Hryðjuverkasamtök aðhlátursefni

sea shepherd

 

  Bandarísku hryðjuverkasamtökin Sea Shepherd standa þessa dagana í átaki gegn veiðum Færeyinga á marsvíni (grind).  Blásið var í herlúðra í júní.  Boðuð var koma og mótmælastaða þúsunda manna hvaðanæva af úr heiminum.  Aðallega jörðinni, að því er virðist.  Skip Sea Shepherd sigldi inn í færeyska höfn.  Nokkrir mótmælendur komu með Norrænu til Færeyja.  Þeir stálu mat í Norrænu.  Fylltu heilu ferðatöskurnar af stolnum mat.  Komnir til Færeyja héldu þeir uppteknum hætti:  Stunduðu búðarþjófnað.

  Ekki verður hjá því komist að velta fyrir sér tvískinnungi þegar einstaklingar ferðast heimshorna á milli til að fordæma fólk sem nær sér á heiðarlegan og löglegan hátt í hvalkjöt í matinn; en stelur sjálft sér til matar.  Ekki einum sykurmola heldur fyllir fjölda ferðataska af stolnum mat.  Og stelur úr búðum.  Um það má lesa hér:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1399541/

  Fáfræði hryðjuverkahópsins um eitt og annað er aðhlátursefni.  Liðsmenn hans halda því fram að marsvínin séu myrt á kvalarfullan hátt. Það er rangt.  Marsvín eru drepin með stungu sem tekur sekúndubrot.  Meðferð á öðrum dýrum í Bandaríkjunum og víðar er langvarandi dýraníð;  kjúklingar,  svín og fleiri dýr í verksmiðjubúskap búa við óhugnanlegar aðstæður.  Hænur eru aldar í þröngum búrum.  Þær afmyndast,  fætur skemmast af saurbruna,  í þær er dælt fúkkalyfjum,  fjaðrir hrynja af þeim og skilja eftir sig skallabletti og svo framvegis.  Flestar hænur í þessum aðstæðum verða fljótlega geðbilaðar.  Þær eru ekki hamingjusamar hænur.  

  Einn félagi í Sea Shepherd bloggaði um komu sína til Færeyja.  Þetta var kona sem sagðist hafa byrgt sig upp af dósamat áður en haldið var til Færeyja.  Hún hélt að erfitt yrði að finna eitthvað ætilegt í Færeyjum.  Henni til mikillar undrunar uppgötvaði hún að í Færeyjum var hægt að kaupa ávexti í búð.  Meira að segja banana.  

sea shepherd hryðjuverk

  Átak Sea Shepherd gegn marsvínaveiði Færeyinga i sumar hefur algjörlega mistekist.   Fyrir það fyrsta hafa tiltölulega fáir liðsmenn svarað kallinu.  Í annan stað hefur ekkert borið til tíðinda.  Marsvínaveiðar Færeyinga eru tilfallandi.  Þegar vart verður við marsvínatorfu í einhverjum firði er útkall.  Tugir mótorbáta mæta á svæðið og smala torfunni upp í fjöru.  Sérhæfðir slátrarar deyða dýrin af öryggi.  Þetta gengur hratt fyrir sig.  Jú,  vissulega litar blóðið sjóinn.  Það lítur ekki vel út fyrir borgarbörn sem aldrei hafa séð dýri slátrað.

  Ég vann til fjölda ára í Sláturhúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki.  Er þar að auki fæddur og uppalinn í sveit og þaulvanur heimaslátrun.  Marsvínaslátrun Færeyinga er alveg jafn hraðvirk og dýrunum sársaukalaus og dráp á öðrum dýrum.  Fyrir utan það að marsvínakjöt er einstaklega gott snöggsteikt.     

  SS hreykir sér af því að engar hvalveiðar hafi verið í Færeyjum frá því að hryðjuverkasamtökin hófu átak sitt gegn þeim í sumar.  Það er þó ekki SS að "þakka" heldur því að engin marsvínatorfa hefur komið inn í færeyskan fjörð á þessu tímabili.  SS-liðar standa vaktina í erindisleysu niðri í fjöru dögum saman.  Það er aðhlátursefni í Færeyjum.   Þarna standa þeir og góna út á haf en ekkert gerist.  

  Engu að síður herðir SS á hvatningu til félaga að koma til Færeyja og standa vaktina við að góna út á haf.  En ekkert gerist.  Það hefur verið tíðindalaust á vígstöðvum í júní.  Dag eftir dag,  viku eftir viku,  má sjá 3 - 4 félaga SS standa samviskusamlega vaktina niðri í fjöru allan daginn og reyna að koma auga á marsvín.  Þetta var verulega fyndið fyrstu dagana. Svo varð það ennþá meira fyndið.  Í dag er það meiriháttar fyndið.  Og heldur áfram að vera meira og meira fyndið.  

ss

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta eru glæpasamtök sem sökkva bátum og jafnvel myrða fólk ekki satt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.7.2014 kl. 10:09

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þessir gaurar ættu að fá sér vinnu. Gætu unni fyrir sér sem landamæraverðir einhversstaðar. TD á landamærum Íran-Írak. Þar er sko lengi hægt að stara út í buskann. Í tiltölulega mikili hlýju. Og ekkert gerist þar heldur.

Ásgrímur Hartmannsson, 4.7.2014 kl. 19:56

3 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur Cesil,  það er rétt hjá þér. 

Jens Guð, 15.7.2014 kl. 22:08

4 Smámynd: Jens Guð

  Ásgrímur,  góður punktur. 

Jens Guð, 15.7.2014 kl. 22:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband