Risa verðhækkanir á súkkulaði framundan

chocolate-keyboard 

 Það er ekki langt síðan súkkulaði náði almennum vinsældum í Evrópu.  Það er mjög stutt síðan.  Áður var kakódrykkur sötraður í Mið-Ameríku.  Hann þótti góður.  Á 16. öld barst kakóbaun til Spánar.  Spánverjar héldu því leyndu.  Þetta var þeirra leyndarmál í meira en öld.  Svo talaði einhver af sér undir álagi.  Ítalir og Frakkar komust upp á lag með að laga sér kakódrykk.

  Um miðja 19. öld hóf enskt fyrirtæki framleiðslu á hörðu súkkulaði.  Það var snilld.  Þetta var það sem í dag er kallað suðusúkkulaði.  29 árum síðar datt svissneskur sælgætisframleiðandi niður á þá byltingarkenndu uppskrift að blanda mjólkurdufti saman við hræruna.  Þannig varð mjólkursúkkulaði til.  Síðan hæla Svisslendingar sér af því í tíma og ótíma að þeir hafi fundið upp súkkulaðið.  Guma sig af því hvert sem þeir fara.

  Fram til þessa hefur súkkulaði verið ódýr matvara,  til dæmis í samanburði við kæstan hákarl og hvítlauksristaðan humar.  Nú eru hinsvegar blikur á lofti.  Ástæðan er sú að nýverið var kínverskum og indverskum embættismönnum boðið upp á súkkulaði í veislu í Englandi.  Asíumennirnir kolféllu fyrir súkkulaði.  Þeir hömstruðu það í kjölfarið.  Jafnframt gáfu þeir vinum og vandamönnum heima í Kína og Indlandi smakk.  

  Spurn eftir súkkulaði vex afar hratt í Kína og á Indlandi.  Þessi tvö lönd hýsa 34% af jarðarbúum.  Það segir ekki alla söguna hvað súkkulaði varðar.  Víða um heim veit fólk lítið sem ekkert um súkkulaði.  Ljóst er að spurn eftir súkkulaði tvöfaldast á næstu örfáum árum.  Þar af jórtra Kínverjar og Indverjar helminginn af framleiðslunni.

  Kakóframleiðendur geta ekki annað eftirspurn nægilega vel.  Það þýðir aðeins eitt:  Verð á kakói rýkur upp eins og rjúpa við staur.  Þar með snarhækkar verð á súkkulaði.  

  Hvernig er hægt að bregðast við því?  Svar:  Með því að hamstra súkkulaði á meðan verðið er lágt og eiga byrgðir til lífstíðar.  Svona einfalt er að sjá við verðhækkunum á súkkulaði.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þá geta IKEA-hátekjuþjófarnir snúið sér að súkkulaðiþjófnaði næst ...

Stefán (IP-tala skráð) 8.5.2013 kl. 08:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.