Finnum annað orð yfir "einelti"

  Orðið einelti skýrir sig sjálft að nokkru leyti.  Umboðsmaður barna skýrir þetta þannig: 

Einelti er niðurlægjandi áreitni eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, sem stýrt er af einstaklingi eða hópi og beinist að einstaklingi sem ekki tekst að verja sig. Einelti felur í sér að einstaklingur er tekinn fyrir með síendurtekinni stríðni, látbragði, niðrandi ummælum og sögusögnum, andlegri kúgun, hótunum af ýmsu tagi, líkamlegri misbeitingu, félagslegri höfnun eða markvissri útskúfun.

  Umboðsmaðurinn tiltekur algengar birtingamyndir eineltis: 

  • Uppnefni, stríðni eða niðurlægjandi athugasemdir. Þeir sem beita ofbeldinu hvíslast á um fórnarlambið, flissa og hlæja.
  • Barnið er skilið útundan í leik, því er ekki boðið í afmælisveislur eða aðrar uppákomur hjá bekkjarfélögum, Barnið þarf að þola svipbrigði, augnagotur, þögn eða algert afskiptaleysi.
  • Eigum fórnarlambsins er stolið, t.d. skólabókum, pennaveski, skólatösku, nesti eða íþróttafatnaði eða þessir hlutir eyðilagðir.
  • Barnið er þvingað til að gera eitthvað sem stríðir algerlega gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu, s.s. girt niður um barnið, það látið eyðileggja eigur annarra, jafnvel skólans. Barnið fær neikvæð SMS-skilaboð og hótanir.
  • Gengið er í skrokk á barninu, það barið, klórað og hárreytt, sparkð er í það og því hrint.

  Fórnarlömb eineltis hafa mörg hver komið fram opinberlega að undanförnu.  Þau lýsa óhugnanlegri grimmd og andstyggilegheitum skólafélaga.  Þau eru lamin daglega í skólanum árum saman.  Það er stöðugt veist að þeim með uppnefnum og öðru niðurlægjandi orðalagi.  Mörg segjast þau hafa ítrekað leitt huga að sjálfsvígi.  Dæmi eru um að þau hafi gefist upp og svipt sig lífi.  Mörg, jafnvel flest, fórnarlömb eineltis telja sig hafa skaðast andlega til frambúðar.  Þau upplifa þunglyndi, vonleysi og sætta sig við vonda framkomu í sinn garð.

  Upp á síðkastið hefur borið á því að stjórnmálamenn kvarti undan einelti í sínu starfi.  Stjórnmálamenn kvarta líka undan því að aðrir stjórnmálamenn séu lagðir í einelti.  Þetta er fólk sem velur sér sjálfviljugt starf á vettvangi þar sem tekist er harkalega á um menn og málefni.  Þetta fólk gerir sjálft sig að opinberum persónum.  Þeir kvarta sárast sem sjálfir hlífa ekki öðrum við harkalegum lýsingum.  Þetta á við um fleiri opinberar persónur sem væla ámáttlega undan því að fólk í athugasemdakerfi dv.is líki ekki við músík þeirra og sé dónalegt.  Opinberar persónur sem jafnvel eru best þekktar fyrir ruddaskap og yfirlýsingagleði.

  Þetta er ekki eiginlegt einelti nema í víðustu merkingu orðsins.  Með því að nota orðið einelti yfir gagnrýni á kjaftfora stjórnmálamenn og dægurlagasöngvara er verið að gera lítið úr fórnarlömbum raunverulegs eineltis.  Leggjum heilann í bleyti og finnum annað orð yfir orðaskak og gagnrýni á kjaftforra stjórnmálamanna og hörundssára útbrunna skallapoppara.    

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Maður hættir ekki að vera manneskja með rétt á lágmarks virðingu sem slík og mannhelgi við það að verða opinber persóna. Það þarf að kenna siðfræði í grunnskólum landsins og muninn á málefnalegri gagnrýni og skrýlslátum fyrst foreldrarnir hafa þetta fyrir börnunum og lækka menningarstig þjóðarinnar henni til háðungar.

Árni (IP-tala skráð) 29.5.2013 kl. 22:57

2 Smámynd: Jens Guð

  Árni,  ég tek undir þetta sjónarmið. 

Jens Guð, 29.5.2013 kl. 23:59

3 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Mig klæjar í fingurna að fá að leggja orð í belg, en það er erfitt því viðfangsefnið er mjög víðfemt. Í fyrsta lagi er orðið „einelti“ orðið tískuyrði, í hvert sinn sem einhver móðgar eða særir annan getur sá síðarnefndi hrópað „Einelti!“ Þar með er hann orðinn fórnarlamb einvhers sem fáir vita hvað er en allir vita að er vont. Ekki ósvipað því þegar fólk gat ásakað granna sína fyrir að leggja álög á bústofn sinn, fyrir aðeins þrjúhundruð árum, og þá var tekið til skoðunar hvern skildi brenna á báli.

Þú bendir réttilega á að samfélagið sýnir félagsþroska sinn og múg-gáfnafar þegar það tekur undir grunnhyggna eineltis umræðu án ábyrgðar á eigin hegðun og afleiðingum hennar. Nægir að benda á alla þá foreldra sem aldrei hafa gert neitt rangt í uppeldi, enda börnin þeirra fædd með ýmsa andlega sjúkdóma sem auðvelt er að greina og fá úrræði við. Það eru börnin mín sem eru röng, en ekki ég, sydrómið.

Hvernig getum við ætlast til þess að sjálfumglaðir og frekir orðabelgir stjórnmálanna beri ábyrgð á orðum sínum og verkum þegar við gerum það ekki sjálf?

Sjálfur var ég alinn upp við heiftúðugt einelti, bæði félagslega og á vettvangi heimilisins. Ennfremur hefur starfsframi minn verið skaðaður stórlega með einelti á stærri skala - um það fjallar bók mín Varmenn kvótans - svo ég þekki smávegis til hér.

Það er hverju fórnarlambi auðvelt að vaxa á mettíma upp fyrir „skaðlegar afleiðingar“ eineltis. Ég notaði til þess tvær aðferðir og þeir sem hafa lært þær hjá mér taka undir þetta.

Afsakið hve löng athugasemd mín er orðin, þetta er svo skemmtilegt viðfangsefni. En ég tek aldrei undir þegar fórnarlömb lýsa því sjálf hve mikinn andlegan skaða þau bera. Enginn getur lagt mat á eigin skaða í andlegum efnum.

Guðjón E. Hreinberg, 30.5.2013 kl. 11:59

4 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Afsakið orðavillur: Varmenn->Varðmenn

Blessi þig.

Guðjón E. Hreinberg, 30.5.2013 kl. 12:01

5 identicon

Einelti light gæti það verið.

Steini (IP-tala skráð) 30.5.2013 kl. 13:58

6 Smámynd: Jens Guð

  Guðjón,  bestu þakkir fyrir þitt umhugsunarverða innlegg.  Ég þarf að tékka á bókinni þinni,  Varðmenn kvótans. 

Jens Guð, 30.5.2013 kl. 22:37

7 Smámynd: Jens Guð

  Steini,  ég hallast fremur að íslensku orði. 

Jens Guð, 30.5.2013 kl. 22:38

8 identicon

Hálfelti?

Grrr (IP-tala skráð) 31.5.2013 kl. 16:11

9 Smámynd: Jens Guð

   Grrr,  já, eða smáelti. 

Jens Guð, 3.6.2013 kl. 00:05

10 identicon

Já það er hálfsorglegt að "eyðileggja"þetta orð með ofnotkun,þá mælir enginn með því að fólk kunni sig ekki við aðra en þó einhverjum se mótmælt hástöfum þá er það ekki einelti,meira einhelti.

En sammála að maður þarf að kikja á Varðmenn kvótans.

sæunn (IP-tala skráð) 12.6.2013 kl. 11:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband