Kvikmyndarumsögn

.
 - Kvikmynd:  Jagten
 - Leikstjóri:  Thomas Vinterberg
 - Leikarar:  Mads Mikkelsen,  Thomas Bo Larsen,  Annika Wedderkopp o.fl.
 - Kvikmyndahús:  Háskólabíó
 - Einkunn:  ****1/2 (af 5)
.
  Danskar kvikmyndir sem berast til Íslands eru jafnan virkilega góðar.  Nægir að nefna Adams epli,  Klovn,   Blinkende lygter (Blikkljós),  Pusher,  I Kina spidser de hunde...  Það er eiginlega alltaf ástæða til að skreppa í bíó þegar dönsk mynd er í boði. 
  Í Jagten segir frá vinsælum leikskólakennara,  Lúkasi.  Stelpa í leikskólanum,  Klara,  dóttir besta vinar Lúkasar,  heyrir eldri bróðir sinn og vin hans nefna "typpi út í loftið".  Skömmu síðar verður stelpan ósátt við Lúkas og skrökvar að leikskólastjóranum að Lúkas hafi verið með "typpið út í loftið".  Hún veit í óvitaskap ekki um hvað hún er að tala.  
  Þetta hrindir af stað afdrifaríkri atburðarás.  Lögreglan er sett í málið.  Fleiri leikskólabörn kannast við að Lúkas hafi áreitt þau kynferðislega.  Lúkas er rekinn úr vinnunni útskúfaður úr samfélaginu;  ofsóttur og óvelkominn.  
  Það er farið afskaplega vel með þetta viðkvæma viðfangsefni.  Áhorfandinn veit af sakleysi Lúkasar.  Samúðin liggur hjá honum í þessari átakanlegu stöðu.  Samúðin liggur líka hjá óvitanum Klöru og foreldrum,  sem vilja að sjálfsögðu vernda börnin fyrir barnaníðingi.  
  Klara gerir sér illa grein fyrir því sem er að gerast.  Hún reynir varfærnislega að draga bullið í sér til baka án þess að játa á sig lygi.  Hún tekur upp á því að bera því við að hún muni ekki eftir neinu.  Það er túlkað þannig að börn þurrki út óþægilegar minningar.
  Myndin er sorgleg en á smekklegan hátt er nokkrum bröndurum laumað með.  Hún skilur mann eftir hugsi með áleitnar spurningar í kollinum.  Jagten er ekki vörn fyrir grun og ásakanir um meint barnaníð.  Því er komið á framfæri að það sé afar sjaldgæft að börn skrökvi barnaníði upp á einhvern.  En það kemur samt fyrir.  Jagten dregur upp sannfærandi og trúverðuga framvindu.  Sakleysislegt bull í barni framkallar nokkuð eðlileg viðbrögð hjá leikskólastjóra.  En málið stækkar hægt og bítandi eftir því sem fleiri koma að því og eftir því sem fleiri taka til máls.  Myndin deilir á ófagleg vinnubrögð rannsakenda málsins.  Spurningar þeirra eru leiðandi og lítil börn reyna að koma sér úr óþægilegum aðstæðum með því að þóknast spyrjandanum.  
  Íslendingar búa svo vel að hafa Barnahús til að taka viðtöl við börn í svona málum.  Danir eru ekki eins heppnir.   
  Mads Mikkelsen á stjörnuleik í hlutverki Lúkasar.  Annika Wedderkopp sem leikur Klöru litlu er frábær. 
  Jagten er uppfull af snyrtilegum táknum sem gefa sögunni dýpt.  Myndin hefst að hausti til.  Þá er Lúkas veiðimaður.  Hann hefur fulla stjórn á aðstæðum og fellir villtan hjört.  Danska orðið jagten þýðir veiðin.  Vetur gengur í garð,  sól lækkar á lofti samtímis því sem stöðugt syrtir í álinn hjá Lúkasi.  Á sólrisuhátíðinni jólum verður smá viðsnúningur.  Besti vinurinn áttar sig á því að Lúkas er saklaus.  Það birtir til hægt og bítandi.  
  Í lok myndarinnar er Lúkas ekki lengur skotmark.  Hann er að vori aftur orðinn veiðimaður,  eða réttara sagt er að fylgja syni sínum inn í manndómsvígslu sem felst í því að verða veiðimaður.  Myndin endar á því að Lúkas verður næstum því fyrir voðaskoti.  Hann sleppur svo hársbreidd munar.  Alveg eins og í hremmingunum þegar hann var ásakaður um barnaníð og ofsóttur eins og bráð veiðimanna.  En fékk að lokum uppreista æru.  
  Ýmsum öðrum táknum er telft fram sem áhorfandinn varla tekur eftir.  Undirmeðvitund tekur hugsanlega betur eftir þeim.  Til að mynda verður augnlitur föður Klöru blár þegar hann áttar sig í kirkju á því að Lúkas sé saklaus.  Fyrir og þess utan er hann brúneygur.  Aftur þegar faðirinn heimsækir Lúkas á jólunum er augnliturinn blár.  Jagten er uppfull af svona táknum.  
  Ólíklegt er að danskir kvikmyndagerðaframleiðendur þekki til íslenska Lúkasarmálsins.  Það mál snéri að sögusögn um að hundurinn  Lúkas hafi verið sparkaður til dauða á Akureyri.  Umræðan óx upp í það að haldin var í Reykjavík minningarathöfn um hundinn.  Þegar öll kurl komu til grafar þá hafði hundurinn Lúkas aðeins brugðið sér í gönguferð upp í fjall og var sprelllifandi.  Nafn fórnarlambs fársins í Jagten heitir Lúkas.   
  Ég hvet fólk til að kíkja á Jagten.  Það hafa allir gott af því að velta þessum hlutum fyrir sér.  Myndin er þar að auki svo góð, ágeng og stuðandi að hún hreyfir hraustlega við áhorfandanum.
  Í myndbandinu hér fyrir ofan er enskur undirtexti.  Í Háskólabíói er íslenskur undirtexti. 
.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur G. Halldórsson

Takk fyrir þetta. Mjög góð greining á frábærri mynd. Efnið er viðkvæmt og vandmeðfarið. Mál þar sem barnaníð hefur komist upp verða æ fleiri á Vesturlöndum. Við getum væntanlega öll verið sammála um að fátt sé mikilvægara en að sakleysi barna sé virt og að þeim sé refsað sem brjóta gegn því. Áður ríkti þöggun um þessi mál. Síðustu 10-15 mál (ég er að hugsa um Vestur-Evrópu og N-Ameríku frekar en Ísland) hafa slík mál þó því miður hvað eftir annað leitt til móðursýki í heilu samfélögunum. Hvað eftir annað hefur fjöldi fólks verið ofsóttur fyrir meint barnaníð. Seinna kemur svo í ljós að um hreinan uppspuna var að ræða. Börn greina ekki vel á milli upplifunar og ímyndunar. Æstir uppljóstrarar hafa oft eyðilagt mál með fávisku. Slíkt fólk hefur gert vitnaleiðslur ómögulegar með því að koma ranghugmyndum að hjá börnum áður en fagfólk gat talað við þau með viðurkenndum aðferðum. Það versta er að sá /(sjaldnar sú) sem einu sinni hefur orðið fyrir slíkri ásökun mun aldrei geta hreinsað sig af henni, sama hve fáranleg hún er.

Þeim mun meira verð ég að dást að nokkrum ungum mönnum sem ég þekki sem dirfast að starfa sem leikskólakennarar, þrátt fyrir lág laun og yfirvofandi hættu á hræðilegum ásökunum frá hendi fólks sem veit ekki um hvað það er að tala.

Varðandi dönskuna misminnir þig aðeins: ein myndanna sem þú nefnir heitir: I Kina spiser de hunde.  Og "jagt" þýðir veiði; jagten er þá "Veiðin" eða Veiðiferðin (veiðimaður er "jæger". Og þá er spurningin hver veiðir hvern.

Sæmundur G. Halldórsson , 17.3.2013 kl. 16:30

2 Smámynd: Jens Guð

  Samy,  bestu þakkir fyrir innleggið og leiðréttingar. 

Jens Guð, 17.3.2013 kl. 18:36

3 identicon

takk fyrir þetta en hefðir kanski mátt sleppa að segja hvernig hún endar fyrir þá sem eiga eftir að sjá þessa mynd

Guðrún (IP-tala skráð) 19.3.2013 kl. 11:10

4 Smámynd: Jens Guð

  Guðrún,  þetta er að hluta til réttmæt gagnrýni hjá þér.  Ég var hálf hikandi við að upplýsa um lokaatriðið.  Áður en kemur að því atriði þá er söguþráðurinn samt þegar afgreiddur í myndinni.  Þetta lokaatriði er aðeins til að undirstrika á táknrænan hátt það sem áður kom fram í myndinni:  Að Lúkas var um tíma í hættu í hlutverki bráðar.  En slapp naumlega úr þeirri stöðu. 

  Ég er hrifinn af svona táknmyndum í kvikmyndum (og bókum) þegar vel er unnið með þær.  Eins og í þessu tilfelli.  Mér þykir gaman að benda á þær vegna þess að þær eru ekki öllum augljósar.    

Jens Guð, 20.3.2013 kl. 01:41

5 identicon

Góð greining hjá þér á frábærri mynd. 'Eg er samt ekki sammála þér um lokaatriðið - þar sem þú segir að

Lúkas verði næstum fyrir voðaskoti. 'Eg upplifði að það hefði verið reynt að skjóta á hann, mjög meðvitað og eins leynt og hægt væri og því hefði hann í raun ekki fengið þá uppreisn æru sem hann verðskuldaði...

kv. 

Þórdís (IP-tala skráð) 24.3.2013 kl. 21:49

6 Smámynd: Jens Guð

  Þórdís,  kannski er þín túlkun á endinum rétt.  Myndin býður upp á það.  Lúkas sér ekki hver skaut. 

  Ástæðan fyrir því að ég túlka þetta á annan veg er að ég ætla þessari senu raunsæi sem er ósanngjarnt gagnvart senu sem á að vera táknræn fremur en raunsæ.  Þetta raunsæi sem ég nefni snýr að því að ef veiðimaður ætlar sér að skjóta á Lúkas þá er auðvelt að hitta.  

Jens Guð, 25.3.2013 kl. 00:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband