Það er auðvelt að stýra aldrinum

skuringar.jpg

  Aldur er teygjanlegra hugtak en orðið strax.  Strax þýðir + eða - 4 til 5 ár.  Hjá þokkalega fullorðnu fólki getur aldur verið + eða - 10 til 15 ár borinn saman við aldur sem afmælisdagar telja.  Tvær sjötugar manneskjur geta verið á mjög ólíkum aldri andlega og líkamlega.  Sumir eru ungir í anda.  Jafnvel barnalegir.  Fjörmiklir stuðboltar og alltaf til í sprell.  Þetta fólk finnur engan mun á hugsun sinni og viðhorfum frá því 10 - 15 árum áður. 

  Oft fer það saman að þetta fólk er unglegt í útliti og hreyfingum.  Það setur ekki fyrir sig aldur þegar löngun kviknar til að flandra um útlönd eða skokka upp á fjöll.  Það hugsar einfaldlega ekkert út í aldur.  Það tekur heldur ekkert eftir því að samferðamenn eru iðulega miklu yngri.

  Svo eru það hinir.  Þessir sem fæðast gamlir.  Strax á unglingsárum tala þeir eins og gamalt fólk;  hlusta á sömu músík og gamalt fólk;  klæðast eins og gamalt fólk og hegðar sér eins og gamalt fólk.  Sálin gránar á undan hárunum. 

  Upp úr miðjum aldri sest þetta fólk á helgan stein.  Það dregur sig í hlé.  Hættir að sækja skemmtanir.  Fussar og sveiar og hneykslast á ungdómnum.  Þetta fólk kveikir alltof snemma á lendingarljósunum.  Það býr sig undir aðflug mörgum áratugum of snemma.

  Hugurinn ber menn hálfa leið.  Í hvora áttina sem er.  En það er líka hægt að hafa líffræðileg áhrif á líkamsklukkuna.  Til að mynda með því að borða beikon í öll mál.  Það sýnir ný rannsókn.  Beikon færir klukkuna aftur um 10% í það minnsta.  Það sem meira er:  Efnið í beikoni sem hefur þessi áhrif er níasín.  Einnig kallað B13.  Það merkilega er að fram til þessa hefur níasín verið talið hraða öldrun.  En í tilfelli beikons eru áhrifin þveröfug.  

  Kostirnir við beikon eru fleiri.  Það er hægt að steikja heilan vikuskammt af beikoni á einu bretti.  Beikon er ekkert verra snætt kalt.  Þetta sparar uppvask.  Morgunmatur,  hádegismatur,  kvöldmatur,  millimálasnarl.  Bara grípa nokkrar vænar beikonsneiðar hvenær sem er.  Þetta er fingramatur sem kallar ekki á hnífapör eða diska.  

  Önnur öflug yngingaraðferð er að skúra gólf.  Hún er vel þekkt.  Kiddi Vídíófluga á Egilsstöðum byrjaði nýverið að skúra reglulega gólf í bensínsjoppu.  Hann vottar að hann hafi yngst um mörg ár við það.  

  Skúringar og beikon eru lykill að langlífi.  Skemmtun og bragðgóður biti á einu bretti. 

bacon-1024x754.jpg

 

 

 


mbl.is Óttist ekki aldurinn!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þarna er greinilega vísað í ,, talsmann og helsta málfarsráðunaut ríkisstjórnarinnar " sem er á miklu málfarsflugi þessa dagana. Minni á að önnur stjórn, þ.e. hljómsveitin Stjórnin fagnar 25 ára afmæli þessa dagana og í tilefni tímsmótanna hefur fyrirtæki hljómsveitarstjórans Grétars Örvarssonar Stjórnin ehf verið úrskurðað gjaldþrota. 

Stefán (IP-tala skráð) 14.10.2013 kl. 09:32

2 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Sagt er að hin 16 ára Malala Yousafzal hafi þroska og tali eins og 60 til 70 ára "gamalmenni"!! Ætli hún borði beikon í laumi og vinni við skúringar þegar hún er ekki í skólanum???

Sigurður I B Guðmundsson, 14.10.2013 kl. 10:09

3 Smámynd: Jens Guð

  Stefán,  já,  Vigga skilgreindi orðið strax upp á nýtt.  Héðan í frá þýðir það næstu fjögur ár eða eitthvað svoleiðis.  Á meðan stingur fólk höfðinu í steininn og kastar grjóti úr steinhúsum.  Í leiðinni er því mótmælt að einkabankar hafi eitthvað haft að gera með bankahrunið vegna þess að fyrsti bankinn sem féll var einkabanki. 

Jens Guð, 15.10.2013 kl. 01:44

4 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður I.B.,  hún einmitt borðar ekki beikon og er þess vegna í orði og æði eins og sjötug kona sem aldrei hefur skúrað gólf. 

Jens Guð, 15.10.2013 kl. 01:46

5 Smámynd: Steingrímur Helgason

Kiddi var nú eitthvað kallaður annað en eitthvað 'bacon' þegar hann zkúraði zína zjoppu í den...

Steingrímur Helgason, 15.10.2013 kl. 20:59

6 Smámynd: Jens Guð

  Zteingrímur,  takk fyrir fróðleiksmolann.

Jens Guð, 15.10.2013 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband