Plötuumsögn

Con Man 
Flytjandi:  Högni Lisberg
.
Titill:  Con Man
Einkunn: ****1/2 (af 5)
.
  Færeyski tónlistarmaðurinn Högni Lisberg heldur áfram að koma á óvart.  Um leið og hann toppar sig.
  Högni varð fyrst þekktur hérlendis 2002 sem trommuleikari færeysku súpergrúppunnar Clickhaze.  Þessi frábæra trip-hopp hljómsveit hafði innanborðs einvalalið snillinga sem allir hafa verið áberandi í færeysku músíkflórunni.  Hérlendis er söngkonan Eivör þeirra frægust.  Hún er súperstjarna á Íslandi og nýtur mikilla vinsælda víða um heim.  Einkum í Noregi og Danmörku.
  Hljómborðsleikari Clickhaze er þekktastur hérlendis sem bassaleikari flottustu pönksveitar heims,  færeyska tríósins 200.
  Þannig mætti áfram telja.
  Högni hóf sólóferil með lágstemmdri plötu,  Most  Beatiful Things, 2003.  Plötu sem einkenndist af fallegum og ljúfum lögum.
  Næsta plata,  Morning Dew, kom út 2006 og var töluvert rokkuð.  Með henni sló Högni rækilega í gegn hérlendis.  Titillagið og nokkur önnur lög nutu vinsælda í íslenskum útvarpsstöðvum.  Högni kom fram á nokkrum hljómleikum á Íslandi í kjölfarið.  Meðal annars á Airwaves.  Hann er virkilega flottur sviðsmaður.  Fínn söngvari og spilar á gítar (og hvaða annað hljóðfæri sem er).  Morning Dew  var útnefnd besta færeyska platan það árið á Færeysku tónlistarverðlaununum AME.
  Þriðja sólóplata Högna var Haré! Haré!. Hún kom út 2008.  Þar hvað við nýjan tón.  Bæði í söngstíl og fönkuðum útsetningum.  Það var nettur Prince-keimur í sumum lögum.
  Eitt lag af plötunni sló í gegn í Bandaríkjunum.  Það heitir Bow Down.  Það var notað í heimsfrægum bandarískum tölvuleik, NBA 2K11.  Á Þútúpunni (youtube) hefur lagið verið spilað milljón sinnum.
  Fjórða sólóplatan,  Con Man, er að sumu leiti rökrétt framhald af Haré!Hare!.  En er töluvert rokkaðri.  Þetta er mögnuð plata.  Allt er afgreitt á yfirvegaðan hátt en samt að hluta til hrátt.  Herskáustu lög bera keim af Rage Against the Machine og jafnvel Atari Teenage Riot.  Það rifjar upp að framan af var Clickhaze dálítið á Rage Against the Machine línunni.  
  Con Man er að nokkru leyti tvískipt plata.  Framan af er hún rokkuð en þegar á líður taka ljúfu lögin við.  Allt góð lög sem venjast vel við ítrekaða spilun.  Þetta er plata sem gaman er að spila aftur og aftur og hún vex við hverja spilun.  
  Í færeyska dagblaðinu Dimmalætting fékk platan þá umsögn að hún sé besta færeyska platan til margra ára.  Það er ekki fjarri lagi.  Hún er að minnsta kosti ein besta færeyska platan til margra ára og samanburðarhæf við allar bestu plötur á heimsmarkaði 2012.    
.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.