Bestu hljómsveitanöfnin

  Spin er næst söluhæsta bandaríska tónlistarblaðið á eftir Rolling Stone.  Í nýjasta heftinu hafa Spin-verjar tekið saman áhugaverðan lista yfir bestu hljómsveitarnöfnin.  Listinn er unninn út frá mörgum sjónarhornum.  Meðal annars hvað nafnið gerir fyrir ímynd hljómsveitarinnar,  hvernig samspil nafnsins og hönnun vörumerkisins (logo) virkar,  hvernig nafnið hljómar á alþjóðamarkaði og sitthvað fleira.  Vægi hvers þáttar varðandi nafnið fær tiltekin stig og samtalan raðar nöfnunum í sæti á listanum.  Niðurstaðan er þessi:

1  Motorhead

  Nafnið var upphaflega heiti á sönglagi um spítthausa (dópista).  Lagi sem Lemmy,  forsprakki ensku Motorhead,  samdi og gaf út með hljómsveitinni Hawkwind.  Motorhead-tríóið spilar hrátt,  hart og "röff" 3ja mín rokk.  Lemmy var rekinn úr Hawkwind vegna dópneyslu.  Nafnið hljómar eins og yfirlýsing á einhverju vondu.  Sú er einmitt ástæðan fyrir því að embættismenn ÁTVR (vínsölu á Íslandi) settu bjór með samnefndu heiti á bannlista.  Í forsjárhyggju sinni telja þeir vera hættu á að þeir sem komist í tæri við mjöðinn verði dópistar og glæpamenn.  Með því að banna drykkinn á Íslandi er Íslendingum forðað frá slíkum örlögum.   

2  MC5

  Nafnið hljómar eins og raðnúmer fyrir eitthvað sem hefur verið stimplað út úr bílaiðnaði í bílaiðnaðarborginni Detroit (Motor City).  Númerið 1 stendur þar fyrir sportbíla og vopn.  Númerið 2 stendur fyrir kraftmikla bíla.  Og svo framvegis.  Númer 5 er tilvísun í lag blúsjöfursins Johns Less Hookers  Motor City is Burning.  Það fjallar um mannréttindabaráttu blökkumanna.  Talan 5 hefur skírskotun til margra annarra hluta.  Til að mynda bresku hljómsveitina Dave Clark Five,  hljómsveitar sem liðsmenn MC5 skilgreindu sem Bítla-wanna-be.  Já,  hlómsveitin MC5 er frá Detroit.  Herská hljómsveit sem spilaði pönk mörgum árum áður en pönkið varð til sem skilgreindur músíkstíll.  Þekktasta lag MC5,  Kick Out The Jams, hefur verið krákað (cover song) af ótal seinni tíma spámönnum, allt frá Rage Against the Machine til ótal pönksveita.

3  NWA

  Skammstöfun fyrir Niggaz With Attitude (Negrar með afstöðu).  Bandarísk rapp hipp-hopp hljómsveit sem reif kjaft og gerði grín.  Einstakir liðsmenn NWA áttu síðar farsælan sólóferil.  Frægastur þeirra er Ice Cube.         

4  Big Star

  Táningapoppsveit sem ég veit fátt um annað en að hún var leiðinleg.  En nafnið er öflugt fyrir þannig hljómsveit.

5  Joy Division

  All svakalegt og óhugnanlegt nafn á enskri nýrokkssveit.  Nafnið er sótt í fangabúðir þýskra nasista sem hýstu kynlífsþræla. 

6  Dead Kenndys

  Bandarísk pönksveit sem hélt á lofti dauðaslysi er þingmaðurinn Ted Kenndy ók blindfullur út af brú.  Kærasta hans drukknaði og hann flúði af vettvangi.  Nafnið vísaði jafnframt til þess að fleiri úr Kennedy-fjölskyldunni féllu frá langt fyrir aldur fram.  John F. Kennedy,  forseti Bandaríkjanna, var myrtur.  Einnig dómsmálaráðherrann Robert Kennedy.  Afar ósmekklegt nafn á hljómsveit en þetta var, jú,  ruddaleg pönkhljómsveit.

  Þegar ég gerði út pönkplötubúðina Stuð á Laugavegi fór meðeigandi minn í innkaupaferð til New York.  Hann mætti á plötuheildsölu og hugðist kaupa plötur með Dead Kennedys.  Afgreiðslumaðurinn þekkti ekki hljómsveitina og trylltist.  Reiddi hnefa til höggs og spurði hvaða ósmekklegi brandari þetta væri um dauðsföll Kennedy-manna.

  Nokkru síðar var ég staddur í Florida og keypti þá nýútkomna plötu með Dead Kenndys.  Afgreiðslumaðurinn lagði hart að mér að vera á varðbergi gagnvart þessari hljómsveit.  Hún væri klámfengin og orðljót.  Það væri alfarið á mína ábyrgð að kaupa plötu með svo óforskammaðri hljómsveit.  Ég yrði að taka ábyrgð á þeim gjörðum sjálfur.  Nokkru síðar var unglingur dæmdur í fangelsi í Florida fyrir að kaupa dónaplötu með rapphljómsveitinni 2 Live Crew.

  Sumir halda því fram að Jello Biafra, söngvari Dead Kenndys, sé samkynhneigður.  Það skiptir svo sem engu máli.  Ég tel þó líklegra að ef svo væri þá myndi hann vera opinskár um það.  Hann er þannig náungi. 

7  Brian Jonestown Massacre

  Mig rámar í að þessi hljómsveit sé Íslandsvinir.  Ég átta mig ekki á nafninu.  Það er einhver tilvísun í dópneyslu og öfga-Jesú-trúaruppátæki. 

8  Devo

  Nafnið er stytting á de-evolution (þróunarkenningu).  Stutt og töff nafn fyrir bandaríska nýbylgjuhljómsveit nýbylgjuáranna.  Söngvahöfundar The Rolling Stones,  Richards/jagger hafa ströng skilyrði fyrir höfundarrétti sínum.  Það má ekki flytja söngva þeirra nema í þeirra útsetningum og það má ekki þýða texta þeirra yfir á annað tungumál.  Til að mynda leyfðu þeir ekki að gefinn yrði út á plötu flutningur Bjarkar og PJ Harvey á þessu lagi.  En þeir lögðu blessun sína yfir þessa kráku (cover song) Devo. 

  Í óleyfi The Rolling Stones gáfu Sniglarnir út í sinni útgáfu lagið Honky Tonk Woman (Himpi gimpi gella) og Megas um Jonna Sig.  Uss, látum Stónsarana ekki vita af því. 

9  AC/DC

  Skammstöfun fyrir háspennu rafmagn.  Einnig slangur yfir bi-sexual.  Nafnið vísar þó frekar til þess að þetta sé ástölsk harð-rokk metal hljómsveit. 

10 Slayer

  Ég átta mig ekki á nafninu.  Það hefur eitthvað að gera með blóðþyrst ungmenni sem leiðist.  Nafnið er stytting á orðinu dragonslayer.  Það hefur einnig eitthvað að gera með Jesú-börn. 

  Fyrir nokkrum árum stóð ég á þessum vettvangi fyrir vali á besta íslenska hljómsveitarnafninu.  Spilverk þjóðanna sigraði með yfirburðum.  Síðar stóð - að mig minnir Fréttablaðið - fyrir samskonar skoðanakönnun og fékk sömu niðurstöðu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Afskaplega sáttur með efsta sætið, en að sama skapi og úr svipaðari átt hefði Dr. Feelgood mátt vera þarna líka á lista.

Magnús Geir Guðmundsson, 21.6.2012 kl. 22:24

2 Smámynd: Jens Guð

  Jú,  Dr. Feelgood var gott nafn á breskri pöbbarokkssveit.  En er óþekkt í Bandaríkjunum.  Nafnið er slangur yfir dópsala. 

Jens Guð, 21.6.2012 kl. 22:40

3 identicon

Mér hefur alltaf líka þótt Metallica skemmtilegt nafn, lýsandi og frábært lógó. Svona svipað og AC/DC.

Auðjón (IP-tala skráð) 21.6.2012 kl. 23:34

4 Smámynd: Jens Guð

  Auðjón,  ég er sammála með Metallica.

Jens Guð, 22.6.2012 kl. 19:13

5 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Erh:
Hawkwind lognaðist útaf. Þeir voru allir í neyslu, meðlimirnir 7 voru ýmist á spítti eða sýru allan tíman sem hljómsveitin var til.

AC/DC er best þýtt sem Jafnstraumur/Viðstraumur en þessar tegundir rafmagns voru eimmitt bitbein Edison og Tesla á sínum tíma.

Joy Division /Freudedivision voru sveitir skipaðar vændiskonum í seinni heimsstyrjöld og sáu þær um að "skemmta" hærra settum SS mönnum.

Brian Jonestown var bær költleiðtogans Brian Jones, en eins og gerist svo oft með slíkar samkundur létust margir þegar söfnuðurinn leið loks undir lok.


Og ég er viss um að Dr Dre sé þekktasti Afstöðunegrinn í dag.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 25.6.2012 kl. 18:46

6 Smámynd: Jens Guð

  J.Einar Valur,  takk fyrir fróðleiksmolana.

Jens Guð, 25.6.2012 kl. 21:47

7 identicon

Það er einhver misskilningur í þér að Big Star sé leiðinleg hljómsveit. Tékkaðu sérstaklega á þriðju (og síðustu) plötunni þeirra, Third / Sister Lovers.

Kári (IP-tala skráð) 8.7.2012 kl. 18:46

8 Smámynd: Jens Guð

  Ég hef aldrei tékkað á Big Star en rámaði í leiðinleg lög með þeim.  Ég fletti upp á lögum með þessari hljómsveit á Þútúpunni.  Þau eru klén. 

Jens Guð, 8.7.2012 kl. 21:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.