Anna á Hesteyri og Sævar Ciesielski

anna_hesteyri.jpgsaevar_ciesielski.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

   Ég var og er jafnaldri - eða því sem næst - þeirra sem saklaus voru dæmd fyrir morð á Geirfinni og Guðmundi.   Ég vissi deili á þessum jafnöldrum.  Varð var við þá á skemmtistöðum.  Einhverju sinni keypti ég bjórkassa af Sævari (smygluðum - að ég held - ofan frá bandarísku herstöðinni í Keflavík).  Þarna á fyrri hluta áttunda áratugarins var sala á bjór bönnuð á Íslandi.  Bjórinn var talinn vera stórhættulegur fyrir land og þjóð.  Gæti jafnvel framkallað ölvunarástand.  

  Ég fylgdist vel með fréttum af því þegar þetta fólk var handtekið (reyndar fyrir annað) og síðar sakað um morðin.  Síðdegisblöðin Vísir og Dagblaðið fóru mikinn.  Ruglið og bullið óx dag frá degi.  Nánast frá fyrsta degi áttaði maður sig á því að ekki stóð steinn yfir steini.  Þetta var fár sem í dag má líkja við Lúkasarmálið á Akureyri.  Fjöður varð að hænu og dellan fór í hæstu hæðir.  Allt sem snéri að rannsókn málsins var í skötulíki.  Öll framvindan var skrípaleikur út í eitt.

  Það sem verra var er að í ljós kom að ungmennin sættu grófum mannréttindabrotum.  Meðal annars pyntingum og kynferðisofbeldi.  Eftir óralanga einangrunarvist og gæsluvarðhald sem aðeins á sér hliðstæðu í 3ja heims ríkjum harðstjóra og í Guantanamó var unga fólkið dæmt til margra ára fangelsisvistar með rökum sem héldu hvergi vatni.  

  Þeir einir réttlæta dómana sem komu að málum við að fremja réttarmorðin og aðstandendur þeirra.  Já, og vitaskuld Brynjar Nielsson væntanlegur dómsmálaráðherra (nema hann skræli fylgið þeim mun meir af Sjálfstæðisflokknum).

  Víkur þá sögu að Önnu frænku minni á Hesteyri.  Hún skemmti sér við að horfa á Spaugstofuna í sjónvarpi á laugardögum.  Anna hreifst mjög af skemmtilegu rónunum Boga og Örvari.  Hún tók ástfóstri við þá.  

  Anna hringdi í frænku okkar í Reykjavík og sagðist vita fátt skemmtilegra en róna.  Vegna þess að Anna bjó ein og var baráttumanneskja gegn áfengi þá datt henni í hug að gaman væri að fá róna í einskonar afvötnun á Hesteyri.  Hún myndi leiða þeim fyrir sjónir að áfengi sé óhollt og þeir gætu hjálpað henni við bústörf í staðinn.

  Svo einkennilega vildi til að frænka okkar Önnu bjó í fjölbýlishúsi og þar var ekkjumaður.  Hann var langdrukkinn.  Skemmtilegur náungi.  Spaugsamur og kattþrifinn.  Frænka okkar sendi hann til Önnu.  Þar uppfyllti kallinn hugmyndir Önnu um skemmtilega róna.  Kallinn hófst handa við tiltekt á Hesteyri (og veitti ekki af eins og kom síðar fram í sjónvarpsþættinum "Allt í drasli").  Hann var jafnframt ágætur kokkur.  Anna var alsæl með þennan róna.  Í kjölfar hafði hún samband við lögregluna og bauðst til að taka að sér fleiri róna.

  Þannig kom það til að Sævar Cielsielski varð húskarl hjá Önnu frænku á Hesteyri.  Mínum heimildum ber ekki saman um hvernig það atvikaðist.  Ein útgáfan snýr að því að Sævar hafi verið í einhverjum vandræðum er hann kom með Norrænu erlendis frá.  Önnur útgáfa er sú að hann hafi verið á leið frá Íslandi með millilandaflugi á Egilsstaðaflugvelli.  Hvor útgáfan sem er rétt þá kom Sævar í lögreglufylgd í Hesteyri og varð skjólstæðingur Önnu frænku.

  Sævar þurfti reglulega að sækja lyf í Neskaupsstað.  Hann keypti sér áfengi í leiðinni.  Hann var þess vegna meira og minna "mjúkur" á Hesteyri.  Anna þekkti ekki áfengislykt og tók ekkert eftir því að Sævar var að staupa sig.  Sævar hafði stjórn á því að verða ekki verulega fullur.  Önnu grunaði ekkert.  Hún stóð í þeirri trú að hún væri að halda honum edrú á Hesteyri.

  Bæði fyrir og eftir dvöl Sævars á Hesteyri hýsti Anna sennilega um tug annarra manna sem hún taldi sig vera með í afvötnun.  Sævar var hennar uppáhald.  Hann spilaði á gítar og þau sungu saman íslenska slagara á hverju kvöldi.  Oft fram á nótt.   Anna var dálítið laglaus (án þess að vita það).  Sævar var lagvissari en söngstíll hans var ekki fágaður.  

  Anna átti það til að hringja í ættingja og leyfa þeim að heyra músík þessa sérkennilega dúetts.  Anna hringdi líka í ættingja til að spjalla og er leið á samtal gaf hún það til Sævars.  Vildi að hann kynntist ættingjunum.  Í einu símtali við mig viðraði hann hugmyndir um að fara í auglýsingabransann.   Ég vann þá á auglýsingastofu.  Hann sagðist vera búinn að vinna við dúk- eða parketlagningar (að mig minnir) en langi til að láta reyna á teiknihæfileika.  Hann langaði til að kaupa auglýsingastofu.  Af því varð þó ekki.

  Mér finnst eins og Sævar hafi oftar en einu sinni dvalið á Hesteyri.    

  Sævar Ciesielski var sá maður sem Önnu á Hesteyri þótti vænst um af öllum sem þar dvöldu.  Henni þótti hann mjög skemmtilegur;  "hlýr maður og góður," sagði hún.  Anna lenti í miklum vandræðum með suma aðra.  Til að mynda óþverrann Steingrím Njálsson.      

  

Fleiri sögur af Önnu frænku:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1288207/

   


mbl.is „Ekkert hjarta“ í Sævari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sævar talaði afar hlýlega um Önnu og fór þangað oftar en 1 sinni. Sævar var snillingur og ég man enn hvað ég varð hissa þegar ég labbaði inn á myndlistarsýninguna hans.......

GB (IP-tala skráð) 27.3.2013 kl. 09:31

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Já, það er sorglegt að vita til þess hvernig farið var með þetta unga fólk, ég man bara að sem unglingur fannst mér þetta allt svo fáránlegt og þegar ég sá myndirnar af þeim í blöðunum hugsaði ég bara að þau hefðu aldrei getað drepið neinn, maður var bara uppfullur af sorg yfir þessu máli og svo kemur þetta allt í ljós núna. Hverslags sadistar stjórnuðu hér í löggæslu málum, maður spyr sig en fær engin svör, mér finnst skilda yfirvalda að hreinsa nafn hinna látnu eins og þeirra sem enn lifa.

Ásdís Sigurðardóttir, 27.3.2013 kl. 11:26

3 identicon

...Skemmtilega og vel skrifað.., efnið mjög gott.

Davíð Heiðar Hansson (IP-tala skráð) 27.3.2013 kl. 19:46

4 Smámynd: Hjóla-Hrönn

Dásamlegar mannlífslýsingar hjá þér :)

Hjóla-Hrönn, 2.4.2013 kl. 13:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband