Kallinn sem drap sjoppu

  Það er ekki öllum - sem stunda viðskipti - gefið að laða að sér viðskiptavini og halda viðskiptavinum.  Fyrir þremur áratugum eða svo keypti sjómaður utan af landi litla sjoppu í Reykjavík.  Kallinn var eitthvað á sjötugsaldri.  Ég held að hann hafi ekki verið kominn á eftirlaunaaldur. 

  Hann bölvaði tíðum og var argur út í allt og alla.  Kannski spilaði inn í að hann stóð einn vaktina meira og minna frá klukkan 7 á morgnana og fram til hálf tólf á kvöldin alla daga vikunnar.  Líka um helgar.
 
  Áður var sjoppan rekin sem fjölskyldufyrirtæki.  Hjón og börn þeirra skiptust á vöktum.  Það gekk vel og fjölskyldan keypti aðra og miklu stærri sjoppu.
 
  Ég bjó í næsta húsi við sjoppuna.  Ég átti oft erindi í hana.  Til að mynda þegar óvænta gesti bar að garði.  Þá stökk ég út í sjoppu og keypti kex eða niðursoðna ávexti og ís. 
  Eitt sinn er ég bað um niðursoðna ávexti svaraði sjóarinn ergilegur:  "Ég er hættur að selja þessa helvítis ávexti!"
  "Nú?  Var dræm sala í þeim?" spurði ég.
  "Öðru nær,"  var svarið.  "Dósirnar voru í efstu hillunni þarna.  Ég þarf að sækja stiga inn á lager til að komast í efstu hilluna.  Ég er búinn að fá nóg af því að vera á stöðugum þvælingi með stiga fram og til baka."
 
  Kallinn hætti að selja allar vörur sem höfðu verið í efstu hillunni.
  Ég keypti reglulega Helgarpóstinn í sjoppunni.  Einn daginn voru viðbrögð sjóarans þannig:  "Ég er hættur að selja þetta andskotans sorprit."
 
  Í Helgarpóstinum hafði birst grein sem sjóarinn taldi vera árás á sjoppur.  Ég man ekki um hvað greinin var.  Hugsanlega að sjoppur seldu unglingum undir lögaldri sígarettur eða eitthvað slíkt. 
  Helgarpósturinn fékkst ekki eftir þetta í sjoppunni.  Um svipað leyti hætti sjóarinn að selja DV af álíka ástæðu,  blaðsölustráknum í hverfinu til mikillar gleði.  Þetta margfaldaði söluna á DV hjá stráknum.
  Oftar en einu sinni varð ég vitni að því þegar sjóarinn setti viðskiptabann á kúnna.
 
  Stutt frá sjoppunni var pylsuvagn.  Ég var á leið í sjoppuna þegar unglingsdrengur kom röltandi frá vagninum japlandi á pylsu.  Í þann mund sem ég bar upp erindi mitt í sjoppunni kom drengurinn inn,  greip munnþurrku úr statífinu,  þurrkaði sér um munninn og gekk út. 
  Sjóarinn þaut út á stétt á eftir stráknum og gerði hróp að honum.  Krossbölvaði honum fyrir að stela frá sér munnþurrku.  Sagðist aldrei ætla að afgreiða hann framar í sjoppunni.
  Þegar sjóarinn snéri aftur inn í sjoppuna var hann móður og másandi.  Hann hélt áfram að skammast yfir ósvífninni í dregnum.  "Dreng djöfulsins djöfullinn kaupir pylsu af öðrum og ryðst hingað inn og stelur munnþurrku.  Þvílík helvítis ósvífni!"
 
 Á þessum árum voru gosdrykkir einungis seldir í glerflöskum.  Fólk "skilaði" tómum flöskum í sjoppur og fékk greitt fyrir.  Sjaldnast kom fólk með eina eða tvær flöskur.  Vaninn var að safna mörgum flöskum áður en þeim var skilað.  Á þessum árum voru gosdrykkir til spari.  Ekki eitthvað sem fólk drakk daglega. 
  Ég var staddur í sjoppunni þegar ungur karlmaður gekk þar inn.  Sjóarinn tók á móti honum með hrópum:  "Þú skalt ekki voga þér að koma með fleiri gler hingað, helvítis dóni.  Maður sem getur ekki tæmt flöskur er ekki velkominn hingað.  Ég þurfti að skúra lagergólfið í gær út af glerinu sem þú komst með í gær.  Það lak úr því maltöl.  Drullaðu þér út og láttu ekki sjá þig hér framar!"
  Maðurinn hrökklaðist út án þess að segja orð.  Sjóarinn hélt áfram að bölva honum í góða stund eftir það. 
 
  Svona reitti sjóarinn af sér kúnnana eins og hann væri að taka niður jólaskraut.  Ég flutti úr hverfinu og kallinn seldi sjoppuna.  Hann kenndi stórmörkuðunum um að ganga af sjoppum dauðum.  Sjoppan er þó ennþá í rekstri.   
 

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Það var annað í "Simmasjoppu" á "Holtinu" Þar var bara gleði.

Sigurður I B Guðmundsson, 5.10.2013 kl. 10:33

2 identicon

hehehe já sumur hafa bara ekki þjónustulund ;) er ekki einn sjoppueigandi sem kvartar sáran undan að fólk notar klósttið hjá honum,, ósvifnin á engin mörk ;)

sæunn guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 5.10.2013 kl. 12:41

3 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður I.B.,  það á að vera gleði í sjoppum.  Þannig er reglan. 

Jens Guð, 7.10.2013 kl. 21:31

4 Smámynd: Jens Guð

  Sæunn,  eitthvað rámar mig í það.  Gott ef það er ekki einhver vegasjoppa.  Sjoppueigandi í Hafnarfirði var einnig í fréttum fyrir nokkrum árum.  Hann var í stríði gegn greiðslukortum.  Ég man ekki hvernig stríðið gekk fyrir sig.  En einhverjir árekstrar urðu sem leiddu til þess að fjölmiðlar sögðu frá. 

Jens Guð, 7.10.2013 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband