Einnar konu maður - framhald

  Einnar konu maðurinn, sem bloggfærsla gærdagsins sagði frá (http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1276138/),  var skemmtilega hvumpinn.  Honum hætti til að taka hlutum illa og brást þá harkalega við.  Dæmi um það var árekstur á milli hans og eldri hjóna sem einnig dvöldu á hótelinu.  Forsagan er sú að gríski einnar konu maðurinn spjallaði reglulega við börn sín og konu í gegnum tölvu snemma morguns,  kannski klukkan hálf átta til átta eða svo.  Þetta gerði hann í opinni setustofu í útskoti á ganginum.  Sennilega var netsamband fartölvunnar best þar.  Að minnsta kosti söfnuðust gestir iðulega þangað með fartölvurnar sínar á kvöldin.  

  Þegar Grikkinn ræddi við fjölskyldu sína í gegnum tölvuna þá hækkaði hann röddina töluvert.  Herbergi eldri hjónanna var staðsett við setustofuna.  Einn morgun kom konan fram í herbergisdyrnar og sussaði á Grikkjann.  Bað hann um að taka tillit til þess að hótelgestir væru almennt ennþá sofandi á þessum tíma sólarhrings.

  Það snöggfauk í Grikkjann.  Hann öskraði á konuna að gamalt fólk hefði ekkert að gera á hótelum.  Það ætti að gista heima hjá ættingjum eða vinum í stað þess að flækjast fyrir yngri hótelgestum með stöðug leiðindi.  "Komið ykkur í burtu héðan,  skrattans gamlingjar!"

  Gamla konan hrökk aftur inn í herbergið sitt og lokaði dyrunum.  Grikkinn hrópaði á dyrnar endurteknar skammir.  Síðar um daginn sagði hann mér að "gömlu svínin" hefðu klagað sig og hótelstýran bannað sér að tala hátt á morgnana.  Hann var afar ósáttur við gömlu hjónin.

  Eftir þetta hætti Grikkinn að taka undir kveðju gömlu hjónanna þegar þau urðu á vegi hans.  Þess í stað sendi hann þeim hatursfullt augnráð.

  Nokkrum dögum síðar rak hótelstýran Grikkjann af hótelinu.  Mér tókst ekki að fá upplýsingar um ástæðuna.  Ég spurði stýruna út í það síðar en hún sagðist ekki ræða mál einstakra gesta.  Það eina sem ég veit um þetta er að ég heyrði Grikkjann hrópa æstan mjög frammi á gangi.  Hótelstýran talaði of lágt til að ég heyrði hvað hún sagði í deilu þeirra.  Hinsvegar heyrði ég Grikkjann öskra:  "Af hverju sagðir þú mér þetta ekki í gær?  Hringdu á lögguna!  Þú heldur að þú sért rosalega gáfuð!  Ég átti hund sem var tvöfalt gáfaðri en þú!  Ég slátraði honum.  Hann var svo heimskur!"  

         


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta hefur nú verið meiri ódámurinn. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.1.2013 kl. 11:52

2 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Var þetta nokkuð íslenskur fjárhundur???

Sigurður I B Guðmundsson, 10.1.2013 kl. 13:34

3 identicon

Íslenskir fjárhundar endurspegla uppalendur sína að mestu með örfáum genitískum undantekningum, það er eins og bandarískir byssuunnendur segja (sem ég held að sé nú ekki alveg rétt í  þeirra tilfelli) að veldur hver á heldur, arrrrrr!

Plís,  ekki fara að líkja þeim við geðvonda gríska karla.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 10.1.2013 kl. 18:48

4 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur Cesil,  hann og hans afstaða var dálítið spaugileg í aðra röndina.

Jens Guð, 10.1.2013 kl. 20:45

5 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður I.B.,  það er kannski einhver skyldleiki þarna.

Jens Guð, 10.1.2013 kl. 20:46

6 Smámynd: Jens Guð

  Bjarni,  góður punktur.

Jens Guð, 10.1.2013 kl. 20:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.