifínum klassa.  Sem er besti kostur.  Borð eru blessunarlega laus við þykka taudúka,  munnþurrkur úr sama efni,  kertaflóð,  blóm í vasa og þjóna hlaupandi á milli borða til að spyrja hvort allt sé í lagi.  Matreiðslumeistarinn hefur aftur á móti áhuga á að vita hvernig viðskiptavinum líkar kræsingarnar.  Sennilega tekur hann mark á athugasemdum því að einhverjar breytingar gerir hann jafnan á skötuveislunni á milli ára. 
  Málverkasýning Bjarmars Guðlaugssonar upp um alla veggi rammar glæsileika skötuveislunnar rækilega inn.  Hún (bæði málverkasýningin og skötuveislan) er góð skemmtun.
  Ólíklegt er að á suðvesturhorninu finnist veitingastaður sem býður upp á mikið ódýrari skötuveislu.  Og pottþétt enginn sem býður upp á jafn íburðarmikið og föngulegt skötuhlaðborð og Sjávarbarinn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband