Páskar í Vesturheimi - IV

   

  Um páskana var kvikmynd Baltasar Kormáks,  Contraband,  sýnd í bandarísku sjónvarpi.  Hún var margspiluð á hverjum einasta degi.  Það var gaman að sitja í setustofu fullri af ferðamönnum frá ýmsum löndum og fylgjast með þeim horfa á þessa ágætu mynd.   Allir virtust kunna vel við myndina.  Engin óskaði eftir því að skipta um sjónvarpsrás.  Fólk sem rambaði inn í salinn eftir að myndin byrjaði beið í lok spennt eftir byrjuninni til að horfa á frá upphafi.

  Fátt er um almennilegt drykkjarvatn í Bandaríkjunum.  Í búðum er hægt að kaupa vatn.  Ein tegundin ber af,  Icelandic Glacial.  Það er besta og ferskasta vatnið.  Að auki í töff hannaðri flösku.  Eins og nafnið gefur til kynna er vatnið rammíslenskt.  Það er gaman að sjá Icelandic Glacial í bandarískum matvöruverslunum.

ícelandic glacial

 

 

 

  Ég reikna með að unglingar á kassa í bandarískum stórmörkuðum á borð við Walmart séu lágt launaðir.  Svo gott sem allir eru hörundsdökkar stelpur þó að blökkumenn séu lágt hlutfall af íbúafjölda,  í þessu tilfelli Washington DC.  Stelpurnar eru kurteisar og kunna sína rullu.  

  Á hverjum degi keypti ég mínar Budweiser-kippur.  Afgreiðsludaman tók fram þunnan gegnsæjan plastpoka og spurði:  "Má bjóða þér annan poka?"  Á því var ætíð þörf.  Pokarnir eru það haldlitlir að þeir bera ekki þunga.   Eitt kvöldið hljóp óvænt í mig galsi.  Í stað þess að jánka öðrum poka spurði ég:  "Hvað í ósköpunum ætti ég að gera við annan poka?"

  Afgreiðsludaman svaraði um hæl:  "Ég veit það ekki,  herra.  Verslunarstjórinn segir að ég eigi alltaf að spyrja að þessu."

  Í annað skipti var afgreiðsludaman greinilega á sínum fyrsta vinnudegi.  Margt vafðist fyrir henni þegar hún afgreiddi þá sem voru á undan mér í röð.  Þegar röð kom að mér bað daman um persónuskilríki.  Ég hváði.  Daman útskýrði:  "Þú ert að kaupa áfengan bjór.  Ég þarf að ganga úr skugga um að þú hafir aldur til þess."

  Ég (næstum sextugur):  "Ókey.  Er ég dálítið barnalegur í útliti?"

  Hún:  "Þetta er bara regla.  Allir sem kaupa áfengan drykk verða að sýna fram á að þeir hafi aldur til þess."

  Ég rétti dömunni vegabréfið mitt.  Hún fletti upp í því og las ábúðafull upphátt:  "08-05-1956.  Já, þetta er í lagi."     

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.