Bráðskemmtileg og holl aðferð við að matreiða eggjahræru

  Mörgum vex í augum að matreiða eggjaköku (ommilettu).  Enda er það töluvert stúss.  Það er fráhrindandi.  Fólk þarf helst að hafa skál og þeytara eða písk við höndina.  Það eiga bara ekki allir skál og þeytara eða písk.  Þá er gott að kunna hina aðferðina.  Hún er þannig:  Þú tekur hrátt egg og vefur því innan í handklæði.  Því næst vefur þú snæri þétt utan um handklæðið sitthvoru megin við eggið og hnýtir rembihnút á.  Eggið þarf að sitja pikkfast innan í handklæðinu og vera vel dúðað. 

  Þessu næst bindur þú snærisspotta í sitthvorn enda handklæðisins.   Snærisspottarnir þurfa að vera nógu langir til að þeir ásamt handklæðinu myndi sippuband.  Svo er bara að vippa sér út á mitt gólf og sippa 20 sinnum.  Gæta skal þess vandlega að sá hluti handklæðisins sem er vafinn utan um eggið lendi ekki í gólfinu.  Að minnsta kosti ekki mjög harkalega.  Enginn skal efast um hollustu þess að sippa.  Betri líkamsrækt er vandfundin ef frá eru taldir göngutúrar,  sund,  hjólreiðar,  skokk...  

  Að þessu loknu er sömu aðferð beitt við næsta egg.  Og þar næsta.  Og öll þau egg sem fjölskyldan ætlar að snæða þann daginn.  Þar á eftir eru eggin soðin í vatni alveg eins og venja er.  Þegar skurnin er fjarlægð af soðnum eggjunum kemur þessi fínasta ommiletta í ljós.    

egg.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er Vigdís Hauksdóttir að búa til ommelettur með því að grýta eggjum úr glerhúsi, eða er hún gagg, gagg, gaggalagú ?

Stefán (IP-tala skráð) 27.6.2013 kl. 13:13

2 identicon

Hún er besti uppistandarinn í leikhúsinu sem að kallast alþingi

Grrr (IP-tala skráð) 27.6.2013 kl. 16:20

3 identicon

Rétt Grr, Vigdís er svona nokkurskonar aðaltrúður í leikhúsi fáránleikans.

Stefán (IP-tala skráð) 28.6.2013 kl. 08:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband