Íslensk tónlist í Finnlandi

  Ég er svo afskaplega heppinn - eða óheppinn - að hafa engan áhuga á búðarrápi.  Hvorki hérlendis né erlendis.  Ég lít ekki svo mikið sem í búðarglugga.  Einu verslanir sem ég fer í á utanlandsferðum eru matvörubúðir (til að kaupa nauðsynjavörur).  Ef ég dett um bókabúð þá skima ég lauslega eftir músík- og myndlistabókum.  Eftir að internetið kom til sögunnar þykir mér hentugra að "tékka" á og kaupa bækur á þeim vettvangi.  Bækur eru óþægilega þungar að dröslast með á ferðalögum.

  Svo eru það plötubúðir.  Í útlöndum leita ég þær uppi.  Ég fer vandlega yfir allt úrvalið í plötubúðunum.  Að vísu skokka ég léttilega framhjá rekkum sem merktir eru "Disco" eða "R&B" eða "Eazy Listening" og eitthvað svoleiðis.  Þeim mun betur skoða ég rokkið,  djass,  blús,  reggí,  folk,  classic,  hip-hop og svo framvegis. 

  Almennt eru plötubúðir ekki eins spennandi í dag og áður.  Úrvalið er mun einsleitara.  Sjaldgæfar plötur,  plötur með lítt þekktum flytjendum og plötur úr jaðargeiranum eru á hraðri útleið úr plötubúðum.  Sala á þeim hefur færst yfir á internetið.  Eftir standa í búðunum plötur með Bítlunum,  Rolling Stones,  Dylan,  The Clash,  Abba,  Madonnu og Bruce Springsteen.  Og öðrum álíka þekktum.  Engu að síður bætast alltaf í utanlandsferðum 20 - 30 plötur í plötubunkann minn.  Plötur sem ég hef ekki fundið í íslenskum plötubúðum. 

  Eitt er alltaf jafn gaman:  Það er að sjá hvaða íslenskar plötur leynast í plöturekkunum.  Reyndar er það nokkuð fyrirsjáanlegt.  Hvarvetna er hægt að ganga að plötum Bjarkar,  Sigur Rósar,  Jónsa og Sykurmolanna.  En alltaf kemur eitthvað á óvart.  Núna um jólin uppgötvaði ég að geisladiskurinn með Svanfríði,  What´s Hidden There?,  er til sölu í finnskum plötubúðum.      

   Svanfríður var rokkuð hippahljómsveit Péturs heitins Kristjánssonar.  Hún sendi frá sér þessa einu plötu 1972.  Ég á ekki diskinn og veit ekki hver gaf hann út hérlendis.  Í finnskum plötubúðum er hann útgefinn af þýsku plötufyrirtæki. 

  Ekki alveg eins óvænt og að rekast á plötuna með Svanfríði í finnskum plötubúðum þá er þar einnig að finna plötur með Sólstöfum.  Sú yndislega hljómsveit er þokkalega vel kynnt í alþjóðlegu þungarokksdeildinni.  Hefur spilað á mörgum stórum rokkhátíðum víða um heim og túrað þvers og kruss um Evrópu.  Finnar eru töluvert í þungarokkinu.  Frægastar eru þær sem eru svo sem ekkert svo mjög þungar,  svo sem HIM (hafa náð gullplötusölu í Bandaríkjunum og víðar),  Lordi (sigraði í Júrivisjón) og Nightwish (selja yfir milljón eintök af stökum plötum).

  Til gamans má rifja upp þegar ég skrapp til Póllands 2009.  Þar komst ég að því að íslenska hljómsveitin frábæra I Adapt var í hávegum.  Plata með henni stillt upp áberandi í öllum plötubúðum og heilmikið skrifað um hana í þarlendum músíkblöðum.  Það var eins og I Adapt væri eitt heitasta nafnið í Póllandi. 

  Ég sá að útgefandinn var pólskt fyrirtæki.  Þar stóð hnífurinn í kúnni.  Þegar ég sagði strákunum í I Adapt frá þessum var þeim brugðið.  Þarna var um sjóræningjaútgáfu að ræða.  Síðast þegar ég vissi voru málaferli í gangi.  Það hvarflaði ekki að pólsku glæpamönnunum að fámennur hópur íslenskra ferðamanna í Póllandi tæki eftir því að þar væri verið að selja ólöglega útgáfu af plötu með I Adapt.  Og sú var næstum raunin.  Enginn annar hefur nefnt þetta við strákana í I Adapt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Jens og velkominn aftutr til bloggheima.

Snjallt hjá þér að breyta til og sleppa því að ganga kringum jólatreð og leika í jólaleikritunum.

Fyrir nokkrum árum kom eg í hús hér í bænum og þar var sjónvarp í gangi og í sjonvarpinu var mynd um Bob Dylan.

Myndin var byrjuð þegar eg kom inn og eg reyndi að líma augun á hana eins og hægt var því hún fannst mér vera meiriháttar merkileg.En þegar maður er í heimsókn þá er

það nú ekki góður siður að sitja með hausinn inni í

sjónvarpstækinu.

Þannig að eg missti af nafninu á myndinni en hún var gerð um feril Dylans og sýnir vel hvað hann er algerlega flottur :)

Nú datt mér í hug hvort þú mundir vita nokkur skil á hvaða mynd þetta gæti hafa verið

Til þess finnst mér þú vera manna líklegastur.

Sólrún (IP-tala skráð) 9.1.2012 kl. 20:53

2 Smámynd: Jens Guð

  Sólrún,  þú átt sennilega við myndina ágætu og áhugaverðu  I´m Not There.  Þetta er all merkileg og sérstök leikin mynd um Dylan.  Fjöldi leikara fara með hlutverk Dylans í myndinni.  Þar á meðal kona,  blökkudrengur,  Richard Gere og fleiri.  Ég hef séð myndina 5 sinnum og hún er skemmtilegri og skemmtilegri við hvert áhorf.  Það endar sennilega með því að ég kaupi hana á DVD til að horfa á hana ennþá oftar. 

Jens Guð, 9.1.2012 kl. 21:20

3 Smámynd: Jens Guð

  En svo eru til margar heimildarmyndir um kappann (ekki leiknar).  Þá koma fleiri en ein og fleiri en tvær til greina.  Sumar hafa verið sýndar í sjónvarpinu (RÚV).

Jens Guð, 9.1.2012 kl. 21:24

4 identicon

Það er nefnilega það .Eg hef ekki getað fundið þetta efni á netinu vildirðu kannski súna mér hvar það er að finna.

Eg vrla trúi því að nokkur geti leikið meistarann hann er svo algerlega engum líkur :)

Sólrún (IP-tala skráð) 9.1.2012 kl. 22:08

5 identicon

Eg er nú búin að finna myndina.Þ

að þurfti bara aðnefna nafnið þitt Jens :)

http://www.youtube.com/watch?v=F2lWdUqHClo

Sólrún (IP-tala skráð) 9.1.2012 kl. 22:55

6 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 10.1.2012 kl. 12:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband