Páskar í Vesturheimi - III

easter-chocolate-bunnies
 
 
 
 
  Mig grunar að fáar þjóðir geri eins mikið úr frjósemishátíðinni,  páskunum,  og Íslendingar.  Mörgum vikum fyrir páskana er ekki þverfótað í íslenskum matvöruverslunum fyrir páskaeggjum í ýmsum stærðum.  Um svipað leyti hellist blessaður páskabjórinn yfir land og þjóð.
 
  Í Washington DC fór lítið fyrir páskunum.  Í matvöruverslunum mátti sjá nett úrval af litlum súkkulaðikanínum og súkkulaðieggjum.  Súkkulaðieggin eru í sömu stærð og hænuegg.  Þau eru pökkuð inn í skrautlegan álpappír.  
  Ég veit ekki hvort að þau eru fyllt með nammi,  eins og íslensku eggin.  En ósköp eru þau ræfilsleg í samanburði við íslensku risaeggin.
 
  Súkkulaðikanínurnar eru í hóflegri stærð.  Það er meira úrval af þeim.  Fleiri útfærslur en eggjunum.  Hver kanína er einn til tveir munnbitar.  
 
  Á páskadag heilsaðist fólk í WDC með kveðjunni:  "Gleðilega páska!"  Allar verslanir og allir veitingastaðir voru opnir eins og á venjulegum sunnudegi.  Engin páska-tilboð eða páska-gylliboð.  
 
  Miðað við hvað Kaninn gerir almennt mikið úr tyllidögum og er duglegur að selja allskonar glingur stingur í stúf hvað frjósemishátíðin er lágstemmd í WDC.  
 
  Til samanburðar var á laugardaginn Plötubúðadagurinn.  Næstu daga á undan,  sama dag og næstu daga á eftir voru fjölmiðlar í WDC undirlagðir umfjöllun um Plötubúðadaginn.  Með þeim árangri að á laugardeginum þurfti að hleypa fólki inn í hollum í plötubúðirnar.  Það voru langar raðir,  margra metra langar,  fyrir utan hverja einustu plötubúð í WDC.  Ég nennti ekki að hanga í þannig röð.  En rölti framhjá.  Flestar helstu plötubúðirnar í WDC eru við sömu götu.  Það er verslunargata,  18. stræti,  í nokkurri fjarlægð frá miðbænum.  
 
  Í umfjöllun um Plötubúðadaginn kom fram að sala á vinylplötum vex bratt í Bandaríkjunum.  Geisladiskurinn víkur hratt fyrir niðurhali.  Einn viðmælandi benti réttilega á að sálfræðiþátturinn sé vinylplötunni í hag:  Það að vera með 12" flykki í fanginu,  stóra mynd á framhlið,  stórt letur á bakhlið,  nærhald og textablað,  setja hlunkinn á spilarann,  ræsa tækið,  koma klunnalegum hausnum með nálinni á sinn stað,  sjá ferlíkið snúast...  Þetta er athöfn sem gerir svo mikið úr upplifuninni að hlusta á plötu - áður en platan fer að hljóma.  Fyrir músíkdellufólk er þetta eins og helgiathöfn.    
 
  Geislaspilarann eða músík í tölvunni vantar allt sem gerir "athöfn".   Það er alveg eins hægt að setja útvarpið í gang.  
 
  Í móttökunni á gistiheimilinu sem ég dvaldi á var að jafnaði spiluð leiðinleg R & B músík.  Inn á milli spilaði ung dama heila plötu með Of Monster and Men.  Dag eftir dag.  Það var dásemd.  Aðspurð vissi hún ekki hvers lensk OMAM er.  Hún sagðist elska þessa plötu.  Varð mjög hissa þegar ég upplýsti hana um að OMAM væri íslensk hljómsveit.  Það örlaði jafnframt á efasemdum því að hún spurði:  "Hvernig veistu?"
 
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll minn kæri, oftast les ég það sem frá þér kemur þó ég leggi ekki oft orð í belg.

Mér finnst bæði skemmtun og fróðleikur leka, eða streyma frá þér. Bestu þökk fyrir öll þín skrif hér á moggabloggi í gegn um tíðina.

Fyrir þó nokkuð mörgum tunglum síðan var gefin út bók heima á Fróni sem bar (og ber enn geri ég ráð fyrir) titilinn "Vesturfarar skrifa heim". Þar hafði Finnur nokkur Sigmundsson tekið saman bréfkorn þónokkura íslendinga sem höfðu flúið skerið vestur um haf. Aðalega mormónar sem þóttu sér ekki vært í heimahögum sökum trúarinnar og fyrirheitna landið var jú þarna vestur við sjóndeildarhringinn (pólitískt hæli hvað?....) Nú sé ég í fréttum að fólk leitar hælis á Íslandi, tjah... nú er öldin önnur.

Tónninn í Washington pistlum þínum minnir mig dálítið á frásagnarmátann frá þessum brotthlaupnu íslendingum, einfaldur, skýr, pínu sveitó.......  

Þakka þér fyrir skemmtilega lesningu nú sem fyrr.

Kveðja sunnan úr álfum

Hörður Þ. Karlsson (IP-tala skráð) 30.4.2014 kl. 07:07

2 Smámynd: Jens Guð

Hörður, bestu þakkir fyrir þessi hlýju orð.

Jens Guð, 30.4.2014 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband