Slys í Nóatúni

  Í síðustu viku skrapp ég í Nóatún.  Mig langaði í Malt.  Ég var á hraðferð.  Skokkaði léttfættur um ganga Nóatúns.  Skyndilega þvældist fyrir mér gamall maður.  Hann hafði keypt sér heitan mat í frauðplastsbakka.  Það á að halda á þannig bakka láréttum.  Kallinn hélt hins vegar á bakkanum lóðréttum niður með lærinu á sér.  Úr bakkanum lak heit brúnsósa.  Þegar ég ætlaði að skokka fram úr gamla manninum steig ég í sósuslóðina á gólfinu.  Ég flaug í loft upp.  Láréttur í loftinu var ég eins og stjórnlaus Concorde þota á flugi eftir Miklagljúfri.  Það varð harður árekstur er ég skall á vörurekka.  Brotlending.  Höggið var slíkt að ég varð blóðrisa á öðrum fæti frá hné og niður eftir.  Yfir mig hrundu sinnepsflöskur,  tómatsósa og gott úrval af öðrum vörum sem henta vel á pylsur.  Illa dasaður brölti ég draghaltur á fætur, skrönglaðist út úr Nóatúni og inn í bíl.  Ég fór á Slysó,  sannfærður um að vera annað hvort fótbrotinn eða illa brákaður.  Skoðun og myndataka þar leiddu í ljós að ég var með ökklatognun.  Fram til þessa hélt ég að ökklatognun væri eitthvað sem aðeins fótboltamenn fengju,  eins og gult og rautt spjald.  Dómarinn:  "Rangstæður!  Ég verð að toga í ökklann á þér!"

  Læknirinn sem skoðaði mig var gagnrýninn á hvað bólgan á fætinum náði langt fram.  "Þetta á ekki að vera svona,"  sagði hann.  Svo náði hann í sprautunál og bætti við:  "Ég sting á þetta.  Ef aðeins blóð kemur í sprautuna er það vegna þess að þarna er mar.  Þá er þetta eins og það á að vera."  Það kom ekkert blóð í sprautuna.  Bara glær ljósgrænn vökvi.
  Læknirinn fór með vökvann.  Kom aftur að vörmu spori og tilkynnti:  "Mikið af hvítum blóðkornum sýna að þetta er sýking.  Kristallar benda til að þetta sé gigt."
  Þar með var ég lagður inn á Borgarspítala til frekari skoðunar og settur á fúkkalyf í æð.  Blóðsýni voru tekin og sitthvað annað kannað.  Fleiri læknar bættust í hópinn sem skoðuðu málið.
  Ég var á spítalanum í nokkra daga.  Niðurstaðan var sú að vandamálið væri þvagsýrugigt.  "Þú ert dæmigerður," sagði gigtarlæknir.  "Miðaldra kall með ístru,  hreyfir þig lítið og gerir vel við þig í mat og drykk.  Þetta er velmegunargigt.  Á öldum áður fengu aðeins kóngar og höfðingjar svona gigt."
  Í nokkra daga var ég í góðu yfirlæti á spítalanum á lyfjakúr og eitthvað svoleiðis.  Svo var ég útskrifaður af spítalanum en er áfram á lyfjum og verð alla ævi.  Gigtin er varanleg en haldið niðri með daglegum lyfjaskammti.  Það er bara gaman.  Lyfjainntaka staðfestir að maður er á lífi.
  Það var lán að gigtin uppgötvaðist í tæka tíð.  Næsta skref hefði verið varanleg nýrnaskemmd.  Nothæf ný nýru fást ekki í Hagkaup.
  Verra var að vegna veikindanna missti ég af afmælishófi 30 ára Rokks í Reykjavík.  Eins og ég hafði hlakkað mikið til.  Samt er betra að hafa nýru í lagi.  Held ég.
      
       vörurekkaslys A

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Leitt að heyra Jens. Ef þetta væri í henni Ameríku værir þú kominn í mál við gamla manninn sem lagði út sósuslóðina á gólfið, Nóatún fyrir að eiga gólfið og Ölgerðina að hafa gert þig háðan Malti. Og krafan væri upp á milljarða frá hverjum um sig.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 27.5.2012 kl. 00:29

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Er myndin tekin af "kjölfari" þínu um búðina?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 27.5.2012 kl. 00:31

3 Smámynd: hilmar  jónsson

Góðar bataóskir Jens.

Annars líkt á með mér komið. Með rifinn kálfavöðva.

hilmar jónsson, 27.5.2012 kl. 00:40

4 Smámynd: Jens Guð

  Axel Jóhann, gamall skólabróðir okkar búsettur í Bandaríkjunum hvatti mig einmitt til að fara í mál við Nóatún.  Mín pólitík er ekki inni á þeirri línu.  Þar fyrir utan er ég glaður yfir að nýrunum hafi verið bjargað fyrir horn.  Ljósmyndin er ekki af vettvangi. 

Jens Guð, 27.5.2012 kl. 01:21

5 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Heitir þetta ekki lán í óláni?

Sigurður I B Guðmundsson, 27.5.2012 kl. 11:12

6 Smámynd: Jens Guð

  Hilmar,  góðan bata.

Jens Guð, 27.5.2012 kl. 13:15

7 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður I.B.,  jú, þetta var algjörlega lán í óláni.

Jens Guð, 27.5.2012 kl. 13:16

8 identicon

Ekki amalegt að vera með hástéttargigt

Grrr (IP-tala skráð) 27.5.2012 kl. 17:55

9 Smámynd: Jens Guð

  Grrr,  ég finn til mín.  Finnst eins og ég sé á leið í Bessastaði.

Jens Guð, 27.5.2012 kl. 18:50

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Farðu varlega með þig kall.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.5.2012 kl. 18:58

11 Smámynd: Hjóla-Hrönn

Þarna hefur almættið brugðið fyrir þig fæti. Annars hefði gigtin ekki uppgötvast fyrr seint og síðar meir. Hið sama gerðist fyrir mig einn dag á Austurvelli fyrir 3-4 árum. Ég fékk taugaskaða í öxl og handlegg eftir bílslys árið 91. Hálshnykkur. Þennan dag var fljúgandi hálka en ég labbaði varlega, þar eð ég var með 2 poka, fulla af bjórdósum. Óopnuðum og ódrukknum. Stíg ofan í eitthvað ræsi og flýg svo hratt á hliðina, að ég náði ekki að bera fyrir mig hendurnar, dett og fæ hálshnykk í hina áttina. Ég var eitthvað marin og bólgin eftir fallið, en merkilegt nokk, þá fattaði ég 2-3 dögum síðar að ég var miklu betri í hálsinum og lömunin í handleggnum hafði gengið til baka. Segið svo að bjórdrykkja sé ekki hollustusamleg.

Hjóla-Hrönn, 27.5.2012 kl. 19:23

12 Smámynd: Jens Guð

  Hjóla-Hrönn,  bjórinn er hollur.  Hann inniheldur m.a. B-vítamín.  En hann á ekki alltaf við.  Bjór er eitt af því sem mér er gert að sniðganga næstu vikur, skv. læknisráði.

  Almættið mætti velja sársaukaminni leið til að bregða fyrir mann fæti.  Það var assgoti vont að detta í Nóatúni.  Ég ætla að bylta þín hafi einnig verið töluvert óþægileg.

Jens Guð, 27.5.2012 kl. 19:45

13 Smámynd: Jens Guð

  Jón Steinar,  ég verð að gera það.

Jens Guð, 27.5.2012 kl. 19:46

14 Smámynd: hilmar  jónsson

Þýðir heldur nokkuð að láta þig fá áfengi Jens ? Myndirðu ekki nota það sem hreinsilög ?

hilmar jónsson, 27.5.2012 kl. 20:19

15 Smámynd: Jens Guð

  Hilmar,  áfengi er góður hreinsilögur.  Þrífur vel og skilur eftir sig góðan ilm.

Jens Guð, 27.5.2012 kl. 22:00

16 Smámynd: hilmar  jónsson

Eflaust rétt Jens.

hilmar jónsson, 27.5.2012 kl. 22:06

17 Smámynd: Steingrímur Helgason

Zamúð er frí.  Hér með tvíúða ég huglægt en óhlutlægt fríum fjórföldum zkammti af zamúð.
Í framtíðinni mátt þú ekki drekka neitt áfengi með vott af brúnum lit, án þezz að fá í ´tánna'.  Fyrir það færðu tvo fría zkammta af zamúð til fyrir zkort á þeirri munúð...

Steingrímur Helgason, 27.5.2012 kl. 22:34

18 Smámynd: Jens Guð

  Hilmar,  ég hef reynslu af því.

Jens Guð, 28.5.2012 kl. 00:24

19 Smámynd: Jens Guð

  Steingrímur,  bestu þakkir fyrir zamúðarpakkana.

Jens Guð, 28.5.2012 kl. 00:25

20 identicon

http://uk.answers.yahoo.com/question/index?qid=20061022093753AApLNyb

Alþýðufræðarinn (IP-tala skráð) 28.5.2012 kl. 08:43

21 Smámynd: Mofi

Takk fyrir skemmtilega sögu og gott að hún endaði vel :)

Ég efast samt um að þú þurfir að vera á lyfjum það sem eftir er, ég myndi að minnsta kosti breyta um lífsstíl og athuga hvort það myndi duga til að losna við lyfin.

Mofi, 28.5.2012 kl. 10:28

22 Smámynd: Stefán Þ Ingólfsson

Guð er góður !

Stefán Þ Ingólfsson, 28.5.2012 kl. 10:52

23 Smámynd: Jens Guð

  Alþýðufræðarinn,  takk fyrir hlekkinn.  

Jens Guð, 28.5.2012 kl. 13:53

24 Smámynd: Jens Guð

  Mofi,  það er sennilega rétt hjá þér að með breyttum lífsstíl og mataræði sé hægt að losna við lyfin.  Verra er að það mataræði sem fóðrar ekki þvagsýrugigtina er rosalega einhæft og ólystugt til lengri tíma.  Kannski prófa ég að taka kúra af og til.  Ég þarf að bera þetta undir lækninn minn.

Jens Guð, 28.5.2012 kl. 13:58

25 Smámynd: Jens Guð

  Stefán,  flestir eru góðir.  Það eru þessir örfáu vondu sem koma óorði á hina.

Jens Guð, 28.5.2012 kl. 13:58

26 Smámynd: Mofi

Jens, nei nei, alls ekki. Ekki að mínu mati að minnsta kosti.  Mikið af ávöxtum og þeir eru oftast virkilega bragð góðir. Egg eru síðan algjör snilld og holl. Mitt snakk á kvöldin er oft vínber og hnetur, það er bara algjör snilld hve það er gott.

Fyrir mig þá leyfi ég mér mat eins og pizzu og hamborgara, kók og nammi og hvað sem mér dettur í hug en aðeins einn til tvö daga á viku. Mín reynsla er að hollu dagarnir gera óhollu dagana ennþá bragð betri. Spjallaðu við lækninn :)

Mofi, 28.5.2012 kl. 14:25

27 Smámynd: Jens Guð

  Mofi,  takk fyrir uppörvandi ábendingar í mataræði.

Jens Guð, 28.5.2012 kl. 17:32

28 identicon

Heyrðu gamli.. ég er með ráð úr biblíunni, hornsteini íslands að sumra mati..Ok
Fáðu þer 2 fugla, dreptu annan fuglinn og settu blóðið úr honum í fötu; settu svo prik í blóðið og skvettu því 7 sinnum um íbúðina þína.. taktu svo lifandi fuglinn og slepptu honum; Presto... á að virka samkvæmt galdrabókinni; Ef ekki þá getur þú alltaf tekið nöttara með þér á nammibarinn ;)

Gangi þér vel með þetta gamli!

DoctorE (IP-tala skráð) 29.5.2012 kl. 07:53

29 Smámynd: Jens Guð

  DoctorE,  takk fyrir þessa góðu uppskrift.

Jens Guð, 29.5.2012 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband