4.9.2012 | 00:01
Wow sló í gegn
Ég skrapp til Parísar í Frakklandi. Fyrst og fremst til að gera úttekt á Wow flugfélaginu. Í stuttu máli þá sló Wow í gegn hjá mér. Ég hef ekki áður skemmt mér jafn vel í millilandaflugi. Flugfreyjurnar hjá Wow fóru á kostum. Stemmningin um borð var ólík því sem maður á að venjast.
Öll þekkjum við flugáhöfn í svörtum og blásvörtum klæðnaði, virðugheit, alvörugefnar upplýsingar frá flugstjóra og flugáhöfn. Mónótónískar upplýsingar í hátalarakerfi um öryggisbúnað, flughæð, veður á áfangastað og annað í þeim dúr.
Þið þekkið þetta: "Það er flugstjórinn sem talar. Við fljúgum í 30 þúsund feta hæð. Veður í París er 25 stiga hiti, sól og bla, bla, bla."
Farþeginn lokar eyrum fyrir svona og les dagblöð, fer að ráða krossgátur og eða sofnar.
Flugfreyjur Wow voru í öðrum gír. Þær voru ærslafullar og "bulluðu" í jákvæðri merkingu. Lásu ekki upp þurran texta af blaði heldur mæltu af munni fram galsafengnar lýsingar. Þær lýsingar eru kannski ekki fyndnar í endursögn. En þær voru verulega fyndnar í því andrúmslofti sem ríkti um borð. Þetta voru ekki staðlaðir brandarar heldur spunninn texti á staðnum. Brandararnir voru ekki þeir sömu á flugleið frá Íslandi til Parísar né á leið frá París til Íslands. Ekki heldur voru brandarar endurteknir í texta á íslensku og á ensku.
Flugfreyjurnar voru í fanta stuði. Dæmi: Þegar lagt var af stað frá París oftaldi flugfreyja farþega. Tala hennar passaði ekki við farþegalista. Þá voru tvær flugfreyjur látnar endurtelja. Að talningu lokinni passaði tala þeirra saman og passaði við farþegalista. Viðbrögð flugfreyjanna voru að stökkva í loft upp og slá saman lófum í hárri fimmu (high five).
Á leiðinni út til Parísar þuldi flugþjónn upp þessar helstu vanalegu upplýsingar um flugferðina. Hann nefndi að flugtíminn væri 2 klukkustundir og 10 mínútur og bætti við: "Ég hef aldrei á ævinni heyrt um jafn stuttan flugtíma til Parísar."
Á bakaleiðinni frá París var galsinn ennþá meiri. Það hljómaði líkt og verið væri að kynna Bítlana á svið þegar flugfreyja tilkynnti með tilþrifum: "Og nú er komið að því sem allir hafa beðið eftir: Við förum yfir öryggisbúnað um borð!"
Við tóku upplýsingar um björgunarvesti, súrefnisgrímur og það allt. Þegar upp var talið hvað gerist ef flugvélin hrapar var nefnt að súrefnisgrímur falli ofan í sætin, Það var útlistað þannig: "Þá skaltu hætta að öskra og setja á þig grímuna. Síðan aðstoðar þú börn þín við að setja á þau grímur." Í ensku upplýsingunum var bætt við: "Þegar þú hefur komið grímunni fyrir á þér og börnunum skaltu aðstoða ósjálfbjarga eiginmanninn við að koma grímunni á hann!"
Þannig var öllum upplýsingum komið á framfæri af gáska. Stundum jaðraði textinn við bull en í samhengi við alvörugefnar upplýsingar var þetta verulega fyndið. "Ef við stöndum ykkur að því að tala í farsíma eða reykja um borð eruð þið í verulega vondum málum. Nei, ég segi nú bara si sona. Þetta er smá grín."
Í upptalningu á öllu sem er bannað um borð (farsímanotkun, reykingar...) slæddist með: "Það er bannað að reyna að fella okkur í gólfið!"
Þetta hljómaði verulega spaugilegt þegar það var fléttað inn í alvörugefnar upplýsingar en er ekki fyndið í þessum skrifaða texta mínum. Það var þetta skemmtilega andrúmsloft og kátína sem skapaði góða stemmningu um borð.
Flugfreyjurnar voru allar ungar (sem svo sem skiptir ekki máli) og klæddar smart fjólubláum klæðnaði. Á flugvellinum í París skáru fjólubláar merkingar á flugvél Wow sig frá öðrum flugvélum. Hressilegar og áberandi. Nafnið Wow er sérkennilegt og óhátíðlegt. Allt í stíl. Fjörlegum stíl.
Tímasetningar stóðust upp á mínútu. Það var pínulítið sérkennilegt að flugvél Iceland Express fór í loftið örfáum mínútum á undan flugvél Wow. Það færi betur á að möguleiki væri á að velja á milli flugs að degi til annars vegar og kvöldflugi hinsvegar. Kannski er eitthvað hagkvæmt við að vera svo gott sem í samfloti. Það getur verið hagkvæmt þegar um strætisvagna er að ræða í slæmri færð. En varla í flugi. Þó veit ég ekki með það.
Ég gef Wow hæstu einkunn. Frábærar flugfreyjur og sérlega fyndnar. 100% tímaáætlun. Frábær stemmning um borð. Galsi út í eitt. Góð tilbreyting frá formlegheitum og alvörugefnum upplýsingum. Það var góð skemmtun að fljúga með Wow. Tekið skal fram að ég þekki engan persónulega sem vinnur hjá Wow eða tengist því fyrirtæki.
WOW air flýgur frá Akureyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Ferðalög, Lífstíll, Samgöngur | Breytt 26.3.2019 kl. 19:18 | Facebook
Athugasemdir
Ég sé að Parísarferðin hefur haft góð áhrif á þig. Þú tekur þig vel út á milli flulfreyjanna en ættir samt ekki að vera með bleikt slifsi.
Sigurður I B Guðmundsson, 4.9.2012 kl. 12:16
Ég segi nú bara - wow !
Stefán (IP-tala skráð) 4.9.2012 kl. 13:34
Þú ert að verða helv kröftugur í ferðamennskunni... og útiborðelsinu. Hefur þú prófað Hostel Dalfoss ;)
DoctorE (IP-tala skráð) 4.9.2012 kl. 15:51
Var fólkið á franska gistiheimilinu eitthvað í áttina að hressa manninum á Travel-inn?
Grrr (IP-tala skráð) 4.9.2012 kl. 15:56
Þetta hefur verið stuð, kannski maður prófi þá næst og vonist eftir svona stuttum flugtíma :):)
Ásdís Sigurðardóttir, 4.9.2012 kl. 20:38
Þetta minnir svolítið á Southwest Airlines hérna í landi hinna frjálsu.
Erlendur (IP-tala skráð) 4.9.2012 kl. 21:56
Sigurður I.B., mér þætti gaman ef karlarnir hjá Wow tækju sér bleiku jakkafötin hans Jóns Gnarrs til fyrirmyndar. Það væri stæll.
Jens Guð, 4.9.2012 kl. 23:11
Stefán, ég sagði líka "wow" af hrifningu yfir stemmningunni um borð.
Jens Guð, 4.9.2012 kl. 23:12
DoctorE, ég veit ekki hvað Hostel Dalfoss er. Það er eitthvað sem ég þarf að kynna mér.
Jens Guð, 4.9.2012 kl. 23:14
Grrr, nei, starfsfólkið á Smart Place Paris var algjör andstæða eiganda Travel-Inn. Yndislegt starfsfólk í alla staði. Alveg einstaklega ljúft og þægilegt.
Jens Guð, 4.9.2012 kl. 23:17
Ásdís, það var stuð og gaman í alla staði. Næst þegar ferðaþrá grípur mig byrja ég á að kanna ferð með Wow.
Jens Guð, 4.9.2012 kl. 23:18
Erlendur, ég þarf að tékka á Southwest Airline.
Jens Guð, 4.9.2012 kl. 23:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.