Íslenskur veitingastaður seldi 1944 rétti sem máltíð

  Fyrir fimmtán árum eða svo dvaldi ég á hóteli úti á landi yfir helgi.  Mætti þar á föstudegi og var til mánudags.  Ég keypti hádegisverð og kvöldverð þessa daga,  ásamt því að vera í morgunmat,  síðdegiskaffi og bjór á kvöldin.  Á sama hóteli dvöldu einnig nokkrir aðkomnir iðnaðarmenn sem voru í tímabundnu verkefni á staðnum.

  Fljótlega varð ég var við að skömmu eftir að menn pöntuðu máltíð þá heyrðist frá eldhúsinu örbylgjuofn vera settur í gang.  Á þessum tíma átti ég tvo unga syni í Reykjavík.  Í ísskáp heimilisins í Reykjavík voru jafnan til staðar einhverjir tilbúnir réttir undir nafninu 1944,  auglýstir sem þjóðlegir íslenskir réttir fyrir sjálfstæða Íslendinga.  Þetta voru ítalskur Carbonara pasta-réttur,  indverskur karrýréttur, tyrkneskur korma kjúklingaréttur, asískur mango kjúklingaréttur,  ítalskur lasagna réttur, ungversk gúllassúpa,  kínverskur súrsætur réttur, indverskur tikka masala kjúklingaréttur,  rússneskur stroganoff réttur,  ítalskur Bolonese spaghettí réttur og eitthvað svoleiðis.   Það var þægilegt fyrir syni mína að geta gengið að þessum þjóðlegu íslensku réttum þegar strákarnir urðu svangir og foreldrarnir fjarverandi.

  Ég var vel að mér um þjóðlegu íslensku 1944 réttina á þessum tíma.  Eftir að hafa keypt nokkrar ágætar máltíðir á hótelinu þóttist ég merkja að þær væru nánast alveg eins og 1944 réttirnir.  Reyndar að viðbættri slettu af hrásalati,  niðurskornum gúrku- og tómatsneiðum.  Matseðillinn var eins og upptalning á þjólegu íslensku 1944 réttum fyrir sjálfstæða Íslendinga.

  Áður en dvöl minni á hótelinu lauk spurði ég hóteleigandann hvort grunur minn væri réttur:  Að máltíðirnar væru að uppistöðu til 1944 skyndiréttir.  Eigandanum brá til að byrja með en viðurkenndi að svo væri.  Bað mig jafnframt um að hafa hljótt um það.  Útskýrði síðan fyrir mér að yfir vetrartíma væri erfitt að liggja með annað hráefni en þessa 1944 rétti.  Á þessum tíma fékk hótelið réttina frá SS á um það bil 200 krónur í heildsölu.  Máltíðin með gúrkum, tómatsneiðum og hrásalati var seld á 960 kall eða því sem næst (sumir réttir á 920 krónur.  Aðrir á 980 krónur). 

  Tekið skal fram að nokkru síðar var þessi aðferð lögð af á þessu hóteli.  Eftir það hefur þar boðið upp á (dýrari) úrvals góðar máltíðir lagaðar á staðnum.

frosinn matur 

 


mbl.is 70% franskra veitingahúsa ber fram tilbúna rétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú varst beðinn fyrir þetta, ekki satt? Ef þú neitaðir því ekki, heldur hótaðir einmitt að kjafta frá, þá ertu hér með búinn að svíkja það loforð. Það er sorglegt ekki sé borin meiri virðing fyrir því að halda orð sitt, kjafta ekki frá leyndarmálum og slíkt, í samfélaginu. Biblían telur slúður, eiðrof og baktal upp með allra alvarlegustu syndum. Á slíkum siðferðisgrundvelli byggðist þetta samfélag, en einhvern veginn fór þetta siðferði halloka, og nú þykir mörgum í fínasta lagi að ljúga, slúðra og svo framvegis. Hótelstjórinn hefur varla verið með hágæða veitingar á boðstólum. En hann bað þig fyrir þetta, og þú játaðir því, svo þú ert að svíkja loforð, sem er alvarlegt. Annað fólk hefur líka minningar, getur lagt saman tvo og tvo og fattað hvaða hótel þetta var. Þú veist það vel. Þú átt því engan rétt á því að skrifa þetta. Gerðu meiri kröfur til sjálfs þíns. Það er ekki eins og maðurinn hafi framið stórglæp, og hann laug heldur ekki um uppruna réttanna.

Magnús (IP-tala skráð) 3.11.2012 kl. 06:32

2 identicon

Vá, ég ætla að túlka orð Magnúsar sem hæðni, ella er mér mjög svo skemmt. Hvað kemur biblían þessu máli við? Það eru fimmtán ár síðan! Snilldin ein

Hllue (IP-tala skráð) 3.11.2012 kl. 08:17

3 Smámynd: Ólafur Ólafsson

Jens, Jens, Jens þú ert nú meiri kallinn

Ólafur Ólafsson, 3.11.2012 kl. 12:31

4 Smámynd: Jónatan Karlsson

Ég fæ nú ekki orða bundist. Þetta er stutt saga af samviskulausum þrjóti sem kaupir ódýra tilbúna skyndibita, hitar í örbylgjuofni og hagræðir snyrtilega á diski, með gúrkusneið eða salatblaði og selur grandalausum viðskiptavinum með svona 4 - 500% álagningu. Næst kemur að því að pistil höfundurinn stendur "listakokkinn" að verki sem viðurkennir gjörðir sínar, en óskar (skiljanlega) eftir þagmælsku höfundar, sem honum er óskiljanlega fúslega veitt (?) Nú byrjar þó sú undarlega atburðarás, að pistilhöfundur finnur sig knúinn til að létta mesta okinu af samvisku sinni og opinberar fyrir alþjóð grímulaust "þjóðvegarán" veitingamannsins, án þess þó að nafngreina kauða. Nú fyrst keyrir "kómedían"þó um þverbak, því fram á sjónarsviðið stekkur yfir sig hneykslaður biblíu tilvitnina bróðir, sem er nánast orða vant, ekki þó vegna þjóðvegaránsins sjálfs, heldur þvert á móti vegna uppljóstrunar blogg höfundar á atburðarásinni sem slíkri, án þess þó að nöfn eða staðir væru nokkurntíma nefnd.

Í kjölfarið koma síðan tvær stuttar athugasemdir sem eru nánast spurningarmerki við mannseðlið, líkt og mín færsla gæti sömuleiðis flokkast.

Jónatan Karlsson, 3.11.2012 kl. 17:19

5 Smámynd: Hörður Þórðarson

Takk, þetta er skemmtilegt blogg.

Magnús. Vinsamleg farðu fram úr rúminu hinum megin í framtíðinni. Þessi saga gerðist fyrir 15 árum síðan og  "nokkru síðar var þessi uppskrift lögð af á þessu hóteli.  Eftir það hefur verið á því hóteli boðið upp á (nokkru dýrari) úrvals góðar máltíðir lagaðar á staðnum."

Hörður Þórðarson, 3.11.2012 kl. 17:27

6 Smámynd: Jens Guð

  Magnús,  þegar sest er inn á fínan veitingastað,  manni réttur glæsilegur matseðill með fjölbreyttum réttum á verði í milliflokki fyrir fína staði,  þá á að vera hægt að ganga út frá því sem vísu að máltíðin sé unnin (svo gott sem) frá grunni í eldhúsinu á staðnum. 

  Afþýddur og upphitaður skyndiréttur passar ekki inn í þessa mynd.  Mér fannst eins og það væri verið að svindla á mér.  Hinsvegar kunni ég vel mig á þessu hóteli og hef dvalið þar síðar.  

  Vegna þess að mér líkaði vel við hóteleigandann og annað starfsfólk þarna þá lét ég gott heita og hef ekki upplýst þetta fyrr en nú.  En samt þannig að litlar líkur eru á að lesendur átti sig á því um hvaða hótel ræðir (nema viðkomandi hafi þegar vitað af þessu).     

Jens Guð, 3.11.2012 kl. 21:11

7 Smámynd: Jens Guð

  Hllue,  við þurfum að taka tillit til þess að Magnús er að "kommenta" seint að nóttu í miðri Airwaves á aðfaranótt laugardags.

Jens Guð, 3.11.2012 kl. 21:13

8 Smámynd: Jens Guð

  Ólafur,  Ólafur,  Ólafur,  einhver verður að vera meiri kallinn.  Ég hef tekið það að mér.

Jens Guð, 3.11.2012 kl. 21:14

9 identicon

Fékk mér bbq-svínarif á Fridays í gær.  Kjötið var þurrt og bragðdauft, þrátt fyrir væntanlega ameríska skammta af MSG í bbq sósunni.  Grunaði helst að rifin væru geymd tilbúin í frosti og þýdd / hituð í örbylgju.  Það ætti að banna örbylgjuofna á veitingahúsum.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 3.11.2012 kl. 21:49

10 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Fréttin frá Frakklandi minnir mig á heimsóknir mínar á dönsk veitingahús. En þar er þeim mat er gestir leyfa stundum hent aftur upp á nýja diska og hann seldur sem rjúkandi nýr réttur úr eldhúsi kokksins, sem oftar en ekki aðeins kann á tvö verkfæri; dósaupptakara og örbylgjuofn.

Stundum gleymdust þó sígarettustubbar og horslummur fyrri eigenda máltíðarinnar undir þeim kartöflum sem ekki hafði verið kíkt undir þegar endurröðun réttarins fór fram inni hjá kokknum. Svo kom þetta í sjónvarpið, tíminn stoppaði í tvo daga, áður en fagið hélt sigurför sinni áfram gegn sjálfu sér.

Gunnar Rögnvaldsson, 3.11.2012 kl. 21:51

11 identicon

Er ekki máliðað ef þú færð það sem boðið er uppá þá getur þú aðeins kvartað yfir gæðum en ekki nærfötum kokksins.

Guðmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 4.11.2012 kl. 00:04

12 Smámynd: Jens Guð

  Jónatan,  þetta mál hefur margar hliðar.  Og flóknar.  Þannig lagað.

Jens Guð, 4.11.2012 kl. 00:21

13 Smámynd: Jens Guð

  Hörður,  takk fyrir innlitið.

Jens Guð, 4.11.2012 kl. 00:22

14 Smámynd: Jens Guð

  Gullvagninn,  ég er þér sammála með að örbylgjuofn eigi ekki heima í alvöru eldhúsi á matsölustað.

Jens Guð, 4.11.2012 kl. 00:23

15 Smámynd: Jens Guð

  Guðmundur,  ég hef aldrei gert athugasemd við nærföt kokks.  Það er hlutverk annarra að fylgjast með og gera athugasemdir við þau.

Jens Guð, 4.11.2012 kl. 00:26

16 identicon

Þið megið vel gera grín að mér í fávisku, en eftir stendur og blífur um allar aldir, að prinsip eru prinsip, og loforð er loforð. Að vera maður orðs síns var ein mikilvægasta grundvallarregla, ekki bara þess siðferðis sem okkar samfélag byggir á, heldur allra þeirra samfélaga um allan heim, á öllum tímum, sem komast á nokkurn hátt nálægt því að teljast siðmenntuð. Loforð heldur maður eða svíkur. Þú getur ekki "haldið það til hálfs". Loforð stendur um aldur og æfi, það rennur ekki út á tíma eins og matvara með síðasta söludag. Það er eilíft. Það er hollara og betra að trúa svona, trúið mér. Ég á engra hagsmuna að gæta með að benda á þetta, til að fá fólk til að hugsa aðeins. Ég var ekki nógu gamall til að geta munað eftir þessu, hafi ég borðað þarna einhvern tímann, og þekki ekki einn einasta veitingahúsaeigenda persónulega, né á neitt undir honum. Ég hef aftur á móti mjög gott minni á mat á seinni árum, og veit ég man enn bragðið af mat eftir 15 ár, og get borið saman við annað bragð sem ég þekki, og er ekki einn um það. Það er því ekkert ólíklegt "komist hafi upp" við þann sem var lofað. Ef maður ætlar sér ekki að halda loforð, á maður að neita því að gefa það, og ef minnsti vafi leikur á því að maður ætli að halda það, þá ber manni að segja strax frá fyrirhuguðum kjaftagangi. Sumir taka enn strangar á þessu en aðrir, gyðingar hafa til dæmis hluta af sínum 613 siðferðisreglum sem allir gyðingar eiga að halda, að það eigi að telja leyndarmál, og fara með sem leyndarmál, sem manneskja trúir þér fyrir, nema þá aðeins að sérstaklega sé tekið fram þú megir tala um þetta við aðra. Við vorum aldrei svona ströng á þessu hér á Íslandi, en hér á Íslandi á heiðnum tímum var eiðrof þó álitið mesta synd, og að vera maður orðs síns grundvallardyggð, síðan kom Kristindómurinn sem jafnar eiðrofum og slúðri saman við syndir sem okkur finnst flestum mun alvarlegri í dag, og telur þessar syndir algjörlega jafnalvarlegar og þessar, að flestum finnst í dag, "þyngri" syndir. Það verður að teljast sorglegt og merki um hnignun og úrkynjun ef orð manns þýðir orðið ekkert í dag og loforð ómarktæk, og kannski til merkis um nauðsynlegt sé að taka upp siðfræðikennslu í grunnskólum, eða helst leikskólum, finnst hugsunarháttur hinna fullorðnu einkennist af algjöru skeytingarleysi í siðferðismálum, miðað við öll önnur samfélög sem hafa verið til og teljast siðmenntuð, svo og okkar eigin fortíð á hvaða tíma sem er.

Magnús (IP-tala skráð) 4.11.2012 kl. 00:29

17 Smámynd: Jens Guð

  Magnús,  það er rétt hjá þér að á fyrstu öldum byggðar á Íslandi var eiðrof skilgreint sem synd eða lágkúrulegasta og ómerkilegasta lítilmennska.  Orð skulu standa,  var metnaðarmál.  Þessi óskrifaða regla náði yfir á sjöunda áratug síðustu aldar.  Orðhelldni var dyggð sem fólk vant að virðingu sinni hélt án þess að einhver þyrfti að skrifa undir pappíra þar um.

 Það sem snýr að þessu einskonar "svindli" á hótelinu sem um ræðir hefur ekki með þetta að gera.  Hugsanlega hefðu rétt viðbrögð mín verið að upplýsa strax opinberlega um að þarna væri maðkur í mysu.  En þetta var fyrir daga bloggs og fésbókar.  Þegar um er að ræða "svindl" af þessu tagi þá er maður í raun samsekur með því að þegja um athæfið.  Annars er þetta ekki þvílíkt stórmál að ástæða sé til að setja allt á annan endann.  Þetta er meira broslegt en eitthvað annað.    

Jens Guð, 4.11.2012 kl. 01:46

18 identicon

Það er visst til í þessu hjá þér og þetta mál hefur fleiri hliðar. Mér blöskraði bara að þú takir fram að maðurinn hefði beðið þig fyrir þetta, nema auðvitað þú hafir neitað þeirri bón. Þetta er annars, því miður, lítill glæpur í dag. Venjuleg gæði matar framreidds á veitingahúsi eða hóteli eru lítið betri en örbylgjuréttar, sérstaklega ekki á tímum þar sem allt upplýst fólk er hætt að borða hluti eins og morgunnkorn (sem er í dag flest fullt af E-efnum og erfðabreyttum matvælum sem enn er ekki fullrannsakað hvaða áhrif hafi á fólki), en slíkt er enn borið fram á hótelum sem "matur". Vilji maður lifa hollu lífi þá verður hann einfaldlega að elda sinn mat sjálfur í dag, eða sækja sérstaka heilsustaði. Veitingahús af öllu tagi, dýr sem ódýr, eru alræmd fyrir sparnað og lakari gæði en nema þeir allra óupplýstustu sætta sig við heima hjá sér. Svo féflettir þetta veitingahúsasnobb menn sem ættu frekar að vera að leggja fyrir framtíð barnanna sinna. Það veldur því mest heilaþvottur að menn skuli fara á veitingahús yfirhöfuð.

Magnús (IP-tala skráð) 5.11.2012 kl. 02:31

19 identicon

hehehe snilld, og gaman að sjá fólk eins og Magnús, Jesúsa sig yfir þessu öllu saman þarna er sögð sönn saga engin nöfn ekki staðarhættir,svo úr þessu verður bara skemmtileg frásögn,þær væru fáar skemmtisögurnar ef ekki væri sagt frá þeim

sæunn (IP-tala skráð) 6.11.2012 kl. 01:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband