Páskar í Vesturheimi - II

wdc a
  Í Washington DC vekur athygli gríðarlega hátt hlutfall af skrifstofubyggingum.  Þegar málið er skoðað nánar þá á það sér eðlilegar skýringar.  WDC er stjórnsetur alríkisstjórnar Bandaríkja Norður-Ameríku.  Þarna er stjórnsýslan eins og hún leggur sig:  Alþingi,  ráðuneyti  forsetaembættið og það allt.  
 
  Bandaríkjamenn eru 1000 sinnum fjölmennari en Íslendingar.  Lauslega áætlað má gera ráð fyrir að embættismenn bandaríska alríkisins séu um það bil 1000 sinnum fleiri en skrifstofu- og embættismenn íslenska ríkisins.   Það þarf margar skrifstofur undir þann fjölmenna hóp sem nagar blýanta í nafni bandaríska alríkisins.  
 
  Víða eru bílastæðisplön.  Þau eru römmuð inn með hænsnaneti.  Það er togað og teygt.  Ber þess merki að óprúttnir stytti sér leið með því að klöngrast yfir það.  Plönin sjálf eru ekki með sléttu yfirborði.  Þau eru öll í hólum og lautum,  holum og hæðum.  Undirlagið er olíuborin möl.  Ég giska á að plönin séu rekin af einkaaðilum.  Inni á miðju plani er pínulítill skúr.  Þar hafast við 3 starfsmenn. Í öllum tilfellum hörundsdökkir ungir menn.  Þeir rukka 15 dollara (um 1700 kall) fyrir daginn.   
 
  Gönguljós við gangbrautir eru skemmtileg.  Þegar gangandi vegfarandi fær grænt ljós þá hefst niðurtalning á ljósaskilti í sek.  Það er mismunandi eftir gatnamótum hvort að gangandi fái 60 eða 80 sek.  Þegar 18 sek. eru eftir má enginn halda út á gangbraut.  Þeir sem lagðir eru af stað fá 18 sek. til að koma sér yfir.
 
  Það er ekki bundið við WDC heldur viðgengst um öll ríki BNA að alkahólprósenta er ekki gefin upp á bjórumbúðum.  Það er vandamál fyrir ókunnuga.  Sumir vilja kaupa léttan 3% bjór.  Aðrir sækja í 6% bjór.  Starfsfólk verslana er verra en ekkert.  það þykist vita og giskar á.  Jafnan með óþægilegum skekkjumörkum.  
 
  Ég hef ekki staðfestingu á en mér er sagt að þetta hafi allt með það að gera að ekkert samræmi sé með áfengislögum hinna ýmsu ríkja Bandaríkjanna.  Leyfður hámarksstyrkleiki bjórs sé mismunandi.  Bjórframleiðendur fríi sig vandræðum með því að gefa ekki upp styrkleika bjórsins.    
 
  Í WDC er mikið af áhugaverðum söfnum.  Það er frítt inn á þau.  Hæst ber kannski Smithsonian listasafnið.  
 
 
 
  Þar getur að líta bandaríska myndlist af ýmsu tagi.  Allt frá mörg hundruð ára gömlum málverkum til nútíma vídíóverka.  Þarna er fræga myndin hans Andys Warhols af mannréttindabaráttukonunni og anti-rasistanum Marilyn Monroe.  
 
mm
 
  Þarna eru málverk af Muhammeth Ali og fleiri hnefaleikaköppum;  ýmsum öðrum íþróttahetjum,  forsetum og fleirum.  Mér skilst að uppskriftin af ókeypis aðgangi að söfnum í WDC sé sú að það laði ferðamenn til WDC.  Mig minnir að árlega komi 6 milljónir ferðamanna til WDC.  Þeir troðist í ókeypis söfn og skilji eftir sig góðan pening í formi hótelgistingar og matar og drykkjar.  
 
  Þegar ég var staddur við inngang Smithsonian safnsins blossaði upp í mér íslenskur Geysiskall.  Mig langaði virkilega til að hefja umsvifalaust þarna við innganginn rukkun á aðgengi.  Hundruð túrista streymdi að.  Hvað hefði þá munað um að borga mér eins og 500 kall? 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Gafstu Obama Páskaegg???

Sigurður I B Guðmundsson, 29.4.2014 kl. 17:11

2 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I.B., hann gaf mér ekki páskaegg svo ég gaf honum ekki heldur páskaegg.

Jens Guð, 29.4.2014 kl. 23:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband