Hægri hönd bítilsins Pauls McCartneys með hljómleika á Íslandi

  Fyrst kom Ringó til Íslands og spilaði með Stuðmönnum í Atlavík.  Síðan kom Yoko Ono og hélt áhrifamikla og frumlega málverkasýningu í Reykjavík.  Svo kom Paul McCartney og rúntaði á jeppa um landið.  Þessu næst var sett upp sýning á Kjarvalsstöðum með teikningum eftir John Lennon.  Um svipað leyti fór að sjást oftar til Yokoar Ono á götum Reykjavíkur og hún varð sannkallaður Íslandsvinur.  Í Viðey var reist heimsfræg friðarsúla til minningar um John Lennon.  Í tengslum við það hefur heimsóknum Ringós og ekkju George Harrisonar, ásamt Sean Lennon og auðvitað Yokoar Ono fjölgað ár frá ári.  Plastic Ono Band hefur verið að halda hljómleika hérna.  Sonur Georges Harrisonar gerðist tengdasonur Kára Stefánssonar og Íslands.  Bítlabarinn Ob-La-Di Ob-La-Da hóf farsælan feril.  Þangað kíkir Yoko þegar hún á leið um, svo og Bítlasynir.  Tengsl Bítlanna og Íslands þéttast stöðugt.  Ísland er Bítlaland.

  Og hvergi sér fyrir enda á.  Í næsta mánuði heldur hægri hönd Pauls McCartneys,  gítarleikarinn Rusty Anderson, nokkra hljómleika hérlendis.  Þar á meðal í Austurbæ,  Rosenberg og Græna hattinum á Akureyri.  Miðasala hefst á morgun á midi.is.

  Rusty hefur spilað á flestum plötum Pauls og fylgir honum á hljómleikaferðalögum.  Rusty hefur einnig spilað með Sinéad O´Connor,  Elton John,  Willie Nelson,  Joe Cocker,  Cat Stevens,  Meatloaf og ótal öðrum stórstjörnum.  En hann er þekktastur sem sólógítarleikari Pauls McCartneys.  Gítarleikur Rustys setur sterkan svip á marga þekktustu söngva Pauls.

  Hér fyrir ofan og neðan eru myndbandsbútar sem sýna Rusty á hljómleikum með Paul.  Í   myndbandinu fyrir neðan flytja þeir félagar sönglag Johns Lennons,  Give Peace A Chance.  Til gamans má geta að Paul er skráður meðhöfundur lagsins.  Paul þykir vænt um það þó að hann hafi þar hvergi komið nærri. Bítlarnir í upplausn og leiðindi í gangi.  Heiftúðleg málaferli.  John skrifaði Paul reiðilestur og samdi um hann níðsöng (How Do You Sleep?).  Paul svaraði fyrir sig með "Let Me Roll It".  Virkilega flott lag þar sem hann hermir eftir músíkstíl Lennons. 

  Fóstbræðralag þeirra slitnaði þó aldrei.  Þeir spjölluðu saman í síma fram á síðasta dag Lennons.  Ekki alltaf í vinsemd.  En samt inn á milli.  John var skapofsamaður og einstaklega skapstyggur.  Það kom fyrir að John skellti á símtóli og einnig Paul.  Af og til féll allt í ljúfa löð og þeir hittust og djömmuðu saman.

  John sagði síðar að níðsöngurinn um Paul hafi í raun verið meira um sig sjálfan en Paul.  Hann var reiðari út í sjálfan sig en Paul en beindi reiðinni að Paul.     

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Er hann ekki vinstri hönd Pauls!!

Sigurður I B Guðmundsson, 28.9.2012 kl. 08:19

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gaman að þessari færslu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.9.2012 kl. 08:54

3 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður I.B.,  Paul er örvhentur og þarf að reiða sig á Rusty sem hægri hönd.

Jens Guð, 28.9.2012 kl. 17:56

4 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur Cesil,  þetta er spennandi.

Jens Guð, 28.9.2012 kl. 17:57

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já og gott fyrir egóið okkar Íslendinga.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.9.2012 kl. 18:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband