The Rolling Stones

  Jú,  reyndar vissir þú þetta ef þú ert sýslumaður Árnessýslu.  Annars vissir þú það ekki.  Kannski sumt af þessu.  En ekki allt. 

  -  Fyrsti trommuleikari The Rolling Stones varð síðar heimsfrægur sem trommari The Kinks. Hann  heitir Mick Avory. 

  -  Annar tveggja gítarleikara The Rolling Stones heitir Ronnie Wood.  Fyrir daga The Rolling Stones gerði bróðir hans það gott á breska vinsældalistanum.  Það var 1961 sem Ted Wood og hljómsveit hans,  Temperance Seven,  sló í gegn með laginu You´re Driving Me Crazy. 

 

  -  Vörumerki The Rolling Stones er útfærsla á tungu og vörum söngvarans,  Micks Jaggers.  Vörumerkið er jafnframt sótt í tákn eins af guðum Hindúa,  Kali the Destroyer. 

  -  Bítlarnir uppgötvuðu The Rolling Stones,  urðu ákafir aðdáendur og komu The Rolling Stones á plötusamning.  Það var gítarleikari Bítlanna,  George Harrison,  sem gekk á fund forráðamanna plöturisans Decca og benti þeim á að þarna væri tækifæri til að rétta hlut sinn eftir að Decca hafði hafnað Bítlunum og orðið að athlægi fyrir klúðrið.  Bítlarnir voru orðnir ofurstjörnur þegar hér var komið sögu.  Forráðamenn Decca tóku ábendingu Harrisons með þökkum og gerðu plötusamning við The Rolling Stones í snatri.

  -  Fyrsta smáskífa The Rolling Stones náði ekki þeim árangri sem að var stefnt.  Það var lag eftir Chuck Berry,  Come On.  Smáskífan náði ekki inn á Topp 20 vinsældalistans.  En næstum því (21. sæti).  Bítlarnir John Lennon og Paul McCartney tóku sig þá til og sömdu fyrir The Rolling Stones lag sem átti að koma hljómsveitinni inn á Topp 20.  Það gekk eftir.  Lagið,  I Wanna Be Your Man,  flaug í 12 sæti breska vinsældalistans.  Sögusagnir hafa verið um að þetta lag hafi upphaflega verið samið fyrir trommuleikara Bítlanna,  Ringo Starr,  til að syngja.  Löngu löngu síðar upplýsti forsprakki Bítlanna,  John Lennon,  að þeir Paul McCartney hafi verið búnir að skilgreina þetta lag sem ekki nógu gott fyrir Bítlana.  En það sem þeir Lennon og McCartney skilgreindu sem ekki nógu gott fyrir Bítlana myndi engu að síður skila The Rolling Stones inn á Topp 20.  Sjálfir voru Lennon og McCartney þegar orðnir áskrifendur að 1. sæti breska vinsældalistans. 

  -  Bítlarnir John Lennon og Paul McCartney kenndu liðsmönnum The Rolling Stones galdurinn við að semja lög. 

  -  Bítlarnir innleiddu nýja byltingarkennda hárgreiðslu:  Að greiða hárið fram á enni og leyfa hárinu að vaxa yfir eyrun.  Liðsmenn The Rolling Stones gengu lengra og lögðu sig fram um að vera með síðara hár en Bítlarnir. 1963 keyptu The Rolling Stones auglýsingar í dagblöðum undir jólakveðju sem hljómaði þannig:  "Bestu óskir til sveltandi hárskera og þeirra fjölskyldna."  Meiningin í textanum er:  "Bestu óskir um gleðileg jól til..."

  -  Kvikmyndaleikstjórinn Martin Scorsese hefur notað The Rolling Stones lagið Gimme Shelter í fjórum af sínum kvikmyndum.  Hann er einlægur og ákafur aðdáandi.  Hann gerði líka heimildarkvikmynd um The Rolling Stones,  Shine A Light.  Alveg fjögurra stjörnu mynd.

  -  Nafnið á The Rolling Stones er sótt í samnefnt lag með bandaríska blúsaranum Muddy Waters.

  -  Nafnið The Rolling Stones er iðulega ranglega þýtt á íslensku sem Rúllandi steinar.  Rétt þýðing er Flækingarnir. 

  -  Söngvari The Rolling Stones,  Mick Jagger,  er eldheitur áhugamaður um ballettdans. 

  -  Það kom mörgum á óvart þegar upplýst var að besti vinur bandaríska háðfuglsins,  gítarsnillingsins og söngvahöfundarins Frank heitins Zappa var Mick Jagger,  söngvari The Rolling Stones.  Hvorugur þeirra hafði upplýst um þetta fyrir fráfall Zappa.  Þeir voru ekki á nákvæmlega sömu línu í tónlist.  En þeir náðu saman í heimspekilegu spjalli um heimsmálin,  pólitík,  listir og menningu og þess háttar.  Báðir bráðgáfaðir.  Þeim þótti fyrst og fremst gaman að spjalla saman.  Þegar Mick var á ferð í námunda við heimili Zappa kom hann ætíð þar við og dvaldi jafnvel dögum saman hjá Zappa.  Músík var sjaldnast á dagskrá.   

  -  Trommuleikari The Rolling Stones,  Charlie Watts,  er lítið fyrir rokk.  Hann er harðlínu djassgeggjari. 

  -  Eitt sinn voru The Rolling Stones á hóteli.  Að mig minnir á 3ju hæð.  Söngvaranum,  Mick Jagger,  varð það á að tala um Charlie Watts sem trommuleikarann sinn.  Charlie snöggreiddist.  Hann stökk á Mick og ætlaði að henda honum út um glugga.  Gítarleikarinn Keith Richard kom Mick til bjargar með því að skakka leikinn.  Ástæðan sem Keith gaf var sú að Mick var í uppáhalds jakka Keiths.  Keith vildi ekki sjá á eftir jakkanum út um gluggann.

  -  1977 var gítarleikari The Rolling Stones,  Keith Richard,  böstaður fyrir að vera með dóp.  Sanngjarnir dómarar dæmdu hann til að taka út refsingu með því að halda hljómleika fyrir blinda í Toronto.  Hugmyndina fengu dómarar út frá frétt af því að Keith hafði áður tekið upp á því að hjálpa blindri konu að komast á hljómleika hjá The Rolling Stones.  Keith var að sumu leyti sáttur við dóminn en líka í uppreisn.  Hann lagði því allt undir með því að bjóða þeim blindu upp á glæsilegasta myndræna "show" sem mögulegt var.  En vitaskuld sáu blindu "áhorfendurnir" ekkert af þessu "showi".  Það er púki í Keith. 

  - Textarnir á plötu The Rolling Stones Exile On Main St.  voru samdir eftir uppskrift bandaríska skáldsins William S. Burrough.  Uppskriftin var sú að klippa niður texta og raða honum aftur tilviljunarkennt upp.  Þannig fengju setningar og meiningar óvænt annað samhengi.  William S.  Burrough er eitt mesta skáld Bandaríkjanna.  Meðal annars gerði Kurt Cobian (Nirvana) plötu við ljóð Williams S. Burroughs.  Líka Michael Frant í Beatnigs og Spearhead.  Fremur en að telja upp uppátæki Burroughs hvet ég til þess að þið "gúglið" kallinn.  Hans saga er svo mikið dæmi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ted þessi bróðir Ronnie Wood og annar bróðir þeirra Art Wood voru allir á kafi í tónlist og m.a. annars kom Art Wood fram með hljómsveitum með Alexis Corner, Charlie Watts og Jon Lord.  Einnig voru þeir bræður allir í myndlist og lærðu graffíska hönnun.  Á meðal skólabræðra þeirra í því námi voru David Bowie og Pete Townshend. Ronnie Wood hefur haldið margar myndlistarsýningar og ein er í gangi núna í Soho-hverfinu London. Í gærkvöldi var ég á frábærum hljómleikum Jeff Beck í Háskólabíói.  Jeff Beck var einmitt boðin gítarleikarastaða í Rolling Stones eftir að Mick Taylor hætti, einnig Rory Gallagher, en að lokum kom Ronnie Wood inn.

Stefán (IP-tala skráð) 28.6.2013 kl. 08:17

2 identicon

Sæll Jens.

Þakka skemmtilegan og fróðlegan pistil!

Mér finnst skorta á rök þín varðandi nafn hljómsveitar.

Ég hygg að það séu þau myndhvörf (metaphore) sem
birtast í nafni sem gerir það  að verkum að menn telja
sig hafa frjálst val um hvort átt er við einstakling sem er
stefnulaus, uppreisnarsegg eða auðnuleysingja.


Að slá í gadda hvað var í hug þess er leit Rollin´Stone plötu
Muddy Waters er óvarlegt. Í kvæðinu sjálfu er ekkert umfram
það sem þegar hefur verið sagt sem tekur af vafa um hvernig
skuli þýða nafn hljómsveitar eða hvort hið lýsandi nafn ætti
ekki að nægja hverjum og einum.
Í kvæðinu (Rollin´Stone) er ákveðið minni um steinbít sem
menn höfðu leikið sér með allt frá árinu 1928 sem og allar þær skemmtilegu varíasjónir sem þar af leiddi.
Myndhvörfin í nafni vísa til þeirrar vegferðar er margir sjá,
að veltast sem grjótið við sjávarströndu, fyrir fótum manna
ellegar gnauð aldanna sem allri ásýnd breytir að lokum;
í andliti hins fegursta fljóðs leynist andlit kerlingar!

Í markaðssetningu á fyrstu árum hljómsveitarinnar fer ekki á milli
mála að ímynd uppreisnarseggsins (rebel) er haldið á lofti með
beinni vísan til nafnsins.

En hafa skal það sem sannara reynist og ekki að efa að
þú telur þig hafa fullgild rök fyrir útskýringum þínum
á nafni hljómsveitar.

Þar til að þau rök líta dagsins ljós, kýs ég að fley mitt reki til
þess lands sem ætlað er, tek því glaður að feykjast sem sandkornið; veltast sem steinn sem ekki á sér nokkurt sýnilegt upphaf
eða endi en þó er sem allt hafi það verið kyrfilega skráð fyrir margt
löngu!

Húsari. (IP-tala skráð) 28.6.2013 kl. 13:38

3 identicon

Nú eru ,, litlu karlarnir " á 365 miðlum heldur betur að moka út starfsfólki í dag og manni skilst að mórallinn þar sé á botni mannlegs eðlis. Það hefur líka skilað sér svo rækilega í gegn um t.d. Fréttablaðið að ég þekki sífellt fleiri sem henda þeim snepli ólesnum í ruslið.  Ætli hálf heyrnarlaus gúanórokkari sé að hjálpa til við að moka út í Skaftahlíðinni, vááááá ?!

Stefán (IP-tala skráð) 28.6.2013 kl. 15:53

4 identicon

Þetta með veltandi steinana enn.  Rolling stone þýðir vitaskuld veltandi steinn.  Það að svoddan er tengt við flækinga stafar af því að á ensku er til málshátturinn:  A rolling stone gathers no moss.  Eða yfirfært á mannlífið: sá sem aldrei sest um kyrrt mun aldrei eignast neitt.  Og flækingar setjast aldrei um kyrrt og munu því aldrei eignast neitt.  Þess vegna eru flækingar stundum kallaðir veltandi steinar.  Reyndar eru til veltandi steinar á Íslandi sem safna mosa og eru kallaðir jöklamýs.  En enskir þekktu þá vitaskuld ekki.  Hins vegar skilst manni að hljómsveitin hafi eignast sitt af hverju.  En kannski hafa þeir líka tapað því öllu, eða ætli lífshamingja þeirra sé í réttu hlutfalli við ríkidæmið?

Tobbi (IP-tala skráð) 28.6.2013 kl. 18:40

5 Smámynd: Jens Guð

  Stefán,  takk fyrir upplýsingarnar.

Jens Guð, 28.6.2013 kl. 19:58

6 Smámynd: Jens Guð

  Húsari,  fyrir röskum aldarfjórðungi dvaldi ég í hálfan annan mánuð í hjólhýsaþorpi í Florida við landamæri Alabama.  Þorpsbúar voru ekki inni í hjólhýsunum nema yfir nóttina.  Flestir sátu fyrir utan hjólhýsið sitt allan daginn á milli þess sem rölt var um og spjallað við aðra.  Fólk þurfti að rölta í verslanir sem þarna eru,  í þvottahús, í símklefann og þess háttar.

  Þarna bjuggu meðal annars síðhærðir þungarokksunnendur sem ég spjallaði oft og lengi við um músík.  Þeim þótti undarlegt hvað ég keypti mikið af músíktímaritum og -bókum.  Þar á meðal keypti ég alltaf tímaritið Rolling Stone sem kom og kemur enn út á 2ja vikna fresti.  Ég man ekki hvers vegna nafn blaðsins kom til tals.  En rokkararnir upplýstu mig um það hvernig ætti að túlka nafnið.  Þeir töldu að rekja mætti uppruna þessa "slangurs" yfir flakkara til kreppuáranna í Bandaríkjunum.  Þá smygluðu flakkarar í atvinnuleit sér með vöruflutningalestum.  

  Þetta lagðist illa í þá sem stóðu að lestaútgerðinni.  Flakkararnir voru einnig illa séðir af heimamönnum hvar sem flakkarana bar að.  Flakkararnir undirbuðu sig í launum á móti heimamönnum,  sníktu mat og fleira.  Fyrir utan að þeir borguðu ekki fyrir farið með lestunum.  Í hvert sinn sem lest mætti í hlað mætti á staðinn ört stækkandi hópur manna með lurka á lofti.  Flakkararnir voru lamdir sundur og saman.

  Flakkararnir hættu þess vegna að taka far með lestunum alla leið.  Þess í stað þróuðu þeir með sér tækni til að stökkva af lestunum á ferð.  Sú tækni fólst í því að hlaupa eins hratt og fætur toguðu eftir lestarvagninum í sömu átt og lestin ók og stökkva út á túnið við hlið lestarsporsins.  Um leið og fætur snertu jörð hnipruðu menn sig saman og rúlluðu sér í kollhnísum eftir túninu.  

  Oftast voru margir flakkarar í samfloti.  Kannski 10 - 15.  Úr fjarlægð horft sá vinnufólk og eigendur búgarðanna þetta athæfi eins og steinar væru að rúlla inn túnið.  

  Án þess að rokkararnir nefndu það þá þykir mér líklegt að inn í slanguryrðin rolling stone yfir flakkara hafi blandast tilvísun í texta Biblíunnar um að rúllandi steinar safni ekki mosa.   

Jens Guð, 28.6.2013 kl. 20:37

7 Smámynd: Jens Guð

  Stefán (#3),  það gengur mikið á. 

Jens Guð, 28.6.2013 kl. 20:44

8 Smámynd: Jens Guð

  Tobbi,  jú,  vissulega þýðir rolling stone orðrétt veltandi steinn.  Og vissulega hafa liðsmenn The Rolling Stones halað inn góðum tekjum í áranna rás.  Þeir hafa sömuleiðis eytt háum fjárupphæðum í vímuefni.  Heróín er dýrt. 

  Fyrir sex eða sjö árum flaug ég á Saga Class til Skotlands.  Það var millilent í London.  Á VIP barnum var gítarleikari The Rolling Stones,  Ronnie Wood,  ásamt unglingsstúlku.  Ég hélt að það væri dóttir hans en einhver sagði að þetta væri kærasta hans.  Nema það að íslenskur ferðafélagi nefndi við Ronnie að hann hefði að óreyndu haldið að liðsmenn The Rolling Stones ferðuðust í einkaþotum fremur en í almennu flugi með skóflupakkinu.  Ronnie svaraði hæðnislega og hlæjandi:  "Hversu fucked up þarftu að vera til að ferðast í einkaþotu?"

  Þetta var á þeim tímapunkti þegar einkaþotur íslensku bankaræningjanna héldu vöku fyrir íbúum í Skerjafirði allar nætur. 

Jens Guð, 28.6.2013 kl. 20:59

9 identicon

takk fyrir afar fræðandi pistla.  er einmitt að lesa ævisögu Keiths. og þetta er gott innlegg.  er ekki til önnur ævisaga um hann á íslensku?

Bjarni Hardarson (IP-tala skráð) 28.6.2013 kl. 23:01

10 Smámynd: Jens Guð

  Bjarni,  það er til bráðskemmtileg bók um Keith á íslensku.  Hún heitir Líf.  Ég hef lesið tvær aðrar ævisögur um hann á ensku.  Þar fyrir utan hef ég þann kæk að kaupa alltaf músíkblöð sem innihalda viðtöl við Keith.  Í gegnum tíðina eru þau mörg.  Fá viðtöl við rokkstjörnur eru eins skemmtileg.  Viðtöl við Keith og Ozzy Black Sabbath eru þau skemmtilegustu. 

Jens Guð, 28.6.2013 kl. 23:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.