Lulla frænka og lögreglan

  Lulla frænka var það sem kallast "góðkunningi lögreglunnar".  Ekki vegna þess að hún væri í neinum afbrotum.  Það var hún ekki.  Alls ekki.  Ekki þannig lagað.  Lulla frænka var strangheiðarleg.  Hitt er annað mál að hún hafði annan skilning á umferðarlögum en flestir.  Hún tók lítið mark á umferðarljósum,  umferðarskiltum og öðru slíku.  Hún var svipt ökuréttindum.  Það breytti engu.  Hún ók eftir sem áður.  Svo fékk hún ökuskírteinið aftur.  Á sjöunda og áttunda áratugnum var mun meira umburðarlyndi gagnvart því að ökumenn túlkuðu umferðarlög frjálslega en er í dag. 

  Á þessum árum voru gangandi lögregluþjónar áberandi á gatnamótum.  Einkum í miðbænum.  Þegar Lulla ók yfir á rauðu ljósi eða virti ekki stöðvunarskyldu hlupu lögregluþjónarnir á eftir bíl Lullu og veifuðu ákaft.  Lulla veifaði á móti og flautaði til að endurgjalda þessa vinalegu kveðju frá þeim.  Hún var upp með sér af því:  "Ég er í miklu uppáhaldi hjá lögreglunni.  Hvert sem ég keyri þá veifa og veifa lögregluþjónarnir mér eins og ég sé gömul skólasystir þeirra eða eitthvað."   

  Þegar ég var í heimavistarskóla á Laugarvatni fékk ég einstaka sinnum bæjarleyfi.  Þá heimsótti ég alltaf Lullu frænku.  Það var svo gaman.  Í einu bæjarleyfi fékk ég Lullu til að skutla mér og Viðari Ingólfs frá Reyðarfirði,  skólabróður mínum,  á hljómleika í félagsmiðstöðinni Tónabæ.  

  Á leiðinni ókum við frammá mann sem gekk yfir merkta gangbraut.  Lulla sló hvergi af né beygði framhjá manninum.  Hún ók harkalega utan í hann.  Hann flaug í götuna.  Mér var brugðið og hrópaði í undrun og taugaveiklun á Lullu:  "Þú keyrðir manninn niður!"  

  Ég ætlaðist til að Lulla stöðvaði bílinn svo við gætum hugað að slösuðum manninum.  Lulla ók áfram og svaraði sallaróleg eins og ekkert væri eðlilegra:  "Hann á náttúrulega ekkert með það að vaða svona í veg fyrir umferðina."  

----------------------------

Fleiri sögur af Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1328591/


mbl.is „Hef ekkert á móti lögreglunni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst sögurnar þínar bara hreint út sagt yndislegar. Bæði af Lullu frænku og Önnu á Hesteyri. Svo mikill húmor en nærgætni. Bestu kveðjur og bíð spennt til að heyra frekari sögum af Lullu.

ingibjörg kr einarsdóttir (IP-tala skráð) 23.11.2013 kl. 17:37

2 identicon

þekki þig ekki rassgat. Enn skemtilegri bloggari er varla til! Maður grenjar hér við að lesa þetta frá þér. Ég held að þú ættir að taka að þér uppistand eða e h álíka. Snildar pennni amk!

ólafur (IP-tala skráð) 23.11.2013 kl. 20:51

3 Smámynd: Jens Guð

  Ingibjörg,  mikið er gaman að fá svona viðbrögð.  Það er hvetjandi og gefandi. 

Jens Guð, 24.11.2013 kl. 22:58

4 Smámynd: Jens Guð

  Ólafur,  bestu þakkir.  Ég hef ekki gefið mig út fyrir að vera uppistandara.  Hinsvegar er ég nokkuð oft fenginn til að vera kynnir á skemmtunum eða flytja ávarp.  Þá dett ég alltaf í þann gír að segja stuttar sögur af ættingjum og vinum.

  Ég vinn við að skrautskrifa fyrir stofnanir,  fyrirtæki og einstaklinga á heiðursskjöl,  meistarabréf,  viðurkenningaskjöl,  kort,  innan í bækur o.s.frv.  Fyrir 2 eða 3 árum skilaði ég af mér verkefni til fullorðinnar konu í Kópavogi.  Ég fylgdi henni inn í stofu til að sýna útkomuna.  Þá kom ég auga á útprentun á bloggsögum mínum.  Undrun mín var mikil og ég spurði hvað væri í gangi.  Konan sagði að upplestur á sögunum hafi verið skemmtiatriði á Þorrablóti aldraðra í Kópavogi.

  Ég hef frétt af fleiri svipuðum dæmum.  Sjálfur hef ég verið á skemmtun þar sem lesnar voru upp bloggsögur mínar á milli annarra atriða.  Upplesarinn vissi að ég væri í salnum og kallaði mig upp á svið þegar leið á dagskrána.  Þetta er allt dálítið gaman.  

  Svo hef ég mjög gaman af því þegar ég rekst á eitthvað eins og þetta:

  http://eirikurjonsson.is/buxnalaus-logga-lika/

Jens Guð, 24.11.2013 kl. 23:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband