Sparnaðarráð: Ódýr heimsreisa

  Fátt er skemmtilegra en að leggja land undir fót.  Skreppa til útlanda og viðra sig yfir framandi morgunverði.  Það er það skemmtilegasta þegar ferðast er frá einu landi til annars.  Hefðbundinn þjóðlegur morgunverður lýsir svo vel persónusérkennum hverrar þjóðar og sögu.  Eini gallinn við utanlandsferðir,  sérstaklega heimsreisur,  er að þær eru dýrar.  Ég veit um ráð gegn þeim útgjaldalið.  Mér er ljúft að deila því með ykkur.  

  Byrjum á því að fara til Skotlands.  Það þarf ekkert að kaupa flugmiða eða neitt.  Ekkert fara út á flugvöll.  Aðeins bara að skjótast út í matvöruverslun.  Kaupa þar egg, gróft brauð, smjör, bakaðar baunir, beikon,  litlar grófar pylsur (sausage), ósúrt slátur, tómat og English Breakfast te.  Komin heim í eldhús eru brauðsneiðar ristaðar.  Allt hitt er steikt á pönnu nema bökuðu baunirnar.  Te er lagað.  Áður en morgunverðurinn er snæddur er upplagt að skella sekkjapíputónlist undir nálina.  Svo er bara að anda vel að sér lyktinni af skoska morgunverðinum.  Þá ertu komin til Skotlands.   

morgunver_ur_-_skoskur.jpg

   Frá Skotlandi er haldið til Portúgals.  Sami háttur er hafður á.  Nema að einungis þarf að kaupa croissant brauð,  flúrsykur,  venjulegt kaffi og mjólk.  Heima í eldhúsi er hellt upp á kaffi og flúrsykri stráð yfir brauðið.  Kaffið er drukkið með mjólk.  Dansmúsík frá Madeira smellpassar í bakgrunni. 

morgunver_ur_-_portugal.jpg

  Frá Portúgal er haldið til Ítalíu.  Þar er einnig croissant brauð með flúrsykri málið.  Nema að nú þarf að sprauta smávegis af súkkulaði yfir.  Bara smá.  Kaffið verður að vera cappuccino.  Pavarotti skal hljóma undir.

morgunver_ur_-_italia.jpg

  Sérðu hvað það er einfalt og auðvelt að fara í heimsreisu með þessari aðferð?  Í Frakklandi er einnig croissant brauð.  Það er í fjölbreyttri útfærslu.  Eitt brauðið er með rúsínum.  Annað með súkkulaðibitum.  Það þriðja með möndlukurli.  Mestu munar um að músíkin er frábrugðin.

   Þegar til Þýskalands er komið er gróft brauð komið á diskinn í stað croissant.  Með því eru borðaðar þykkar sneiðar af osti og fjölbreyttum pylsum.  Þessu er skolað niður með sterku kaffi.  

morgunver_ur_-_thyskur.jpg 

   Áður en rokið er til annarra heimsálfa lýk ég fyrsta hluta heimsreisunnar í Tyrklandi.  Morgunverðurinn samanstendur af ólívum,  ýmsum gerðum af ostum (bæði hörðum og smurosti),  þurrkuðum tómötum eða tómat-paste,  grófu brauði og smjöri,  ferskum tómötum,  gúrkum,  bananabitum,  ferskjubitum,  berjasultu og hunangi með rjómaslettu.  Með þessu er sötrað te.  

  morgunver_ur_-_tyrkneskur.jpg 

 

 

  Meira á morgun. 

-------------------

Þjóðaratkvæðagreiðsla

thjo_aratkvae_agrei_sla.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég komst ekki út fyrir Ísland í morgun, með lifrarpylsunni, hafragrautnum og útvarp sögu í gangi.

Kem til með að bæta úr því í fyrramálið. Kíki kannski til Marokkó en ég hef ekki hugmynd um hvaða tónlist ég á að hafa með te-inu og brauðinu.

Grrr (IP-tala skráð) 3.3.2014 kl. 23:06

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahaha skemmtileg heimsreisa, sem er auðvitað rétt að byrja.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.3.2014 kl. 23:39

3 identicon

Það þarf heldur ekki að taka flugvél til Rússlands til aðl komast í það pólitíska ástand sem ríkir þar undir stjórn Putins . Nei, það nægir að skjótast norður í Skagafjörð í einræðisríki Þórólfs kaupfélagsstjóra sem sagður er stjórna þar á svipaðan hátt og Putin stjórnar Rússlandi.  Skagfirska efnahagssvæðið teigir arma sína víða og virðist að auki gera alveg út utanríkisstefnu Íslands. 

Stefán (IP-tala skráð) 4.3.2014 kl. 08:22

4 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Er "kallinn" sem reddar öllu dauður??

Sigurður I B Guðmundsson, 4.3.2014 kl. 17:48

5 Smámynd: Jens Guð

   Grrr,  þetta gæti virkað:  http://www.youtube.com/watch?v=m-esNlk6S0Q

Jens Guð, 4.3.2014 kl. 19:33

6 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur Cesil,  takk fyrir það. 

Jens Guð, 4.3.2014 kl. 19:33

7 Smámynd: Jens Guð

  Stefán,  það er margt til í þessu hjá þér.

Jens Guð, 4.3.2014 kl. 19:34

8 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður I.B.,  takk fyrir að minna mig á hann. 

Jens Guð, 4.3.2014 kl. 19:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband