1.2.2013 | 23:39
Jólahlaðborðsævintýri - sönn saga
.
Eldri hjón hafa síðustu ár gert sér ærlegan dagamun þegar jólin nálgast. Þau fara á jólahlaðborð. Þetta er í eina skipti á árinu sem konan fer úr húsi. Hún er hugsar um heimilið og er heimakær. Hún er ekkert fyrir flandur. Samskipti við börn sín og aðra ættingja fara að mestu fram símleiðis. Eða þá að ættingjarnir koma í heimsókn. Karlinn vinnur ennþá þó að hann sé kominn á aldur. Hann er ekki eins heimakær. Hann skreppur á sportbarinn Classic Rock í Ármúla til að horfa á fótboltaleiki á breiðtjaldi. Hann fær sér kaldan öllara í leiðinni, hamborgara og franskar. Konan er sæl með það. Henni leiðast fótboltaútsendingar í sjónvarpinu.
.
Árlegt jólahlaðborð hjónanna er hápunktur ársins hjá konunni. Dagsetning er ákveðin með fyrirvara. Konan leigir ljósabekk heim til sín og nær fallegri og hraustlegri sólbrúnku í tæka tíð. Hún fer í klippingu, hárlitun og hárlagningu; augabrúnir eru plokkaðar og litaðar; andlitið farðað með augnskuggum og allskonar "meiki"; varir litaðar; hendur og neglur snyrtar, lakkaðar og skreyttar. Bæði hjónin fara í sín fínustu föt. Konan setur upp allt það glingur sem hún á í hálsfestum, eyrnalokkum, armböndum, hringjum og öðru slíku. Svo fer hún í fína dýra pelsinn sinn.
.
Hjónin fara ekki tvö ár í röð á sama stað. Þau eru búin að fara á Hótel Sögu, Hótel Loftleiðir, Kaffi Reykjavík og fjölda annarra staða. Karlinn heldur utan um það hvert þau fara. Hjónin njóta jólahlaðborðs í botn. Þau sitja í rólegheitum yfir kræsingunum í 3 - 4 klukkutíma. Smakka á öllum forréttum, aðalréttum og eftirréttum. Það fer heilmikill tími í það eitt að stafla á diskana. Þau hvíla sig á milli rétta, hlusta á hljómsveit hússins spila jólalög, og dreypa á hvítvíni. Þetta er í eina skipti á árinu sem konan bragðar áfengi. Hjónin kunna með vín að fara. Þau verða aldrei beinlínis full. En vínið hreyfir nægilega við þeim til að þau taki leigubíl til og frá jólahlaðborði. Kallinum þykir spaugilegt að konan verður hláturmild þegar hún sötrar hvítvín. Kannski er skýringin líka sú að jólahlaðborðið kryddar rækilega tilbreytingarlaust líf konunnar.
Þegar hjónin hafa borðað nægju sína af jólahlaðborðinu færa þau sig yfir á barinn. Þar sitja þau í 1 - 2 klukkutíma til viðbótar. Ævinlega hitta hjónin einhverja sem þau þekkja á jólahlaðborðinu eða á barnum. Enda "rútínerast" gestirnir töluvert á þeim 5 - 6 tímum sem hjónin eru á staðnum.
.
Eitt svona jólahlaðborð hjá hjónunum kostar sennilega um eða yfir 100 þúsund kall þegar allt er með talið. Þetta er eini lúxusinn sem þau leyfa sér. Þau eiga ekki flatskjá og hafa aldrei farið til útlanda.
Fyrir síðustu jól lenti karlinn í tímahraki daginn sem þau hjón fóru á jólahlaðborð. Planið var þannig að karlinn gaf konunni upp að mæting á jólahlaðborðið væri klukkan 6. Þetta var á föstudegi en karlinn ætlaði að hætta fyrr um daginn í vinnunni. Þegar á reyndi komst hann ekki frá verkefni í tíma. Konan var í öngum sínum. Klukkan varð 4 og karlinn fastur í vinnunni. Klukkan 5 hringdi konan í hann. Hún var búin að fylla baðið af heitu vatni fyrir hann, taka til jakkafötin hans, bursta skóna og gera allt klárt. Karlinn komst ekki heim fyrr en um klukkan hálf 6.
Hann hafði ekki tíma til að fara í bað og skipta um föt. Það var brýnna að þau mættu á réttum tíma. Konan var miður sín fyrir hans hönd. Hún vorkenndi honum fyrir að þurfa að fara í vinnugallanum á jólahlaðborðið. Um leið var hún honum þakklát fyrir að fórna fataskiptum fyrir að mæta með á réttum tíma á hlaðborðið.
Konan er einstaklega jákvæð. Hún gerir gott úr öllu. Jagast aldrei. Síst af öllu sýnir hún karlinum leiðindi - þó að henni mislíki eitthvað í hans fari eða gjörðum. Þvert á móti veitir hún honum stuðning á öllum sviðum undir öllum kringumstæðum. Þess vegna gætti hún sín á því að gera ekki veður út af vinnugallanum.
.
Vegna tímahraksins keyrði karlinn sjálfur með þau hjón á jólahlaðborðið. Hann ók inn Skútuvog. Konan spurði í undrun: "Hvað erum við að gera í Skútuvogi?" Karlinn svaraði: "Hérna." Hann beygði inn að Húsasmiðjunni. Konan skildi hvorki upp né niður. Hún hélt áfram að spyrja karlinn eftir að hann var búinn að leggja bílnum og þau á leið út úr honum. "Jólahlaðborðið er hér," útskýrði hann.
Inni í Húsasmiðjunni blöstu við konunni allskonar skrúfur, hamrar, tangir og og önnur verkfæri. Hún hafði aldrei inn í svona búð komið. Karlinn rataði hinsvegar og þau komu að langri röð við mötuneyti Húsasmiðjunnar. Þau voru hálftíma í röðinni. Konunni gafst nægur tími til að virða fólkið í röðinni fyrir sér. Það var að uppistöðu til verka- og iðnaðarmenn í óhreinum heilgalla með allskonar vösum. Upp úr þeim stóðu málmbönd, vinnuvettlingar og allra handa verkfæri.
.
Þegar hjónin náðu að jólahlaðborðinu var ljóst að þarna var um einskonar "miní" jólahlaðborð að ræða. Eða verkamannajólahlaðborð, eins og konan lýsir því. Jú, jú, þarna voru heitar pylsur, kjúklinganaggar, kjúklingavængir, kartöflustrá úr dós og eitthvað svoleiðis. Allt í lagi með það. En ekkert hangikjöt. Ekkert laufafbrauð. Ekkert Ris a la Mande. Engin hljómsveit að spila. Ekki dúkuð borð. Til viðbótar þurftu hjónin að standa með diskana sína í korter eða svo áður en borð losnaði. Eða réttara sagt losnuðu tvö sæti við borð sem þau hjón urðu að deila með tveimur drengjum er unnu á bílaverkstæði þarna í grennd.
Með orðum konunnar: "Þetta var sérkennileg lífsreynsla. Dálítil vonbrigði. Ég er viss um að aldrei áður hefur jafn vel til höfð og jafn vel klædd kona sést í Húsasmiðjunni."
.
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Lífstíll, Spaugilegt, Viðskipti og fjármál | Breytt 3.2.2013 kl. 00:57 | Facebook
Athugasemdir
Stórkostlegt. Sýnir bara að það eru tveir þjóðflokkar á Islandi, rétt eins og í öðrum löndum. Semsagt stéttarskipting. Hvernig er hægt að ætlast til að blásnauður almúginn hafi ráð á 100.000 króna jólahlaðborði?
Björn Emilsson, 2.2.2013 kl. 03:28
Björn, þú hefur greinilega ekki lesið mjög vel það sem Jens skrifaði. Þetta er hápunktur ársins hjá fólkinu, það er ekki að þvælast til útlanda eða gera nokkuð annað sér til afþreyingar yfir árið. :)
Naggi (IP-tala skráð) 2.2.2013 kl. 09:14
Þetta er sérkennileg saga. Ég átta mig ekki á hvort hún hefur einhvern boðskap. Ég hallast að því að maðurinn hafi gert hrapaleg mistök, svona í ljósi þess hve mikilvægur atburður þessi jólhahlaðborsferð er hjá þessum hjónum. En, það er gott að frúin var fær um að sjá eitthvað jákvætt í stöðunni. Vonandi var karlinn ekki tekinn mjög hraustlega í gegn þegar enginn sá til.
Theódór Gunnarsson, 2.2.2013 kl. 11:13
Sönn saga: Við hjónin fórum eitt sinn sem oftar út að borða en nú með vinafólki. Það átti að fara í leikhús eftir matinn. Gítarleikari lét fyrir matargesti. Nú var vinurinn orðinn dálítið stressaður að við yrðum of sein í leikhúsið og spurði mig hvort við gætum ekki borðað ögn hraðar. Ég sagði honum að það væri í góðu lagi ef hann gæti fengið gítarleikarann til að spila ögn hraðar!!
Sigurður I B Guðmundsson, 2.2.2013 kl. 12:55
Björn, vissulega eru hjúkrunarfræðingar ekki með 39.000 kall á tímann eins og starfsmenn slitastjórna bankanna sem voru rændir innan frá (og enn er verið að ræna). Engu að síður er misjafnt hvernig þeir sem minna hafa á milli handanna gera sér dagamun. Gömlu hjónin sem fara á jólahlaðborð eiga ekki pening á bók. Þau búa við það lán að eiga skuldlausa íbúð og eru ein eftir í kotinu. En jólahlaðborð er eiginlega eini lúxusinn sem þau leyfa sér.
Jens Guð, 2.2.2013 kl. 23:13
Naggi, þú náðir þessu.
Jens Guð, 2.2.2013 kl. 23:14
Theódór, það er enginn boðskapur í sögunni. Ég vissi ekki af þessari atburðarás fyrr en í gær. Ég hló. Þegar ég sagði syni mínum tíðindin þá hló hann líka. Þá hugsaði ég með mér að kannski gæti bloggfærsla um þetta laðað fram bros hjá einhverjum - þó að viðkomandi þekki ekki til gömlu hjónanna.
Jens Guð, 2.2.2013 kl. 23:20
Sigurður I.B., takk fyrir skemmtilega sögu
Jens Guð, 2.2.2013 kl. 23:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.